Að leigja leg kvenna eins og geymsluskápa

Lennart-Nilsson-

Höfundur: Kári Emil Helgason

Fyrir nokkrum árum var ég mikill baráttumaður fyrir lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Með þessu móti gæti ég eignast mér blóðskyld börn með hýpóþetískum eiginmanni. Frábært! Þá yrði ég næstum alveg eins og ég væri gagnkynhneigður! Ég reifst um málið við hina og þessa femínista á netinu sem voru algerlega á móti þessu og náði þessu aldrei. Það var ekki fyrr en David í þáttunum Six Feet Under sagði við manninn sinn Keith: “Just rent out some woman’s uterus like it’s a storage locker?” sem ljós kviknaði í höfðinu á mér.

Hvað er staðgöngumæðrun?

Staðgöngumæðrun er þegar tæknifrjóvguðu eggi, sem er yfirleitt ekki blóðskylt konunni, er komið fyrir í legi konu. Tvær tegundir eru til, annars vegar staðgöngumæðrun í góðgerðarskyni sem til stendur að lögleiða á Íslandi, en hana mætti einnig kalla leglán; því þá er leg og líkami konu lánaður öðru fólki til að ganga með börn. Hins vegar er svokölluð staðgöngumæðrun í gróðaskyni en í því felast peningagreiðslur fyrir afnot á legi og líkama konunnar, og mætti því kalla slíkt legleigu, en mikið hefur verið rætt um legleigu Íslendinga í Indlandi. Sú umræða er kveikjan að þessari grein.

Líkamsréttur

Fyrsta flækjan snýr að friðhelgi líkamsréttar konunnar en í þeim rétti felst m.a. rétturinn til að fara í fóstureyðingu, því réttur konu til að stjórna eigin líkama er æðri rétti annarrar lífveru (fósturs í legi hennar) til að vera inni í henni. En þegar við bætast tveir foreldrar sem eru beinlínis að leigja út legið vakna spurningar. Geta peningagreiðslur trompað þennan líkamsrétt? Þetta á sérstaklega við í löndum þar sem líkamsréttur kvenna er ekki virtur að fullu og fóstureyðingar eru bannaðar eða takmarkaðar að miklu leyti.

Spurningar er varða líkamsrétt:

 • Má konan fara í fóstureyðingu?
 • Má hún borða hvað sem hún vill á meðan hún er ólétt?
 • Hafa ættleiðingarforeldarnir vald til að banna henni að neyta áfengis, reykja eða neyta lyfja?
 • Mega þeir banna henni að stunda einhverja ákveðna líkamlega iðju svo sem þjálfun, líkamleg erfiðisstörf eða annað?
 • Mega ættleiðingarforeldrar krefja staðgöngumóðurina um að fara í læknisaðgerðir eins og legvatnsástungur?
 • Mega ættleiðingarforeldrar krefja staðgöngumóðurina um fóstureyðingu?
 • Mega ættleiðingarforeldrar krefjast þess að staðgöngumóðirin flytji milli landa?

Forræðismál og fjölskyldutengsl

Í legleigu felst vænting um að forræði yfir barni sem hefur verið inni í konu í marga mánuði renni svo til legleigjendanna. Það er samt ekki eins einfalt og það hljómar því það er grundvallarbreyting á hefðum flestra þjóðfélaga. Þessu tengt eru oft fjölmörg lög og dómsmál sem geta valdið lagaflækjum. Nánasta fjölskylda staðgöngumóður er annað atriði. Konur verða að hafa gengið með a.m.k. eitt barn áður en þær fá að vera staðgöngumæður og eiga því oftast barn eða börn á lífi og gjarnan maka.

