5. desember í jóladagatalinu er… Ada Lovelace

Höfundur: Herdís Helga Schopka

Google heiðraði Ada Lovelace á 197 ára afmælisdaginn hennar, 10. desember 2012. Mynd héðan.

Google heiðraði Ada Lovelace á 197 ára afmælisdaginn hennar, 10. desember 2012. Mynd héðan.

 

Ada Lovelace (1815-1852)

 Ada Lovelace var enskur stærðfræðingur og rithöfundur. Í dag er hún fyrst og fremst þekkt fyrir vinnu sína við eina af fyrstu tölvunum, greiningarvél stærðfræðingsins Charles Babbage, þar sem hún vann sér inn nafnbótina fyrsti forritarinn. Breska tölvunarfræðifélagið hefur veitt orðu í hennar nafni síðan 1998 og árleg ráðstefna félagsins fyrir konur í grunnnámi í tölvunarfræði er kennd við Ada. Í miðjum október á hverju ári er Ada Lovelace-dagurinn haldinn hátíðlegur til að vekja athygli á framlagi kvenna til vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði.

Vatnslitamynd af Ada Lovelace, Mynd héðan.

Vatnslitamynd af  Ada Lovelace, eða Ada King, barónessu Lovelace eins og hún hét réttu nafni.  Mynd héðan.

Augusta Ada King, barónessa Lovelace fæddist sem Augusta Ada Byron þann 10. desember 1815.  Hún var af aðalsættum, eina barn enska skáldsins Lord Byron og eiginkonu hans Anne Isabella Byron. Faðir hennar var afar vonsvikinn að hafa ekki eignast son og yfirgaf konu sína og barn þegar Ada var eins mánaðar gömul. Málið vakti mikla athygli í hinu siðprúða viktoríanska samfélagi þess tíma og Ada varð strax á barnsaldri vel þekkt vegna erja foreldranna. Lord Byron dó þegar Ada var aðeins átta ára gömul, án þess að sjá dóttur sína nokkru sinni aftur. Móðir Ada vildi lítið af dótturinni vita og barnið ólst að mestu upp hjá móðurömmu sinni.

Þegar Ada var 19 ára var hún orðin fastur gestur við hirðina, þar sem hún var vinsæl og vinmörg. Ári síðar giftist hún baróninum William King, sem síðar varð jarlinn af Lovelace, og eignaðist með honum þrjú börn, hið síðasta árið 1839. Ada var fjárhættuspilari og reyndi að nýta sér stærðfræðikunnáttu sína við spilaborðið. Það fór ekki eins vel og til stóð og hún tapaði þúsundum punda á spilamennskunni.

Hæfileikar Ada í raunvísindum komu snemma í ljós. Þegar hún var tólf ára ákvað hún til dæmis að hún ætlaði að fljúga. Hún  eyddi svo löngum tíma í að kynna sér líkamsbyggingu fugla, leita að hentugu efni í vængi, skrifa bók um athuganir sínar og ákveða hvers konar áhöld hún þyrfti að taka með sér í flugferðina (meðal annars áttavita, til að rata). Hún hafði ýmsa einkakennara og -kennslukonur og tók mestu ástfóstri við Mary Somerville, sem var virt vísindakona, og þær héldu sambandi í mörg ár. Náðargáfa Ada í stærðfræði kom fyrst í ljós þegar hún var 17 ára gömul og stærðfræðiiðkun varð aðalviðfangsefni hennar það sem eftir var.

Þýðing Ada Lovelace á riti Menabrae. Mynd héðan.

Úr þýðingu Ada Lovelace á riti Menabrae um greiningarvélina. Mynd héðan.

Mary Somerville kynnti Ada fyrir stærðfræðingnum Charles Babbage árið 1833 og nokkrum mánuðum síðar sýndi hann henni prótótýpu sína af reiknivél sem átti að geta leyst margliður (e. Difference Engine). Mörgum árum síðar (1842-43) eyddi Ada svo níu mánuðum í að þýða rit ítalska stærðfræðingsins Luigi Menabrea um næstu vél Babbage, greiningarvélina (e. Analytical Engine). Ada bætti nokkrum viðaukum aftan við rit Menabrea, sem voru lengri en ritið sjálft. Í viðauka G setti Ada fram fullbúna forskrift fyrir vélina til að reikna Bernoulli-rununa, sem hefði virkað alveg hárrétt ef vélin hefði einhvern tímann verið búin til. Þessi viðauki, sem inniheldur fyrsta tölvuforrit sögunnar, hefur haldið nafni Ada á lofti til dagsins í dag.

Ada lét sér ekki nægja að skrifa fyrsta heila tölvuforrit allra tíma heldur spáði hún, í þessum sömu viðaukum, fyrir um framtíðarmöguleika tölvunnar. Hún gerði sér grein fyrir því að tölvur gætu haft mun víðara notagildi en einungis að leysa jöfnur og sá fyrir að þær gætu leyst alls konar vandamál, t.d. samið tónlist, svo lengi sem hægt væri að tjá grunntengsl viðfangsefnanna í óhlutbundnu formi tölvumálsins. Þessi innsýn var gríðarlega róttæk á sínum tíma og segja má að í þessu samhengi hafi Ada verið heilli öld á undan sinni samtíð.

Ada dó 27. nóvember 1852, aðeins 36 ára að aldri, úr legkrabbameini. Síðustu mánuði ævinnar var hún ein í umsjá móður sinnar, þar sem eiginmaður hennar yfirgaf hana af óþekktum ástæðum.

 

 

Heimild: http://en.wikipedia.org/wiki/Ada_Lovelace

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.