Höfundur: Hildur Guðbjörnsdóttir
Leymah Gbowee er mikill kvenskörungur og brautryðjandi. Hún er friðarsinni, aðgerðasinni og kvenréttindakona. Með því að stofna og leiða öfluga kvennahreyfingu tókst henni að binda enda á áralanga borgarastyrjöld í heimalandi sínu, Líberíu. Hreyfingin vakti athygli fyrir mikla þrautseigju og baráttugleði, auk þess sem konurnar notuðu ýmsar frumlegar aðferðir til að koma skilaboðum sínum á framfæri, þar á meðal kynlífsbann í ekta Lýsisströtu-stíl. Þegar stríðinu lauk var Ellen Johnson Sirleaf kosin forseti landsins, og varð þar með fyrsta konan til að gegna embætti forseta Afríkuríkis. Árið 2011 voru þeim Leymah Gbowee og Ellen Johnson Sirleaf veitt Friðarverðlaun Nóbels.
Leymah Roberta Gbowee fæddist í Líberíu 1. febrúar árið 1972. Þegar hún var 17 ára, árið 1989, hófst fyrri borgarastyrjöldin í Líberíu og hélt landinu í heljargreipum allt til ársins 1997. Þegar leið að stríðslokum fór hún á þriggja mánaða námskeið hjá UNICEF til að læra að verða félagsráðgjafi og hjálpa fólki sem átti um sárt að binda vegna stríðsins. Í þjálfuninni áttaði hún sig á því að slæm framkoma eiginmanns hennar í hennar garð taldist í raun vera ofbeldi. Fljótlega braust út stríð á nýjan leik, aðeins tveimur árum eftir að því fyrra lauk. Leymah flúði með manni sínum og þremur litlum börnum til Ghana. Þar tók þó ekki mikið betra við, því fjölskyldan hafði engin fjárráð. Þau neyddust til að lifa á götunni sem heimilislausir flóttamenn og litlu munaði að þau yrðu hungurmorða. Á endanum fékk Leymah nóg og náði að koma sér og börnum sínum um borð í rútu á leið til Líberíu, með því loforði að þau myndu borga farið þegar heim kæmi. Þau komust til ættingja í Líberíu heilu og höldnu.
Eftir heimkomuna byrjaði Leymah að nota þjálfun sína til að endurþjálfa fyrrverandi barnahermenn, þó að stríðinu væri enn ekki lokið. Hún gerðist einnig sjálfboðaliði í friðarhreyfingu lúterskrar kirkju í höfuðborginni Monrovíu og byrjaði að lesa sér til um friðarferli. Einn daginn rann það upp fyrir Leymah að ef einhver gæti komið á friði í landinu, væru það konur og mæður landsins. Ásamt konu að nafni Thelma Ekiyor tókst Leymah að stofna hreyfingu sem þær nefndu Women in Peacebuilding Network (WIPNET). Þær og samstarfskonur þeirra mættu í moskur, kirkjur og á markaði og söfnuðu saman konum sem vildu leggja sitt af mörkum til að koma á friði. Þær dreifðu miðum sem á stóð:
Við erum þreyttar! Við erum þreyttar á því að það sé verið að myrða börnin okkar! Við erum þreyttar á að vera nauðgað! Konur, vaknið – Þið hafið rödd í friðarferlinu!
Margar konur reyndust einnig þreyttar og flykktust að til að vera með í hreyfingunni. Konur af öllum trúarbrögðum og þjóðarbrotum sameinuðust í mótmælum fyrir friði. Þær kölluðu sig Women of Liberia Mass Action for Peace og Leymah var talsmaður þeirra. Þær klæddu sig í hvítar skyrtur sem tákni um frið og mótmæltu alla daga tímunum saman. Einræðis- og stríðsherra landsins vildi þó ekki hlusta. Þær gripu því til kynlífsbanns í anda gríska leikritsins Lýsisströtu og ákváðu að neita eiginmönnum sínum um kynlíf þangað til að á kröfur þeirra yrði hlustað. Sú leið átti gífurlega mikinn þátt í að vekja athygli á málstað þeirra. Tæpu ári eftir að mótmælin hófust samþykkti stríðsherrann að veita konunum áheyrn. Um tvö þúsund konur söfnuðust saman fyrir framan forsetahöllina og Leymah mælti þessi orð fyrir hönd þeirra:
Við erum þreyttar á stríðinu. Við erum þreyttar á að vera á flótta. Við erum þreyttar á að þurfa að betla fyrir mat. Við erum þreyttar á því að sjá börnunum okkar vera nauðgað. Við ætlum núna að taka afstöðu, til þess að tryggja börnunum okkar örugga framtíð. Það gerum við vegna þess að við erum verndarar samfélagsins og á morgun munu börnin okkar spyrja: „Mamma, hvert var þitt hlutverk í stríðinu?“
Einræðisherrann lofaði að lokum að hefja friðarviðræður við uppreisnarhópinn. Þegar viðræðurnar hófust sendi kvennahreyfingin hóp kvenna til að halda stríðsherrunum við efnið. Konunum var ekki boðið til viðræðnanna, en þær sátu fyrir utan fundinn og töluðu við karlana á milli funda. Á öðrum degi var þeim boðið að sitja fundinn og á þriðja degi voru þeim veitt full þátttökuréttindi. Eitthvað töfðust sáttir þó. Þegar friðarsamkomulag hafði enn ekki komist á eftir nokkra mánuði var Leymah búin að fá nóg. Hún mætti á staðinn með hundruð kvenna, sem settust fyrir utan viðræðusalinn og sögðust ætla að halda stríðsherrunum í gíslingu þangað til að friðarsáttum væri náð. Þegar karlarnir reyndu að komast undan, hótuðu Leymah og hinar konurnar að fara úr fötunum og byrjuðu að klæða sig úr, en samkvæmt menningu þeirra er það gífurleg bölvun fyrir karlmenn að sjá eldri eða gifta konu bera sig viljandi. Karlarnir frábáðu sér slíka bölvun og konunum tókst að halda mótmælunum áfram. Nokkrum vikum seinna var borgarastyrjöldinni opinberlega lokið.

Leymah Gbowee (fyrir miðju) og Ellen Johnson Sirleaf (til hægri) taka við Friðarverðlaunum Nóbels árið 2011, ásamt Tawakkol Karman (til vinstri)
Leymah lét þó ekki þar við sitja, og heldur áfram að vinna að málefnum kvenna og bættum aðstæðum í Líberíu. Hún skrifaði bók um baráttu sína fyrir friði og eflingu kvenna, sem nefnist Mighty Be Our Powers. Hún hefur ferðast um heiminn og haldið ýmsar ræður, til dæmis þessa TED-ræðu. Árið 2008 var gefin út heimildarmynd um baráttu kvennanna fyrir því að binda enda á stríðið sem ber heitið Pray the Devil Back to Hell. Hægt er að fylgjast með Leymah á facebook-síðu hennar.
Sekiyamah, N. D. (ritstj.) (2011). Women Leading Africa: Conversations with Inspirational Women. African Women’s Development Fund.
African Women and Peace Support Group. (2004). Liberia’s Women Peacemakers: Fighting for the Right to be Seen, Heard and Counted. Asmara, African World Press Inc.