Afrekskona fær fálkaorðu

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Sigrún Huld Hrafnsdóttir mynd1. janúar 2015 var Sigrún Huld Hrafnsdóttir sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir afrek og framgöngu á vettvangi íþrótta fatlaðra. Sigrún Huld Hrafnsdóttir fæddist 12. janúar 1970, dóttir hjónanna Kristínar Erlingsdóttur og Hrafns Magnússonar. Hún ólst upp í Seljahverfinu og gekk í Öskjuhlíðarskóla til 18 ára aldurs. Hún vinnur hjá Nóa Síríus og líkar það vel, hlaut nýlega viðurkenningu fyrir 25 ára starfsaldur þar.

Það er vitaskuld fréttnæmt að þroskahamlaður og einhverfur einstaklingur eins og Sigrún Huld skuli fá slíka viðurkenningu fyrst allra. Þar með er vonandi brotið blað í viðhorfum samfélagsins til þroskahamlaðra og einhverfra einstaklinga sem skarað hafa framúr í íþróttum og verið fyrirmynd annarra í svipuðum sporum.

Sundferill

Sigrún Huld var um árabil ein fremsta sundkona úr röðum fatlaðra. Hún hóf æfingar hjá Íþróttafélaginu Ösp árið 1983 og hætti keppni í lok árs 1996 eftir 13 ára sigursælan feril.

Sigrún Huld var nær ósigrandi á sundmótum bæði hér innanlands og erlendis þegar hún keppti fyrir Íslands hönd.

Bestum árangri náði Sigrún Huld á Ólympíumóti fatlaðra í Madrid á Spáni árið 1992 þegar hún vann til 9 gullverðlauna og 2 silfurverðlauna og setti um leið 4 heimsmet í einstaklingsgreinum og fjögur í boðsundum. Sagt var að Sigrún Huld Hrafnsdóttir hefði unnið til svo margra gullverðlauna að mótshöldurum fannst varla taka því að taka íslenska fánann niður, nema ef vera skyldi vegna fánareglna!

Sigrún Huld HrafnsdóttirEftir Ólympíumótið í Madrid átti Sigrún Huld ennþá glæstan sundferil og setti til viðbótar nokkur heimsmet í keppnum sínum hér heima og erlendis. Hennar aðalgrein var bringusund og á hún enn Íslandsmet í 100 og 200 metra bringusundi.

Sigrún Huld var þrívegis valin íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra, 1989, 1991 og 1994 og árið 1991 var hún útnefnd besti íþróttamaður þroskaheftra í heiminum af Alþjóðasamtökum þroskaheftra, INAS. Þá var hún valin íþróttamaður Reykjavíkur árið 1992. Einnig var hún valinn maður ársins hjá hlustendum Rásar 2 og Bylgjunnar á árinu 1992.

Óhætt er að fullyrða að Sigrún Huld hafi rutt brautina svo um munaði á Ólympíumótum fatlaðra með glæstum sigrum sínum í Madrid en síðan liðu heil tuttugu ár, þar til sundmaður úr röðum þroskahamlaðra, Jón Margeir Sverrisson, náði  því að vinna gullverðlaun á sama vettvangi.

Myndlistarferill

 
List SHH of Sara RielSigrún Huld lærði litablöndun og aðra praktíska hluti í tengslum við myndlist í nokkur ár hjá Lóu Guðjónsdóttur, myndlistarmanni. Sigrún Huld prófaði einnig að fara á sérstakt málunarnámskeið, en þar fann hún sig ekki. Lóa hafði einmitt tekið fram að hún þyrfti að njóta frelsis í listsköpun sinni.

Sigrún Huld hefur undanfarin 10 ár tekið þátt í ýmsum samsýningum á vegum Listar án landamæra, en árið 2014 var hún einmitt tilnefnd listamaður hátíðarinnar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.