Leikhúslistakonur 50+, Kítón og Reykjavíkurdætur

Höfundur: Ritstjórn

Þegar litið er til ársins 2014 með hliðsjón af listrænni starfsemi kvenna er auðvitað ótal margt sem vert er að nefna. Þrjú eðlisólík en merkileg samstarfsverkefni kvenna í listum vöktu þó sérstaka athygli Knúzzins á árinu.

Leikhúslistakonur 50+

Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Guðlaug María Bjarnadóttir og Vilborg Halldórsdóttir. Myndin er sótt hingað.

Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Guðlaug María Bjarnadóttir og Vilborg Halldórsdóttir. Myndin er sótt hingað.

Leikhúslistakonur sem komnar voru af léttasta skeiði langaði til að halda við þjálfun sinni og starfi, en leikhús, stofnanir og leikhópar virðast ekki hafa mikla þörf fyrir konur sem eru eldri en 45-50 ára. Þess vegna kom upp sú hugmynd að konurnar tækju málin í sínar hendur og sköpuðu sín eigin tækifæri. Flestar kvennanna búa yfir mikilli reynslu, þekkingu og hæfileikum á sviði leiklistar sem ekki fær að njóta sín nægilega innan leikhúsanna. Hópurinn Leikhúslistakonur 50+ var stofnaður óformlega í lok ágúst 2014.

Hópurinn skilgreinr sig sem menningarafl sem hugsanlega gæti haft áhrif og breytt viðhorfum fólks til þátttöku eldri kvenna í listum.

Margrét Rósa sem rekur Iðnó bauð hópnum húsnæði til að æfa í og sýna, þannig að miðstöðin er í elsta leikhúsi bæjarins sem er afar viðeigandi. Aðrir upphafsmenn eru María Reyndal leikstjóri, Edda Björgvinsdóttir leikkona og Hlín Agnarsdóttir höfundur og leikstjóri.

Hingað til hafa Leikhúslistakonur 50+ staðið fyrir þremur dagskrám:  Ljóðin okkar, ljóð eftir þrjár leikkonur (Vilborgu Halldórsdóttur, Þórunni Magneu og Guðlaugu Bjarnadóttur), Sál mín var dvergur á dansstað í gær, ljóðagjörningur byggður á ljóðaheimi Steinunnar Sigurðardóttur og svo leiklestur á leikriti Maríu Reyndal, Mannasiðum.

Þegar er komin dagskrá fyrir vorönn hópsins. Næsta verkefni er danssýning sem Þórhildur Þorleifsdóttir ætlar að kóreógrafera fyrir eldri konur sem vilja dansa nútímadans. Þá er einnig á dagskrá: Ræður frægra kvenna, Uppistand eldri kvenna, og dagskrár í kringum 100 ára kosningaafmæli íslenskra kvenna.

Haldnir hafa verið vikulegir fundir í Iðnó á fimmtudögum milli 5 og 7 sem eru opnir öllum konum sem telja sig eiga heima í hópnum.  Á þessum fundum talar alltaf ein kona um líf sitt og starf sem síðan leiðir til umræðna um stöðu listakvenna í samfélaginu. Þessir fundir fara fram uppi á efsta lofti en síðan hefur hópurinn aðgang að öðrum salarkynnum Iðnó til æfinga og sýninga. Margréti Rósu verður seint fullþakkaður sá stuðningur. Facebooksíða hópsins er hér.

Tónlistarhátíð kvenna og málþing um konur í tónlist á vegum KÍTÓN

Annað átaksverkefni til eflingar listrænnar virkni kvenna var vegleg uppskeruhátíð sem KÍTÓN, félag kvenna í tónlist, hélt í Hörpu í byrjun mars.

Frá tónleikum í Hörpu á uppskeruhátíð KÍTÓN í mars 2014. Myndin er sótt hingað.

 Félagið var stofnað árið 2013. Nafn félagsins stendur fyrir „konur í tónlist“ og tilgangur félagsins er að skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal kvenna í tónlist. Þeim tilgangi er náð með auknum sýnileika, viðburðum og stöðugu samtali við tónlistarkonur á Íslandi. Félagið fer þvert á allar tónlistarstefnur, strauma, bakgrunn, menntun og jafnvel má sjá konur í félaginu sem starfa við tónlist sem umboðsmenn eða hafa atbeina eða starfa af tónlistargeiranum.  Facebook-síðu félagsins er að finna hér.

KÍTÓN stóð fyrir ýmsum viðburðum árið 2014, en hátíðin í Hörpu ber að sjálfsögðu hæst. Markmiðið með viðburðinum var að sýna og heiðra verk og störf kvenna í tónlist á Íslandi og Harpa var undirlögð stærri og minni viðburðum í heila helgi, sem lauk með stórtónleikum í Eldborgarsal, en á tónleikunum stjórnuðu konur sinfóníuhljómsveit í Hörpu í fyrsta skipti – þær Hallfríður Ólafsdóttir og Hildigunnur Rúnarsdóttir.

