21. desember í jóladagatalinu er… Margrét Guðnadóttir

Höfundur: Herdís Helga Schopka

 

Margrét Guðnadóttir. Mynd héðan. http://ruv.is/frett/margret-saemd-heidursdoktorsnafnbot

Margrét Guðnadóttir. Mynd héðan.

Margrét Guðnadóttir (1929 – )

Margrét Guðnadóttir er veirufræðingur og fyrsta íslenska konan sem varð prófessor við Háskóla Íslands. Hún er prófessor emeritus við HÍ og var sæmd þaðan heiðursdoktorsnafnbót í nóvember 2011 fyrir framlag sitt til veirufræðinnar og greiningar veirusýkinga.

Margrét fæddist árið 1929 og fékk áhuga á veirufræði strax í menntaskóla. Að menntaskólanum loknum lá beint við að Margrét færi í háskólanám en á þessum árum var námsframboð í Háskóla Íslands fremur fábrotið. Eftir mikla yfirlegu komst Margrét að því að nám í læknisfræði myndi best henta hennar áhugasviði. Á næstsíðasta árinu í læknisfræðinni fór Margrét að vinna á Tilraunastöðinni á Keldum við að rannsaka lungnabólgufaraldur sem þá gekk.

Frumurnar sem notaðar eru við veirurannsóknir þurfa stöðuga umönnun. Hér fóðrar Margrét þær. Mynd héðan. http://www.laeknabladid.is/2009/03/nr/3452

Frumurnar sem notaðar eru við veirurannsóknir þurfa stöðuga umönnun. Hér fóðrar Margrét þær. Mynd héðan.

Ári síðar geisaði mænusóttarfaraldur hérlendis og fyrsta verkefni Margrétar eftir námið, þá nýráðin í fullt starf að Keldum, var að kortleggja útbreiðslu faraldursins um landið. Kortlagningin var liður í undirbúningi fyrir bólusetningu við mænusótt og nokkrum árum síðar var Margrét send utan, til Bretlands og Bandaríkjanna, til að læra hvernig mænusóttarbóluefnið var búið til. Í framhaldinu fékk hún styrk úr Vísindasjóði og fór til Yale-háskóla í framhaldsnám í tvö ár. Hún kom aftur heim til Íslands úr náminu árið 1960 og var þá ráðin sérfræðingur í veirufræði við Tilraunastöðina á Keldum.

Árið 1969 var Margrét, fyrst kvenna, skipuð prófessor við HÍ. Staða hennar var í sýklafræði við læknadeildina. Á þessum tíma voru fáar konur í íslenskri læknastétt en á undan Margréti höfðu á milli tíu og tuttugu konur lokið embættisprófi hérlendis. Hún telur sig á engan hátt hafa goldið þess í starfi að vera kona, og jafnvel þó hún hafi átt sinn skerf af óvildarmönnum þá hafi slíkt aldrei átt rætur í kyni hennar.

Í nóvember 2011 var Margrét sæmd heiðursdoktorsnafnbót við HÍ. Mynd héðan. http://www.hi.is/frettir/margret_gudnadottir_heidursdoktor_vid_hi

Í nóvember 2011 var Margrét sæmd heiðursdoktorsnafnbót við HÍ. Mynd héðan.

Margrét kom á fót rannsóknastofu háskólans í veirufræði við Landspítalann árið 1974 og hafði yfirumsjón með rannsóknum í veirufræði og greiningu veirusýkinga hérlendis um áratuga skeið. Margrét og samstarfsfólk hennar hafa rannsakað fjölmargar veirusýkingar, t.d. rauða hunda, mislinga, hettusótt og cytomegalo-veirusýkingar. Einn helsti samstarfsmaður Margrétar á Keldum, dr. Björn Sigurðsson, var brautryðjandi í rannsóknum á sviði hæggengra veirusýkinga og þegar hann féll frá langt fyrir aldur fram kom það í hlut Margrétar að þróa þær rannsóknir áfram. Hún einbeitti sér að eðli visnu-mænuveikisýkingar og gerð bóluefnis við þeirri sýkingu og hafa rannsóknir hennar á því sviði skilað henni í hóp fremstu vísindamanna fagsins í hinum alþjóðlega vísindaheimi. Þessar rannsóknir hafa einnig reynst ómetanlegar í baráttunni við aðra hæggenga veirusjúkdóma, fyrst og fremst eyðni eða HIV.

Margrét lét formlega af störfum sökum aldurs árið 1999. Starfsþrek hennar var þó hvergi nærri uppurið og hún hefur stundað rannsóknir sínar áfram allt fram á síðustu ár.

 

Heimildir:

Veirufræðingur af lífi og sál. Viðtal við Margréti Guðnadóttur í Læknablaðinu 2009.

Margrét Guðnadóttir heiðursdoktor við HÍ. Fréttasafn Háskóla Íslands.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.