Hrútaþing

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

„Að ári halda Nepalar alþjóðlega ráðstefnu um hættur sem stafa af hækkandi yfirborði sjávar. Fulltrúum strandríkja verður ekki boðið.“

„Alþjóðleg ráðstefna um krabbamein í blöðruhálskirtli verður haldin á næsta ári og er eingöngu hugsuð fyrir konur.“ Djók frá Eiðum konudæmi

Þetta netspaug skaust upp á yfirborðið í kjölfar þeirra tíðinda að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefði í hyggju að halda ráðstefnu um ofbeldi gagnvart konum þar sem karlar myndu einir koma saman og ræða með svonefndum rakarastofuhætti. Samstarfsaðilar Íslendinga í þessu eru Súrínamar en þar mun jafnrétti vera svotil óþekkt hugtak en Íslendingar eru svo framarlega á merinni að þeim er ætlað að koma vitinu fyrir þá. En hugmyndin er ekki ný. Grínritið Onion birti þessa frétt árið 2007 um karlmann sem tók við stjórn femínistahreyfingarinnar eftir áratuga basl. Hann leiðrétti kynbundinn launamun með nokkrum símtölum til hinna strákanna og fór svo í golf eftir hádegi.

Árið 2012 mun hafa verið haldin ráðstefna í Qassim-háskóla í Sádi-Arabíu undir yfirskriftinni: Konur í samfélaginu. Þangað munu hafa mætt fulltrúar fimmtán ríkja. o-SAUDI-ARABIA-WOMENS-CONFERENCE-570 Þessi mynd sýnir ráðstefnusalinn og vekur einkum athygli að þarna er engin kona. Við fyrstu sýn er þetta fyndið, en ekki þegar haft er í huga að í Sádí-Arabíu hafa konur ekki leyfi til að aka bíl og mega ekki fara úr landi án fylgdar karlmanns, nema forráðamaður þeirra veiti skriflegt fararleyfi. Þarna geta yfirvöld fylgst rafrænt með konum (ökklabönd?) og tjáð eiginmönnum þeirra staðsetningu hverju sinni. Konur fengu atkvæðisrétt 2011 og mega bjóða sig fram til sveitastjórna 2015. Miðað við allt þetta er samlíkingin tæplega sanngjörn, en myndin er fyndin.

Hvað segja íslenskir femínistar? Í stöðufærslu á Facebook-síðu Stígamóta sagði Guðrún Jónsdóttir frá utanferð sinni og þar kemur þetta fram: „Hvað á ég að segja um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að halda upp á 20 ára afmæli framkvæmdaáætlunar SÞ í málefnum kvenna með því að halda ráðstefnu fyrir „men only“ þar sem þeir ræða jafnréttismál og ofbeldi sérstaklega? Ég hef fengið margar fyrirspurnir frá reiðum konum víðsvegar úr heiminum og samstarfskonur mínar bíða eftir því að heyra hvað við íslensku feministarnir höfum að segja um málið.“

Hvað höfum við að segja?

Íslenskir femínistar eru margir og ólíkir og eru virkir á margs konar vettvangi. Enn hefur þó ekkert spurst til ályktana femínistafélaga eða jafnréttishópa um þetta mál. Ein viðhorfsgrein hefur reyndar birst í Mbl. Sóley Tómasdóttir lýsti sig ekki alfarið mótfallna hugmyndinni, og sagði m.a. þetta á Facebook, þann 30. sept.

Konur eru búnar að halda milljón ráðstefnur um ofbeldi gegn konum og hvernig við setjum ábyrgðina yfir á gerendur sem í flestum tilfellum eru karlar. Það hefur ekkert komið út úr því – ábyrgðin er ekki enn komin á gerendurna. Leyfum þeim að prófa þetta, kannski kemur eitthvað út úr því. En það er ekki eins og mig dauðlangi að sitja með þeim þarna.

Í athugasemdum við almennar fréttir af ráðstefnuhugmyndinni hafa sumir verið „virkir“ en óvarlegt er að titla þá femínista. Erlendis vantar ekki viðhorfin og nefna má þessa grein í Guardian sem birtist mánudaginn 6. október. Höfundur segir m.a. í niðurlagi um þessa hugmynd: „Gert er ráð fyrir að allar konur séu femínistar þótt sumar séu nógu innrættar af karlaveldinu til að segja: „Ég er kona og er því ekki eins góður bílstjóri og maðurinn minn“ og það án þess að votti fyrir háði. Í öðru lagi hafði Emma Watson ekki fyrr náð að sannfæra marga um að karlmenn eigi að taka þátt í jafnréttisbaráttunni en fram kom tillaga um að karlar einir ættu að vera í salnum. Enginn efast um að ráðstefna um rasisma þar sem eingöngu er boðið hvítu fólki yrði óviðeigandi, gagnslaus og frekar ógeðsleg. En hvers vegna veltum við þá vöngum yfir því hvort ráðstefna um jafnrétti kynjanna án radda kvenna sé góð hugmynd?“

Í margar aldir var konum ekkert boðið á ráðstefnur, hvorki til að tala né hlusta, en svo kom rifa á dyrnar. Undanfarin ár hefur hins vegar orðið trend að halda sérstakar kallaráðstefnur, svo kallar geti nú talað um hin og þessi málin í vernduðu umhverfi. Það er s.s. búið að endurskíra fyrirbærið en ekki án þess að mála kalla sem e-ar verur sem þurfa seifspeis og konur sem verur sem eðlilegt er að þurfa seifspeis frá. Flippað.

(Þóra Kristín Þórsdóttir, á Facebook 30.sept.)

Barber-pole-01Nú stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi og fyrrnefndur ráðherra leggur sitt af mörkum með þessari grein. Þar segir m.a.:

Með sama hætti og í #HeforShe-átakinu þá höfum við sett okkur það markmið að taka þátt í jafnréttisumræðunni á þeirri forsendu að hér sé ekki um kvennamálefni að ræða heldur réttindamál sem snertir okkur öll og kallar á þátttöku allra.“

Orð að sönnu en samt er rakarastofunni haldið á lofti. Miðað við það er ætlunin að karlar tali saman án aðkomu kvenna. Nokkur leit hefur staðið yfir að viðhorfum íslenskra femínista um ráðstefnuhugmynd ráðherrans en án mikils árangurs.  Knuz.is vill gjarna fá þessi viðhorf upp á yfirborðið og birta þau. Meðan umræðan er frjó í öðrum löndum, sitjum við varla þegjandi hjá, eða hvað? Netfang ritstjórnar er ritstjorn@knuz.is

Ein athugasemd við “Hrútaþing

  1. Bakvísun: Á einhver að eiga jafnréttisbaráttuna? | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.