Höfundur: Steinunn Rögnvaldsdóttir
**Efnisvísun í skáldsöguna Kötu (e. spoiler)** **Vávari (e. trigger warning)**
„Mannréttindi eins og þau eru skilin í dag miða að þörfum og áherslum helmings mannkyns: karla. Þeir tala um frelsi, réttlæti og bræðralag en á þessu veisluborði hugmyndanna njótum við konur bara brauðmolanna sem falla í gólfið. Meðan okkur er nauðgað, við erum drepnar, seldar mansali í milljónatali, barðar og sligaðar af körlum og niðurlægðar svo aftur með viðbragðsleysi samfélagsin, þá höfnum við þessum karlmiðuðu hugmyndum. Þangað til við sitjum öll við sama borð og réttindum er jafnt útdeilt setjum við fram okkar eigin áherslur: Vernd, refsingu og systralag“.
Svo mælir söguhetjan Kata í samnefndri skáldsögu eftir rithöfundinn Steinar Braga, sem kom út fyrir nokkrum vikum. Kata er miðaldra hjúkrunarfræðingur í góðum efnum en kulnuðu hjónabandi, og við upphaf bókarinnar hefur dóttir Kötu, Vala, verið horfin í eitt ár. Hún fór á skólaball og kom aldrei aftur. Eftir því sem sögunni vindur fram kemst lesandinn að því að Völu var byrlað nauðgunarlyf, henni rænt og nauðgað af ofbeldismönnum. Nauðgunarlyfið dregur hana til dauða en líkið finnst ekki fyrr en ári síðar. Lögreglunni mistekst að sækja nokkurn til saka fyrir nauðganirnar og morðið, þrátt fyrir að vera tiltölulega viss um hverjir ofbeldismennirnir séu.
Við fylgjumst með Kötu sökkva til botns, algerlega bugaða af sorg. Þegar hún flýtur aftur upp er hún önnur manneskja – hver myndi ekki vera það? Það sem gerist næst er pólitísk vakning Kötu og hún leggst í mikla rannsóknarvinnu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Eftir að hafa sett sig inn í málaflokkinn sér Kata kynferðisofbeldi sem faraldur, sem er í raun stórundarlegt að sé ekki tekið á sem lýðheilsuvandamáli eins og t.d. neyslu áfengis og fíkniefna. Henni svíður hvað gerendur og ofbeldismenn sleppa létt og halda áfram að nauðga og beita ofbeldi án þess að nokkur geri neitt drastískt til að stöðva þá. Hún skoðar afdrif kynferðisbrotamála fyrir dómsvöldum og missir algerlega trúna á íslenskt réttarkerfi. Höfundur leggur henni alloft í munn femínískar einræður og lætur hana taka femíníska afstöðu í rökræðum, og meðal annars lætur hún nafngreinda samtímamenn fá það óþvegið.
Hefndin
„Árið 1989 skrifaði ég sögu um kynferðislegt ofbeldi á barni og afleiðingar þess. Bókin heitir “Ég heiti Ísbjörg. Ég er ljón.” Mér bárust ekki bara hótunarbréf vegna útgáfunnar, klámsendingar voru tíðar, lagt var til að ég gætti barnanna minna sérlega vel, bíllinn minn var eyðilagður, fólk sleit vinaböndum við mig – og margt annað gerðist í kjölfarið sem ég ætla ekki að tala um núna. Athugum þetta öll:
Barnaníð hefur alltaf verið á Íslandi. Til að stoppa það dugar ekkert hálfkák, engin þöggun, ekkert fals, engin meðvirkni.
(Vigdís Grímsdóttir í stöðuuppfærslu á facebook, janúar 2013).“
Í Kötu höfum við skáldsögu þar sem aðalsögupersónan er kona með femínískar áherslur sem hefnir fyrir kynferðisofbeldi með grófu ofbeldi. Bókin hefur vakið töluverða athygli, nafngreindir menn fá hraksmánarlega útreið og persónum sem eiga sér allt að því augljósar fyrirmyndir í raunveruleikanum er ekki einungis lýst sem fyrirlitlegum illmennum heldur verða þær fyrir ofbeldisfullri hefnd Kötu. Steinar Bragi hefur í viðtölum um bókina lagt áherslu á að bókin sé skrifuð af og fjalli um réttlætiskennd, hann grípur iðulega tækifærið til að ræða alvarleika vandamálsins sem kynbundið ofbeldi er, og mikilvægi þess að karlmenn beiti sér gagnvart vandamálinu í stað þess að fara í vörn þegar kynferðislegt ofbeldi karla er rætt. Í viðtali við Steinar í Kiljunni segist þáttastjórnandinn Egill Helgason ímynda sér að femínistar muni fagna þessari bók og þetta sé sterkt rit í þeirra þágu, í þeirra baráttu. Sjálfur segist Egill hafa verið fljótur að lesa bókina, hún sé spennandi og þetta sé feikilega kröftug bók.