Spurningar er varða forræði og fjölskyldumál:

 • Má konan halda barninu ef hún kýs það?
 • Hvað ef hún er líka egggjafi?
 • Hefur hún rétt á að hitta barnið eftir fæðingu?
 • Hafa börnin hennar rétt á að hitta barnið?
 • Hver hefur forræði yfir barninu ef eitthvað kemur fyrir ættleiðingarforeldrana fyrir fæðingu?
 • En ef ættleiðingarforeldrnarnir mæta aldrei á staðinn að sækja barnið?
 • En eftir fæðingu, geta ættleiðingarforeldrarnir þá hætt við?
 • Er staðgöngumóðirin skyldug í einhverjum þessara aðstæðna til að ala upp barnið og sjá því farborða?
 • Hver er réttur og staða maka staðgöngumóðurinnar með hliðsjón af þessu öllu?

Samningar og bótamál

Allir stuðningsmenn legláns og legleigu eru sammála um að það þurfi bara að vera góðir samningar sem hæfir lögfræðingar semja. En hvers rétt vernda slíkir samningar, hvernig er greiðslum háttað og geta skilmálar samninga breyst eftir því sem líður á meðgönguna?

 • Fær staðgöngumóðir bætt vinnutap vegna meðgöngu og fæðingar?
 • Hvers ábyrgð er það að koma henni undir læknishendur ef eitthvað gerist? Fá fjölskyldumeðlimir hennar greiðslur ef þeir missa úr vinnu?
 • Hvers konar bætur fær staðgöngumóðir ef hún veikist eða fatlast sökum meðgöngunnar eða fæðingarinnar?
 • Hvað ef staðgöngumóðir deyr vegna fylgikvilla? Er hún þá líftryggð? Hver ber kostnað af líftryggingunni?
 • Hver ber þá ábyrgð á börnunum sem hún á fyrir ef hún er t.d. einhleyp?
 • Hvað ef velja þarf á milli lífs móður eða barns í læknisaðgerð, hvern á að velja og hver velur?
 • En ef hún missir fóstur? Fær hún þá samt greitt fyrir allt saman eða bara fyrir hluta af þessu eða kannski bara ekki neitt? Er t.d. álagsgreiðsla fyrir áfallið að missa fóstrið? Þarf hún þá að reyna aftur eða er leitað annað?
 • Ef hún hefur fengið fyrirframgreiðslur, þarf hún þá að endurgreiða þær?

Öfgar nýlendustefnunnar

pregnancy_birth_posterNýlendutímabilinu lauk að nafninu til um það leyti sem Járntjaldið féll og flest ríki heimsins höfðu fengu sjálfstæði frá vestrænum nýlenduþjóðum. Þrátt fyrir þetta er ekkert lát á misnotkun ríkari landa í Evrópu og Norður-Ameríku á borgurum annars staðar í heiminum. Að leigja út leg kvenna í þróunarlöndum er nýtt heimsmet í öfgum nýlendustefnunnar. Okkur nægðu ekki lönd, auðlindir, mannauður, tækifæri til verðmætasköpunar — við þurfum líka að stjórna kynfærum kvenna. Konur fara ekki út í að leigja leg sitt af því þær langar til þess. Konur gera það af því þær vantar peninga eða af því fjölskyldu þeirra vantar peninga. Íslendingar sem halda til Indlands í leit að konu með leg til leigu hafa engar forsendur til að þekkja bakgrunn hennar eða vita hvort hún standi í þessu af fúsum og frjálsum vilja. Stór hluti kvenna á Indlandi kann ekki að lesa og hefur ekki gengið í skóla. Eiga þá hinir væstrænu ættleiðingarforeldrar ásamt lögfræðingum sínum að ákveða allt ofantalið saman? Fyrir hana? Sem er kannski einstæð móðir? Eða er í þeirri stöðu að maki hennar eða fjölskylda er að neyða hana til að gera þetta? Staðgöngumæðrun er allt of flókin, og málin of viðkvæm, til að hægt sé að leysa þau með nefndavinnu eða lagasetningum. Ég reyni ekki einu sinni að svara þeim spurningum sem hér eru lagðar fram því þær eru ekki mínar að svara. Staðgöngumæðrun á að vera bönnuð, og þá sérstaklega sú tegund sem felur í sér útleigu á líkömum fyrir peningagreiðslur. Fólk sem getur ekki eignast börn af líffræðilegum ástæðum þarf að ættleiða eða finna aðrar leiðir til að auðga líf sitt. Kaup, sala, útleiga og leiga á fólki er aldrei réttlætanleg.

