Við fæðumst karlkyns eða kvenkyns – ekki kvenleg eða karlmannleg

Höfundur: Þorsteinn V. Einarsson

 

Myndin er sótt hingað.

Myndin er sótt hingað.

Eitt alöflugasta stjórntæki okkar samfélags er líklega kynjakerfið. Kerfið sem stjórnar því að við hegðum okkur og lítum út í samræmi við okkar líffræðilega kyn. Rækilega stjórnað af engum og öllum því við sjálf, þú og ég, sjáum um að halda öllu eins og það á að vera samkvæmt viðteknum kynjaímyndum. Með dyggri aðstoð fjölmiðla, kvikmynda og auglýsingaefnis fyrirtækja sem birta gagnrýnislaust staðlaðar og úreltar myndir af kynjunum. Þetta kerfi setur strákum og stelpum ákveðnar skorður og við leitumst stöðugt við að passa inn í okkar kynhlutverk. Hlutverkið að vera karlmannlegur eða kvenleg (normið), vitaskuld eftir því hvort við erum karlkyns eða kvenkyns.

 

MIG DREYMIR

Mig dreymir um að strákar geti gengið um með naglalakk án þess að nokkur tengi það við niðurlægingu eða kvenleika. Mig dreymir um að stelpur megi vera „strákalegar“ án þess að nokkur finni eitthvað athugavert við það. Mig dreymir um að unglingsdrengir geti talað um tilfinningar sínar við vini sína án þess að tengja það við „kellingaskap“. Mig dreymir um að karlar geti æft ballett án þess að það sé talið „gay“ (sem er vísun í kvenleika tengdan samkynhneigð karla og á að vera niðurlægjandi fyrir karlmann). Mig dreymir um að fjögurra ára strákur geti klæðst bleikum buxum og fjólubláum glimmer sokkum (ekki á sama tíma, það væri ósmekklegt) án þess að nokkur tengi það við að vera „stelpulegt“. Mig dreymir um að fólk hætti að tefla fram drengjum og stúlkum sem eðlislega ólíkum mannverum. Mig dreymir um samfélag án lýsingarorða með vísan í kyn (e. sex). Mig dreymir um að við verðum jafnar manneskjur metnar á eigin verðleikum óháð kyni og kyngervi.

 

RAUNVERULEIKINN

Fyrirmyndir unglinga? Myndin er sótt hingað.

Fyrirmyndir unglinga? Myndin er sótt hingað.

Rannsókn Ársæls Arnarsonar og Þórodds Bjarnasonar leiddi í ljós að unglingsdrengir vilja vera vöðvastæltir á meðan unglingsstúlkur vilja vera grennri. Önnur íslensk rannsókn leiddi í ljós að 40% stúlkna í 10. bekk, sem eru í eðlilegri þyngd, eru í megrun eða vilja grenna sig. Kemur það heim og saman við þær hugmyndir okkar að karlmaður eigi að vera vöðvastæltur en konur eigi að vera grannar.

Kynjakerfið hefur ekki bara stjórn á útlitshugmyndum okkar heldur líka athöfnum. Íslensk rannsókn hefur sýnt að ungmenni eru íhaldssamari nú en áður og telja til að mynda að konur eigi frekar að elda og þrífa en karlar.

Þetta stjórntæki, kynjakerfið, sem við pössum rækilega upp á virðist þó halla meira á kvenkynið sem svo bitnar aftur á karlkyninu. Dæmigerð kvennastörf eru þannig lægra metin til launa en dæmigerð karlastörf og stelpur njóta meiri virðingar fyrir að vera „strákalegar” en strákar fyrir að vera „stelpulegir“.

