Höfundur: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Jórunn Viðar veitir heiðursverðlaunum Menningarverðlauna DV árið 2009 viðtöku í Iðnó. Mynd héðan.
Það hefur aldrei verið um neitt annað að ræða fyrir mig. Það er bara mín lífsins braut. Ég geng bara eins og mér er eðlilegt.
Þetta eru orð Jórunnar Viðar (7. desember 1918 – ) tónskálds og píanóleikara, úr viðtali sem Þorkell Sigurbjörnsson tók við hana í útvarpinu fyrir margt löngu. Þorkell hafði spurt hana hvers vegna hún hefði ákveðið að leggja tónlistina fyrir sig. Þetta hljómar svo sjálfsagt fyrir okkur í dag, en fyrir rúmum átta áratugum var það langt frá því sjálfgefið að átján ára reykvísk stúlka tæki sig upp og færi í tónlistarnám til útlanda. Jórunn var svo heppin að fæðast inn á mikið menningarheimili. Katrín Viðar, móðir hennar hafði einnig farið utan til tónlistarnáms, kenndi á píanó og rak hljóðfæra- og hljómplötuverslun. Í búðinni fengu Jórunn og Drífa yngri systir hennar að hlusta á bestu tónlistarupptökur sem völ var á. Jórunn minnist þess að hafa hlustað með búðarstúlkunum á nýjustu plöturnar, ýmsa söngvara og píanista og tekið vel eftir þegar stúlkurnar pældu í hvaða raddir væru góðar, hvar væru falskir tónar og hvaða verk væru vel kompóneruð.

Veggspjald fyrir heimildamynd um ævi Jórunnar sem frumsýnd var árið 2009. Mynd héðan.
Klassísk tónlist var í heiðri höfð á æskuheimili Jórunnar en hún kynntist einnig annars konar tónlist. Á heimilinu voru vinnukonur, oftast utan af landi, sem báru með sér tónlistararf þjóðarinnar, söngluðu þjóðlög og stemmur, og fóru með þulur. Þetta átti eftir að hafa mikil áhrif á tónsmíðastíl Jórunnar. Jórunn hóf nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík þriðja árið sem skólinn starfaði. Síðan fór hún til Berlínar og stundaði þar nám í Hochschule für Musik í tvö ár, bæði vetrar- og sumarannir. Þar komst hún í snertingu við hina mið-evrópsku tónlistarhefð.
Það kom ekki til af góðu að Jórunn fór að læra tónsmíðar. Maður hennar veiktist af krabbameini og leitaði sér lækninga í Bandaríkjunum. Jórunn fór á eftir manni sínum þangað og þegar hann var kominn á bataveg en ekki tilbúinn til að fara strax heim til Íslands ákvað hún að nýta tímann og sótti um í tónsmíðadeild hins virta Juilliard tónlistarháskóla í New York. Hún hafði alla tíð vitað að hún gæti samið tónlist og hafði samið fjölda verka sem fæst höfðu þó verið flutt. Vildi þó læra fagið – „Ég ætlaði ekki að verða viðvaningur og semja lög án þess að kunna það.“ Inntökuprófið skilaði henni í efsta bekk tónsmíðadeildarinnar þannig að eitthvað hefur hún nú kunnað fyrir sér áður en hún fór út. Heim fluttu þau árið 1947 og Jórunn lét þegar til sín taka í tónlistarlífinu. Hún hélt sína fyrstu einleikstónleika fyrir fullu húsi í Austurbæjarbíói sem þá var einn helsti tónleikasalur landsins. Hún fékk mjög góðar viðtökur, í Vísi birtist t.d. þessi dómur:
Frú Jórunn hefir ekki brugðizt þeim vonum, sem gerðar hafa verið til hennar. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður, erilsöm heimilisstörf og ígripa-þjálfun, sýndi hún ótvíræð meistaragrip á hljóðfærinu, myndugan og hugljúfan flutning og sjálfsaga, sem hvergi skeikaði. Ósjaldan brá fyrir glitrandi innileik í spilinu, en í sterkari köflunum meiri þrótti og jafnvel hörku í áslætti en maður hefði haldið sig geta búizt við af jafn grannvaxinni sönglilju.