* Þessi grein birtist áður á knuz.is 3. október 2013 og er endurbirt nú með leyfi höfundar.

 

19 athugasemdir við “Að leigja leg kvenna eins og geymsluskápa

 1. Feministar stimpla sig enn einusinni inn sem helsti þrýstihópurinn gegn kvenréttindum og almennum mannréttindum. Yfirráð yfir eigin líkama eru grundvallar mannréttindi. Bann við staðgöngumæðrun eru inngrip inn í þau yfirráð. Það er klassísk aðferð til að afnema mannréttindi að segja það gert til að vernda menn gegn glæpum.

 2. Margir góðir punktar í þessari grein og spurningar sem þarf að svara. Mörgum þeim spurningum HEFUR reyndar verið svarað í öðrum löndum, þar sem staðgöngumæðrun hefur verið leyfð, eins og t.d. í Bretlandi.

  Pistlahöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að staðgöngumæðrun sé ALDREI réttlætanleg. Bretar, Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir hafa komist að annarri niðurstöðu. Það er því fróðlegt að skoða hvernig þær þjóðir hafa svarað þeim spurningum sem velt er upp í pistlinum. Ég vil í öllu falli gera það, áður en ég tek jafn afdráttarlausa afstöðu og Kári Emil.

  Hér má t.d. finna upplýsingar um bresk lög um staðgöngumæðrun. (Sjálfsagt má finna betri krækjur.)
  http://www.surrogacy.org.uk/FAQ1.htm

 3. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um frelsi og ekkert annað. Forræðishyggju verður að eyða úr samfélagi manna.

  Við höfum ENGAN rétt til að skipta okkur af því hvað annað fólk gerir.

 4. Dagmæður fá laun en mæður ekki. Eru dagmæður ekki staðgöngumæður? Hvers vegna er starf dagmóður samþykkt en starf móður og staðgöngumóður ekki?

  • Staðgöngumóðir er kannski ekki heppilegasta orðið en þú hlýtur að skilja hvað við er átt. Það er himinn og haf á milli. Kona sem gengur með barn fyrir annan lánar líkama sinn allan sólahringinn í rúmlega níu mánuði. Hún stefnir heilsu sinni, andlegri og líkamlegri, í hættu. Leggur jafnvel líf sitt að veði. Hver ætlar svo að bera skaðann ef hún lætur lífið eða bíður varanlegt heilsutjón?

   • Erum við ekki að tala um geymsluskápa fyrir börn? Þegar leikskólar fóru að ryðja sér til rúms litu margir vafalaust svo á að þeir væru fyrst og fremst geymslustaðir fyrir börn á meðan foreldrar væru við vinnu. Þetta viðhorf er væntanlega löngu horfið. Geymslustaður eða geymsluskápur – hver er munurinn? Eru börnin sjálf algert aukaatriði í þessari umræðu?

   • Konur eiga að fá að ráða sínum líkama sjálfar!

    Nema þessar brúnu og fátæku, það þarf að hafa vit fyrir þeim.

   • Það er að sjálfsögðu algert grundvallaratriði að staðgöngumóðirin fái e.k. fræðslu til að meðgangan verði fagleg í alla staði. Ef allir sem að getnaðar- og umönnunarferlinu koma hafa faglegan metnað og foreldrar geta jafnframt sinnt sinni vinnu þá sé ég ekki vandamálið.

