14. desember í jóladagatalinu er … Aphra Behn

Höfundur: Magnea J. Matthíasdóttir

aphra behn

Málverk af Aphra Behn eftir Peter Lely, og kápan af þekktri skáldsögu Behn, Oroonoko or The Royal Slave.

Aphra Behn (1640-1689) var  merkiskona og brautryðjandi á mörgum sviðum,. Hún var fyrsta enska konan til að hafa lífsviðurværi af ritstörfum og var afkastamikill rithöfundur, einkum leikritaskáld, en samdi líka ljóð og skáldsögur.

Aphra Behn var fædd í Kent í júlí 1640. Ýmist er hún talin dóttir rakara sem hét Johnson að eftirnafni og bjó í Canterbury og konu sem hét Elizabeth Denham, og annað hvort giftist Johnson eða ekki – eða hjónanna John og Amy Amis í Wye. Sumir telja reyndar að Amis-hjónin hafi ættleitt hana, aðrir að einhver Johnson, þó ekki rakarinn, hafi ættleitt hana –  en hvað sem því líður lá leið fjölskyldunnar til Súrínam þar sem Englendingar voru að koma sér upp nýlendu.

Í Súrínam segir sagan að Aphra hafi kynnst ævintýramanninum, njósnaranum og gagnnjósnaranum William Scot og staðið í ástarsambandi við hann, sem á svo aftur hafa leitt til þess að hún gerðist síðar njósnari í Hollandi fyrir bresku krúnuna. 1663 fór Aphra aftur til Englands og  kynntist þar kaupmanni – sumir segja þrælasala – af hollenskum ættum, Johan Behn, og giftist honum. Hjónabandið varð þó ekki langlíft, því hann dó rúmi ári síðar. Aphra Behn giftist ekki aftur og eignaðist engin börn, svo vitað sé, og stóð uppi slypp og snauð eftir dauða eiginmannsins.

Aphra virðist þó ekki hafa riðið feitum hesti frá þjónustunni við bresku krúnuna og dvölin í Hollandi var hálfgert eymdarlíf, sem  olli varanlegu tjóni á heilsu hennar Ekki er ólíklegt að hún hafi lært af þessu að reiða sig ekki á tekjur frá hinu opinbera, því að fyrsta leikritið hennar – The Forc´d Marriage, eða Nauðungarhjónabandið – var tekið til sýningar 1670 og upp frá því hafði hún lifibrauð af ritstörfum. Hugsanlega hefur hún líka haft þá reynslu af hjónabandi að það væri ekki eintóm sæla og sætabrauð, því hún gifti sig ekki aftur og eignaðist engin börn. Einhverja elskhuga mun hún þó hafa átt, en greinilega ekki sér til framfærslu, því það var hálfgert basl á henni alla tíð.

Leikrit Aphra Behn eru leikin enn í dag. Myndin er frá uppfærslu The Questors Theatre í London á leikritinu The Rover, árið 2010. Myndin er sótt hingað.

Leikrit Aphra Behn eru leikin víða enn í dag. Myndin er frá uppfærslu The Questors Theatre í London á leikritinu The Rover, árið 2010. Myndin er sótt hingað.

Satíra og kómedía var ráðandi í leikhúsi á þessum tíma og leikritin snerust einkum um ástir og misskilning með tilheyrandi tvíræðni og erótískum tilvísunum. Aphra Behn kom þar sterk inn með djörfu orðfæri sem  þótti á stundum á mörkum velsæmis. Hún skrifaði gjarnan um nauðungarhjónabönd og skapaði sterkar kvenpersónur sem fóru sínu fram, rétt eins og hún sjálf. Leikrit hennar nutu mikilla vinsælda en sjálf varð hún fyrir talsverðri gagnrýni af því að það sem þótti við hæfi úr penna karlmanns var hneykslanlegt ef kona skrifaði það.

Aphra Behn lét lítið á sig fá gagnrýni samtímamanna sinna og hélt sínu striki. Eflaust hafa einhver ummælin þó sært hana og kannski hefur líka farið í taugarnar á þessari sjálfstæðu konu og mikla vinnuþjarki að reynt var að koma af stað orðrómi um að karlmaður hlyti að vera henni innan handar við leikritaskrifin. – Hún samdi hins vegar yfir tuttugu leikrit, auk ljóða sinna og skáldsagna.

Aphra Behn vann hörðum höndum alla ævi og eftir hana liggur mikið höfundarverk. Hún fylgdist líka afar vel með og las gríðarmikið, ekki síst franskar samtímabókmenntir og leikhúsverk. Því lá ef til vill beint við að hún þýddi eitthvað af þessum bókum á ensku, sem hún og gerði, ásamt fjölda annarra merkisverka.

Í þýðingum var Aphra Behn einnig brautryðjandi, því hún er fyrsta konan sem vitað er til að hafi skrifað sérstaka ritgerð um þýðingar, eða „Essay on Translated Prose“ 1688. Viðhorf Öphru Behn eru að mörgu leyti nútímaleg og einkennast af virðingu fyrir – eða að minnsta kosti viðurkenningu á – báðum menningarheimum, eða eins og hún segir sjálf:

And I do not say this so much to condemn the French as to praise our own mother tongue, for what we think a deformity, they may think a perfection; as the Negroes of Guinea think us as ugly as we think them.

Reyndar er skemmtilegt dæmi um feminísk viðhorf Öphru – löngu áður en þau komust í tísku –  í þýðingu hennar á „Heimum“[1] Fontenelle að hún þýðir „karlar“ í frumtextanum á tveimur stöðum sem „karlar og konur“. Þetta feminíska sjónarhorn er einmitt eitt af umræðu- og deiluefnum okkar tíma í tengslum við þýðingar, eins og nýleg dæmi sanna. Þess má einnig geta að áhugi Öphru á að þýða þetta tiltekna verk Fontenelles vaknaði ekki síst af því að þar hafði kona orðið, eða eins og Aphra orðar það:

… and the author‘s introducing a woman as one of the speakers in these five discourses were further motives for me to undertake this little work; for I thought an English woman might adventure to translate anything a French woman may be supposed to have spoken.

Aphra Behn lést, líklega af þrálátum veikindum og vosbúð í kjölfar langvarandi fátæktar, árið 1689. Hún er grafin í Westminster Abbey, ásamt merkustu skáldum Bretlands, og á legsteinn hennar er ritað: „MRS APHRA BEHN DYED APRIL 16 A.D. 1689. Here lies a Proof that Wit can never be Defence enough against Mortality“.

 

aphra behn legsteinn

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.