Þegar ég varð femínisti

Höfundur: Erna Rut Rúnarsdóttir

ErnaRut

Mig langar að segja ykkur aðeins frá minni reynslu af jafnréttisbaráttu og femínisma.

Auðvitað hef ég alltaf stutt jafnrétti kynjanna þótt ég hafi ekki endilega gert mér grein fyrir því hversu mikið ójafnrétti er í heiminum, og enn síður gerði ég mér grein fyrir hversu mikið er um það á Íslandi enn þann dag í dag. Á síðustu árum hef ég nú sem betur fer orðið margs fróðari.

Þegar ég var að byrja mitt fjórða ár í menntaskóla (var þá í Fjölbraut í Breiðholti) hélt Hildur Lilliendahl stuttan hádegisfyrirlestur í matsal skólans. Ég var mjög forvitin, þar sem ég hafði heyrt svo margt um þessa konu, að hún væri klikkuð, að hún hataði karla og fleira í þeim dúr. Ég reyndi að koma auga á það í fyrirlestrinum hennar, en gat bara ekki komist hjá því að finnast allt sem hún sagði alveg ótrúlega gáfulegt! Það sem hneykslaði mig hins vegar voru viðbrögðin hjá krökkunum í salnum. Flestir fylgdust ekkert með því sem hún hafði að segja, ég heyrði út undan mér athugasemdir eins og „ugh, er þetta einhver svona femínistagella?“ og einhverjir krakkar ranghvolfdu augunum og svona. Mér fannst líka mjög merkilegt að sjá að stelpurnar voru alls ekkert skárri í þessu en strákarnir. Mig langaði að hrista þær til og segja þeim að bera virðingu fyrir þessari konu, sem væri að berjast fyrir þeirra réttindum. Þegar ég kom heim fór ég í smá rannsóknarvinnu um Hildi og komst að því að hún hafði gert ótrúlega margt frábært, þótt ég væri kannski ekkert endilega hrifin af öllum þeim aðferðum sem hún beitti til að koma skilaboðum sínum á framfæri.

Næstu daga komst fátt annað að í hausnum á mér en að það þyrfti einhvern veginn að ná til þessara fáfróðu samnemenda minna. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað ég varð glöð þegar ég rakst svo á hóp á Facebook sem bar nafnið „Femínistafélag Fjölbrautarskólans í Breiðholti“. Ég skráði mig auðvitað í hann og skrifaði þar hvað ég væri ótrúlega sátt að hafa fundið þennan hóp, og fleira í þeim dúr. Ég fékk skilaboð frá stofnandanum samdægurs þar sem hann bauð mér stöðu í stjórn félagsins. Ég hugsaði strax sem svo að ég gæti það nú ekki, hún litla ég hefði enga reynslu í einhverju svona, gæti aldrei verið í stjórn félags í risastórum skóla og vissi í rauninni ekki hvað það fæli í sér. Ég hugsaði mig lengi um áður en ég ákvað að hoppa snöggvast út fyrir þægindarammann og segja bara já. Ég áttaði mig á því þarna að ég gæti ekki alltaf reiknað með því að aðrir tækju slaginn fyrir mig, að ég neyddist einfaldlega til að gera eitthvað sjálf, því þetta málefni ætti það skilið að ég berðist fyrir því. Áður en ég vissi af var ég orðin varaformaður félagsins og sé ekki eftir þeirri ákvörðun.

Fulltrúar femínista félaga framhaldsskólanna á fundi í Velferðarráðuneytinu snemma á þessu ári. Myndin er fengin hér.

Fulltrúar femínista félaga framhaldsskólanna á fundi í Velferðarráðuneytinu snemma á þessu ári. Myndin er fengin hér.

Stofnað var svo Samband femínistafélaga framhaldsskólanna, þar sem stjórnir félaganna hittust og fengu hugmyndir hjá hvert öðru um hvernig mætti bæta starfið. Þá tók við frábært tímabil þar sem nýr framhaldsskóli bættist í sambandið reglulega, með nýstofnað femínistafélag. Öll vorum við sammála um að aðalbaráttumál félaganna ætti að vera að koma kynjafræðslu inn í kennsluáætlun sem skyldufagi í öllum framhaldsskólum landsins. Okkur fannst reyndar margir kennararnir þurfa á svoleiðis áfanga að halda líka, þar sem kvenfyrirlitning og karlrembustælar eru því miður mjög áberandi hjá mörgum eldri kennurum af karlkyni, sem er auðvitað ekki í lagi þar sem við lítum gjarnan upp til kennaranna okkar og þeir eiga að vera okkur fyrirmyndir.

Ég hafði hins vegar miklar efasemdir um að við gætum haft einhver áhrif á samnemendur okkar og að menntaskólanemendur nenntu eitthvað að hlusta á jafnaldra sína ræða svona málefni. Þessar áhyggjur mínar minnkuðu til muna eftir að hafa heyrt frá formanni femínistafélagsins í MR. Hún sagði að rétt eftir stofnun þeirra félags hefðu þau lagt fyrir könnun til að athuga hversu margir nemendur segðust vera femínistar. Þeir voru vægast sagt mjög fáir. Ári seinna, eftir alls konar verkefni og umræður til að vekja athygli á femínisma, lögðu þau fyrir sömu könnun og þá kom í ljós að langstærstur hluti nemenda sagðist vera femínistar.

Ótrúlega spennt og vongóð fór ég svo í einhverju skólafríinu austur til Seyðisfjarðar. Ég fór á rúntinn með vinkonum mínum, sem er svo sem ekki frásögu færandi, nema að á einhverjum tímapunkti segi ég við eina þeirra „Hey varstu búin að sjá að Gauti Skúlason var að stofna femínistafélag á Bifröst?“ Hún svaraði, mér til mikillar undrunar: „Já, mér finnst það geðveikt asnalegt!“ Ég spurði hana hneyksluð hvað væri svona asnalegt við það og þá sagði hún: „Æ bara, femínistar eru ógeðslega leiðinlegir!“ Ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að svara þessu, en sagði á endanum: „Þú veist að ég er varaformaður femínistafélags FB?“ Elsku vinkona mín varð þá ansi hissa og vandræðaleg.

Þetta sýndi mér að sennilega þyrfti ég að byrja mína baráttu á að reyna að fræða fólkið í kringum mig og þá sem standa mér næst. Ég vona að ég hafi allavega haft einhver smá áhrif á þau viðhorf sem vinir mínir og fjölskylda hafa til femínisma, og jafnvel þótt ég hafi bara fengið eina manneskju til að breyta sínum viðhorfum er ég sátt, því margt smátt gerir eitt stórt – og ég er rétt að byrja.

Þetta erindi var upphaflega flutt 24. október á Seyðisfirði þegar minnst var kvennafrídagsins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.