Femínisminn mætir iðulega mótlæti. Femínistar sem tala um kynjahalla í valdastöðum, markaðsvæðingu kvenlíkamans, klámvæðingu, vændi og mansal mæta mótlæti. Femínistar sem trúa konum þegar þær segja frá nauðgunum og kynferðislegri áreitni, að ekki sé talað um þegar ofbeldismaðurinn er nafngreindur, mæta mótlæti. Þessir femínistar eru mjög sjaldan karlar. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort fólk teldi það kröftugt verk og sterkt innlegg í feminíska baráttu ef kvenkyns rithöfundur myndi skrifa skáldverk þar sem sögupersóna með femínískar skoðanir og brjálæðislega réttlætiskennd, hefnir sín á karlmönnum með grimmilegu ofbeldi? Yrði viðkomandi bók kallað „kröftugt verk“ en ekki „ofbeldisfantasía öfgafemínista“?
Hvað ef?
Þarf karla til að skrifa bækur um konur sem beita hefndarofbeldi? Hefðu til dæmis viðtökur við þríleik Stieg Larssons verið öðruvísi hefði hann verið kona? Þá vaknar spurningin, hvað ef Steinar Bragi væri kona?
Mig langaði til að spyrja höfundinn sjálfan hverjar væru hans hugleiðingar um viðtökur bókarinnar, umræðu um hana og kynjavinkilinn. Ég sló því á þráðinn til Steinars Braga. Þetta voru hans viðbrögð:
„Ég er mest hissa yfir því að fyrstu viðbrögðin við bókinni hafi ekki verið: Bíddu, viltu bara láta drepa karla? Finnst þér hefnd vera rétta leiðin? Ég er líka hissa á að lítið hafi verið rætt um meginumfjöllunarefni bókarinnar sem er jú kynferðislegt ofbeldi gegn konum. Þess í stað er fólk að gleyma sér í smáatriðum um Jón Kalman og Jakob Bjarnar – sem varðar ekki að litlu leyti æru þeirra, og æru karla – en leiðir hjá sér ofbeldið, að minnsta kosti enn sem komið er. Kannski erum við bara öll svo vön því að körlum leyfist að beita ofbeldi, hvort sem er í veruleika eða skáldskap. Þótt aðalpersóna bókarinnar – Kata – sé kona mætir höfundur í karlkyni í viðtöl til að ræða verkið. Og ekkert tiltökumál að hann drepi.“
Aðspurður hvort hann héldi að bókin hefði fengið einhver önnur viðbrögð ef höfundur væri kona taldi Steinar Bragi það ekki ólíklegt.
„Ég var að ræða það við vin minn um daginn af hverju svona bók um kynferðislegt ofbeldi hefði ekki verið skrifuð fyrr af konu. Hugsanlega eru skáldkonur ekki til í að verk þeirra verði stimpluð sem femínísk og komist ekki út úr þeirri merkingu heldur verði alltaf talað um femínísku bókina eða um þær sem femíníska höfunda, án þess að umræðan nái dýpra og þannig að þessi „flokkun“ sé þeim jafnvel fjötur um fót. En ég held að umræðan væri miklu meira að snúast um femínisma og ofbeldið sem bókin lýsir, og réttlætingar á ofbeldi og hefnd, ef það væri t.d. Guðrún Eva Mínervudóttir sem væri að skrifa en ekki ég. Og hún myndi sennilega fá grófari athugasemdir en ég – en ég hef reyndar eiginlega ekki fengið neinar athugasemdir um þetta efni. Ég held reyndar að það gæti alveg gerst síðar, þegar minna bókhneigðir menn komast að því hvað er til umfjöllunar í bókinni“ (Úr samtali við Steinar Braga, 27. október 2014).
En hvernig er þá bókin Kata? Eitt af svörunum er að hún er spennandi. Sjálf las ég bókina í einum rykk, eða eins miklum rykk og hægt er að lesa rúmlega 500 blaðsíðna langa bók á, þ.e.a.s. um þremur dögum. Það er raunar mín skoðun að bókin hefði verið alveg jafn góð ef hún hefði verið 100 blaðsíðum styttri. Það sama á við fleiri frábærar nýlegar bækur íslenskra höfunda s.s. Ósjálfrátt Auðar Jónsdóttur og Konuna við 1000° eftir Hallgrím Helgason. Og ekki bara nýlegar. Afsakið meðan ég móðga þjóðskáldið en Laxness hefði líka geta stytt Sjálfstætt fólk um hundrað blaðsíður. Hver ástæðan fyrir þessari tilhneigingu er veit ég ekki, kannski vantar íslensku skáldin fyrr og síðar ritstjóra, kannski vantar ritstjórana tíma og peninga, og kannski er ég bara blind á bókmenntaleg gæði þessara hundrað blaðsíðna sem ég tel að sé hægt að skera. Ég læt bókmenntafræðingunum eftir þá umræðu.
