Svarthvítt jafnrétti, rakarastofan og hvernig ég fer að því að vera ósammála sjálfri mér

Höfundur: Ásta Hlín Magnúsdóttir

rakarastofa

Knúzið kallaði í morgun eftir skoðunum íslenskra femínista á Rakarastofuráðstefnunni, ráðstefnu fyrir karla um jafnrétti kynja og kynbundið ofbeldi. Hugmyndin er til þess fallin að framkalla sterk viðbrögð og umræðu sem hins vegar hefur lítið farið fyrir, og Knúzið vildi heyra skoðanir. Ég er femínisti og langar að gera tilraun til svara kalli Knúzzins. Ég er ekki hneyksluð eða brjáluð yfir þessari hugmynd. Mér finnst hún umhugsunarverð, hún kallast á við allskonar spurningar sem eru í höfðinu á mér fyrir og kveikir margar nýjar.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, spyr í grein sinni í á Vísi í gær: ,,Hvernig getum við stuðlað að varanlegu jafnrétti kynjanna á meðan hugmyndum um kyn og valdahlutföll er viðhaldið, kynslóð fram af kynslóð?” Spurningin er mikilvæg.

Ég þarf að byrja á að segja að minn femínismi er ekki klipptur og skorinn, það eru miklu fleiri en 50 litbrigði af gráu. Ég hef brennandi sannfæringu fyrir því að allt fólk í heiminum eigi að búa við jafnrétti og félagslegt frelsi. Það er útbreidd skoðun sem er auðvelt að hafa. Hvernig komumst við þangað er spurningin sem er erfitt að svara. Ég lendi oft í vandræðum með femínismann minn. Er til eitt rétt svar?

Við búum í samfélagi þar sem konur eru undirskipaður hópur, til að leiðrétta það þarf að gera allskonar. Ég er fylgjandi allskonar sértækum aðgerðum og jákvæðri mismunun. Til að leiðrétta kerfisbundna mismunun þarf að grípa slíkra aðgerða. Sértækar aðgerðir eins og kynjakvótar eru eitthvað sem ég hugsa oft sem tímabundna lausn til að leiðrétta þessa skekkju í kerfinu. Þegar við verðum komin í útópíska draumalandið þar sem tölulegt jafnrétti er algjört þá þurfum við enga kynjakvóta. En komumst við einhvern tíma þangað? Og er fullkomið útópískt 50/50 tölulegt jafnrétti markmið í sjálfu sér? Munu kannski alltaf vera fleiri karlar en konur sem vilja vera bifvélavirkjar, og er það kannski bara allt í góðu?

tumblr_mb6xp4qzdf1qej93ko1_250Og hvað með alla rassana sem er dillað framan í mig í auglýsingum, tónlistarmyndböndum og bara út um allt. Eru þeir bara hluti af heilbrigðu kynfrelsi kvenna eða eru þeir ekki birtingarmynd undirskipunar og hlutgervingar kvenna? Má Queen B ekki bara vera kynvera tjá sitt kynfrelsi eins og hana langar? Eða er hún fórnarlamb í heimi þar sem konur komast ekki áfram á hæfileikum sínum einum saman heldur þurfa að bera hold og vera kynverur áður en þær eru manneskjur?

Svo er það tilhneiging samfélagsins til að flokka allt sem stelpulegt eða strákalegt og stilla upp sem andstæðum. Oft hafa sérstök konukvöld og kvennablöð farið í taugarnar á mér. Ég er samt alveg ótrúlega réttgetið afkvæmi kynjaðra staðalímynda um áhugamál. Ég hef áhuga á flestu því sem fram fer á konukvöldum og er skrifað um í kvennablöðum. Af hverju ættu þau að fara í taugarnar á mér? Ég get ekki ákveðið hvort ég vil kynlausan veruleika þar sem ekkert er sérstaklega fyrir konur og ekkert er sérstaklega fyrir karla eða hvort ég vil að við hættum bara að gera minna úr kvenlægum áhugamálum með því að afgreiða þau sem léttvægari en karllæg. Undirliggjandi er þá spurningin hvort það sé eðlismunur á kynjunum. Alveg síðan í sálfræði 103 hef ég verið mjög tabula rasa-sinnuð. Við fæðumst óskrifað blað. Gott og vel, þá ættu áhugamál bara að vera kynlaus, en einhver samfélagsleg innræting og uppeldi hlýtur þá alltaf ráða því á hverju við fáum áhuga, verður hjá því komist að hún ráðist að einhverju leyti af ytri líkamlegum einkennum? Það sem að lokum skiptir mestu máli er að fólk hafi raunverulegt frelsi til að hafa áhuga á öllu, burt séð frá kyni. Þá er kannski allt í lagi að 70% kvenna hafi áhuga á kjólum ef það er viðtekið að hin 30% hafi það ekki og að 20% karla geti líka haft áhuga á kjólum af því að það sé bara alveg jafn merkilegt áhugamál og enski boltinn.

