20. desember í jóladagatalinu er… Sor Juana Inés de la Cruz

200px-Juana_Inés_de_la_Cruz

Höfundur: Katrín Harðardóttir

Sor Juana Inés de la Cruz (12. nóvember 1648/1651-17. apríl 1695) var ljóðskáld, leikritahöfundur, fræðikona og nunna (sor þýðir systir) í Nýju-Mexíkó, á gullöld  spænskra bókmennta. Stíll hennar var barokkið og er ljóðið Primer Sueño einatt talið mikilvægasta heimspekiljóð sem samið hefur verið á spænska tungu. Af skrifum hennar má einnig draga þá ályktun að hún hafi verið fyrsti femínisti Rómönsku-Ameríku.

Sor Juana ólst upp hjá afa sínum sem átti tilkomumikið bókasafn og vakti það  snemma athygli hennar. Hún lærði að lesa og skrifa með eldri systrum sínum þriggja ára að aldri og lærði einnig Nahuatl, tungumál innfæddra sem voru þrælar á búgarði afa hennar. Sjálf vakti hún athygli fyrir gott minni og miklar gáfur en á 17. öldinni var bannað að veita konum formlega menntun. Af þessum sökum er hún tíu ára gömul send til ættingja í Mexíkóborg, þar sem hún fékk tilsögn í fræðunum. Hún náði tökum á latínu á undraverðum tíma, og vegna afburða sinna komst hún fljótt undir verndarvæng vísikonungs nýlendunnar sem var mikils virði því hún var ekki aðalsborin. Sor Juana bjó við hirðina til tvítugs, þegar hún gekk í klaustur til þess að hafa frið til þess að sinna hugðarefnum sínum, skrifum og fræðimennsku. Því má bæta við að það var ekki eintómt meinleitalíf því í klaustrinu hélt hún þræl, tók á móti gestum og skemmti þeim með ljóðalestri, tónlist og rökræðum.

Ástæðu þess að Sor Juana valdi klausturlífið er að finna í frægasta prósa hennar, Svari til systur Filoteu af Krossi, sem er málsvörn í formi sendibréfs til biskupsins af Puebla:

Ég gerðist nunna þó að ég vissi að það væri að mörgu leyti andstætt eðli mínu (þá á ég við aukaatriði en ekki grundvöll þess), því það var þó minnst óviðeigandi og það háttprúðasta sem ég gat gert til að tryggja sáluhjálp mína, með hliðsjón af algerri höfnun á hjónabandi. Sáluhjálpar minnar vegna (sem, þegar alls er gætt, mestu skiptir) gaf óskammfeilið eðli mitt eftir. Það hneigðist til þess að ég byggi ein, hefði engar vinnuskyldur sem hindruðu frelsi mitt til fræðaiðkana og væri laus við klið frá samfélagi sem truflaði sefandi þögn bókanna minna.

Í bréfinu rekur hún vitsmunalega þroskasögu sína og rökræðir guðfræði- og þýðingarlegar túlkanir á orðum Páls postula um að konur skuli þegja í kirkjum. Svarið er hárbeitt ádeila á erkibiskup Mexíkó, sem var annar valdamesti maður nýlendunnar og frægur kvenhatari. Sterk staða Sor Juönu var honum þyrnir í augum og ógnaði afturhaldssömum öflum innan kaþólsku kirkjunnar, þar sem rökræður voru forréttindi karla og konur tengdust hinu holdlega og djöflinum. Sor Juana hrekur þessa trú með fulltingi kynsystra úr bókmennta- og kristnisögu Vesturlanda:

Því ég sé Debóru ráða lögum og lofum í hernaði jafnt sem stjórnmálum og stjórna fólki þótt nóg hafi verið af lærðum mönnum til þess. Ég sé hina alvitru drottningu af Saba, svo lærða að hún dirfðist til að láta reyna á þekkingu hins elsta af vitringunum með gátum án þess að vera ávítuð. Þar áður var hún dómari yfir þeim trúlausu. Ég sé margar stórbrotnar konur; sumum var gefin spádómsgáfa, eins og Abígail; öðrum fortölugáfa eins og Ester, sumum var gefin miskunnsemi eins og Rabah eða þrautseigja eins og Önnu móður Samúels og ég sé óteljandi aðrar búnar ýmsum hæfileikum og dyggðum.

Retrato_de_Sor_Juana_Inés_de_la_Cruz_(Miguel_Cabrera)Eins og kemur fram í Svarinu gekk Sor Juana ekki í klaustur vegna trúarótta heldur vegna þekkingarþorsta, því hún taldi Guð okkur ætla að reyna skilja sköpunarverkið og setja það í samhengi og því væru vísindi honum þóknanleg. Þessi sýn hennar á þekkingaröflun og iðkun fóru fyrir brjóstið á kirkjuyfirvöldum sem stafaði ógn af gáfuðum (og fallegum) konum, og fannst Sor Juana vaða uppi með heldur miklum „hávaða“. Yfirvaldið krafðist því undirgefni hennar og þagnar á opinberum vettvangi. Deilan varð til þess að fríðindi hennar í klaustrinu voru afnumin og bókasafn hennar, sem var eitt það stærsta á Nýja-Spáni, tekið frá henni. Þess var krafist af henni að hún helgaði sig trúboði meðal heiðingja og hætti að stunda fræðin. Skrifaði hún undir bréf þess efnis sem heitir „Ég, sú allra versta”. Fjórum árum síðar veiktist hún við að aðstoða klaustursystur sínar í plágu og dó.

 

 

Kjánalegu karlar sem ásakið

konuna um rökleysu

sjáið ekki að þið sjálfir eruð ástæða

þess sama og þið áteljið…

Hombres necios que acusáis

a la mujer sin razón

sin ver que sois la ocasión

de lo mismo que culpáis

(Lauslega þýtt úr kvæðabálkinum Redondillas)

Fyrir áhugasöm er bent á kvikmyndina „Yo, la peor de las todas“ í leikstjórn Mariu Luisu Bemberg og greinina „Sor Juana svarar fyrir sig, Skáld, fræðikona og femínisti á 17. öld“ eftir Kristínu I. Pálsdóttur, en pistillinn er að miklu leyti skrifaður upp úr þeirri grein.

Myndir fengnar frá wikipedíu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.