Haltu kjafti, kona!

Höfundur: Halla Sverrisdóttir *VV* Greinin inniheldur dæmi um grófa, kynferðislega hatursorðræðu

Hatursskilaboð á Facebook. Tilefnið er umræða sem spratt upp fyrir nokkru um brjóstagjöf á almannafæri í Danmörku.

Hatursskilaboð á Facebook. Tilefnið er umræða um brjóstagjöf á almannafæri í Danmörku. Viðtakandi er Johanne Schmidt-Nielsen, þingmaður. Sendandi heitir Kenni.

Af Facebook-síðu Johanne Schmidt-Nielsen 7. nóvember s.l.:

Það var ótrúlega gaman að kíkja í innhólfið í morgun. Það var ekki stútfullt af ruddalegum skammarskeytum, né heldur hótunum. Það var fullt af stuðningsyfirlýsingum.

Ég var mjög efins þegar DR 2 [þýð.:ein sjónvarpsrása danska ríkisútvarpsins] bað mig að vera með í gerð þáttaraðarinnar „Ti stille, kvinde“. Ég sá fyrir mér að ég yrði dregin sundur og saman í háði fyrir að barma mér, fyrir að vera húmorslaus, fyrir að vera tepra eða fyrir að „nota fórnarlambsspilið“.

Þið hafið nú sýnt mér að það var ástæðulaus ótti. Takk fyrir það.

Það hafa auðvitað komið einhver neikvæð viðbrögð. Það hafa líka verið skrifuð hatursfull komment á hina og þessa spjallþræði á netinu í kjölfar þáttarins. En ég er þakklát vegna þess að jákvæðu viðbrögðin hafa (næstum) kaffært þau neikvæðu í innhólfinu mínu.

Það hefur verið ákaflega fróðlegt fyrir mig að fá að skoða og sjá þau viðurstyggilegu og ógnandi skilaboð sem ég og aðrar konur í stjórnmálum og samfélagsumræðu hafa fengið með ykkar augum. Mörgum ykkar er illa brugðið. Ég var eiginlega búin að gleyma því sjálf hvað manni á að bregða mikið við að frétta að slíkar yfirhalningar skuli vera hluti af daglegu lífi fjölda kvenna.

Mörg ykkar þekkja þetta hatur af eigin raun, þið hafið reynt það á eigin skinni þegar þið hafið tekið þátt í umræðum á netinu um stjórnmál eða sent grein eða lesandabréf til einhvers dagblaðanna.

Sum ykkar skrifa til mín: „Fólk sem skrifar svona lagað hlýtur að vera fársjúkt!“ Ég er sannfærð um að á meðal sendendanna er fólk sem þjáist af alvarlegum geðrænum kvillum. En ég held ekki að það fólk sé í meirihluta þeirra sem tjá sig með þessum hætti. Ég held að það sé fullt af alveg „eðlilegu“ fólki, konum sem körlum, sem hreinlega hugsa ekkert út í hvað það er fáránlegt að skrifa „ógeðslega kerlingartrunta“ um eða til einhvers, eða sem finnst „helvítis belja“ vera nothæf röksemd.

En hvað með karlana? Fá karlar aldrei hótanir? Er ekki hraunað yfir þá líka? Jú. En það er langtum sjaldgæfara að móðganirnar sem karlmenn fá yfir sig snúist um líkama þeirra, eða kynferði þeirra, og þeim er afar sjaldan hótað nauðgun.

Þess vegna varðar þetta mál líka kvennabaráttuna sérstaklega. Og þess vegna hittir titill þáttaraðarinnar, „Ti stille, kvinde“ beint í mark.

Kæru vinir. Þetta er stórt vandamál. Nú erum við byrjuð að takast á við það. Það er mikilvægt.

