6. desember í jóladagatalinu er… Marguerite Durand

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Marguerite-Durand-1910

Marguerite Durand árið 1910, þegar hún bauð sig fram til þings. Mynd héðan.

Marguerite Durand (1864-1936)

 

Marguerite Durand lærði leiklist og var ráðin í Þjóðleikhúsið, Comédie Française, þar sem hún var iðulega sett í hlutverk barnslega sakleysingjans. Árið 1888 yfirgaf hún leikhúsið og hellti sér út í blaðamennsku og pólitík, við hlið nýbakaðs eiginmanns, sem hún skildi við þremur árum síðar. Eftir skilnaðinn fékk hún vinnu hjá Le Figaro.

Árið 1896 var hún send út af örkinni til að fjalla á hæðnislegan hátt um róstur og skringilegheit í kringum Alþjóðlega ráðstefnu femínista sem haldin var í París. Greinina skrifaði hún aldrei, heldur heillaðist af inntaki ráðstefnunnar og réttmæti krafna kvennana sem hana sóttu. Þar fæddist La Fronde, dagblað og síðar mánaðarrit sem rekið var og skrifað af konum eingöngu. Blaðið fjallaði þó alls ekki aðeins um konur, heldur um þjóðmál almennt, líkt og önnur dagblöð.

Forsíða La Fronde. Mynd héðan.

Forsíða La Fronde. Mynd héðan.

Frondan náði árangri í ýmsum baráttumálum, s.s. að veita konum aðgengi að námi í Listaháskólanum í París, að þingpöllum og í dómshöllina og að þær gætu fengið tilnefningar til orðuveitinga. Blaðið vakti mikla athygli fyrir nokkrar greinar, til dæmis umfjöllun góðrar vinkonu Marguerite, Mariu Pognon, um þátttöku kvenna og barna á vinnumarkaðnum, sem benti á að miðað við hve umfangsmikil sú þátttaka væri, mætti undrast hvernig „öll umfjöllun um konur snerist að fegurð, kynþokka og öðrum væmnislegum óþarfa“.

Þótt Frondan legði upp laupana 1905 hélt Marguerite Durand ótrauð áfram og stofnaði ný blöð eða vann að ýmsum baráttumálum, setti upp ráðstefnur og sýningar á verkum kvenna. 1910 vann hún að framboðum kvenna til þingkosninga og bauð sig sjálf fram. Þessum framboðum var að sjálfsögðu hafnað af sýslumanni sem ólögmætum. Árið 1927 bauð hún sig aftur fram, en þá í bæjarstjórnarkosningum í París. Konur kusu í fyrsta skipti í Frakklandi árið … haldið ykkur fast … 1945, 9 árum eftir andlát þessarar ötulu baráttukonu.

Árið 1931 þáði París safn ritverka sem Marguerite Durand hafði viðað að sér um konur og femínisma, allt frá stofnun La Fronde 1897. Þar með var kominn vísir að fyrsta femíníska bókasafni Frakklands, sem ber nú nafn hennar og er til húsa í nútímalegri byggingu í 13. hverfi borgarinnar.

 

Heimildir:

http://www.archivesdufeminisme.fr/liens/bib-marguerite-durand-presentation/

http://www.women-equity.org/accueil/all/article/marguerite-durand-1864-1936_97

http://fr.wikipedia.org/wiki/Marguerite_Durand_%28f%C3%A9ministe%29

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.