Hugleiðing um hefndarklám

Höfundur: Hulda Hólmkelsdóttir

hefndarklám

Jæja.
Ég hef forðast og frestað því lengi að skrifa þetta. En ég held að tíminn sé kominn.

Nú er svolítið verið að ræða hefndarklám. Ég persónulega hef aldrei orðið fyrir barðinu á svoleiðis kynferðisofbeldi en það er mér engu að síður mikið hjartans mál. Ég stóð nefnilega við bakið á bestu vinkonu minni í tæp sex ár á meðan hún reyndi að leysa úr sálarflækjum sem fylgdu birtingu nektarmynda á internetinu. Hún var bráðkvödd í maí síðastliðnum. Myndirnar eru enn í dreifingu.

Við skulum byrja á því að koma einu á hreint. Birting nektarmynda án leyfis viðkomandi er ofbeldi. Það er brot á friðhelgi einkalífs einstaklings. Að taka nektarmyndir af sér og deila með einhverjum sem maður treystir er það hins vegar ekki. Það er kannski heimskulegt, sumum gæti jafnvel þótt það barnalegt, en það er ekki viðkomandi að kenna ef einhver brýtur traust þeirra.

Hefndarklám byrjar ekki endilega sem klám. Fólk hefur verið að taka nektarmyndir í ótalmörg ár. Það var nefnilega hægt að taka nektarmyndir áður en internetið kom til sögunnar. Sjokkerandi, ég veit. Fyrsta ljósmyndin var tekin á nítjándu öld og nekt hefur verið til frá upphafi mannkyns. Hermenn hafa eflaust margir farið með myndir af mökum sínum í stríð. Og það er bara alveg þeirra mál, svo lengi sem þeir eru ekki að dreifa þeim án leyfis.

Umræðan um hefndarklám fer svo oft út í þolendaskömmun (e. victim blaming). „Þú hefðir ekki átt að taka þessar myndir” „Þú hefðir ekkert átt að senda honum þetta.” „Þú hefðir ekki átt að gera þetta. Þú hefðir ekki átt að gera hitt.” Æ, þetta hljómar svo ógeðslega kunnuglega. „Þú hefðir ekki átt að vera svona klædd.” „Þú hefðir ekki átt að vera svona full.” „Þú hefðir ekki átt að vera ein á ferð að næturlagi.” „Þú hefðir ekki átt að láta nauðga þér.” Hvað með „þú hefðir ekki átt að dreifa þessum myndum án leyfis.”? Aha. Þetta var betra. Og miklu einfaldara. Miklu færri spurningar, miklu færri „hvað ef“.

Það er á ákveðinn hátt hættulegt að kenna unglingsstúlkum að það sé bannað að taka af sér nektarmyndir. Nekt er ekkert til að skammast sín fyrir og það er mikilvægt að geta liðið vel í eigin líkama. Unglingsstúlkum er kennt að skammast sín fyrir svo margt á meðan þær eru að uppgötva sig sem kynveru. Það á að vera ilmvatnslykt af túrblóðinu, líkamshár eru ógeðsleg – burt með þau öll! Já og svo á að markaðssetja fæðubótarefni sem lætur píkur lykta eins og ferskjur. Það er flókið að vera unglingur, nekt er einföld.
lawrenceÞað versta sem hægt er að gera, fyrir utan að dreifa nektarmyndum án leyfis á annað borð, er að útskúfa þolendum slíkrar mynddreifingar. Já og skoða svoleiðis myndir í leyfisleysi. Ekki gera það. Ekki gúggla myndir af Jennifer Lawrence að pósa fyrir kærastann sinn sem bjó hinum megin á hnettinum. Hún vill ekki að þú sjáir þessar myndir. Ef þú skoðar nektarmyndir sem birtar eru í leyfisleysi ertu að taka þátt í kynferðisofbeldi, svo einfalt er það.

Fræðsla um internetið og afleiðingar gjörða er að sjálfsögðu nauðsynleg. Í öllu uppeldi, ekki bara uppeldi stúlkna. Ekki segja „ekki taka myndir” og sleppa því að segja „ekki dreifa myndum”. Það hefur ekkert upp á sig. Þegar fólk sendir nektarmyndir hugsar það einmitt ekki að myndirnar gætu dreifst um allt internetið eins og gorkúlur. Það hugsar að viðtakanda sé treystandi fyrir þeim. Fólk getur ekki verið ábyrgt fyrir gjörðum annarra. Þar af leiðandi er það ekki þolendum að kenna þegar aðrir dreifa af þeim myndum. Það fylgir því ábyrgð að fá svona myndir í hendurnar. Til hamingju, þér hefur verið treyst. Ekki vera drullusokkur.

Kynferðisofbeldi er aldrei þolendum að kenna. Aldrei. Sama um hvernig kynferðisofbeldi er að ræða. Punktur. Þetta á ekki og þarf ekki að vera svona flókið. Birting nektarmynda án leyfis viðkomandi er kynferðisofbeldi.

Ég tek umræðunni um hefndarklám fagnandi, þessi umræða er mikilvæg, þörf og löngu tímabær. Við þurfum vitundarvakningu.

Skilum skömminni heim.

 

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-vegg höfundar sem stöðufærsla þann 12. desember 2014 og er endurbirtur hér með góðfúslegu leyfi.

Ein athugasemd við “Hugleiðing um hefndarklám

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.