Svo skrifar Johanne Schmidt Nielsen, þingmaður Enhedslisten í Danmörku, í nýlegri stöðufærslu á opinberri Facebook-síðu sinni. Færslan er skrifuð í kjölfar sýningar fyrsta þáttar í heimildamyndaröð DR2, „Ti stille, kvinde“ (Þegiðu, kona), en þar er fjallað um hatursorðræðu á netinu sem sérstaklega beinist gegn konum sem taka virkan þátt í stjórnmálum eða samfélagslegri umræðu. Í fyrsta þættinum er rætt við nokkrar konur sem hafa upplifað slíkt og þær mæla fram sláandi og viðurstyggileg skilaboð sem þær hafa fengið.

hatursskilaboð

Hatursskilaboð á Facebook-síðu Johanne Schmidt-Nielsen frá 14. 9. í ár. Lauslega þýtt: Vonandi drepstu úr brjóstakrabba og píkukrabba, tyrkjasleikjan þín, og vonandi deyr öll fjölskylda þín úr krabbameini …

Og Johanne Schmidt-Nielsen er einmitt einn aðalviðmælandinn í þessum fyrsta þætti, þar sem hún lýsir upplifun sinni af því að fá ekki aðeins, eins og hún hafði búist við, ákveðinn kvóta af netníði og leiðinlegum og jafnvel andstyggilegum skilaboðum, heldur vera hótað lífláti og limlestingum svo til daglega. Rýnt er í sum þeirra hatursfullu skilaboða og athugasemda sem birst hafa á netinu og beinast sérstaklega gegn henni og loks reynir dagskrárgerðarmaðurinn Michael Jeppesen að leita uppi nokkra þeirra sem að baki skilaboðunum standa, eftir IP-tölum þeirra, og ræða við þá um það hvað knýr þá til að tjá sig með þessum hætti. Það tekst í tveimur tilvikum af þremur – en merkilegt nokk er það einmitt sá sem skrifar hatursfyllstu athugasemdirnar sem ekki tekst að hafa uppi á. Það er áhugavert að fylgjast með Jeppesen ræða við þá tvo sem fundust auðveldlega, og voru fúsir til að eiga við hann viðtal.

Brian Rene Espersen, sem eitt sitt var á lista fyrir Det konservative Folkeparti. Skjáskot úr þættinum "Ti stille, kvinde"

Brian Rene Espersen, sem eitt sitt var á lista fyrir Det konservative Folkeparti.

Eins og til dæmis fisksalann Brian Rene Pedersen, sem mætti flokka með þeim sem Jeppesen kallar „hyggesexister“ (hugsanlega óþýðanlegt hugtak, en mætti skilja sem „krúttlegir kvenhatarar“, í nokkuð stílfærðri merkingu þó) og skrifa einkum athugasemdir í yfirlætislegum, en sjaldan beinlínis ógnandi, stíl. Slíkir menn tala niður til kvenna, nota ávörp eins og „lille skat“ („elskan mín“ eða „litla mín“) og tala um að konan sem þeir ávarpa eigi nú bara að hætta þessu rausi, enda hafi hún greinilega ekkert vit á því sem um er rætt og ætti að láta sér vitrara fólki (karlmönnum?) eftir slík alvörumál sem pólitík og samfélagsmál.

Brian er meira en til í að rabba, enda finnst honum ekkert að því að senda athugasemdir á borð við „Det er så meget du ikke fatter, lille skat.“  En hvað ef Schmidt-Nielsen væri karlmaður, spyr Jeppesen – hefði Brian þá notað sama orðalag? Neeeei, segir hann. Hann hefði líklega ekki gert það.

Sá næsti sem haft er samband við er kornungur maður sem heitir Kenni og á heiðurinn af því að hafa ráðlagt Schmidt-Nielsen að „bíta í koddann“ (sjá skjáskot efst í greininni). Hann er líka hress á viðtali, en telur kommentið ekki fela í sér neina ofbeldishótun og virðist ekki líta svo á að neitt af því sem hann hafi sagt væri í raun alvarlegt eða særandi.Þetta var nú eiginlega allt í gríni – „spas og löjer“, eins og hann orðaði það sjálfur. Bara nokkrir strákar að djóka. Alltaf spurning um stemmninguna og honum finnst líka mjög ólíklegt að viðtakandinn sé neitt að lesa svona athugasemdir.

„Þótt hún hafi skilið þetta þannig þá var það ekki þannig sem það var meint,“ segir Kenni. Hljómar þetta eitthvað kunnuglega?