Í tengslum við hátíðina bauð KÍTÓN upp á frábært málþing um jafnrétti í tónlist á Íslandi, þar sem tekið var á málefnum sem snúa að stöðu kvenna í tónlist á Íslandi. Uppskeruhátíðin heppnaðist einstaklega vel í alla staði.

Reykjavíkurdætur

Reykjavíkurdætur.

Reykjavíkurdætur. Myndin er sótt hingað.

Þriðja samstarfsverkefnið sem vert er að nefna er einnig á sviði tónlistar, en rétt fyrir jól í hitteðfyrra birtist fyrsta lag Reykjavíkurdætra og vakti það vægast sagt mikla eftirtekt. Hvatningin og viðtökurnar voru svo góðar að dæturnar ákváðu að halda samstarfinu áfram og hafa nú komið út nokkur lög á vegum þeirra sem auðvelt er að finna á netinu, eins og til dæmis hér.

Andsettar af rímum ógn á okkar tímum
rappkonukvendi búnar mæk í hendi
rífum kjaft með okkar rímnaflæði
það leggur enginn í okkar kvenmannskvæði
því Reykjavíkur dætur
eiga þessar nætur

Tilurð Reykjavíkurdætra má rekja til þess að um sumarið 2013 stofnuðu tvær þeirra, Blær og Kolfinna, til kvennarappkvölda. Tilgangurinn með þeim var að mynda umræðugrundvöll þar sem sjónarmiðum kvenna og reynsluheimi væru gerð skil, á taktvísan og skiljanlegan hátt. Í þessu fyrsta lagi, sem ber nafn klansins (því vissulega eru þær það), er rappað á beinskeyttri íslensku og textinn tekur á sumu af því sem helst ber á góma í samfélaginu, en sem af einhverjum ástæðum hefur ekki fengið hljómgrunn fyrr en á allra síðustu misserum. Það er óhætt að segja að þær stöllur hafi slegið á rétta strengi af viðtökunum að dæma.

Eins og gefur að skilja úir og grúir af mismunandi röddum en þær eru jú tuttugu talsins þegar þetta er skrifað, enn bætist í hópinn því kvennarappkvöldin eru enn við lýði og baráttuglaðar systur eru víst velkomnar í hópinn. Í lögum sínum, sem mætti skilgreina sem rappað pönk, fjalla þær um það sem þeim leikur hugur til og þær eru ekkert að skafa utan af hlutunum. Sjálfsmynd kvenna, stefnumótamenningin, kynferðisofbeldið eða bara kynjapólitíkin eins og hún leggur sig, en um leið beina þær spjótum að landspólitíkinni sem oft vill lenda á öðrum stað en sú kynbundna.

Ein af fjórum í okkar heimsveldi
verður fyrir kynferðislegu ofbeldi
Er það út af lélegu barnauppeldi?
Eða hæstirétti sem stöðugt felldi
Þessar ákærur,
kalla þær smáskræmur,
málflutningur dræmur
og þar af leiðir ekki saknæmur.

(Reykjavíkurdætur og Halldór Eldjárn – D.R.U.S.L.A, ft. Ásdís María)

Ein af liðskonum klansins, Bergþóra Einarsdóttir, segir vinsældalöngun eða ögrun ekki aðalhvatann á bak viðð textagerðina, heldur tjáningarþörf sem knúin er áfram af þeim alvörumálum sem nefnd eru hér að ofan; með því rappa og pönkast saman styðja þær við og styrkja hvor aðra.

Viðfangsefni Reykjavíkurdætra er samfélagsleg ádeila. Bakgrunnur þeirra flestra eru listir og fræði, sem svo skarast hressilega í þeirra meðförum. Meðal þeirra má finna leikkonur, dansara og myndlistarkonur, skáldkonur og tónlistarkonur, nemendur og fræðinga, nokkuð sem glögglega má sjá og heyra í myndböndum þeirra, eins og til dæmis þessu hér.

Tónar dreymandi
ljósin leikandi
gyðjur á dansgólfi
við getum allt

Takturinn seyðandi
líkamar þreyfandi
á þessu dansgólfi
við megum allt

(Reykjavíkurdætur – Fiesta)

Stíll þeirra hefur farið fyrir brjóstið á mörgum því ekki aðeins skarast hinar ólíku listir í meðförum þeirra heldur sækja þær einnig innblástur til annarra menningarheima. Nú nýlega voru þær sakaðar um kynþáttafordóma vegna þess að með klæðnaði og skrauti vísa þær í hindúisma. Reykjavíkurdætur eru vissulega dætur menningar sinnar þótt þær lifi á fjölmenningarlegum krossgötum og má auðveldlega skilja sviðsframkomu þeirra sem gagnrýni á nýliðna atburði á Indlandi, í samhengi framsetningarinnar. En það getur einnig verið oftúlkun, engin heilagur grundvöllur er fyrir gjörningunum heldur er markmiðið að hittast og láta hlutina gerast í anda pönsksins. Í ljósi velgengi og áhrifa klansins má segja að þær hafi hitt í mark. Facebook-síðu Reykjavíkurdætra er að finna hér.

