Höfundur: Katrín Harðardóttir

Gabriela Mistral á unga aldri.
Gabriela Mistral (7. apríl 1889 – 10. janúar 1957), menntafrömuður, skáldkona og nóbelsverðlaunahafi ólst upp í litlu þorpi í Andesfjöllum Chile. Hún var kölluð „la maestra de las Americas“, eða „kennslukona Ameríkanna“ [1], þótt hennar eigin skólagöngu hafi lokið fyrir tólf ára aldur. Ung beitti hún sér fyrir því að fátækar stúlkur fengju menntun svo þær gætu orðið frjálsir, sjálfstæðir einstaklingar, með jafnan rétt á við karlmenn. Það er í sjálfu sér áhugavert, því kvenfrelsið skaut ekki rótum í Chile fyrr en um 1930, þegar konur byrjuðu að taka virkan þátt í atvinnulífinu.
Árið 1906 skar Mistral upp herör gegn ósjálfstæði og undirokun kvenna í ræðu sem kölluð hefur verið Fræðsla kvenna (La instrucción de la mujer). Hún skoraði á kynsystur sína að leggja grunn að jafnri menntun kynjanna, því í henni væri fólginn eini lykillinn að frelsi og mannsæmandi lífi kvenna:
Konan hefur alltaf verið álitin skrímsli skrælingjanna og þræll þeirra siðmenntuðu. Öll þessi gáfa til einskis í myrkviðum kyns hennar! Hversu margir snillingar hafa lifað í auvirðilegum þrældómi, ónýttir, hunsaðir! [2]
Þrátt fyrir að Mistral beindi beittum spjótum sínum að feðraveldinu var hún á þeirri skoðun að staður konunnar væri heimilið og uppeldi barna sinna. Í ljósi kenninga sinna, og þess að hún átti engin börn sjálf, er hægt að fullyrða að sjálf hafi hún verið einkar óvenjuleg, allt að því afbrigðileg, flakkandi fram og aftur yfir Atlantshafið í fyrirlestraferðum, en hún var einnig ræðismaður, meðal annars í New York, Madrid, Los Angeles, Nice, Petrópolis og Lissabon. Engu að síður er ekki að finna neinskonar vörn fyrir þess háttar lífi í skrifum hennar, heldur þvert á móti, upphafningu á undirgefni og fórnfýsi rómansk-amerískra kvenna, sem helguðu sig göfugu uppeldi barna sinna innan veggja heimilisins.
Mistral bergmálaði marianismann, hugmyndafræði sem upphefur móðurhlutverkið, helst í hendur við karlrembu og dregur nafn sitt af sjálfri Maríu mey. Þessa hugmynd tjáði hún bæði í prósa og ljóði. Að hennar viti týndu konur sjálfinu úti á vinnumarkaðinum, sem og gildum þess kvenlega, en megináhyggjur hennar snertu vanvirðingu móðurhlutverksins. Mistral gekk út frá því að verkaskipting kynjanna væri afleiðing þess að sum verk væru ætluð konum og önnur ekki. Þannig áleit hún konur einfaldlega ekki hafa næga vitsmuni fyrir viss störf. Árið 1927 komst hún svo að orði:
Ég vil ekki sjá konu yfir Hæstarétti, þttó mér þyki hún vel geta verið yfir félagsmálum. Vandamálið með æðstu dómstóla er að þeir eru mun flóknari en allt hérna niðri, þar er þörf á algerum meðvitundarþroska og víðsýni hvað viðkemur mannlegri ástríðu, sem konan býr sjaldnast yfir. (Ég myndi segja aldrei). [3]
Ef Mistral hefði fæðst hundrað árum síðar er nokkuð víst að barátta hennar fyrir kvenfrelsi hefði snúist um annan ás en einungis móðurhlutverkið og menntaveginn. Háskóla Rómönsku-Ameríku sitja nú konur til jafns við karla, til eru dæmi um að karlar hugsi um börnin sín upp á sitt eigið einsdæmi og konur stjórna mörgum ríkjum álfunnar.
Hugmyndir Mistral um borgararétt kvenna einskorðuðust við heimilið og einkalífið, þær gátu hvorki farið með vald né tekið ákvarðanir, hvorki með sjálfsmeðvitund né meðvitund um umhverfi sitt. Það skýtur því skökku við að heimskonan Mistral skyldi dirfast að breiða út boðskapinn víða um heim, á eigin vegum. Það kunna jafnvel að virðast einhvers konar mistök að tengja hana við samtímafemínisma. En hún var kona sinna tíma og framlag hennar til menntamála kvenna er óumdeilt. Afstaða hennar til jafnra tækifæra kynjanna til náms er vissulega hægt að kalla femíníska þó þann femínisma verði að skoða í félags- og sögulegu samhengi. Hægt að bæta við að Mistral lagði einnig stund á femínískar bókmenntir sem á einn eða annan hátt stuðluðu að rómansk-amerísku kvenfrelsi. Móðirin, skáldkonan, ástkonan og verkakonan fundu sig hver og ein í kvenlegri orðræðu Mistral, sem uppskar ótakmarkaða aðdáun og virðingu samtímakvenna sinna.
1. Vegna þess almenna miskilnings í íslenskri málfræði að Ameríka sé aðeins ein er hér fleirtala orðsins notuð að ásettu ráði, en áhrifa Mistral gætti beggja vegna miðbaugs. Að auki má benda á að orðið „kennslukona“ er ekki sambærilegt orðinu „maestra“ en ekkert orð í íslensku kemst í hálfkvisti við það ef kvenkynið á að halda sér, sem höfundi fannst ekki mega missa sín í þessu samhengi.
2. En todas las edades del mundo en que la mujer ha sido la bestia de los bárba- ros y la esclava de los civilizados ¡cuánta inteligencia perdida en la oscuridad de su sexo!, ¡cuántos genios no habrán vivido en la esclavitud vil, inexplo- tados, ignorados!
3. Yo no deseo a la mujer como presidenta de Corte de Justicia, aunque me parece que está muy bien en un Tribunal de Niños. El problema de la justi- cia superior es el más complejo de aquí abajo; pide una madurez absoluta de la conciencia, una visión panorámica de la pasión humana, que la mujer casi nunca tiene. (Yo diría que jamás tiene).
Heimildir: La educación y el feminismo en el pensamiento de Gabriela Mistral eftir Grace Prada Ortíz
http://www.casamerica.es/contenidoweb/gabriela-mistral-modelo-feminista
Myndir af wikipediu: http://en.wikipedia.org/wiki/Gabriela_Mistral