Knúzannállinn 2014

Samantekt: Gísli Ásgeirsson

Knuz.is hóf fjórða útgáfuár sitt á liðnu hausti. Alls hafa 677 greinar birst þar og eru höfundar rúmlega 100. Í upphafi nýs árs er við hæfi að líta um öxl og skoða það sem hæst bar í hverjum mánuði.

Í lok janúar gerði Hildur Lilliendahl upp aðkomu sína að máli Jóns Baldvins sem þá var nýlokið, í greininni Kvalarar, sem fékk mikla útbreiðslu. Þar er lýst áhrifum greinaskrifa hennar og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur.

Við höfðum móðgað vini okkar. Kommana, femmana, listamennina, kratana. Alla sem vanalega sýndu okkur í versta falli góðlátlega þögn og á sparidögum skrifuðu innblásna pistla og skáldverk og fyrirlestra til stuðnings málstaðnum okkar. Og við vorum svo skelfilega einar. Andrúmsloftið í kringum okkur varð rafmagnað á kaffistofum í vinnunni og skólanum, í félagslífinu okkar, í útgáfupartíunum og á barnum og í fjölskylduboðunum. Við horfðum á feðraveldið rísa upp á afturlappirnar og nötra.

morfísMest lesna grein febrúar var Morfísbomban sem sprakk.  Þar voru m.a. rifjaðar upp reynslusögur stúlkna sem tekið höfðu þátt í mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna og orðið fyrir barðinu á karlrembu, kvenhatri og klámi af hálfu andstæðinga sinna, sem beittu öllum brögðum til að knýja fram sigur og tókst það. Þetta sagði Þórhildur Ólafsdóttir:

Við skíttöpuðum keppninni og mér var eiginlega bara létt. Var gersamlega úttauguð eftir það sem á undan hafði gengið. Sjálfsálitið ekki mikið. Ég var eiginlega bara hrædd við þessa gaura. Þeir voru svo miklir karlar í krapinu og voða vinsælir eitthvað, réðu öllu í skólanum sínum; aðalgaurarnir í framhaldsskólalífinu fyrir sunnan.

DontFeedTheTrolls2Í mars ákvað ritstjórn Knúzz að taka upp umræðustýringu að vel athuguðu máli þar sem „virkir í athugasemdum“ töldu sig eiga óskoraðan rétt á að vaða uppi með ómálefnalegar eða niðrandi, rembulegar athugasemdir.  Fyrir vikið varð umræðuvettvangurinn ekki þolendavænn og það latti fólk til þátttöku. Sama fólk og hafði kvartað yfir sóðalegu orðbragði í umræðuþráðum DV og Vísis, lét ekki af þusi sínu og kallaði þetta ritskoðun en það voru frekar hjáróma raddir þar sem Knúz var þarna einfaldlega að framkvæma það sem aðrir miðlar sögðust gera en réðu ekki við. Helstu röksemdir voru þessar:

Þetta er ekki ritskoðun. Þetta er ritstýring. Við berum virðingu fyrir tjáningarfrelsinu og rétti fólks til að segja skoðun sína en við þurfum ekki að bera virðingu fyrir skoðunum sem slíkum.  Þessi vettvangur er opinber en á um leið að vera öruggur, á sama hátt og heimili manns á að vera laust við óboðna gesti sem láta dólgslega og kúka jafnvel á forstofugólfið.  Við þurfum ekki útúrsnúninga, kvenfyrirlitningu og þolendaskömm.

Á netinu eru ótal leiðir til að fá útrás fyrir tjáningarþörf og allir sem lyklaborði geta valdið, geta stofnað blogg, skráð sig á Facebook og birt skoðanir sínar á öllu milli himins og jarðar, tekið fagnandi á móti skoðanasystkinum sínum og hunsað allar ábendingar sem hér hafa komið fram.

Mánuði síðar eða í apríl var hópurinn Kynlegar athugasemdir stofnaður á Facebook og meðlimir hans urðu rúmlega 11 þúsund þegar mest var. Þar reyndist umræðustýringin stjórnendum ofviða og því var hópnum lokað. Um ástæður þess segir annar stofnandi hópsins, Elín Inga Bragadóttir:

Hópurinn hætti að vera hópur áhugafólks um kynjajafnrétti og upprætingu á staðalmyndum og bera fór á hatursfullum kommentum á hinum ýmsu þráðum. Ég reyndi til að byrja með að bera virðingu fyrir skoðunum fólks en varð fljótt ljóst að til eru skoðanir sem engin skynsemi er í að bera virðingu fyrir, ekki síst þar sem fólk jafnan breytir í samræmi við skoðanir sínar.