Báðir þessir menn tjá sig á netinu undir réttu nafni og reyna ekki að fela sig, og voru enda báðir fúsir til að veita viðtal.

Ekkert af því á við um þann þriðja, sem notar leyninafnið „Ole Ernst“ (þekktur sviðs- og kvikmyndaleikari í Danmörku af eldri kynslóðinni), enda eru hans hótanir bæði mjög grófar og ofbeldisfullar og hafa beinst að mörgum og mismunandi einstaklingum. Tilraunir Jeppesen til að hafa uppi á Óla reynast árangurslausar. þær leiða hann að símanúmeri sem enginn svarar í og heimilisfangi þar sem enginn kemur til dyra.

Fyrsti þátturinn af „Ti stille, kvinde“ var sendur útá DR 2 þann 6. nóvember s.l. og hann má nálgast hér. Næsti þáttur er á dagskrá á morgun, fimmtudaginn 13. nóvember, og sá þriðji verður sendur út viku síðar, eða 20. nóvember.

Viðbrögðin við fyrsta þættinum hafa reyndar ekki látið á sér standa. Í danska dagblaðinu Jyllandsposten var fjallað um þáttinn í frétt þann 7. nóvember. Hér er athugasemd við fréttina:

Allan nokkur Nielsen tjáir sig um frétt í Jyllandsposten 4. 11., þar sem sagt er frá þættinum og efni hans. Allan fellur sennilega ekki undir skilgreininguna „hyggesexist“.

Myndin er skjáskot af vefsíðu Jyllandsposten.

Allan Nielsen fellur sennilega ekki undir skilgreininguna „hyggesexist“.

Halla Sverrisdóttir þýddi stöðufærslu Johanne Schmidt-Nielsen, sem birtist á Facebook-síðu hennar þann 7. nóvember s.l. og er birt hér með góðfúslegu leyfi. Myndirnar við greinina eru skjáskot úr þættinum  „Ti stille, kvinde“, nema annað sé tekið sérstaklega fram í myndatexta.

Ein athugasemd við “Haltu kjafti, kona!

  1. Er ekki verið að gildisfella orðið hatur?

    “ Slíkir menn tala niður til kvenna, nota ávörp eins og „lille skat“ („elskan mín“ eða „litla mín“) og tala um að konan sem þeir ávarpa eigi nú bara að hætta þessu rausi, enda hafi hún greinilega ekkert vit á því sem um er rætt og ætti að láta sér vitrara fólki (karlmönnum?) eftir slík alvörumál sem pólitík og samfélagsmál.“

    Það er fullt af fólki sem er að tala um hluti sem það hefur lítið vit á, og það eru til miskurteisar aðferðir til þess að segja því frá því. (Nú skulum við gefa okkur að skrifarinn hafi einmitt verið á þeirri skoðun). Nú á slík gagnrýni auðvitað ekki alltaf rétt á sér, og fólk getur líka verið ósammála um hvort að eitthvað sé rætt af viti eða ekki, en að blanda hatri inn í svona lagað, fer langt með því að afgreiða alla gagnrýni sem ekki samræmist skoðunum manns sjálfs að einhverri hatursorðræðu.

    Það geta verið nokkrar ásætður fyrir því af hverju einhver skrifar svona. a) hann er þeirrar staðföstu trúar að manneskjan sem hann sé að gagnrýna sé á málefnalega mjög hálu svelli (og kann að hafa rétt fyrir sér). b) Hann er að reyna að taka hana úr jafnvægi með því að tala niður til hennar, c) að hann innilega hati manneskjuna og allt sem hún stendur fyrir og lætur það greinilega í ljós með því að segja „skat“ og „ekki leggja það á litla sæta kollinn þinn að framleiða svona vitlausar hugsanir“.

    Alla vega, hatur er sterkt orð, og skyldi ekki misnotast til þess afgreiða alla sem eru manni ósammála. Að hóta mönnum og konum limlestingum, biðja þeim og fjölskyldum þeirra bölbæna er annað mál og engin ástæða til þess að gildisfella slíkan viðbjóð með því að blanda honum saman eitthvað allt annað.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.