Rassskellingar, ritskoðun, réttindi: Hugleiðing um bakþanka Hildar Sverrisdóttur

Höfundur: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

UK porn

*VV* – textinn inniheldur grófar lýsingar á kynferðisofbeldi

Ég las pistil í Fréttablaðinu í gær eftir Hildi Sverrisdóttur sem fjallaði um ákvörðun í Bretlandi um að banna tilteknar kynlífsathafnir í þarlendu klámi. Þetta var borið saman við réttindabaráttu samkynhneigðra (sjá meðfylgjandi hlekk). Pistill Hildar vakti með mér ýmsar vangaveltur. Raunar hafði ég lesið um ákvörðun Breta fyrr í vikunni og þekkti því málið, enda hef ég sterkar skoðanir á ritskoðun og er í eðli mínu andvíg henni. Ég er hjartanlega sammála Hildi um að fólk eigi rétt á að stunda kynlíf eftir eigin höfði, hvort sem það innifelur flengingar, saflát eða annað, svo fremi sem aðilar eru samþykkir, lögráða og njóta þess sem fram fer.

Að þessu sögðu tengist ákvörðunin sem tekin var í Bretlandi ekki að rétti fólks til þess að stunda hverskyns kynlíf í sínu svefnherbergi, heldur klámiðnaðinum. Það væri ofureinföldun að afgreiða ákvörðunina sem teprulega ritskoðun á rassskellingum í klámi, því hún beinist að öllu alvarlegri hlutum, svo sem

1) athæfi sem fer fram gegn vilja klámmyndaleikaranna

2) athæfi sem gæti stofnað þeim í lífshættu og

3) athæfi sem líkir eftir barnaklámi.

Með atriði 1 í huga velti ég fyrir mér hvort einhver sé í alvöru á móti því að banna framleiðslu klámefnis sem fer fram gegn vilja þátttakenda og brýtur þar með á mannréttindum þeirra. Varla finnst einhverjum í lagi að raunverulegar nauðganir á klámmyndaleikurum séu settar fram sem afþreying?

Hvað atriði 2 varðar verður mér hugsað til vinnuskilyrða, sem virðast oft gleymast í umræðunni um klám. Vinnuskilyrði klámmyndaleikara eru til dæmis þau að leggja sig í lífshættu við að láta kyrkja sig til meðvitundarleysis – en á sama tíma finnst okkur eðlilegt að hlífa starfsfólki veitingastaða við sígarettureyk. Hvers vegna er okkur ekki jafn umhugað um heilsu beggja þessara starfsstétta?

Hvað atriði 3 varðar er spurning hvort gervibarnaklám eigi yfirhöfuð rétt á sér, í ljósi þess að slíkt klám getur verið afar raunverulegt og getur gert lögreglufólki ennþá erfiðara fyrir að uppræta skelfilega vandamálið sem barnaklám er?

porn lyklaborðÍ pistlinum er frelsi klámmyndaframleiðenda til að gera hverskyns klám líkt við réttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta tvennt finnst mér ekki sambærilegt. Annars vegar er um að ræða mannréttindabaráttu og hins vegar iðnað sem byggir á bláköldum markaðslögmálum. Réttur samkynhneigðra til að njóta sömu mannréttinda og annað fólk á ekkert skylt við rétt klámmyndaframleiðenda til að gera klám, sem brýtur jafnvel mannréttindi. Samkvæmt samtökum sem stofnuð eru af klámmyndaleikurum í Bandaríkjunum eru lífslíkur klámmyndaleikara að meðaltali 36 ár, sem jafnast á við vanþróuðustu þróunarlöndin. Kannski skýrast þessar stuttu lífslíkur meðal annars af heilsuspillandi vinnuskilyrðum, eins og klámmyndaleikkonan Jersey Jaxin lýsir með þessum hætti:

Guys punching you in the face. You have semen from many guys all over your face, in your eyes. You get ripped. Your insides can come out of you. It’s never ending.

Fleiri reynslusögur má lesa hér, en þær eru gríðarlega ofbeldisfullar og því fylgir þeim afdráttarlaus *VV*.

Síðast en ekki síst byggir réttindabarátta samkynhneigðra á ást – réttinum til að elska og vera elskaður – þótt fordómarnir í garð þeirra byggist stundum á ranghugmyndum fólks um kynlífsathafnir þeirra (sem breska nefndin gerði enga tilraun til að banna, nota bene). Í klámi er þessu öfugt farið – ástin er víðsfjarri og áherslan er á kynlífsathafnir sem settar eru fram í gróðaskyni. Hér er annarsvegar um að ræða söluvarning og hinsvegar mannréttindi sem eru ekki til sölu. Ekki nú og ekki nokkurntíma.

Hvað sem fólki kann að finnast um klám ætti engum að standa á sama um þá sem starfa innan klámiðnaðarins né skilyrðin sem þeim eru búin. Þótt það virðist stundum gleymast í umræðunni njóta þau nefnilega sömu mannréttinda og við hin.

