Hinsegin áramótaannáll

Höfundur: Kári Emil Helgason

Hinsegin barátta skreið áfram á nýliðnu ári með nokkrum bakslögum eins og vænta má. Í þessum annáli fer ég yfir atburði sem mér fannst standa upp úr og skoða hvað má betur fara á nýju ári.

Vetrarólympíuleikarnir

Mótmæli við rússneska sendiráðið í Berlín. Myndin er sótt hingað.

Mótmæli við rússneska sendiráðið í Berlín, 8. september 2013. Myndin er sótt hingað.

Fyrsta stóra málið kom í febrúar þegar Vetrarólympíuleikarnir voru haldnir í Sotsí, Rússlandi strax í kjölfar nýsamþykktra laga þarlendis sem banna alla opinbera umræðu („áróður“) um samkynhneigð. Íslendingar voru upp til hópa æfir yfir ástandinu og margir reyndu að koma í veg fyrir þátttöku Íslands í viðburðinum í mótmælaskyni. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands heimsóttu leikana fyrir Íslands hönd. 

Haft var eftir Illuga í janúar fyrir leikana að hann teldi ekki rétt að blanda saman íþróttum og pólítík. Samtökin ’78 kvöttu þríeykið í kjölfarið til þess „senda markviss skilaboð um réttindi hinsegin fólks [enda væri annað] meðvirkni með mannréttindabrotum.“ Illugi klæddist regnbogatrefli sem hann fékk að gjöf frá Samtökunum á leikunum en litlum sögum fer af öðrum aktívisma ráðamanna Íslands á leikunum. Samkvæmt Sigríði Hallgrímsdóttur aðstoðarmanni menntamálaráðherra í samtali við blaðamann Vísis.is „gerði [Illugi] sem hann hafði tækifæri til að gera til að koma mótmælum gegn mannréttindabrotum á framfæri.“ Við leyfum okkur að vona.

Út úr skápnum

Laverne Cox. Myndin er sótt hingað.

Laverne Cox. Myndin er sótt hingað.

Fjöldi frægs fólks kom út úr skápnum á árinu, meðal annars Ian Thorpe sundkappiSam Smith söngvariDaniel Franzese leikari og Ellen Page leikkona og Michael Sam varð fyrsti samkynhneigði maðurinn til að komast inn í bandarísku ruðningsdeildina. 

En senunni stal hin óviðjafnanlega Laverne Cox sem varð fyrst fræg árið 2013 fyrir leik sinn í þáttunum Orange is the New Black þar sem hún leikur trans konu sem fer í fangelsi fyrir þjófnað til að eiga fyrir leiðréttingaraðgerð. Cox kom fram ásamt Carmen Carrera í viðtali við Katie Couric þar sem þær ræddu málefni trans kvenna. Þegar Couric byrjaði að spyrja um kynfærin þeirra svaraði Cox:

Mér finnst fólk vera með ákveðna áráttu varðandi það. Þessi árátta um leiðréttingarferlið og skurðaðgerðir hlutgerir trans fólk. Og þá gefst ekki færi til þess að fjalla um raunverulegar lífsupplifanir þeirra. Raunveruleiki trans fólks er svo oft erum við skotspónn ofbeldis. Við upplifum misrétti í hróplegu ósamræmi við restina af þjóðfélaginu. Við erum tvöfalt líklegri til þess að vera atvinnulaus; ef þú ert lituð trans manneskja er sú tala fjórfalt hærri en meðaltal þjóðarinnar. Morðtíðnin er hæst meðal trans kvenna. Ef við einblínum á leiðréttingarferlið fáum við ekki að tala um þessi mál.

Í maí birtist Cox á forsíðu Time í tengslum við viðtal sem hét „The Transgender Tipping Point“, fyrst alls trans fólks. Í kjölfarið birtist hún á fjölda tímarita: V, Essence og Candy. Hún hefur haldið áfram aktívisma sínum allt árið og hlaut fimm verðlaun á árinu fyrir störf sín í þágu trans fólks.

Sjónvarp

Úr sjónvarpsþættinum Looking frá HBO. Myndin er sótt hingað.

Úr sjónvarpsþættinum Looking frá HBO. Myndin er sótt hingað.

