Samþykki

Höfundur: Emma Holten

Dag einn, á venjulegum morgni í október árið 2011 komst ég ekki inn á tölvupóstinn minn og heldur ekki inn á Facebook. Ég velti því ekkert meira fyrir mér- er alltaf að gleyma lykilorðum- og reyndi bara aftur seinna. Þá biðu mín hundruð skilaboða og tölvupósta.

Í skilaboðunum og tölvupóstunum voru myndir af mér.

Fyrsta mynd: Ég er nakin, í rökkvuðu herberginu hjá fyrrverandi kærastanum mínum. Sautján ára, frekar klaufaleg, dálítið álút: sakleysisleg tilraun til að vera sexí.

Önnur mynd: Tekin tveimur árum síðar, í herberginu mína í Uppsölum í Svíþjóð. Eldri, aðeins öruggari með mig en ekkert mikið samt.

Það var augljóst hvað hafði gerst: myndirnar voru nú komnar á netið. Ég var orðin ein af þúsundum, hundruðum þúsunda stelpna sem hafði verið kastað inn í klámiðnaðinn gegn vilja sínum. Ég hugsaði með mér: „hversu slæmt getur þetta verið?“ Strákunum í skólanum myndi sennilega finnst þetta ógeðslega fyndið og eyða tíu mínútum í að spyrja hver annan: „Sjitt, sástu myndirnar af Emmu?“ Auðmýkjandi, vissulega, en ég hef aldrei skammast mín fyrir líkama minn eða að vera kynvera. Auðvitað óskaði ég þess að þetta hefði aldrei gerst en mig óraði ekki fyrir því hvað næstu tvö ár báru í skauti sér.

Vikurnar liðu og skilaboðin héldu áfram að koma. Ég var á vefsíðum sem voru fullar af þjáningarsystrum mínum, konum sem aldrei vildu að myndirnar af þeim kæmu fyrir allra augu, sem höfðu aldrei viljað fá athygli frá fleiri en einum.

„Karlmenn elska berar konur,“ hugsaði ég, „Ég vissi það alveg.“ En spurningarnar í tölvupósthólfunum mínum gerðu það alveg ljós að aðdráttaraflið sem myndirnar höfðu fólst ekki bara í nekt minni.

VITA FORELDRAR ÞÍNIR AÐ ÞÚ ERT DRUSLA?

VARSTU REKIN ÚR VINNUNNI?

HVAÐ VORUÐ ÞIÐ AÐ GERA ?

HVER GERÐI ÞÉR ÞETTA?

SENDU MÉR FLEIRI NEKTARMYNDIR EÐA ÉG SENDI YFIRMANNINUM ÞÍNUM ÞESSAR!!

Skilaboðin voru frá karlmönnum um allan heim. Táningsstrákum, háskólanemum, kjarnafjölskyldufeðrum. Það eina sem þeir áttu sameiginlegt var að vera karlmenn. Þeir vissu að ég vildi ekki vera á þessum vefsíðum. Þegar ég gerði mér ljóst að það var niðurlæging mín sem kveikti í þeim fannst mér eins og snara hertist að hálsinum á mér. Það var sú staðreynd að samþykki fyrir birtingunni var ekki fyrir hendi sem var erótísk, þeir fengu mest út úr því að vita að ég vildi þetta ekki.

Það er eitt að vera kynferðisviðfang fólks sem finnst þú aðlaðandi en það er allt annar handleggur þegar það er engin „þú“, þegar afmennskunin er aðalatriðið. Ég gerði mér grein fyrir því að ef ég hefði verið fyrirsæta í kynferðislegum stellingum hefði ég ekki vakið viðlíka athygli. Líkami minn var ekki  það sem heillaði. Og það virtist sem getuleysi mitt til að hafa stjórn á aðstæðum réttlætti ofsóknirnar. Ég var fallin kona, lögmæt bráð. Hvað var ég annað en hóra sem fékk það sem hún átti skilið?

Svo tók ég eftir því að þetta fyrirbæri – að kona væri gerð að kynferðisviðfangi gegn vilja sínum – var út um allt. Til að mynda „creepshots“ , heimsfyrirbæri sem felur í sér að kona er mynduð án vitneskju hennar eða samþykkis, í þeim tilgangi að deila myndunum á vefnum í kynferðislegu samhengi.  Á sambærilegum vefsíðum setur fólk inn hlekki á Facebooksíður í þeim tilgangi að athuga hvort einhver getur reddað eða stolið fleiri myndum af eiganda síðunnar. Hér eru konur notaðar eins og hlutir og sú staðreynd að þær eru hvorki spurðar leyfis né vita af verknaðinum er ástæðan fyrir kynferðislegu aðdráttarafli þeirra.

