11. desember í jóladagatalinu er… Marie Tharp

Höfundur: Herdís Helga Schopka

Marie Tharp árið 2001. Mynd héðan.

Marie Tharp árið 2001. Mynd héðan.

Marie Tharp (1920-2006)

Ég var með auðan striga sem ég gat fyllt með stórkostlegum möguleikum, heillandi púsluspil að raða saman. Svona ævintýri býðst engum nema einu sinni á ævinni – einu sinni í mannkynssögunni – hvað þá að það byðist konu á fimmta áratugnum. – Marie Tharp

Marie Tharp var jarðfræðingur og kortagerðakona sem uppgötvaði úthafshryggina og sigdalina sem liggja eftir sjávarbotninum endilöngum. Hún fæddist í Ypsilanti í Michigan-fylki 30. júlí 1920. Móðir hennar var kennari og faðir hennar vann við jarðvegsflokkun fyrir landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna. Marie var ein af fyrstu konunum sem útskrifaðist sem olíujarðfræðingur í Bandaríkjunum, en sú starfsgrein (sem og fleiri) opnaðist konum í seinni heimsstyrjöldinni meðan karlmennirnir voru í burtu að berjast í stríðinu. Marie vann í nokkur ár í olíubransanum en leiddist það og fór því aftur í skóla og náði sér í gráðu í stærðfræði.

Marie Tharp á vinnustofunni, að vinna kort (efra blaðið á borðinu) út frá hljóðbylgjumælingum á sjávarbotni (neðra blaðið á borðinu). Mynd héðan.

Marie Tharp á vinnustofunni, að vinna kort (efra blaðið á borðinu) út frá hljóðbylgjumælingum á sjávarbotni (neðra blaðið). Mynd héðan.

Eftir það fór hún til New York-borgar 28 ára að aldri og fékk vinnu við Lamont jarðfræðistofnunina (nú Lamont-Doherty Earth Observatory). Fljótlega fór hún að einbeita sér að vinnu með jarðfræðingnum Bruce Heezen sem hafði sérhæft sig í hljóðbylgjumælingum á sjávarbotninum. Á næstu áratugum unnu þau sleitulaust að því að kortleggja sjávarbotninn – Bruce fór í langa leiðangra um heimsins höf að mæla sjávarbotninn meðan Marie var við teikniborðið á Lamont, vann úr gögnunum sem Heezen safnaði og sá sjávarbotninn taka á sig mynd fyrir augunum á sér – úthafshryggina sem hlykkjast um öll heimsins höf og sigdalina sem liggja meðfram hryggjarásunum. Kyns síns vegna var Marie ekki leyft að fara með í gagnasöfnunarleiðangrana fyrr en árið 1965, þegar hún hafði unnið við fagið í nærri 18 ár.

Marie Tharp á heimili Bruce Heezan á miðjum sjöunda áratugnum. Mynd héðan.

Marie Tharp á heimili Bruce Heezen á miðjum sjöunda áratugnum. Mynd héðan.

Marie var ekki einungis fær kortateiknari, hún var líka afburðasnjall jarðfræðingur sem gerði sér mjög fljótt grein fyrir þýðingunni sem gögn hennar og Bruce höfðu. Á þessum tíma hafði flekakenningin ekki náð neinni fótfestu í jarðvísindum og það þótti nánast vísindalegt guðlast að aðhyllast þá kenningu. Marie treysti hins vegar gögnum sínum betur en áliti kollega sinna (þar á meðal Bruce, sem aðhylltist kenningar um útþenslu Jarðar) og sá að mynd sú sem hún var að draga upp af hafsbotninum var mikilvægt sönnunargagn til staðfestingar flekakenningunni. Enn frekari staðfesting fékkst þegar gögn um upprunastaði jarðskjálfta í úthöfunum fóru að koma fram: Fremur smáir og grunnir jarðskjálftar röðuðu sér eftir sigdölunum endilöngum. Þetta voru nærri óhrekjanlegar sannanir fyrir flekakenningunni og eftir að þær komu fram neyddust jarðvísindamenn smám saman til að samþykkja hina nýju kenningu um eðli Jarðarinnar. Marie og Bruce, eða Tharp og Heezen eins og þau eru þekkt í hinum enskumælandi heimi, birtu fyrsta kortið af landslagi Norður-Atlantshafsins árið 1959. Á árunum þar á eftir unnu þau kort af hinum ýmsu höfum uns þau voru tilbúin með kort af öllum heimshöfunum árið 1977. Þá höfðu þau fengið til liðs við sig austurrískan landslagsmálara sem breytti því sem hefðu getað verið þurr og leiðinleg dýptarlínukort í ævintýralegar þrívíddarmyndir af hafsbotninum. Bruce dó áður en heimskortið var gefið út en náði þó að sjá það í próförk. Kortið gerbreytti sýn almennings á úthöfin og stendur fyllilega fyrir sínu enn þann dag í dag. Nokkur fyrri korta Marie og Bruce er nú hægt að skoða á Google Earth, t.d. þetta kort af norðurheimsskautssvæðinu.

Kort Marie og Bruce af landslagi úthafanna. Stærri útgáfu af kortinu má nálgast hér.

Kort Marie og Bruce af landslagi úthafanna. Stærri útgáfu af kortinu má nálgast hér.

Marie lést árið 2006, 86 ára að aldri. Hún átti enga fjölskyldu en lét eftir sig stóran hóp vina og vinnufélaga.

Það er ekki hægt að gera of mikið úr afrekum Marie eða mikilvægi kortanna hennar. Hún var frumkvöðull í sínu fagi og lék lykilhlutverk í upphafi rannsókna á hafsbotnsgliðnun. Hún var líka frumkvöðull í starfi og náði árangri sem kona í fagi þar sem karlar voru algerlega ráðandi og höfðu verið áratugum saman. – Mike Purdy, forstöðumaður Lamont-Doherty Earth Observatory

Við skulum gefa Marie sjálfri síðasta orðið:

Ég vann bak við tjöldin mestalla starfsævi mina sem jarðfræðingur en ég sé ekki eftir neinu. Mér fannst ég heppin að vera í svona skemmtilegri vinnu. Að finna og teikna upp sigdalina og úthafshryggina sem teygja sig alla leiðina umhverfis jörðina, rúma 60.000 kílómetra – það var mikilvægt. Það er bara hægt að gera það einu sinni. Þú getur ekki fundið neitt stærra en þessi fyrirbæri, alla vega ekki á Jörðinni.

Heimildir: 1) Wikipedia, 2) lýsing Marie sjálfrar á ævistarfi sínu, 3) minningargrein á vefsíðu Lamont-Doherty stofnunarinnar, 4) umfjöllun í Huffington Post.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.