Sjónvarpsþátturinn Looking hóf göngu sína á HBO í janúar í fyrra, fyrsti leikni þátturinn sem fjallar að mestu um líf samkynhneigðra frá því Queer as Folk lauk göngu sinni 2005. Þátturinn fjallar um þrjá hommavini í leit að ástinni í Los Angeles. Aðalleikarar eru Jonathan Groff, Frankie J. Álvarez, Murray Bartlett og Russell Tovey. Ólíkt fyrri þáttum um líf homma eru allir aðalleikararnir opinberlega úti úr skápnum. Þátturinn hófst stirðlega en náði sér á vel flug undir lok seríunnar og í næstu viku fer önnur sería þáttarins í loftið, og skartar þá hinum nýútkomna-úr-skápnum Daniel Franzese meðal nýrra leikara.

Síðar í þessum mánuði hefur RuPaul’s Drag Race svo göngu sína á ný í sjöunda sinn en þátturinn hefur verið í eldlínunni frá upphafi og lenti meðal annars í gagnrýnisstormi árið 2014 fyrir notkun sína á orðaleiknum „She-Mail“ (sem vísar til orðsins „shemale“ sem er oft notað um dragdrottningar og trans konur sem níð og „mail“ sem þýðir póstur). Örkeppnirnar „You’ve got she-mail“ voru í kjölfarið fjarlægðar úr þættinum og sjónvarpsstöðin Logo baðst afsökunar á keppninni „Female or shemale“. 

Umræðan um hatursorðræðu í garð trans fólks hóf sig á loft í kjölfarið. RuPaul hefur neitað að biðjast beinlínis afsökunar og sagði að fólk þyrfti einfaldlega að „herða sig“ og „ég hef verið kölluð „tranny“ síðan áður en þið voruð fæddar og ég skil ekki af hverju það á að særa ykkur meira en mig“. Hann hefur þó hætt að nota bæði „shemale“ og „tranny“ opinberlega í kjölfar umræðnanna.

Úganda og umheimurinn

Lög sem bönnuðu samkynhneigð í Úganda voru felld af stjórnarskrárrétti afríska lýðræðisríkisins í ágúst á liðnu ári eftir aðeins níu mánuði í gildi en óljóst er hver framtíð laganna verður. Samkvæmt lögunum var hægt að dæma fólk til allt að fjórtán ára fangelsis fyrir kynlíf við fólk af sama kyni. 

Samkvæmt Sexual Minorities Uganda, sem eru mannréttindasamtök hinsegin fólks í landinu, töldu hómófóbíska glæpi og ofbeldi svo sem leiðréttingarnauðganir á lesbíum, misþyrmingar og kerfisbundnar pyntingar hafa aukist um sjö- til nítjánfaldast á árinu vegna laganna. Samtökin ’78 og Amnesty International höfðu staðið fyrir styrktartónleikum í 6. mars í Hörpu og stóðu þannig við bakið á úgandískum aktívistum sem berjast gegn því að þessi lög haldi gildi sínu.

heimskort samkynhneigð

Heimskort yfir stöðu samkynhneigðra gagnvart lögum. Kortið er sótt hingað.

Í kjölfarið hefur skapast umræða sem vert er að fylgja eftir á árinu varðandi önnur ríki sem stunda álíka mannréttindabrot á þegnum sínum. Nú þegar er samkynhneigð ólögleg í:

Afganistan, Angóla, Antígva og Barbúda, Alsír, Bangladess, Barbados, Belís, Botsvana, Brúnei, Búrma, Búrúndí, Bútan, Cook-eyjum, Djamaíka, Dómíníku, Egyptalandi, Erítreu, Eþíópíu, Gana, Gambíu, Gíneu, Grenada, Gvæjana, Kamerún, Katar, Kenýa, Kíríbatí, Kómoros, Kúvaít, Indlandi, Íran, Jemen, Líberíu, Líbýu, Malasíu, Malaví, Maldíveyjum, Máritaníu, Máritíus, Mórokkó, Namibíu, Nárú, Nígeríu, Óman, Palestínu (á Gaza-ströndinni, ekki á Vestur-Bakkanum), Pakistan, Papúa Nýju-Gíneu, Sambíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sankti Kristófer og Nevis, Sankti Lúsíu, Sankti Vinsent og Grenadíneyjum, Sádí Arabíu, Samóaeyjum, Senegal, Seychelles-eyjum, Simbabve, Singapor, Síerra León, Sólómóneyjum, Sómalíu, Srí Lanka, Súdan, Suður-Súdan, Svasílandi, Sýrlandi, Tansaníu, Tonga, Tógó, Trínídad og Tóbagó, Túnis, Túrkmenistan, Túvalú, Úsbekistan og Vestur-Sahara.

