Höfundur: Brynja Huld Óskarsdóttir
Kathrine Switzer fæddist 5. janúar 1947 í Þýskalandi og er bandarísk, rithöfundur, íþróttafréttakona og maraþonhlaupari. Hún er best þekkt fyrir að hafa verið fyrsta konan til þess að hlaupa Bostonmaraþonið, árið 1967.
Kathrine Switzer byrjaði snemma að stunda íþróttir og ögra íþróttaheiminum, sem á þeim tíma var karllægur, skipulagður af körlum, fyrir karla. Konur voru álitnar svo veikbyggðar og þollitlar að þær gætu engan veginn þolað sama álag og karlar.
Kathrine lagði stund á vallarhokkí sem unglingur og hljóp samhliða æfingum. Hún gat sér gott orð fyrir árangur í hokkíinu, þótti hafa gott úthald og var síðar boðið að keppa með frjálsíþróttaliði menntaskólans í Lynchburg í Virginíu. Hún var fyrst kvenna til þess að keppa með skólaliðinu og vakti þátttaka hennar mikla hneykslun. Á keppnisdegi var krökkt af fjölmiðlamönnum á skólasvæðinu og í áhorfendastúkunni því allir vildu sjá og fjalla um konuna sem vogaði sér að hlaupa með karlmönnum.
Þegar Kathrine hóf nám í blaðamennsku og íþróttafréttaritun við Syracuse-háskóla árið 1966 rann upp fyrir henni að þar væri þátttaka í íþróttum ekki í boði fyrir konur því ekkert var kvennalið í skólanum. Hún fór þess þá á leit við þjálfara karlaliðsins í víðavangshlaupi að fá að ganga í liðið. Kathrine fékk að æfa með liðinu en þjálfarinn benti henni á að hún gæti ekki keppt formlega með liðinu, þar sem það væri bannað samkvæmt reglum bandaríska frjálsíþróttasambandsins. Á æfingum hljóp hún með bréfbera skólans, Arnie Briggs, sem var vanur hlaupari og hafði hlaupið í Boston-maraþoninu 15 sinnum.
„Konur geta ekki hlaupið í Boston maraþoninu,“
voru fyrstu viðbrögð Arnies við því þegar Kathrine, sem hafði hlustað á sögur hans af maraþonhlaupum allan veturinn, sagðist vilja hlaupa í maraþoninu. Arnie snerist þó fljótlega hugur og gerðist þjálfari hennar, þar sem takmarkið var Bostonmaraþonið 1967. Úr varð að Kathrine náði kröfum, lagði fram læknisvottorð og skráði sig til þátttöku sem K.V.Switzer. Engum datt í hug að bak við þetta nafn leyndist kona.
Í kulda og slyddu stóð hún við ráslínuna að morgni keppnisdags, ásamt Arnie og Tom, unnusta sínum, sem var sleggjukastari, stór og þungur, óvanur að hlaupa, en vildi fylgja þeim.
Kathrine var eina konan í stórum hópi karla, sem fögnuðu henni ákaflega og buðu velkomna til hlaups. Öllum fannst þeim stórkostlegt að kona ætlaði að taka þátt í þessu elsta maraþoni íþróttasögunnar. Svo lagði hjörðin af stað.
Eftir nokkra kílómetra kom rúta full af fjölmiðlamönnum, sem tóku eftir Kathrine og tóku myndir í gríð og erg, enda skildu þeir fréttagildi þátttöku hennar. Jock Semple, hlaupstjóri, var einnig í rútunni og taldi Kathrine vera þarna á fölskum forsendum. Hann stökk reiður út og réðist að Kathrine, heimtaði keppnisnúmerið hennar og sagði henni að andskotast burt úr hlaupinu sínu og greip harkalega í hana. Arnie Briggs gerði tilraun til að slíta Jock lausan en það var ekki fyrr en Tom henti sér á hann að Jock sleppti takinu og kastaðist út fyrir brautina, meðan ljósmyndararnir mynduðu atvikið.

Þegar Jock Semple, hlaupstjóri, áttaði sig á því að kona væri í hlaupinu réðist hann að Kathrine til að ná af henni númerinu.
Kathrine var illa brugðið við árásina en þau hlupu áfram, staðráðnari en nokkru sinni fyrr að komast í mark, hvað sem það kostaði. Katherine kom svo í mark á 4 klukkustundum og 20 mínútum.
Þetta afrek hennar var þó hvergi skráð
og Íþróttabandalag Boston gerði sitt besta til að hunsa þátttöku hennar. Myndir og fregnir af uppákomunni fóru um allan heim og gerðu ráðandi öflum erfitt fyrir að þagga þetta niður. Næstu ár fylgdu fleiri konur fordæmi Kathrine og hlupu í Boston, þrátt fyrir reglurnar.
Katherine hefur síðan helgað sig baráttu fyrir því að skapa konum tækifæri til að æfa og keppa í íþróttum og að þær hefðu sömu réttindi og karlmenn á öllum sviðum þeirra. Hún barðist fyrir afléttingu á banni á þátttöku kvenna í Boston-maraþoninu og hvatti til þess að konur fengju að keppa í lengri vegalengdum á Ólympíuleikum. Boston-banninu var aflétt 1972 og á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 var fyrst keppt í maraþoni kvenna. Hún hélt áfram æfingum og keppni í langhlaupum og sigraði í New York maraþoninu 1974 á 2 stundum og 51 mínútu. Hún hljóp átta sinnum í Boston og sögulegar sættir urðu með þeim Jock Semple.
Kathrine Switzer hefur alla tíð barist fyrir réttindum og þátttöku kvenna í íþróttum og flutt fyrirlestra víða og skrifað bækur um konur og íþróttir. Hún hefur unnið sem íþróttafréttaritari og meðal annars hlotið Emmy-verðlaun fyrir íþróttalýsingar sínar þar sem hún hefur fjallað um Ólympíuleikana, ýmis heimsmeistara,- hlaupa,- og íþróttamót.
Hér má lesa lýsingu Katherinar sjálfrar af Boston-hlaupinu og aðdraganda þess.
Heimildir:
http://www.bbc.com/news/magazine-17632029
http://kathrineswitzer.com/about-kathrine/1967-boston-marathon-the-real-story/