JafnRéttó

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Retto1

Um 40 krakkar eru í Skrekkshópnum og einhverja vantar á myndina.

Skrekkur er hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík þar sem um 30 skólar keppa um að komast með atriðin sín í úrslit í Borgarleikhúsinu. Eitt þeirra vakti sérstaka athygli Knúzz og því var haldið í heimsókn í Réttarholtsskóla til fundar við stóran og fjörugan hóp unglinga sem sjá má á meðfylgjandi myndum. Í forsvari voru Björn Boði og Anna María en margir lögðu orð í belg. Þetta er það helsta sem bar á góma.

„Við vorum sex saman sem ákváðum að búa til atriði fyrir Skrekk. Þá var ræða Emmu Watson mikið í umræðunni og fékk okkur til að hugsa mikið um hvernig við upplifðum jafnrétti og misrétti og vildum koma því á framfæri í atriðinu. Við skoðuðum líka alls konar heimildir á netinu, reynslusögur og þess háttar.

Þetta var ekki ljóst í byrjun. Við höfðum fullt af hugmyndum en atriðið má bara vera sjö mínútur og við komum aldrei öllu að. En við ákváðum að gera þetta og sáum um allt, fengum fullt af krökkum til að vera með, völdum í hlutverkin og svoleiðis. Enginn fullorðinn kom að þessu.

Atriðið fjallar um tvíbura sem eru að fæðast og dansararnir eiga að tákna samfélagið og hvernig það setur okkur í þessi tvö box, bleika og bláa.

Kynjahlutföllin í hópnum eru að vísu ekki jöfn því það er erfitt að fá stráka til að dansa. En við fengum þó þessa fimm og þeir voru góðir.“

Hugsa krakkar á ykkar aldri mikið um jafnrétti.

Það er misjafnt.Of margir halda að þetta snúist um að konur fái öll völd.

Mjög margir vilja ekki nota orðið femínisti þótt þeir séu sammála hugmyndafræðinni. Svo hefur það fengið mjög neikvæða merkingu.

Margir misskilja orðið femínisti og halda að það snúist bara um að konur ráði öllu þegar það snýst aðallega um jafnrétti kynjanna. Við vildum líka sýna í atriðinu að femínismi er bæði fyrir stelpur og stráka. Líka af því að sumum strákum finnst ekki kúl að vera femínisti og finnst orðið jafnvel kvenlegt.

Við lærum um jafnrétti kynjanna í þjóðfélagsfræði. En þetta eru svo gamlar bækur að mér finnst vera of mikið af röngum hugmyndum um jafnrétti og femínisma í þeim. Of mikið gengið út frá eðlishyggju og staðalímyndum og við fjöllum líka um það í atriðinu.

Hvar og hvernig verðið þið vör við áhrif staðalímyndanna?

Á netinu, í tímaritum, auglýsingum, út um allt. Stelpur eiga að vera grannar, strákar með vöðva og sterkbyggðir, stelpur smáar. Þetta er þrýstingur sem gengur ekki vel að standast því maður er alltaf hræddur um að vera dæmdur. Það er ekkert auðvelt að vera öðruvísi og tilheyra ekki einhverjum hóp.

Við strákarnir finnum þetta miklu fyrr, t.d. þegar við erum 6-7 ára.  Maður á ekki að vera stelpulegur, ekki leika við stelpur og svoleiðis. Ekki vera kvenlegur.

Það er ekki neikvætt í sjálfu sér en það er alltaf þessi þrýstingur. Líka þetta að strákar eiga ekki að gráta og ekki tala um tilfinningar. Þá eru þeir kallaðir aumingjar eða jafnvel hommar.

retto2

Björn Boði og Anna María úr Skrekkhópi Réttó

Manni finnst skrítið að allir þurfi að vera eins og falla inn í einhvern ramma. Og sá sem reynir að vera öðruvísi, fellur ekki að einhverri staðalímynd, er oft dæmdur fyrir það. Maður dæmir sjálfur, maður finnur það alveg. Allir gera það þó það sé geðveikt rangt. Þetta er oft ómeðvitað.

