Til karla


Kæru ungu karlar!

male-symbol-lMig langar til að segja ykkur það sem ég óska að mér hefði verið sagt þegar ég  staulaðist í gegnum vandræðalegu árin á milli 15 og 25.  Þetta bréf í heild sinni gæti hljómað fullt af gorgeir, komandi frá 34 ára gömlum karli sem skrifar mestmegnis um það hvernig hann er rétt að byrja að ná tökum á fullorðinslífinu. Kannski er sú raunin. Þið ráðið hvernig þið túlkið það.
Ég veit bara þegar ég var að komast yfir bilið á milli gagnfræðaskólans og fullorðinsáranna hefði ég þegið aðstoð frá körlum sem voru búnir með þetta skeið en voru of ungir til að vera pabbi minn.

Þess í stað lærði ég mínar strategíur af álíka ringluðum ungum körlum í kringum mig. Vandfundnar eru verri leiðbeiningar um hvernig á að vera þroskaður og virðingarverður fullorðinn einstaklingur svo ég vona að ég geti veitt lesandanum þér smá innsýn sem þú færð ekki hjá félögum þínum. Þú verður enn að velja hverjum þú ætlar að trúa og hvern þú ætlar að hunsa, ég vil bara bjóða þér aðra rödd en þær sem þú ert kannski að heyra.Sumt af því sem hér fer á eftir á sérstaklega við gagnkynhneigða unga karla af því að það er dregið af minni eigin reynslu, en ég held að meginreglurnar séu frekar almennar.

Fólk segir þér sífellt  beint og óbeint að þú verðir að vera karlmaður. Hvað það þýðir, á 21. öldinni, veit ég ekki alveg. Merkingin er veikari en áður og það er gott. Karlmennskan hæfði mörgum okkar aldrei vel og hún gerir heiminn svo sannarlega ekki upplýstari.

Jafnvel þó við manneskjurnar séum (sem betur fer) að færast frá því að sjá okkur sem tvær ólíkar tegundir af lífverum, þá er ekkert að því að vera karlmaður og ekki láta neinn segja þér annað. Það er ekkert að því að gera hefðbundna karlmennsku hluti. Ekki skammast þín fyrir þá. Ef þú vilt horfa á fótbolta á sunnudegi, æfa bardagalistir, safna hormottu eða kaupa pallbíl, skaltu ekki afsaka þig.

Karlmennskan er í lagi þar til hún er notuð sem kvarði til að mæla og útiloka fólk, hvort sem það eru konur eða aðrir karlar, eða fólk sem skilgreinir sig sem hvorugt. Sama hvort karlmennskan heillar þig sem eitthvað til að líkamna eða bara til að dást að hjá öðrum, verðurðu að skilja að það er hreinlega spurning um persónulegan smekk og hefur ekkert að gera með persónulegt virði.

Allir ljúga

Ekki hafa áhyggjur af því hvernig kynlífsreynslan þín byggist upp (eða ekki).  Um fermingaraldur finnst strákum að þeir verði að byrja að bulla um ávinninga sína á kynlífssviðinu. Pressan á þessum krökkum er bara of mikil til að þau geti verið hreinskilin. Hunsaðu allt sem allir segja um kynlífið sitt. Þau ljúga, öllsömul, að minnsta kosti smá. Og krakkarnir sem eru í alvörunni að gera það á táningsárunum eru líklega ekki að gera það mjög vel, og eru varla þau sem þú munt vilja skipta við eftir tíu ár.

Gleymdu orðinu hreinn sveinn/hrein mey sem lýsingarorði yfir þig sjálfan eða aðra. Þetta er gamaldags, lítilvægt orð, sem notað er til að merkja fólk og fylla það skömm. Það selur fyrstu kynlífsreynsluna á yfirverði sem einhverja stóra, umbreytandi reynslu sem á að sanna unga karlinn og spilla ungu konunni.  Þetta er úrelt, trúartengt, dæmandi orð.  Hendum því.

