Konurnar hans Mike

Höfundur: Sigríður Pétursdóttir

Meryl Streep í Silkwood, frá  árinu 1983.

 

Þær eru margslungnar, konurnar í kvikmyndum Mike Nichols. Hann skrifaði handritin reyndar sjaldnast sjálfur, þau voru gjarnan byggð á leikritum eða bókum annarra, en myndir hans eiga þó allar sameiginlegt að kvenpersónurnar eru hvorki einfaldar né flatar. Ég sé fyrir mér að leikkonurnar sem túlkuðu þær á eftirminnilegan hátt hafi hoppað hæð sína í loft upp þegar þær fengu þessi bitastæðu hlutverk. Mike Nichols lést 19. nóvember síðastliðinn 83 ára að aldri. Hann var mikilvirkur leikstjóri, jafnvígur á kvikmyndir og leikhús. Ég gæti rakið æviferil hans eða sagt ykkur frá verðlaununum og viðurkenningum. Ég gæti líka fjallað um erfiðleika og geðraskanir eða sagt frá öllum hjónaböndunum. Það læt ég vera. Hins vegar langar mig til að minna á kvenpersónurnar í kvikmyndum hans.

Hver er hræddur við Virginiu Woolf? frá 1966 var fyrsta kvikmynd Mike Nichols í fullri lengd, byggð á umdeildu leikriti Bandaríkjamannsins Edwards Albee. Leikrit og mynd hneyksluðu marga, því á sjötta áratugnum voru áhorfendur vanir því að fjölskyldur væru sýndar hamingjusamar og heiðvirðar. Ameríski draumurinn var í hávegum hafður, ekki þótti við hæfi að opnbera að á bak við grímu hinnar fullkomnu fjölskyldu gætu leynst óhamingjusamar og ráðvilltar sálir.

Með aðalhlutverk í myndinni fara Elizabeth Taylor, Richard Burton, George Segal og Sandy Dennis. Martha og George eru komin á það stig í hjónabandinu að ástin hefur breyst í hatur og þeirra helsta hugðarefni virðist vera að toppa hvort annað í andstyggilegheitum. Eftir því sem áfengisdrykkjan eykst verða tilsvörin eitraðari og niðurlægingin meiri. Martha er brjóstumkennanleg bredda og eiturtunga hin mesta. Elizabeth Taylor í einu af sínum bestu hlutverkum. The Graduate frá 1967 er trúlega þekktasta mynd Mike Nichols. Ben er nýútskrifaður og undir mikilli pressu frá foreldrum sínum. Eftir veislu sem haldin er honum til heiðurs tekur hann að sér að keyra eiginkonu viðskiptafélaga föður síns heim. Þar reynir hún að draga hann á tálar. Ben er leikinn af Dustin Hoffman en Anne Bancroft leikur Mrs. Robinson. Frúin er heillandi, ógnvænleg, fyndin, óhamingjusöm, drykkjusjúk, grimm, heimskona, brjóstumkennanleg og kvikindisleg. Hér er eitt frægasta atriði myndarinnar. Silkwood frá árinu 1983 er byggð á sannsögulegum atburðum og segir frá ungri verkakonu í plútóníumverksmiðju, Karen Silkwood, sem kemst að því að galli er í öryggiskerfi verksmiðjunnar. Skömmu síðar lætur hún lífið í dularfullu bílslysi. Baráttukonan Karen er hugrökk og sterk en í aðra röndina viðkvæm. Meryl Streep fer á kostum í hlutverki Karenar Silkwood. Handritið skrifaði Nora Ephron, sem síðar varð þekkt fyrir rómantískar gamanmyndir eins og Þegar Harry hitti Sally og Svefnvana í Seattle. Hér er kynningarstikla Silkwood. Working Girl er frá 1988 og í aðalhlutverkum eru Melanie Griffith og Sigourney Weaver. Hún er um einkaritarann Tess sem fær góða hugmynd sem enginn fæst til að hlusta á, þar sem hún er ekki í virðingarstöðu. Tess ákveður því að grípa til sinna ráða og þykist vera yfirmaður sinn, Katherine Parker, þegar sú síðarnefnda slasast. Eins og aðrar kvenpersónur í Mike Nichols myndum eru konurnar báðar margslungnar. Þó á yfirborðinu sé hin ljóshærða Tess sú “góða” og dökkhærð Katherine  hin “vonda” eru þær báðar breyskar og geta bæði verið andstyggilegar og vænar. Myndin Postcards From The Edge frá 1990 er ekki eins þekkt og áðurnefndar myndir. Handritið skrifaði Carrie Fisher upp úr eigin skáldsögu, sem hún byggði að einhverju leyti á ævi sinni. Lesendur þekkja Fisher nú sjálfsagt frekar sem Leiu prinsessu í Stjörnustríðsmyndunum. Póstkort frá brúninni segir frá stormasömu sambandi mæðgna, sem báðar eru leikkonur. Sú eldri lifir á fornri frægð en sú yngri glímir við eiturlyfjafíkn. Spilað er á allan tilfinningaskalann og Meryl Streep og Shirley MacLaine eru aldeilis frábærar í hlutverkum mæðgnanna Suzanne og Doris. Wit heitir afskaplega góð sjónvarpsmynd frá 2001 þar sem Emma Thompson leikur háskólaprófessorinn Vivian Bearing sem hefur sérhæft sig í ljóðum John Donne. Vivian er með krabbamein í eggjastokkum og krabbameinið er á því stigi að litlar líkur eru á að hún lifi það af. Í erfiðri meðferð gerir hún upp líf sitt, hugsar um skáldskapinn, horfist í augu við dauðann og er hrædd. Emma hafði áður leikið í mynd Nichols, Primary Colors, sem kom út 1998. Hér er stutt brot úr Wit.   Auk áhugaverðra kvenpersóna í fyrrnefndum myndum Mike Nichols má nefna Önnu og Alice í Closer, Rachel í Heartburn og Libby í Primary Colors.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.