the_vaginas_field_croppedMest lesna grein aprílmánaðar var eftir Önnu Bentínu Hermansen, Hugleiðing um kuntur. Þar segir í niðurlagi;

 

Stóri misskilningurinn um femínisma er að það sé kappsmál í öllum baráttumálum hans að banna eitthvað. Yfirleitt er bara verið að benda á aðra valmöguleika. Hvetja okkur til að hugsa, vera sjálfstæð, gagnrýnin og gefa okkur frelsi frá hjarðhegðun. Femínisminn hvetur okkur til að vera þessar kuntur sem sjálfstæðar konur voru kallaðar til forna. Því fátt er eins valdeflandi og að snúa við merkingu orða eða atvika sem eiga að vera niðrandi og bera þau með stolti og gera þau að sínum.

Hefndarklám var oft til umfjöllunar á síðum knúzz. Í maíbyrjun fékk yfirlýsingin Við fordæmum mikla útbreiðslu. Þar segir í upphafi:

hefndarklamNíðingsverk 5 ungra manna gagnvart sextán ára stúlku var aðalfrétt fjölmiðla í gær. Samkvæmt heimildum er nú í dreifingu á netinu myndband sem einn gerendanna mun hafa tekið af verknaðinum. Tilgangurinn virðist vera sá einn að niðurlægja og smána þolandann, um leið og dreifendurnir fyllast óútskýranlegri þórðargleði við að tryggja að þetta ofbeldisverk verði ætíð til á netinu. Þetta dreifikerfi drullusokka verður að uppræta.

Því er við þetta að bæta að þótt rannsókn þessa máls hafi lokið í júní hefur saksóknari enn ekki ákveðið hvort meintir gerendur verði ákærðir.

Í byrjun júní minntist Knúz Tinnu Ingólfsdóttur. Hún var þessi stelpa. Í júní skrifaði Elísabet Ýr Atladóttir greinina Forréttindavændi og femínismi sem varð tilefni til mikilla skoðanaskipta á knuz.is og víðar. Þau sem enn trúa á hamingjusömu hóruna voru þar nokkuð áberandi. Fleiri greinar um vændi eru á knuz.is.

Mokki 2Í júlí setti knattspyrnumót karlalandsliða úti í heimi mark sitt á samfélagið og þá áttu allir að hafa skoðun á „íþróttinni fögru“ eins og boltasparkið er kallað á tyllidögum. Þessir allir áttu helst að vera karlmenn og tala karlmannlega um knattspyrnu. Það var alla vega upplifun Margrétar Maack sem fengin var í HM-stofuna til að jafna kynjakvótann, þrátt fyrir að hún ítrekaði að hún skildi ekki fótbolta og vildi því ekki koma. Hún lýsti upplifun sinni í viðtali í Nýju lífi og Hökkuð tussa tók upp þann hluta sem mesta athygli fékk:

Í þrjár mínútur ræddi Margrét Maack sem sagt um áhugaleysi sitt á fótbolta. Áhorfendur hafa nokkra kosti: Hlusta og horfa. Hlusta ekki og horfa ekki. Fara á klósettið. Sækja sér mat og drykk. Standa upp og teygja úr sér eftir langa setu. Eða ræsa tölvuna og senda Margréti viðurstyggileg skilaboð á netinu. Væna hana um athyglissýki. Kalla hana “hakkaða tussu“.

Þrjár mínútur.“

Í ágúst var sendiherrastöðum útdeilt og þá var bent á að 8 af hverjum 10 sendiherrum væru karlar. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra kunni auðvitað skýringu á því. Hafa ber í huga að hann vill gjarna ræða jafnréttismál án þess að konur komi þar að.

Það er í raun kannski hefðin sem ræður því. Þetta hljómar ef til vill eins og klisja en sendiherrastörf kalla oft á tíðum á vinnutíma sem er allan sólarhringinn og gera kröfu á flutningsskyldu milli landa. Það gæti verið að konur sækist síður eftir þessum störfum.

Knúz fór á stúfana og fann konur sem höfðu hug á störfum í utanríkisþjónustunni. Umsóknirnar voru birtar í greininni Sendiherra óskast í sveit í þeirri von að ráðamenn myndu hugsanlega lesa um þær á einhverri rakarastofu meðan beðið væri eftir kjálkasnyrtingu.

heforsheÍ september fjallaði Knúzið um margt. Opið bréf þolanda vakti mikla athygli, Perravaktin kom fram en mesta útbreiðslu fékk þýðing á ræðu Emmu Watson. Þar segir í niðurlagi:

Ef þið trúið á jafnrétti eruð þið kannski, rétt eins og fólkið sem ég minntist á áðan, femínistar án þess að kalla það því nafni eða vera meðvituð um það. Fyrir það eigið þið skilið hrós. Við eigum stundum erfitt með að finna orð sem sameinar okkur öll, en góðu fréttirnar eru að nú höfum við eignast hreyfingu sem við getum sameinast um. Sú hreyfing nefnist HeForShe.

