12. desember í jóladagatalinu er … Gerður Helgadóttir

Höfundur: Halla Sverrisdóttir

Gerður með logsuðutækið. Myndin er sótt hingað.

Gerður með logsuðutækið. Myndin er sótt hingað.

Sá sem ekki hefur séð með eigin augum þau þungu verkfæri og listaverk,sem Gerður þurfti að hafa í kringum sig, getur varla ímyndað sér hvílíkt átak það hefur veríð fyrir þessa ungu   konu   að   flytja ein milli landa og koma sér fyrir og vinna í einangrun, þar sem verkefnin koma ójafnt og tekjurnar líka. En hún tókst ávallt ótrauð og hiklaust á við verkefnin af hverju tagi sem þau voru og kvartaði ekki, svo með ólíkindum var. Þeir sem komu og sáu hana vinna, standa með logsuðutækin og málmana og flytja stóru stytturnar, voru ávallt furðu lostnir.

Elín Pálmadóttir, minningargrein um Gerði Helgadóttur

Gerður Helgadóttir myndhöggvari (1928-1975) var einn brautryðjendanna í þrívíðri abstraktlist á Íslandi. Og hún varð fyrst kvenna til að taka sér stöðu í framvarðalínu höggmyndalistar hérlendis. Verk hennar má sjá víða í opinberu rými á Íslandi og allir þekkja gríðarstóra mósaíkveggmynd hennar á einni hlið Tollstöðvarhússins við Tryggvagötu. Á síðari árum vann Gerður einkum við glerlist og steindir gluggar hennar prýða Kópavogskirkju, Skálholtskirkju, Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og nokkrar kirkjur erlendis.

Gerður Helgadóttir, hluti af glugga

Hluti af steindum gluggum í Evang. Versöhnungskirche í Essen-Rüttenscheid.  Myndin er sótt hingað.

Gerður fæddist að Tröllanesi í Norðfirði, dóttir Helga Pálssonar kaupfélagsstjóra og tónskálds og Sigríðar Erlendsdóttur húsmóður. Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur þegar Gerður var níu ára. Mikil listhneigð var í fjölskyldunni og áhugi á listum og menningu mikill og það var því með stuðningi foreldranna sem Gerður innritaðist í Myndlista- og handíðaskólann 1945. Sumarið 1947 naut Gerður einnig tilsagnar í tæknilegum aðferðum höggmyndagerðar, svo sem meðferð áhalda og efniviðar, hjá Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara, sem Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi er kennt við. Þá um haustið hélt hún til Kaupmannahafnar og hóf nám í Konunglegu dönsku akademíunni. Gjaldeyrishöft og fjárskortur gerðu henni erfitt fyrir að halda áfram námi þar, en faðir hennar og vinir hans og samstarfsmenn söfnuðu styrktarfé til að hún gæti haldið til Flórens, þar sem hún var við Accademia di belle arte í tvö ár. Í veganesti hafði hún – auk stuðnings foreldra sinna og velunnara –  sjálfstraust, kjark og einlæga trú á eigin hæfileikum:

Það var ekkert hik á Gerði, þó ferðalög með járnbrautum væru henni svo framandi að hún vissi ekki að færa þyrfti farangur milli Iesta i skiptingum og að salerni væri í lestum, sagði hún síðar. Og í Flórenz gekkst hún óhikað undir inntökupróf í þessum fræga myndlistarskóla, módeleraði eftir lifandi fyrirmynd og gerði kópíu af grísku listaverki og flaug inn.

Elín Pálmadóttir, minningargrein um Gerði Helgadóttur

Á námsárunum í Flórens vakti Gerður mikla athygli meðal samnemenda sína fyrir þrautsegju, vinnuhörku og atgervi; hún var lítil og nett að vexti en hikaði hvergi við að takast á við steinklumpa og leir, þung verkfæri og erfiðisvinnu, sem allt er hluti af starfi myndhöggvarans. Elín Pálmadóttir bregður upp skýrri mynd af Gerði á námsárunum í bók sinni Gerður, ævisaga myndhöggvara:

Gerður var heilluð af náminu og umhverfi sínu. Nú átti allt að læra og skoða, þar og í nálægum listaborgum Ítalíu. Óþolinmæðin, að vilja gera allt í einu, var svo mikil að hún beinlínis ofgerði heilsunni sem hún setti í annað sæti. Hún stóð við að höggva marmara í 32 stiga hita að sumrinu til og mótaði í leir í ískaldri vinnustofunni að vetri til svo blæddi úr fingrum og kal kom í tær hennar.

Gerður, ævisaga myndhöggvara, bls. 22

Gerður Helgadóttir. Myndin er sótt hingað.

Gerður Helgadóttir. Myndin er sótt hingað.

