1. desember í jóladagatalinu er …Niki de Saint Phalle

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Niki de Saint Phalle (1930 – 2002)  

Niki de Saint Phalle var fjölhæf listakona sem vann með málverkið, skúlptúra og gerði kvikmyndir. Hún var sjálflærð í listinni, innblásin af Gaudí eins og leynir sér ekki í verkum hennar. Verk eftir hana má finna víða, hún á heiðurinn af Stravinsky gosbrunnunum við Pompidou safnið í París, en þá vann hún ásamt eiginmanni sínum, Jean Tinguely. Niki átti við geðræn vandamál að stríða og þurfti stundum að vera á spítala vegna þess. Hún sagði frá því að faðir hennar misnotaði hana sem barn og fjallar um það í kvikmyndinni „Daddy“.

Við fæðum börnin okkar

Niki var umhugað um stöðu konunnar í karllægum heimi tækninýjunga sem oft tengdust vopnaframleiðslu. Karlar sátu einir að öllum pólitískum ákvörðunum og styrkur konunnar var einskis virtur. „Les nanas“, sem mætti til dæmis kalla „Píurnar“ á íslensku, voru magnaðir skúlptúrar, konur í yfirstærð, mjúkar línur, litir og munstur. Karlar áttu að finna fyrir smæð sinni gagnvart þessum tröllvöxnu og íðilfögru valkyrju-píum. Þær voru oft svartar, en Niki var virkur þátttakandi í baráttu svartra í Bandaríkjunum á þessum tíma. Árið 1966 setti Niki upp hina mögnuðu „Hon“ í Stokkhólmi. Fólk gat gengið inn í þá píu, um fæðingarveginn, drukkið mjólk í öðru brjóstinu og bara notið þess að upplifa það að fá að vera inni í píunni. Ef marka má texta við myndir og líkan af verkinu á sýningu sem stendur nú yfir í París, varð barneignasprenging níu mánuðum síðar í Stokkhólmi, svo sterka örvun hafði verkið á sýningargesti.

Skotið á allt hið slæma

Upp úr 1970 færði Niki sig yfir í „Les Tirs“ eða „Skotin“. Hvítir skúlptúrar geymdu málningarpoka og lakkúðabrúsa innra með sér og þegar skotið var á þá spýttist liturinn út og lak niður skúlptúrinn. Þessi verk vöktu sterk viðbrögð. Hún var til dæmis gagnrýnd fyrir að leyfa sér að skjóta á trúarleg tákn, en hún sagði sjálf að hún skyti aldrei á Guð, aðeins á kirkjuna sem stofnun. Horfið á þessa mynd, sem skýrir þessi verk ágætlega og segir okkur hve sterk áhrif þau höfuð á Niki sjálfa, sem fannst hún sogast inn í þau, verða háð þeim.

Að lokum gef ég Niki orðið:

Ég er hrifin af öllu sem er hnöttótt.

Ég er hrifin af hinu hnöttótta, bugðunum, bylgjunum, jörðin er hnöttótt, jörðin er brjóst.

Ég kann ekki við rétta hornið, það hræðir mig. Rétta hornið vill drepa mig, rétta hornið er morðingi. Rétta hornið er hnífur, rétta hornið er helvíti.

Ég kann ekki við samhverfuna. Ég hrífst af ófullkomleikanum.

Hringir mínir eru aldrei alveg kringlóttir. Það er val, fullkomnunin er köld.

Ófullkomleikinn kveikir lífið, ég elska lífið.

Ég er hrifin af ímynduninni eins og munkur er hrifinn af Guði.

Ímyndunin er athvarf mitt, höll mín ímyndunin er gönguferð innan í kassa og hring.

Ég er blind, skúlptúrar mínir eru augu mín. Ímyndunin er regnboginn, hamingjan er ímynduð, ímyndunin er til.

Fjölda heimilda má finna um Niki de Saint Phalle á netinu, en einmitt nú er mikil yfirlitssýning á verkum hennar opin í Grand Palais í París.

Textinn eftir Niki er þýddur af bls. 9 í fræðslubæklingi sem gefinn var út á vefnum í tilefni sýningarinnar, því miður aðeins til á frönsku.

Að lokum er hér fín myndamappa.

Þessi pistill tilheyrir aðventuþema Knúzz þar sem við kynnum merkar konur sem verðskulda athygli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.