 5. Mjög margt áhugavert í þessari grein. Nú hafa, svo ég grípi til sama orðalags og Einar Karl hér að ofan, Íslendingar komist að þeirri niðurstöðu að staðgöngumæðrun sé góð, siðferðilega réttlætanleg og samfélaginu til bóta. Ja, eða það hefur ríkisstjórnin að minnsta kosti ákveðið. Ég er ekki viss um að ég sé sammála því, Kári Emil er það augljóslega ekki og það er til alveg fullt af Bretum og Bandaríkjamönnum sem hafa á málinu alls konar skoðanir, ekki satt? Bottom line – þótt staðgöngumæðrun sé heimil í einhverju landi merkir það auðvitað ekki að hún sé óumdeild þar fremur en annars staðar. Sjálf hef ég farið ótal hringi og sé ekki alveg fyrir endann á því hringsóli enn. Þess vegna finnst mér svo frábært þegar fólk sem hefur ákveðnar skoðanir á málinu leggur orð í belg, takk fyrir það Kári Emil!

 6. Þetta er klassískur forræðishyggju pistill, ótrúlegt hvernig svona uppvakningar eins og forræðishyggja finna sér alltaf nýjan farveg en í grunnin er þetta alltaf eins, skerðing á frelsi því þú sem einstaklingur höndlar það ekki, þarna er alltaf sama rökvillan og tilfinngasemi á að blinda þér sín.

  Öll lýsinginn hérna í kringum þetta kvenfólk gæti alveg átt við karlmenn sem vinna í námum og öðrum farandverkamönnum, þeir leggja heilsu sína að veði, andlega og líkamlega, eru fjarverandi svo mánuðum skiptir og eru líklega að fá verri laun en þessar konur og svo sannarlega enga læknisskoðun. Fjöldi þessara karlmanna er margfalt fleiri en þær konur sem velja að sjá fyrir sér og sínum með staðgöngumæðrum og því væri eðlilegt að byrja á að aðstoða þessa menn, þá þurftu kanski konurnar þeirra ekki að hugsa um staðgöngumæðrun t.d.

  Eiríkur.

 7. Bakvísun: Að gefa líffæri eins og varahluti – hugleiðing um staðgöngumæðrun | Skoðun

 8. Bakvísun: Barnaver í Helguvík | *knùz*

 9. Það er merkilegt hvernig fólk notast við orðið frelsi sér til stuðnings við að réttlæta staðgöngumæðrun. Meinar fólk þá að konur á Indlandi búi við fullkomið frelsi? Er fólk virkilega að meina að maður sé ekki að nýta sér nauð fólks? Ég skal skrifa undir að við leyfum staðgöngumæðrun, en bara ef við sjáum um þetta sjálf. Hvað kostum við?

  • Er, Sif, forsenda fyrir því að gefa konu frelsi til þess að ráðstafa líkama sínum sú að hún hafi fullkomið frelsi? (Sem hún getur vissulega ekki haft þegar hún hefur ekki frelsi til að ákveða hvað sé henni sjálfri fyrir beztu). Þetta eru því hringrök.

   En felst ekki nokkur hroki að gera ráð fyrir að íslenzkum (vestrænum?) konum sé treystandi að fara með ráðstöfun eigin líkama, en ekki Indverskum?

 10. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

 11. Kræst – nú er ég fylgjandi staðgöngumæðrun en aðeins undir ströngu eftirliti. Og já ég er femínisti og nenni ekki að vera með í liði með þeim sem nota þetta mál til að rífa þá niður. Forræðishyggja ætti ekki að vera blótsyrði og er oft bráðnauðsynlegt því annars er hættan sú að traðkað sé á rétti fólks. Ég get vel skilið – og virt – viðhorf þeirra sem eru á móti og þetta er alltaf ótrúlega snúið og erfitt. Staðreyndin er samt sú að tæknin er til staðar og þá verður hún nýtt. Þá vil ég frekar sjá hana hér á vesturlöndum þar sem hægt er að passa upp á að þjónustan sé ekki misnotuð frekar en t.d. á Indlandi þar sem konum er þröngvað í þessi hlutverk – viljandi eða óviljandi.

 12. Langflestra þessara spurningar er spurningar sem löngu er búið að svara á almennum vinnumörkuðum, þó svo að samningsfrelsi kunni að vera til staðar eftir atvikum í einstökum spurningum. Öðrum ekki.