Kata er saga með margar víddir, hún er fagurbókmenntir með stílbragð spennusögunnar en á sama tíma saga með félagslegt erindi og svo fær hún enn eina vídd þegar Kata stígur yfir í draumkenndan og gallsúran hliðarheim dúkkuhússins. Dúkkuhúsið hefur bókmenntafræðilega tilvísun í Ibsen og hans frægasta leikverk um stöðu konunnar, þar sem (í afskaplega stuttu máli og einfölduðu) söguhetjan Nóra er undir hæl feðraveldisins þangað til hún yfirgefuð „dúkkuhúsið“ með frægasta hurðaskelli allra tíma. Ég var reyndar alveg að fá nóg af pilluferðum Kötu í dúkkuhúsið og fannst eins og ég væri að lesa handritið af Twin Peaks þætti og Jón Kalman væri dansandi dvergurinn sem talaði afturábak. Ég fór því ansi hratt yfir þá kafla en kannski er ég bara svona blóðþyrstur femínisti að ég vildi frekar lesa um hefnd Kötu heldur en heimsóknir hennar á annað vitundarstig.
Ég hreifst fyrst og fremst af Kötu fyrir tvennt. Í fyrsta lagi hvað hún var vel skrifuð, því það er hún sannarlega. Í öðru lagi hvað umfjöllunin um kynferðisofbeldi er grípandi og svakaleg og hvernig það er sett í samfélagslegt samhengi. Ég hef lesið og heyrt nóg af sögum þar sem þolendur burðast með afleiðingar ofbeldisverka án þess að vandamálið sé rætt í stærra samhengi. Ég vil lesa fleiri bækur eins og Kötu, sem að fjalla um kynferðisofbeldi sem stórkostlegt samfélagslegt vandamál og sem afsprengi ójafnrar valdastöðu kynjanna, ekki sem persónulegan harmleik. Við þurfum að tala meira um kynferðislegt ofbeldi. Við þurfum að tala um hvernig það er ógn við okkar samfélag, við konur.
Kata kom út árið 2014 og byggir á raunverulegri stöðu í íslensku samfélagi, þar sem kynferðislegt ofbeldi var svo algengt að því mátti helst líkja við faraldur, þar sem ofbeldismenn voru upphafnir í fjölmiðlum, þar sem hæstaréttardómarar stóðu með nauðgurum, þar sem lögreglan var máttvana gagnvart illmennum sem vitað var að höfðu framið ofbeldisglæpi, þar sem að kynferðisofbeldi var ógn sem konur sem samfélagshópur stóðu daglega frammi fyrir. Ég fagna því að til séu bókmenntir um vandamál sem við glímum við í okkar samtíma. Hvort sem að við munum ennþá standa frammi fyrir því eftir 50 ár eða ekki, þá hefur Kata vonandi vakið einhverja til umhugsunar.
Takk kærlega fyrir þessa grein Steinunn og Knúz.
Ég býð þér hér með á síðustu sýningu í Tjarnarbíó fimmtudagskvöldið 30. október á leikritið mitt Róðarí. Leiksýningin fjallar meðal annars um annan vinkil líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis og afleiðingar þess og hefur hlotið góðar viðtökur fyrir að taka á erfiðum málum, fyrir að snerta við ungum og öldnum með sorg og húmor og fyrir afbragðsgóðan leik og fallega umgjörð.
En sýningin vakti líka mikla og forvitnilega reiði eins karlkyns gagnrýnanda sem móðgaðist yfir því að þurfa að horfa á enn eina sýninguna um kúgun og ofbeldi gagnvart konum, nóg væri komið af slíku og hann bað þess lengstra orða að hér væri ekki verið að leggja línur stóru leikhúsanna fyrir veturinn. Því má bæta við að gagnrýnandinn er einmitt persóna í Kötu Steinars Braga.
Sem annar aðalritstjóri Kötu vil ég segja að þegar maður er með stórvirki í höndunum þá sér maður eftir hverri setningu sem strikuð er út. Það er ekki fyrr en maður hefur fengið fjarlægð á textann sem möguleikarnir til styttinga birtast en svoleiðis er ekki unnið á Íslandi. Þar kemur bók út þegar hún er tilbúin en fær ekki að bíða eftir frekari þroska fyrir prentun. Ég þykist sjá hvar Steinunn myndi stytta Kötu en ennþá er ég ekki komin á sömu skoðun og hún þannig að þó að handrit sé stytt þá er ekki víst að farið yrði að óskum gagnrýnenda. Kannski yrði einmitt það skorið burt sem þeim finnst allra best. Það er í tísku núna að sletta í ritstjóra í umsögnum um bækur og þykjast allir hafa betra vit en forlagsstarfsmenn. En ritstjórn er vandaverk og bókaútgáfa á Íslandi ber vott um að yfirleitt sé prýðilegt fólk í þeirri starfsgrein.
Bakvísun: „Og þessi voðalega kona…“ – hvernig samtíminn brást (við) þremur konum á síðustu öld | Knúz - femínískt vefrit