Ég býð ykkur að stíga fram, láta sjást til ykkar, taka til máls. Að vera hann fyrir hana. Og spyrja ykkur: Ef ekki ég, þá hver? Ef ekki núna, þá hvenær?

Þessi orð endurómuðu síðan í framlagi Réttarholtsskóla í hæfileikakeppni grunnskólanna sem fjallað var um í byrjun desember.

Í október var efst á baugi hvað kalla skyldi kynfæri. Buddubréf vakti víða athygli og á samfélagsmiðlum var hart deilt um orð og þá einkum hvort væri réttara, budda eða píka, og vísað var til barnabókar á vegum Óðinsauga. Einnig var spurt hvort myndband VÍ væri Rjóminn af íslensku menntaskólagríni. Greinarhöfundur fékk blendin viðbrögð og lýsir þeim í niðurlaginu:

„Miðað við þau viðbrögð sem ég fékk í kommentum, einkaskilaboðum á facebook og ummælum um mig á Feministafélagssíðu Verslunarskólans, eftir að ég lýsti upplifun minni á gríninu er auðvelt að setja sig í spor menntaskólanema á viðkvæmum aldri sem samþykkja ekki grínið. Maður á greinilega ekkert að gagnrýna gauraháttinn í þessu: Þá er maður femínistatussa með öfga, húmorslaus eða leiðinlegur.

Maður ætti kannski bara að halda áfram að halda kjafti, vera sæt og fara á blæðingar?“

Julienblanc3Í nóvember frétti Knuz.is af fyrirhugaðri komu Julien Blanc til Íslands en hann kennir körlum að reyna við konur og hikar ekki við að beita ágengni og ofbeldi ef því er að skipta.  Alræmdur ofbeldismaður á leið til Íslands var útbreiddasta grein mánaðarins og í kjölfar hennar var efnt til undirskriftasöfnunar gegn komu kappans.  Þar er vitnað í Julien og litið á myndböndin hans.:

Kæru stelpur, sparið mér fyrirhöfnina og setjið sjálfar nauðgunarlyfið (roofie) í glasið.

Myndbönd frá námskeiðum hans sýna hann mæla með og sýna á stundum viðreynslutækni þar sem konur eru  meðal annars teknar hálstaki eða höfuð þeirra er þvingað að klofi hans. Þessu fylgir ýmiss konar ruddaskapur blandaður blíðmælgi. Þeir sem eru ekki blindaðir af hrifningu sjá að þetta er engin venjuleg stefnumótaráðgjöf, heldur ofbeldi og líkamsárásir.

Desember var helgaður jóladagatali knúzz þar sem á hverjum degi var kynnt kona sem hafði eitthvað unnið sér til ágætis. Margar heimsálfur og lönd áttu þarna fulltrúa og verður ekki gert upp á milli þeirra en á aðfangadags var minnst Gunnars Hrafns, vinar okkar:

„Það var ástvinum, vinum, kunningjum og netvinum gríðarlegt áfall þegar Gunnar Hrafn lést við köfun aðeins 35 ára gamall, 4. ágúst 2011. Kannski er  klisjukennt að segja að „stórt skarð hafi verið höggvið í hópinn“ en það á fullkomlega við í þessu tilfelli. Það vantar eitthvað mikið í netheima þegar Gunnar Hrafn er horfinn. Því fæddist þessi hugmynd: Að skapa gagnrýninn vefmiðil sem gæti orðið vettvangur fólks – vina Gunnars Hrafns og skoðanasystkina hans – til þess að tjá sig um femínisma / jafnrétti / mannréttindi og allt sem því kynni að liggja á hjarta.

Eitt af síðustu kommentunum sem Gunnar Hrafn skrifaði í lífinu var þetta: „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“ Í minningu vinar viljum við breiða út knúzið, sem hefur frá upphafi lagt sig fram um að vera í senn vinalegt og smáfyndið, en um leið grafalvarlegt andsvar við hverskyns óréttlæti og vitleysu.“

Hér er stiklað á stóru. Rúmlega 250 greinar voru birtar á vefritinu á liðnu ári. Á forsíðu þess er leitargluggi sem lesendur eru hvattir til að nota við eigin upprifjun.

Ritstjórn vill nota þetta tækifæri og þakka öllum sem lögðu til efni og hugmyndir, innblástur og vinnu og gerðu í sameiningu árið 2014 að gjöfulu og góðu Knúzári!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.