Gerður vakti einnig eftirtekt meðal Flórensbúa fyrir að ganga að öllu jöfnu stuttklippt og í síðbuxum, sem þótti afar óvenjulegt á þeim tíma. Myndhöggvarinn Gerður tamdi sér snemma að ganga í þægilegum fatnaði sem auðvelt var að vinna í og þægilegt að hreyfa sig í, enda var hún kvik í hreyfingum, snaggaraleg í fasi og að mestu laus við hégómleika. Elín Pálmadóttir segir svo frá að „ …sífellt var verið að reka hana út úr kirkjum vegna síðbuxnanna sem hún gekk alltaf í. Vegna þeirra varð hún til dæmis að bíða úti á Markúsartorginu þegar hún fór með vinum til Feneyja til að skoða dómkirkjuna þar.“ Gerður hafi að eigin sögn „ekkert mátt vera að því að hugsa um silkisokka og því um líkt.“  (Gerður, ævisaga myndhöggvara, bls. 23-24).

Frá Flórens hélt Gerður til Parísar, þar sem hún hún stundaði nám í Académie de la Grande-Chaumiére 1949-1950. Aðalkennari hennar þar var rússneski myndhöggvarinn Ossip Zadkine. Gerður settist að í París og bjó í Frakklandi til æviloka, fyrstu árin í París og síðar í þorpinu Cheval Mort, vestur af París, þar sem hún og eiginmaður hennar, málarinn Jean Leduc, bjuggu sér heimili á gömlum sveitabæ. Þar bjó Gerður til dauðadags.

Orgelfúga, Gerður Helgadóttir 1960

Orgelfúga, Gerður Helgadóttir 1960

„Með geómetrískum járnverkum á 6. áratugnum ávann Gerður sér sess sem frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hér á landi. Síðan gerði hún myndir eingöngu úr hárfínum járnvírum sem mynda teikningu í rýminu. Mikil breyting varð á list Gerðar þegar hún fór að logsjóða úr bronsi. Form verkanna urðu óregluleg og lífræn og sjá má í þeim skyldleika við ljóðrænu abstraktlistina. Eftir ferð til Egyptalands árið 1966 má greina áhrif frá fornri egypskri list í verkum hennar. Um og upp úr 1970 taka við verk unnin úr gifsi, leir og jafnvel steinsteypu sem einkennast af einföldum hringformum og hreyfingu í ýmsum tilbrigðum.“

(Um verk Gerðar Helgadóttir, af vefsíðu Gerðarsafns)

Óþekkti pólitíski fanginn

Skjáskot úr Morgunblaðinu

Fyrsta einkasýning Gerðar á Íslandi var í Listamannaskálanum í Reykjavík árið 1951 og fékk hún góða dóma og viðtökur. Næsta sýning var sameiginleg sýning í Bogasal Þjóðminjasafnsins með André Enard árið 1956. Sýningin fékk góða dóma og nokkrar myndir seldust. Þriðju sýningu sína á Íslandi hélt hún einnig í Bogasalnum 1962 og þá ásamt eiginmanni sínum Jean Leduc. Gerður vann fjölda samkeppna um listaverk, hér heima og erlendis, en gaman er að nefna að verk hennar Óþekkti pólitíski fanginn hlaut verðlaun í alþjóðlegri samkeppni myndhöggvara í London árið 1953 og var sýnt ásamt öðrum verkum samkeppninnar i Tate Gallery.

Gerður lést úr krabbameini, langt fyrir aldur fram. List hennar lifir og gleður skilningarvitin víða um landið og erlendis. Þau sem vilja kynnast listakonunni og manneskjunni Gerði Helgadóttur betur eru hvött til að ná sér í Gerður, ævisaga myndhöggvara eftir Elínu Pálmadóttur, sem er einstaklega vönduð ævisaga, fróðleg og skemmtileg. Einnig má nefna  að Andrés Indriðason gerði heimildamynd um Gerði, Líf fyrir listina eina, sem frumsýnd var á RÚV á nýjársdag árið 2005. Árið 1977 gáfu erfingjar Gerðar Kópavogsbæ að gjöf um 1400 verk eftir hana með því skilyrði að opnað yrði safn sem bæri hennar nafn. Gerðarsafn var opnað 17. apríl árið 1994 og hefur síðan verið virk og metnaðarfull menningarstofnun.

Heimildir:

Vefsíða Gerðarsafns

Wikipedia

Gerður: ævisaga myndhöggvara eftir Elínu Pálmadóttur (Almenna bókafélagið, 1985)

Viðtal Elínar Pálmadóttur við Gerði, Morgunblaðið 15. 12. 1968 

Minningargrein Elínar Pálmadóttur um Gerði, Morgunblaðið 24. 5. 1975

Leit að sönnum kjarna í tilverunni: Grein eftir Elínu Pálmadóttur, Morgunblaðið 1995

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.