Líka af því að sumum strákum finnst ekki kúl að vera femínisti og finnst orðið jafnvel kvenlegt. Það hefur hjá mörgum svo neikvæða merkingu.

Eins og að vera kallaður hommi, eins og það sé eitthvað rangt. Eins og að hlaupa eins og stelpa. Femínismi er soldið svipað. Bara út af þessu er miklu auðveldara að segjast vera jafnréttissinni.

Fólk veit ekki að femínismi er það sama og jafnrétti. Þetta er svo mikil fáfræði.

Er einhver jafnréttisfræðsla í skólanum?

Þegar við vorum í 8. bekk kom einhver kona og hélt fyrirlestur um femínisma og var eiginlega alger öfgasinni, hreinlega með rangar hugmyndir og það breytti viðhorfi allra krakkanna hér í skólanum. Við í atriðinu vorum meira að segja pínu stressuð yfir því hvernig fólk myndi taka okkur út af þessu. En hún sem sagt náði alls ekki til okkar. Þetta varð eiginlega rifrildi og okkur fannst við hafa ágæt rök.

En hún talaði bara um að konur ættu að ráða öllu og karlar væru bara ömurlegir. Og við konur ættum að vera meira líkari körlum.

Það skiptir mjög miklu máli hvernig þeir eru sem kynna svona mál. Of miklir öfgar geta skilað röngum hugmyndum og þetta hefur áhrif á neikvæða ímynd orðsins. Þetta fer út í of mikil smáatriði og þetta fælir fólk frá. Og eftir þennan fyrirlestur sögðust margir ekki geta verið femínistar , einmitt út af þessu.

Þetta skiptir máli og ég get nefnt annað dæmi. Sigga Dögg, kynfræðingur. Kynfræðsla er ekkert mjög spennandi en hún hefur þetta opið og á spjallnótum og vekur áhuga manns.

Ég fór á einn fyrirlestur og lærði meira á klukkutíma en á þremur árum í skólanum. Hún nær betur til manns því hún talar meira við mann, er ekki að segja manni hreinlega hvernig maður á að vera. Ekkert að reyna að stjórna manni að gera eitthvað ákveðið.

Besta fræðslan er að segja hreinlega um hvað jafnrétti snýst. Þetta er ekki flókið. Sá sem fattar þetta ekki, er ekki í lagi.

Þurfa strákar fyrirmynd í þessum efnum?

Já. Þeir myndu frekar líta upp til einhvers, heldur en einhverrar konu. Ef einhver eins og David Beckham myndi vera það, hefði það miklu meiri áhrif.

Þá myndu fleiri strákar fatta að þetta höfðar líka til þeirra.

Það skiptir máli ef fyrirmyndin er fræg. Emma Watson var það áður en hún hélt ræðuna sína. Hún höfðaði þess vegna meira til okkar, hún er líka nálægt okkar aldri. Strákar þurfa einhvern eins og hana.

Það þarf að efla jafnréttisfræðslu í efstu bekkjum grunnskólans svo að fólk hætti að dæma eitthvað sem það veit ekki hvað er. Fordómar eru svo mikil fáfræði. Það þarf einhvern góðan fulltrúa í þetta, álíka góðan og Sigga Dögg er í kynfræðslunni, sem gæti farið á milli skóla og félagsmiðstöðva. Það þarf líka að hugsa um að fá stráka til að kynna, þá koma fleiri til að hlusta. Þeir hlusta ekkert ef það kemur einhver miðaldra kona. Þeir myndu tengja meira við þetta ef sá sem kynnir er nær þeim í aldri og strákur.

Það er best að fá fólk sem talar við okkur en segir okkur ekki hvernig við EIGUM að vera.

Upptaka af atriði Réttarholtsskóla í Skrekk árið 2014. Upptakan er á YouTube og er sótt hingað.

Ein athugasemd við “JafnRéttó

  1. Bakvísun: Við fæðumst karlkyns eða kvenkyns – ekki kvenleg eða karlmannleg | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.