Þannig virðist eftirsóknarverðara, í okkar upplýsta samfélagi, að vera strákalegur hvort sem þú ert karlkyns eða kvenkyns heldur en að vera stelpulegur. Þótt svigrúmið fyrir að fara á svig við kynjaímyndir, í hvora átt sem er, sé nánast ekkert.Þessar frelsishömlur birtast meðal annars í því að börn sem fara út fyrir kynjaboxið eru líklegri til að verða fyrir einelti. Stór hluti eineltis miðar að því að ýta fólki aftur „á sinn stað“ þannig að það hegði sér, klæði sig og velji sér áhugamál sem samræmast kyni sínu.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson færði okkur þó góðar fréttir í bók sinni Karlmennska og jafnréttisuppeldi því þrátt fyrir vald kynjakerfisins á okkur, þá væru kynjaímyndirnar og kynhlutverkin menningarbundin. Karlmennska og kvenleiki séu ekki áþreifanlegt fyrirbrigði heldur einungis hugmyndir styrktar af samfélaginu. Benti Ingólfur á að þar af leiðandi sé hægt að hafa áhrif á þær. En hvernig er hægt að breyta svo öflugu stjórntæki? Hvernig er hægt að afbyggja kynjakerfið?

 

LEIÐIN AÐ DRAUMNUM

Leiðin er í gegnum unglingana okkar. Unglingar búa nefnilega margir við ólíka menningu en flestir aðrir. Og máttur unglingamenningarinnar er oft vanmetinn. Áhrifin sem unglingar hafa á okkur er kannski eins og kynjakerfið, ekkert svo sýnilegt í fljótu bragði en gargar á þig um leið og þú tekur eftir því.

Frá undirbúningi að keppninni Stíll, sem er hönnunarkeppni á milli félagsmiðstöðva þar sem keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun. Myndin er sótt hingað.

Frá undirbúningi að keppninni Stíll, sem er hönnunarkeppni á milli félagsmiðstöðva þar sem keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun. Myndin er sótt hingað.

Unglingar eru í stöðugri leit að sjálfum sér: hvað passar, hvað má, hvað má ekki og hvernig á að vera? Þau spyrja ekki fullorðna eða leita samþykkis hjá einhverju yfirvaldi, heldur hjá vinum sínum, sem svara í takt við unglingamenninguna. Alveg eins og kynjakerfið virkar. Þrátt fyrir þessa stöðugu leit að sjálfum sér og viðleitnina að „fitta inn“, þar sem unglingarnir sjálfir virðast hafa alvald, þá eru nokkrir lykilaðilar sem hafa áhrif. Lykilaðilar eru þeir sem ná inn í unglingamenninguna, sem eru samþykktir af henni og sem „fitta inn“. Neikvæðu fyrirmyndirnar sem ná inn birtast í fjölmiðlum og vefmiðlum sem hafa sín áhrif en aðallykillinn að unglingamenningunni og draumnum mínum eru starfsmenn félagsmiðstöðvanna. Í starfi mínu í félagsmiðstöð nokkur síðustu ár hef ég séð hvernig starfsmenn félagsmiðstöðva, meðvitað og ómeðvitað, móta sjálfsmynd, skoðanir og viðhorf unglinga. Taki allir félagsmiðstöðvarstarfsmenn sig saman í andlitinu, setji kynjagleraugun upp og markvisst ráðast gegn kynjakerfinu í öllu sínu starfi mun árangurinn ekki láta á sér standa. Þar sem 80-90% unglinga koma að einhverju merki við í félagsmiðstöðvastarfinu gætum við verið að fá upp æsku sem er meðvitum um dulið vald og skaðsemi kynjakerfisins.

Þótt starfsmenn félagsmiðstöðva og unglingar landsins vakni til vitundar um eyðileggingarmátt kynjakerfisins þurfa fleiri að vakna. Vakni allir, útrýmum við kynjabundnum launamun, einelti vegna kyngervis og niðurlægingu í nafni kvenleikans. Þannig verðum við jafnar manneskjur metnar á eigin verðleikum óháð kyni og kyngervi. Væri það ekki dásamlegt? Ljúkum þessu með orðum frá unglingum úr Réttarholtsskóla í hæfileikakeppninni Skrekkur 2014: „Ef ekki núna, hvenær þá? Ef ekki þú, hver þá?“
Skrifað upp úr verkefni höfundar í Kynjafræði við Háskóla Íslands (heimildir og tilvísanir hafa að mestu verið fjarlægðar).

Greinin birtist fyrst hér og er endurbirt á knuz.is með góðfúslegu leyfi.

Ein athugasemd við “Við fæðumst karlkyns eða kvenkyns – ekki kvenleg eða karlmannleg

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.