Að falla ekki inn í hópinn í grunnskóla er gott. Þá er í þér einstaklingseðli sem ekki verður kramið. Guð hjálpi þér ef sjálfstraustið nær hámarki í gaggó.
Enginn veit hver hann er á þessum aldri hvort sem er. Fólk byrjar að mynda sér hugmyndir um hvað er því mikilvægt og hvað það vill vera á seinni hluta þrítugsaldursins og snemma á fertugsaldrinum.

Allir ungir karlar rekast á “tælingarsamfélagið” á einhverjum tímapunkti.
Passaðu þig.  Þó þar sé að finna eitthvað af raunverulega vel meinandi ráðum hvað varðar stefnumót og sjálfsþroska, er mikið af umræðunni mettað af karlrembu. Hún er ekki alltaf augljós en hún er alltaf þarna. Ef þú lítur á konur sem bráð ertu löngu farinn yfir strikið.

Konur eru ekki af einhverri annarri tegund. Þú lærir ekki að nálgast konur, þú lærir að tala við fólk. Þessar spjallsíður eru fullar af ungum körlum sem lærðu aldrei að tala við annað fólk. Þegar þú ert orðinn þrítugur skaltu lesa þetta efni aftur. Það mun hryggja þig.

Ef það er til einhver alvöru leynileg aðferð við tælingar þá er hún þessi:
Byggðu alltaf upp líf sem kemur þér til, kynntu sjálfan þig eins hreint og beint og þú getur, og talaðu við fullt af fólki. Þetta er allt. Tengingar munu gerast. Ef þú ert lélegur í þessu, gefðu þér þá eins langan tíma og þarf til að verða góður í þeim. Þú hefur tíma.
Druslur
eru ekki til. Enginn er drusla. Fjöldi bólfélaga sem manneskja hefur haft eða er sögð hafa haft a) kemur þér ekki við og b) gefur í sjálfu sér ekkert til kynna um persónuleika manneskjunnar. Ef þú vilt komast að því hvaða mann einhver hefur að geyma talaðu þá við viðkomandi. Ef þú trúir á frelsi einstaklingsins, þá geturðu ekki trúað á druslur.
Á lífsleiðinni muntu rekast á karlrembu, jafnvel hjá þínu uppáhalds fólki.
Margt af því mun birtast í formi þess hvað þú átt að gera, hugsa eða segja, til að vera karlmaður. Og nema þú sért ekki að veita því athygli muntu nánast pottþétt uppgötva eitthvað af þessum viðhorfum í sjálfum þér. Karlremba er ekki einskorðuð við fordómafullt fólk og karla sem berja konurnar sínar. Hún er of algeng, of eðlileg til þess. Og er oft fínleg, óafvitandi, jafnvel vel meinandi.

Þú berð ábyrgð á þessu, sama hvort þú vilt það eða ekki. Sumar af þeim ofureðlilegu væntingum sem verða gerðar til þín sem karlmanns – að fjarlægjast kvenleikann, að vera harður, að hlæja að ákveðnum bröndurum, að nota orð eins og drusla án kaldhæðni, að gera lítið úr metnaðarfullum og óhefðbundnum konum, að stjórna og veikja aðra karla – gera það að verkum að jafnvel upplýstustu hlutar heimsins eru verri staðir fyrir konur en þig.

Lærðu að þekkja og hafna þessum væntingum. Við þörfnumst nýrra norma sem óhlýðnir og hugsandi ungir karlar skapa. Það ert þú. Karlrembuvandamálið er ekki kvennamál. Tryggjum persónulegt frelsi fyrir alla óháð kyni.
Rótin að öllu saman er meðfædd hæfni okkar til ofbeldis – hinn óheppilegi líffræðilegi veruleiki að jafnvel líkamlega ofurvenjulegur karl getur rotað meðalkonuna, ef hann heldur að það muni hjálpa honum meira en það mun skaða hann.

Frá upphafi mannkyns, alltaf þegar karl og konu hefur greint á, hafa þau bæði vitað frá byrjun – sama hvers konar rök eða vit hvor hliðin hefur komið með að borðinu – hvort þurfi á endanum að bakka. Ólíkt konunni gat karlinn átt von á að fá sínu framgengt án þess að eiga vitsmunalegt samtal, án þess að hugleiða þarfir annarra, án þess að hafa rétt fyrir sér, án þess að nokkur skynsamleg ástæða væri fyrir því að hann ætti að fá sitt.

