Í jafnréttisleik um jólin

Höfundur: Halla Sverrisdóttir

Kynusli hjá leikfangarisa í jólabæklingnum 2013

Kynusli hjá leikfangarisa í jólabæklingnum 2013

Í dag er föstudagur og það ekki bara föstudagur heldur „svartur föstudagur“ – einnig þekktur sem „Black Friday“. Sá bandaríski og breski siður að ræsa jólaverslunarvertíðina með því að bjóða mikinn afslátt og sérkjör af vinsælum vörum þennan síðasta föstudag áður en aðventan gengur í garð hefur greinilega borist hingað til lands, því það rignir inn bleðlum og tölvupóstum með alls konar „Black Friday“-tilboðum.

Það er ekkert um að villast: við eigum sem sagt að byrja að versla og það strax í dag!

Og það eru sjálfsagt margir löngu byrjaðir að huga að jólagjafakaupum, ekki síst gjöfum fyrir börnin. En hvað á að velja, hvað hæfir hvaða barni, hvaða aldri, hvaða áhugamálum … eða hvoru kyni?

Undanfarin ár hafa margir orðið til að gagnrýna harðlega sívaxandi kynjaskiptingu í „bleikar“ og „bláar“ hillur í leikfangabúðunum, og ekki að ástæðulausu.

Á mánudaginn var birtist einmitt pistill hér á knúzinu um nýlega viðleitni LEGO til að fjölga kvenkyns legófígúrum sem fengju að fást við eitthvað annað en klappa hestum og fara í spa og á síðasta ári vakti það mikla athygli – og umtal, jákvætt sem neikvætt – þegar leikfangarisinn Toys´R´Us ákvað að draga verulega úr kynbundinni markaðssetningu í auglýsingabæklingum sínum og sýna börn af báðum kynjum að leika sér með margs konar leikföng og í ýmiss konar hlutverkum.

Auglýsingaherferð frá Let Toys Be Toys. Setjum ekki börnin okkar í kassa!

Auglýsingaherferð frá Let Toys Be Toys: Setjum ekki börnin okkar í kassa!

Sú breyting var meðal annars gerð í kjölfar þrýstings frá samtökunum Let Toys be Toys, sem hafa barist mjög fyrir því að framleiðendur hætti að reyna að stýra verslunarhegðun viðskiptavina sinna með því að markaðssetja tiltekin leikföng sem „stelpudót“ eða „strákadót“, enda geti það orðið til að þrengja sjóndeildarhring barna og þvinga þau of snemma og að ástæðulausu í átt að tilteknu hugarfari, áhugasviðum og sjálfsmynd.

Samtökin hafa meðal annars ,,,

  • vakið athygli á furðulegri bók um það hvernig Barbí getur fengið sniðuga hugmynd að tölvuleik, en ekki hannað leikinn sjálfan nema fá aðstoð karlkyns vina við forritunina
  • harmað þá einkennilegu ákvörðun Ferrero-samsteypunnar að gera gömlu góðu Kinder-eggin kynjaskipt
  • mælst til þess að McDonalds (sem er reyndar ekki leikfangaverslun en þrátt fyrir það stærsti dreifingaraðili barnaleikfanga í heiminum!) hætti að spyrja fólk sem pantar barnamáltíð hvort það vilji fá leikfang með fyrir stelpu eða fyrir strák og
  • skrifað opið bréf til leiðandi framleiðanda á sviði lita- og föndurbóka í Bretlandi til að biðja hann að hætta að gefa út „Stóru litabókina fyrir stelpur“ og „Stóru litabókina fyrir stráka“ en íhuga að setja þess í stað á markað, tja … „Stóru litabókina fyrir krakka“?

Hefðbundin bókarkápa frá bókaforlaginu Ladybird. Þessu stendur til að breyta.

Og sum af markaðsráðandi fyrirtækjum í Bretlandi hafa, rétt eins og Toys´R´Us, lagt eyrun við og brugðist við gagnrýninni. Þannig ákvað Ladybird, sem er rótgróið barnabókaforlag í Bretlandi, nýverið að hætta að merkja bækur frá sér sérstaklega sem ætlaðar drengjum eða stúlkum.

Það hvernig leikföng eru merkt, þeim pakkað og þeim stillt út í verslun hefur áhrif á neysluvenjur viðskiptavinanna. Þannig finnst til dæmis mörgum óþægilegt að kaupa leikfang sem er bleikt á litinn fyrir strák, eða leikfang handa stúlku sem er merkt „Fyrir stráka“.

Sumir kaupendur kunna einfaldlega að vera ómeðvitaðir um þær takmarkanir sem settar eru á vöruúrvalið og valkostina sem þeim standa til boða. Þeir taka ekkert endilega eftir því að það vantar alveg allt vísindadótið og byggingasettin í „stelpudeildina“ eða að það eru engir litir, föndurvörur. leir, perlur eða eldhúsleikföng, svo ekki sé minnst á brúður, í „strákadeildinni“. Og ef barni er aldrei leyft að velja er hætta á að barnið fái aldrei tækifæri til að uppgötva hvort það hefur ánægju af eða finnur sig í tilteknum leikföngum eða leikjum.

(lauslega þýtt af heimasíðu Let Toys Be Toys)

Maggie Cole var ekki hress með þetta.

Maggie Cole var ekki hress með þetta.

Allt er þetta vonandi til marks um framsæknari hugsunarhátt og auknar kröfur neytenda til þeirra fyrirtækja sem vilja krækja í krónurnar okkar. Og það gleður líka hjartað þegar fréttir berast af því að börnin sjálf geri slíkar kröfur, eins og sjö ára stúlkan sem var ekki sátt við markaðssetningu hjá stórverslanakeðjunni Tesco í Bretlandi um daginn – að gefnu tilefni .

Maggie Cole, sjö ára, hefur nefnilega lengi haft mikinn áhuga á riddurum, drekum og ofurhetjum. Og hún kunni hreint ekki að meta það þegar Tesco auglýsti vekjaraklukku með mynd af ofurhetju sem „sniðuga gjöf handa strák“. Karen Cole, móðir Maggiear, tók mynd af dóttur sinni og skellti á netið og myndin fór um netið sem eldur í sinu. Tesco brást hratt og vel við, breytti auglýsingatextanum og baðst afsökunar.

„Í fyrra útskýrði ég fyrir henni að „öll leikföng eru fyrir alla“, vegna þess að hún var farin að hafa áhyggjur af því að sum væru bara ætluð strákum og annað bara fyrir stelpur. Þegar hún sá auglýsingaskiltið varð hún reið því það sem þar stóð var í algerri mótsögn við það sem ég hef sagt  henni,“  sagði Karen Cole. Hún segir að hún hafi orðið „alveg steinhissa“ á viðbrögðunum sem myndin fékk á samfélagsmiðlum og orðið „mjög ánægð“ þegar auglýsingaskiltið var fjarlægt.

Talsmaður Tesco sagði: „Skiltið hefur verið fjarlægt og okkur þykir afar leitt ef það hefur falið í sér villandi skilaboð.“

(af vefsíðu BBC, 25. nóvember s.l.)

Nei, við skulum ekki setja börnin okkar í kassa. Maggie Cole á ekki slíka meðferð skilda, né nokkuð annað barn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.