  En er það eitthvað erfitt?
  Dæmi „Hafa börnin hennar rétt á að hitta barnið?“
  Er eitthvað því til fyrirstöðu að blóðforeldrar og staðgöngumóðir semji um slíkt sín á milli?
  Þurfa einhverjir aðrir að svara því? Skiptir ekki bara máli að það sé samið um svona fyrirfram?

  Spurningin gæti allt eins verið: Má taka með sér börn í matvörurverzlanir í umræðu um hvort að leyfi megi sölu á mjólk í matvöruverzlunum, (sem var bannað lengi vel á Íslandi).

  Auðvitað er hægt að útfæra samningsatriði á einhverjan hátt, en skiptir það yfir höfuð máli hvort að leyfi eigi staðgöngumæðrun eða ekki?

  Dæmi: Ef að lög um staðgöngumæðrun segðu að tryggingar blóðforeldra eigi að greiða fyrir veikindi en ekki tryggingar staðgöngumóður, er þá staðgöngumæðrun í lagi en annars ekki? Hvað ef lög segja að blóðforeldrar verði að kaupa sérstaka staðgöngumæðratryggingu fyrir staðgöngumóðurina? Hvað ef lög segja að það sé staðgöngumóður að tryggja sig, og að því eigi hennar kostnaður af slíku að vera innifalinn í verktakalaununum, rétt eins og þegar ég fæ smið til þess að vinna uppi á þaki hjá mér (sem gæti verið mun hættulegra).

  Svona spurningar eru vissulega spurningar sem verður að svara, en skipta í raun engu máli um hvort eigi að leyfa staðgöngumæðrun. Í grundvallarefnum er farsælast að um viðskiptasambandið gildi almenn lög og hefðir á vinnumarkaði, t.d.
  „Hvers konar bætur fær staðgöngumóðir ef hún veikist eða fatlast sökum meðgöngunnar eða fæðingarinnar?“ Svar: Ef staðgöngumóðir er verktaki, þá tryggi hún sig eins og aðrir verktakar, ef staðgöngumóðir er launþegi, þá tryggingar vinnuveitanda. Þetta er ekki flókið.

  En þar sem þau ná ekki yfir efnin sbr. um heimsóknir barna staðgöngumæðra, þá sé samið um slíkt. En í eðli sínu er þetta bara útfærslu atriði sem kemur umræðu um hvort að eigi að leyfa eða banna samgöngumæðrun furðu lítið við.

  Að varpa þessu fram sem „ó þetta er svo flókið að það er ómögulegt að ákveða þetta allt saman og þess vegna er öruggast að banna þetta bara“ er röksemdafærsla apanna sem urðu eftir í trjánum.

  Alla vega spurningin um hvort að leyfa eigi staðgöngumæðrun er eitthvað sem á að svara á þeim grundvelli en ekki öðrum. Þegar allt kemur til alls verður ekki horft framhjá því að sumum er ógeðfelld sú tilhugsun að konum sé greitt fyrir svona viðvik og er gilt sjónarmið, og öðrum er ógeðfelld sú tilhugsun að konur ráði ekki yfir eigin líkama sem er líka gilt sjónarmið. Hvort að ákveðið verði í lögum hvort að börn staðgöngumóður megi eða megi ekki hitta börnin, skiptir einfaldlega engu í þessu máli og er bara fyrirsláttur.

 13. Þessi grein færir góð rök fyrir því að ekki eigi að leyfa staðgöngumæðrun í gróðaskyni, og er ágæt sem slík. En eitthvað vantar upp á rökvísi höfundar þegar haldið er fram að „Staðgöngumæðrun á að vera bönnuð“…

  Hér á landi hefur samt aldrei verið í umræðunni að leyfa annað en staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég er alltaf jafn hissa að fólk sem heldur málstað kvenfrelsis á lofti beiti sér gegn því að konur ráði yfir eigin líkama. Það hljóta allir jafnframt að sjá að lögleiðing staðgöngumæðrunar hérlendis myndi minnka líkur á að fólk sækti í að notfæra sér neyð kvenna í öðrum löndum.

 14. Bakvísun: Stöðvum staðgöngumæðrun áður en það er um seinan | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.