Ef listinn er skoðaður eftir landshlutum má sjá að ástandið er sérlega slæmt í Afríku, Mið-Austurlöndum og Suðvestur-Asíu. Hins vegar er það orðið mjög gott í Evrópu, Ameríkunum tveimur og Ástralíu. Það er því skýrt bil milli ríks og fátæks hinsegin fólks á heimsvísu ef ekki er horft til landamæra. 

Umræðan í kringum Úganda hefur verið gagnrýnd á árinu fyrir að byggja á pólítískri rétthugsun og áframhaldandi skoðanakúgun vesturveldanna yfir fyrrum nýlendum, enda var umræðan um Úganda að miklu leyti sprottin frá Bandaríkjunum. Það er þó einnig ýmsar vísbendingar s​em benda til þess að hvatinn að lögunum hafi einnig komið frá kristnum öfgasamtökum í Bandaríkjunum og því eðlilegt að samlandar þeirra reyni að bæta vernda gegn syndum þeirra.

Staðan í nágrenni Íslands

Utan listans eru svo fjölmörg lönd svo sem Rússland, Úkraína og Írak þar sem staða hinsegin fólks er einstaklega slæm þótt kynferðisleg tilvera þessa fólks sé ekki beinlínis ólögleg þar. Mörg lönd eiga einnig langt í land með að veita hinsegin fólki grundvallarréttindi til jafns við þessegin fólk. Meðal nágrannaþjóða má nefna að hjónabönd samkynja para eru ekki enn lögleg í Eistlandi, Færeyjum, Írlandi, Lettlandi, Litháen, Þýskalandi. Mön og Guernsey auk Norður-Írlands sem tilheyra Stóra-Bretlandi leyfa ekki heldur hjónabönd fólks af sama kyni þótt England, Wales og Skotland hafi loksins leyft þau á nýliðnu ári. 

Enn er eitthvað um að lönd krefjist skurðaðgerða á kynfærum til þess að leyfa nafnabreytingar trans fólks. Það þarf að stöðva og næsta skref er svo að leyfa öllu fólki að bera það nafn sem það kýs án tillits til kynja. 

Umræða um stöðu og lagaleg réttindi intersex fólks er rétt að hefjast af þunga. Intersex er hugtak sem nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum eða breytileika sem liggja á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn. Flest lönd mega gera miklu betur – en þar skiptir fræðsla raunar meira máli en lagabreytingar – enda velta ákvarðanir um framtíð intersex fólks iðulega á foreldrum og læknum, ekki ríkinu.

Horft til framtíðar

Ísland stendur einna best þegar kemur að bæði lagalegri og samfélagslegri stöðu hinsegin fólks. Þó eru fordómar enn landlægir hér eins og alls staðar annars staðar. Fólk gerir enn ráð fyrir að karlar eigi konur, konur eigi menn, talar um að trans karlar séu „fyrrverandi konur“ og að trans konur séu „karlar nema þú veist…“. Þetta er hugsun sem byggir á ofursmættaðri heimsmynd feðraveldisins og verkar á hinsegin fólk eins og dropi sem einn daginn holar steininn. 

Einnig ber að vera á varðbergi gagnvart lýðskrumsöflum í samfélaginu, sem er hætt við að beina spjótum sínum að hverjum þeim minnihlutahópi sem best hentar. Þess ber líka sérstaklega að gæta að hópar nýti bæglega stöðu hinsegin fólks til útilokunar samlanda þeirra eða sem réttlætingu fyrir kynþáttafordómum. Réttindi og frelsi hinsegin fólks hafa tekið mörgum bakslögum í gegnum langa sögu mannkyns og þess á milli tilvera þeirra þurrkuð aftur og aftur úr sögubókunum. Það getur alltaf gerst aftur enda fátt nýtt undir sólinni.

Að því sögðu horfir ágætlega til ársins 2015 og tækifærin eru endalaus. Það er mikilvægt að fækka löndum, þá sérstaklega lýðræðisríkjum, sem banna kynlíf samkynja para, og þar með tilvist þeirra. Ef tjónkað fæst við ríki á valdhyggjuríki á borð við Sádí Arabíu og Íran þá tjónka skal. Verum áfram góð fyrirmynd fyrir heiminn og leggjum kapp á að vera þeim góðir bandamenn sem helst á því þurfa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.