vinkonurEn svona félagslega, hver er munurinn á blönduðum hópum eða hópum sem eru bara skipaðir öðru kyninu?

Síðasta haust var ég í fjarnámi frá Háskólanum á Bifröst í náminu ,,Máttur kvenna”. Það er einnar annar fjarnám tengt rekstri, þar sem meðal annars er kennt bókhald, markaðssetning og áætlanagerð. Ég valdi námið ekki vegna þess að það væri bara fyrir konur heldur vegna þess að mig langaði að bæta þekkingu mína í þessum greinum. Námið er kannski einhverskonar sértæk aðgerð má segja, að bjóða konum stutt námskeið sem snúa að rekstri vegna þess að færri konur reka fyrirtæki en karlar. Það var skoðun sumra á námskeiðinu að það að námið væri aðeins fyrir konur væri stór kostur. Sumar töluðu um að þær tjái sig öðruvísi í hópi kvenna en blönduðum hópi, það væri til dæmis auðveldara að spyrja. Aðrar nefndu að það myndaðist bara öðruvísi stemning í kvennahópi. Ég kaupi þetta alveg, þó að ég taki kannski minna eftir því í svona formlegu samhengi eins og á námskeiði. Ég á stóran vinahóp, stundum hittumst við bara stelpurnar og stundum í blönduðum hópi. Samræðurnar verða einhvernvegin hispurslausari þegar það eru bara stelpur, jafnvel þó að ég þekki þær ekki endilega betur en strákana. Stemningin er bara öðruvísi. Er það ekki bara allt í lagi?

Hugleiðingarnar hér að ofan leiða okkur vonandi í áttina að umræðu um jafnrétti. Og hlýtur ekki umræða um jafnrétti að vera af hinu góða? Ættum við ekki að ræða það sem víðast, í öllum mögulegum hópum? Þegar kemur að jafnrétti er ekkert endilega til ein leið, eitt rétt svar – Eða hvað? Það hlýtur að vera heillavænlegt að fara sem flestar leiðir að markmiðinu jafnrétti, finna sem flest svör.

Svo kemur að ,,ekkert um okkur án okkar”/,,ráðstefna um kynþáttafordóma fyrir hvíta” pælingum. Ég skil þær. Ég er að sumu leyti sammála þeim, af því að ég er svo léleg í að vera sammála sjálfri mér. Er ótrúlega vont að yfirburðahópur fundi um málefni undirskipaðs hóps? Má vera að það sé jákvætt að sá hópur sem hefur félagslega yfirburði átti sig á því og reyni að gera eitthvað í því? Getur verið að það sama eigi við með stemninguna á rakarastofu og á námskeiðinu á Bifröst? Er auðveldara fyrir karla að tjá sig, spyrja og viðurkenna fáfræði í hópi annarra karla? Hafa konur kannski miklu meiri æfingu í að tala um jafnréttismál? Þykir karlkyns femínistum erfiðara að taka þátt í umræðunni og hafa sterkar hugmyndir um femínisma í hópi kvenna með mikla þekkingu?

Eftir alltof langar vangaveltur og endalaus spurningamerki; er ekki spurningin hans Gunnars Braga um hvernig við getum stuðlað að varanlegu jafnrétti kynjanna samt ennþá stærst? Er ekki bara um að gera að prófa fleira til að reyna að svara henni?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.