Hún hélt einleikstónleika nær árlega upp frá þessu, bæði í Reykjavík og utan. Aðstaðan til æfinga var ekki beysin, enda sá hún um heimilið meðfram tónlistarstörfunum. Í viðtali við hana kom fram að hún var mjög hógvær og vildi ekki að mikið væri látið með sig: „Þér megið ekki fara að gera neitt veður út af mér, ég er hvorki undrabarn né útlendingur – heldur bara venjuleg manneskja sem sit heima og spila á píanóið mitt, alvön því að krakkarnir komi og geri að mér aðsúg, leggist ofan á pedalana, haldi fyrir augun á mér og þar fram eftir götunum.“ Hún kvartar ekki yfir þessu, síðar í sama viðtali segir hún: „… listamaður er alltaf listamaður, hvort heldur sem er karl eða kona, tækifærin bjóðast báðum jafnt.“ Hún vill ekki meina að hún hafi liðið fyrir að vera eina konan í hópi háskólamenntaðra atvinnupíanista hér á landi, hafi hvorki fengið sérmeðferð að góðu né illu. Einu sinni sárnaði henni þó umsögn, þegar í blaði, í annars góðum tónleikadómi birtist klausan „Geri aðrar húsmæður betur!“

Veggspjaldið fyrir myndina Síðasti bærinn í dalnum, sem gerð var árið 1950. Mynd héðan.
Eitt fyrsta verkefni Jórunnar þegar hún kom heim úr námi í Juilliard var að semja tónlist við kvikmyndina Síðasti bærinn í dalnum. Það var mikið verk því ekki er mikið talað í myndinni en tónlist hljómar nær allan tímann. Jórunn var þannig fyrsta kvikmyndatónskáld þjóðarinnar, aðeins ein talmynd hafði áður verið gerð en hún var án tónlistar. Hún hafði heilmikið að gera eftir þetta, fékk fjölmörg verkefni í leikhúsum og ágætlega greitt fyrir það. Jón Leifs hafði á orði við hana að nú væri hún tekjuhæsta tónskáld á Íslandi og hvort hún vildi ekki ganga í Tónskáldafélag Íslands. Það þáði hún og var þar eina konan í yfir 20 ár.
Ekki var nóg með að Jórunn semdi fyrst Íslendinga kvikmyndatónlist heldur átti hún einnig fyrsta íslenska tónverkið sem samið var við ballett. Eldur, balletttónlist var samin fyrir Listamannaþing í Þjóðleikhúsinu á opnunarári þess, 1950. Ballettinn er í einum þætti sem tekur um 10 mínútur í flutningi. Tónverkið er enn flutt reglulega, síðast af félögum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands í mars síðastliðnum undir stjórn Hallfríðar Ólafsdóttur. Fyrir utan þessi stóru verkefni samdi Jórunn ógrynnin öll af píanóverkum, sönglögum, kórverkum og kammertónlist. Hún er af sumum talin besta lieder-tónskáld Íslendinga fyrr og síðar. Hún sækir tónefni í mörg verka sinna í menningararf Íslands og sveipar hann sínu eigin tónmáli og stíl. Einna þekktast er kannski keðjusöngurinn Það á að gefa börnum brauð, sem margir halda að sé þjóðlag.
Það styttist í aldarafmæli Jórunnar Viðar. Hún semur ekki lengur en arfurinn sem hún skilur eftir sig er ómetanlegur fyrir okkur sem í spor hennar feta.
2. mars 2014 var verkið Eldur flutt í Hörpu af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Flutningurinn var liður í tónlistarhátíð á vegum KÍTÓN, Félags kvenna í tónlist, og þetta kvöld stjórnuðu konur sinfóníuhljómsveit í Hörpu í fyrsta skipti; Hildigunnur Rúnarsdóttir og Hallfríður Ólafsdóttir. Hér er það Hallfríður sem stjórnar Eldi eftir Jórunni Viðar. — Rakel Edda Guðmundsdóttir fær kærar þakkir fyrir afnot af BA ritgerð hennar við ritun þessa pistils.
Jórunn er stórkostleg listakona við eigum henni mikið að þakka fyrir öll þau lög eftir hana sem við höfum fengið að njóta , til hamingju með þessa viðurkenningu Jórunn .