Takk fyrir að kveikja þessar vangaveltur, Hildur Sverrisdóttir. Mikilvæg grundvallarhugtök eins og ást, kynhneigð, kynlíf og mannréttindi ættu að vera rædd sem oftast og víðast – og frá sem flestum sjónarhornum.

Greinin birtist upprunalega sem stöðufærsla á Facebook-síðu höfundar þann 7. desember 2014 og er endurbirt á knuz.is með góðfúslegu leyfi.

8 athugasemdir við “Rassskellingar, ritskoðun, réttindi: Hugleiðing um bakþanka Hildar Sverrisdóttur

 1. Ég vil bara kommenta á eitt, sem hinsegin manneskja: að réttindabaratta hinsegin fólks byggi fyrst og fremst á ást er að mínu mati algjört bull og á margan hátt skaðleg mýta, þó henni sé oft haldið á lofti af hinsegin fólki. Hún er til þess fallin að gera okkur sem minnst skaðleg í augum meirihlutasamfélagsins, að við pössum vel inn í kröfurnar um þægt fólk sem vill bara lifa sem „eðlilegastu“ lífi (lesist: millistéttarhegðun) á meðan réttindabarátta hinsegin fólks ætti að snúast um að við getum brotið kynjareglurnar eins og okkur hentar. Ást til manneskju af einhverju kyni er þar bara hluti af og mér finnst mjög ömurlegt þegar mín réttindabarátta og tilveruréttur er smættað niður í rétt minn til að upplifa ást í heterónormatívu (þó mögulega samkynja) lokuðu hefðbundnu sambandi sem uppfyllir staðla millistéttarneyslusamfélagsins.

 2. Ég kem ekki auga á staðinn í greininni þar sem Þórdís skilgreinir rétt hinsegin fólks til að elska eins og það er út frá heterónormatívu samhengi eða skilyrðir hann við eitthvert sérstakt, staðlað og samfélagslega samþykkt sambandsform. Hvort mannréttindabarátta hinsegin fólks snýst um það eða eitthvað miklu flóknara er svo annað mál, en ég get að minnsta kosti ekki lesið úr orðum Þórdísar neina skilyrðingu á rétti hinsegin fólks til ástar samkvæmt einhverjum fyrirfram skilgreindum samfélags- eða sambandsstöðlum.

 3. Það sem ég skil ekki er hvernig nokkur getur treyst ríkinu fyrir einhverju svona. Af hverju heldur fólk að breska ríkisstjórnin muni stoppa þarna? Þetta er gjarnan byrjunin á viðameiri ritskoðun yfirvalda. Það er öruggast fyrir þau að byrja á kláminu þar sem það mun aldrei verða virðulegur vettvangur og flestu fólki finnst það að minnsta kosti óþægilegur partur af mannlegri tilveru sem það vildi helst sleppa við að hugsa um.

  Femínistafélag Íslands studdi dyggilega ritskoðunarhugmyndir Ögmundar Jónassonar um internetklám á sínum tíma. Því á ég erfitt með að trúa því þegar femínistar segjast ekki styðja ritskoðun. Mér sýnist sem svo að meirihluti femínista styðji ritskoðun á klámi. Það eru söguleg mistök. Ríkinu er ekki treystandi fyrir ritskoðun og fólk grefur undan sínu eigin málfrelsi og ritfrelsi með því að krefjast þess að málfrelsi og ritfrelsi sem þeim líkar ekki við sé hneppt í bönd.

  Með þessu er ég ekki að segja að klám sé saklaust. Það hefur skuggalegar hliðar og getur valdið miklum ranghugmyndum um samskipti kynjanna, jafnt hjá stelpum og strákum og eyðilagt kynlíf og samlíf. Það er of algengt að fólk hinum megin borðsins láti sem þetta sé ekki satt. En skaðsemi kláms er betur stjórnað með fræðslu og upplýstum foreldrum en að ríkið böðlist þar um eins og fíll í postulínsbúð.

 4. Hér var ekki farið nánar út í hvernig ást en þetta stendur í pistlinum:

  ,,Síðast en ekki síst byggir réttindabarátta samkynhneigðra á ást – réttinum til að elska og vera elskaður“

  Og þessu hafna ég því þetta er oft tekið til að þýða það sem ég skrifaði fyrir ofan. Þó fólk túlki þetta á mismunandi hátt þá finnst mér smættandi að tala um að réttindabarátta samkynhneigðra snúist um ást. Hún snst um tilverurétt á eigin forsendum burtséð frá kynjakerfinu. Sambönd eru þar hluti af en ekki byrjun og endir.

 5. Varðandi tölusettu punktana þrjá:
  1) athæfi sem fer fram gegn vilja klámmyndaleikaranna
  Það eru til lög í öllum vestrænum ríkjum sem banna nauðung. Sérlög eru því óþörf.

