Höfundur: Anna Soffía Víkingsdóttir
Bleikt.is, sykur.is, Smartland og aðrir „lífstílsmiðlar“
Þið sem birtið greinar um það hvernig stúlkur og konur eiga að haga sér í samböndum — hverju stelpur eiga að klæðast til að líta út fyrir að vera grennri, hvernig stelpur eiga ekki að taka af sér nektarmyndir af því að netið gerir það sem það vill (ekki einstaklingurinn sem brýtur traustið) og almennt hvernig stelpur eiga að líta út og haga sér — áttið þið ykkur á áhrifunum sem þið getið haft á ungar stúlkur?
Þær sem hafa upplifað samband sem einkennist af trausti og virðingu vita sem betur fer að þetta er steypa, enda eiga einstaklingarnir aðeins að vera þeir sjálfir fyrir framan hinn helminginn sinn. Hinsvegar horfa ungar stúlkur sem ekki hafa reynsluna kannski til pistla eins og þessa, sem grafa undan því trausti og virðingu sem getur orðið í samböndum (fyrir utan að skrifa þetta allt út frá þeirri ályktun að gagnkynhneigð sé eina kynhneigðin).
HeilaþvotturinnSvo er það þessi endalausi heilaþvottur um hvernig stúlkur eiga að líta út og haga sér: vera grannar, hafa línur, vera sætar, vera kvenlegar, klæðast þessu og hinu. Hvernig væri að skrifa pistla sem segja stúlkum að þessir hlutir eru ekki það sem gera þær hamingjusamar? Því það eina sem getur gert þig hamingjusaman er að vera sáttur í sál og líkama (sama hvernig sá líkami lítur út).
Þetta er ekki bara spurning um okkar eigið siðferði heldur um samfélagslega ábyrgð. Ef við finnum ekki til eða sinnum þessari ábyrgð sem einstaklingar þá erum við öll að bregðast. Ef við erum ekki stöðugt að vinna fyrir því að heimurinn sem næsta kynslóð erfir sé betri en sá sem við fengum í hendurnar þá er engum öðrum um að kenna. Ábyrgðin er okkar allra, hvers og eins til handa.
Þessi pistill birtist upphaflega á fésbókarvegg höfundar og fékk knuz.is leyfi til endurbirtingar.