Efni og heimildir lögðu til:

Ásdís Thoroddsen, Hildigunnur Rúnarsdóttir, Katrín Harðardóttir og Lára Rúnars, auk upplýsinga af vefsvæðum og Facebook-síðum.

4 athugasemdir við “Leikhúslistakonur 50+, Kítón og Reykjavíkurdætur

 1. Ég staldra við það sem pistillinn segir um Reykjavíkurdætur og gagnrýnina um mögulega kynþáttafordóma sem felast í því að klæðast búningum annarra menningarsamfélaga. Í pistlinum stendur:

  „En það getur einnig verið oftúlkun, engin heilagur grundvöllur er fyrir gjörningunum heldur er markmiðið að hittast og láta hlutina gerast í anda pönsksins.“

  Hér finnst mér ritstjórnin vera á villigötum. Gagnrýni á menningaryfirtöku eða cultural appropriation fjallar ekki um „heilagan grundvöll“ eða að tiltekin menningararfleifð sé upprunaleg og ósnertanleg. Hún fjallar um að þeir sem njóta forréttinda á einhvern hátt, t.d. hvítt gagnkynhneigt cis fólk tali ekki fyrir aðra sem búa við verri samfélagsstöðu, velji það úr menningu þjóða sem ekki eru vestrænar og/eða hvítar sem þeim finnst krúttlegt og sætt og sníði það að eigin forréttindakerfi. Mér finnst greinin afgreiða slíka gagnrýni of auðveldlega með þessum „oftúlkunar“pælingum.

  Ég hef enga fastmótaða skoðun á því hvort Reykjavíkurdætur stundi menningarlega yfirtöku eða ekki. En einmitt vegna þess að róttæk femínísk viðhorf koma fram í textum sveitarinnar, þætti mér vænt um að sjá meðlimi hennar, áheyrendur og túlkendur ræða slíkar spurningar um menningarlega yfirtöku á opinn hátt.

  Það eru margar leiðir til að standa vörð um réttindi kvenna. Ein af þeim sem eru mikilvægastar nú um stundir er að femínistar séu „intersectional“, íhugi tengslin við önnur flokkunarkerfi sem tengjast sexisma, velti t.d. fyrir sér orientalisma, síðnýlendufræðum, hinsegin fræðum, fötlunarfræðum og greiningum á rasima og trúarbrögðum svo dæmi séu nefnd.

  Þá fyrst látum við látið hlutina gerast í anda pönksins.

 2. Mér datt í hug að skella inn umfjöllun Sölku sem hún skrifaði fyrir nokkru um þetta mál þar sem hún ræðir viðfangsefnið. Ég held það sé alveg greinilegt að engin af okkur Reykjavíkurdætrum hafi kynþáttafordóma þó við skreytum okkur með semalíusteinum en auðvitað er í lagi að ræða hlutina. Að mínu mati held ég að mikið fötum þyrftu að vera bönnuð ef maður mætti ekki klæðast neinu sem hefur stíláhrif frá öðrum mennningarheimum. Ég ræddi einnig málið við vinkonu mína frá Nepal og henni fannst það frekar vera skemmtilegt að við nýttum okkur fagurfræði úr annarri menningu heldur en að það væri nokkurn tíman niðrandi. Mér finnst ritstjórnin alls ekki vera á villigötum með því að kalla þetta oftúlkun, listrænt ferli er heldur ekki alveg eins og akademískt ferli… þegar við semjum lög eða finnum búninga erum við ekki að pæla í tengslum þeirra flokkunarkerfa sem eru að trenda þessa stundina í akademískum feminisma. Ég held líka að ef maður ætti að gera allt „pólitískt rétt“ þá væri frekar vandlifað og þá sérstaklega sem skapandi einstaklingur. Auðvitað er gott að fylgjast með, fá innblástur og þroska hugsunina en ég held að fræðin eigi ekki að stjórna sköpuninni. Ég held að andi pönksins sé að hafa hugrekki til að láta hlutina flakka án of mikillar ritskoðunar…

 3. Það getur vel verið að ég sé á villigötum í oftúlkun minni þegar ég leiði líkum því að dæturnar séu að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi á Indlandi. Um aðrar oftúlkanir er ekki rætt í pistlinum. Eins og Bergþóra bendir á er sköpunin sjálfsprottin og kannski mætti finna þar lykilinn að hinum fjarlæga „heilaga grundvelli“. Ég ýjaði einmitt að fjölmenningarlegum krossgötum því mér fannst að vegna textanna mætti skilja valið á búningunum í jákvæðu ljósi, þannig að það sjálfsprottna, einlægnin í framsetningunni og svo þetta pönk, gæfi kost á einhverju framhaldslífi, í hvernig formi sem það nú væri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.