  2) athæfi sem gæti stofnað þeim í lífshættu og
  Það eru til vinnustaðalöggjöf í öllum vestrænum ríkjum sem taka á hættulegu starfsumhvefi. Stundum er þessi löggjöf barn síns tíma og hefur ekki fylgt framþróun í breyttum starfsháttum nægilega vel, en þá bera að uppfæra hana en ekki að nota hana sem grunn til ritskoðunar.

  3) athæfi sem líkir eftir barnaklámi.
  Að ætla að banna það að líkt sé eftir glæp eða ólöglegri hegðun, á meðan hún er ekki framin myndi þýða að flestar kvikmyndir verði bannaðar. En ef horft er sérstaklega til þess ömurlega glæps sem misnotkun barna er, þá er ljóst að kynferðisglæpir, svo sem nauðganir eru fátíðastir þar sem aðgengi að klámi hefur verið lengi og er gott (þ.e. aðgengið). Þ.e. maður með nauðganakenndir er líklegri til þess að láta staðar numið við það að horfa á sviðsett nauðgunarklám en sá sem ekki hefur aðgengi að slíku. Það er a.m.k. algjörlega ósönnuð tilgáta að það að horfa á „falskt“ barnaklám auki líkurnar á að viðkomandi einstaklingur með barnagirnd láti til skara skríða gegn barni, ýmislegt meira að segja sem bendir í hina áttina, þ.e. að tilvist „falsks“ barnakláms annars vegar minnki líkurnar á að tekið verði upp sannarlega ólöglegt efni með barni og hins vegar að barn verði raunverulegt fórnarlamb einstaklings með jafn óhuggulegar kenndir.

  Ritskoðun á grundvelli ofangreindra punkta verður því ekki seint réttmæt.

 6. Hvaða rannsóknir eru það sem þú ert að vitna til í lið 3? Ég veit ekki betur en vesturlönd séu gegnsósa í klámi og að aðgengi fólks að klámi sé mjög mikið. Eru kynferðisglæpir sérstaklega óalgengir? nei þeir eru það ekki. Og þeir sem vinna við að taka á móti fórnarlömbum kynferðisglæpa (t.d Neyðarmóttakan) hafa talað um að sumar nauðganir líkist því sem er í kláminu. Endaþarmsnauðganir þekktust varla hérna áður fyrr. Núna eru þær orðnar mjög algengar.

  • Gaman að þú skyldir spyrja að þessu.
   Ég er annars vegar að vitna til hreinna tölfræði á milli ríkja og um tíðni alvarlegs kynferðisofbeldis og aðgengi að klámi og hins vegar t.d.
   http://www.sscnet.ucla.edu/comm/malamuth/pdf/00arsr11.pdf sem er samsöfnunarrannsókn.

   Þarna er t.d. nokkuð fjallað um þá skekkju að þeir sem nauðga á vesturlöndum eru líklegri til þess að hafa neytt þess konar kláms en aðrir. Sem er auðvitað ekkert skrýtið. Það sem erfitt er að mæla er auðvitað hvort að viðkomandi hefðu framið glæpi sína hefðu þeir ekki haft aðgengið. Og þá erum við aftur komnir í landa tölfræðina, en einhverra virðist vera veruleg fylgni á milli aukins aðgengis að klámi minnkandi tíðni kynferðisbrota. Þá er auðvitað vert að hafa í huga að skilgreiningar geta verið nokkuð á reiki á milli landa, sem og traust og aðgengi að lögreglu og dómskerfi. Þannig er t.d. glæpur að láta nauðga sér í Saudi Arabíu, og því minna um kærur fórnarlamba en t.d. í Svíþjóð, þar sem atburðir eru kærðir, sem konur í mörgum þriðja heims ríkjum væru allt að því fegnar ef að þær kæmust í gegnum daginn án alvarlegri árásar.

   Nú kann að vera að endaþarmsnauðganir séu algengari nú en áður, en ætli það haldist ekki í hendur við að þess konar kynlíf sé orðið algengara (hvort sem að það er klámi að kenna eður ei, en frjálst og upplýst kynlíf tveggja fullorðinna einstaklinga er sjaldnast neinu „að kenna“).

  • Og akkúrat um misnotkun barna, sem ég hafði svo sem ekki kynnt mér sérstaklega áður:
   Following the effects of a new law in the Czech Republic that allowed pornography to a society previously forbidden to access it allowed us to monitor the change in sex related crime that followed the change.

   As found in all other countries in which the phenomenon has been studied, rape and other sex crimes did not increase.

   Of particular note is that this country, like Denmark and Japan, had a prolonged interval during which possession of child pornography was not illegal and, like those other countries, showed a significant decrease in the incidence of child sex abuse.

   Sjá http://www.researchgate.net/publication/49644341_Pornography_and_sex_crimes_in_the_Czech_Republic

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.