Vænting um vald

Þessi vænting – að vald yfir öðrum sé gild, heiðvirð leið til hamingjunnar – eimir í því hvernig við tölum, hvernig við skilgreinum karlmennsku, í væntingunum sem karlar gera til hvors annars. Þetta hefur sérstaklega mikil áhrif á karla á grunn- og menntaskólaaldri, því þeim líður ekki enn eins og karlmönnum en halda að þeim eigi að gera það.
Með aukinni siðmenningu og menntun er smám saman grafið undan trúverðugleika þessa steinaldarviðhorfs til lífsins og þeim valdamismuni sem vaxið hefur í kringum það.

Ef við eigum að komast alla leið verða ungir karlar að skilja eins snemma og hægt er að karlar eiga að baki langa sögu af því að fá sitt fram án nokkurrar góðrar ástæðu. Þessi forréttindi koma auðvitað á kostnað annarra og við verðum að læra að vera meðvituð um þau og eyða þeim, alltaf þegar við sjáum þau. Er þetta þín sök? Nei. En hvort sem þú vilt það eða ekki þá hefurðu erft ábyrgðina af því að skapa ný svör við fornum spurningum um það hvað það þýðir að vera karlmaður. Gömlu svörin eru ónýt.

Þessi grein er af bloggsíðunni raptitude.com og birtist hér með leyfi höfundar í styttri og aðlagaðri útgáfu. Þýðing: Þóra Kristín Þórsdóttir

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Til karla

 1. Tek það fram að 95% af þessu er vel skrifað og er ég mjög sammála.

  Það sem skar mig…..

  „Rótin að öllu saman er meðfædd hæfni okkar til ofbeldis – hinn óheppilegi líffræðilegi veruleiki að jafnvel líkamlega ofurvenjulegur karl getur rotað meðalkonuna, ef hann heldur að það muni hjálpa honum meira en það mun skaða hann.“

  Þetta leyfir feministi sér að segja. Á nákvæmlega sama tíma er bannað að segja að karlmaður í líkamlega erfiðri vinnu sem þar af leiðandi afkastar meira eigi skilið meiri laun.

  Það kalla ég „Hipókrasí“….

  En gott og vel, mjög rétt, líkamlegur aflsmunur er til staðar.

  „ef hann heldur að það muni hjálpa honum meira en það mun skaða hann.““

  Finnst mér furðulega uppsett. Það er eins og það sé verið að gefa sér að það eina sem stoppi karlmann sé að ef það borgar sig minna að rota konuna vegna afleiðinga, þá kannski geri hann það ekki í því tilviki…..

  Miðað við þá karlmenn sem ég er í kringum þá vill ég fullvissa þig að það hefur oftar skeð fyrir okkur alla að kvennfólk verði líkamlegt við okkur en öfugt á fillerí eða í samböndum, enda virðist það leyfilegt norm að kona lemji til karlmanns en ekki öfugt.
  Annars tel ég að líkamleg „ofbeldissambönd“ séu líklega fleirri á hinn veginn, miðað við það sem ég hef lesið, þ.e.a.s að karlmenn séu að berja konur oft og títt í samböndum.

  „Ef við eigum að komast alla leið verða ungir karlar að skilja eins snemma og hægt er að karlar eiga að baki langa sögu af því að fá sitt fram án nokkurrar góðrar ástæðu. Þessi forréttindi koma auðvitað á kostnað annarra og við verðum að læra að vera meðvituð um þau og eyða þeim, alltaf þegar við sjáum þau.“

  Mjög sammála, en þú talar aftur í tíman, á sér „langa sögu“… Það virðist engin vilji til þess að horfa á þær aðstæður þar sem hallar á karlmenn og þessvegna er mjög erfitt að styðja feminisma.

  Það fer verulega í mig þegar rætt er um að það þurfi nú að laga sem dæmi að raunvísenda deild háskólans sé 60-70% karlmanna. Er ekki stærra vandamál að 60-70% þeirra sem fara í framhaldsnám í háskóla er kvennfólk….

  Mýflugur og úlfaldar og það er einblínt á mýflugur.

  Þetta gerir mann reiðan.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s