Þetta fyrirbæri er almælt á vefnum og er bein staðfesting á eldri og ennþá almennari samræðu um kvenlíkamann, að það sé erótískt að kynþokkavæða einhvern sem veit ekki af því. Við þekkjum öll tegundaheitin: sexí kennslukonan/nemandinn/þernan /barþjónninn/hjúkkan/læknirinn. Öll störf geta verið kynþokkafull í sjálfu sér, svo framarlega sem þeim er sinnt af konu. Kynþokkinn felst hvorki í starfinu né konunni, heldur þeirri staðreynd að á meðan konan sinnir starfinu getur áhorfandinn búið sér til kynlífsfantasíur um hana. Og er hún þá orðin almenningseign bara með því að vera til?

Hættan í þessum hugsanagangi felst ekki í því að einhver upplifi örvun eða finnist annar einstaklingur kynferðislega aðlaðandi heldur í hugmyndinni að það sé hægt að eiga kynferðislega stund þar sem tveir einstaklingar taka þátt, án samþykkis annars þeirra.

Við konur sem tölum í nafni femínisma erum oft taldar fáránlegar þegar við gagnrýnum götuáreitii (e. catcalling) og í gagnrýninni felst að við séum hræddar, ráðum ekki við svoleiðis aðstæður. Auðvitað gerum við það. Gagnrýni okkar felst frekar í því hvernig götuhróp setja kvenlíkamann í samhengi í opinberu rými. Þar er hann hlutur til að skoða kynferðislega, sama hvort konan sem líkaminn tilheyrir er að vinna/versla/sækja börnin sín í skólann/bíða eftir strætó.  Götuhrópin undirstrika að hér sé kvenlíkami á ferð, kynlífsviðfang, og þá skiptir engu máli hvað konan er að gera eða hennar skoðun á því að vera kynferðisleg í sínu daglega lífi. Hún er það bara, hvort sem henni líkar betur eða verr.

Ef mennirnir sem höfðu samband við mig íhuguðu auðmýkingu mína, um þá staðreynd að ég er manneskja, ætli þeir myndu halda áfram að skrifa mér? Ef það væri almennt litið á konur sem einstaklinga sem ættu sín viðhorf og kynvitund sjálfar, myndi þá þykja jafn sjálfsagt að taka af þeim myndir án þess að þær vissu af því? Ef þeir sem kalla til kvenna á förnum vegi sæju konur sem flókið og sjálfrátt fólk myndu þeir þá ryðjast inn í einkalíf þeirra? Nei. Nei, vegna þess að þú getur ekki réttlætt slíka hegðun nema með því að kvenlíkaminn sé hlutur. Og ekki hlutur eins og teningur eða vetrarúlpa heldur hlutur þér til fróunar. Og  þannig neyðir þú einhvern til að taka að sér hlutverk í þínum persónulegu kynórum.

Slíkt getur því aðeins gerst að fólk gleymi, eða viti hreinlega ekki, að aðstæður þar sem annar aðilinn hefur ekki gefið samþykki sitt, er ekki kynferðislegt samspil/kynlíf. Það eru bara aðstæður þar sem  tvær manneskjur eru til staðar, þú og einhver sem þér finnst sexí.  Ekkert annað.

Þeir sem leita að myndum af mér og öðrum þolendum eru virkir þátttakendur í afmennskun kvenlíkamans. Þeir gleyma því að konurnar á myndunum eru fólk sem langaði á einhverju skeiði að vera kynverur fyrir einhvern sem þær þekktu en ekki kynferðisleg viðföng.  Þeir gleyma því að enginn einstaklingur á skilið að vera smækkaður niður í hlut.

En þetta hugarfar er líka hættulegt. Því sá sem sér konur gerðar að hlutum nógu oft fer að líta á það sem sjálfsagt og eðlilegt viðhorf. Og það sem verra er: Manneskjur sem eru hlutgerðar á þennan hátt fara sjálfar að líta á sig sem hluti. Ef þér er sagt nógu oft að þú eigir ekki skilið að komið sé fram við þig af virðingu kemur að því, að kvöldi dags, fyrir svefninn, að þú byrjar að samþykkja það viðhorf. Það hefur verið erfitt verkefni að leita að sjálfsvirðingunni, eftir að vera sagt á hverjum degi í þrjú ár að ég verðskuldi enga slíka virðingu.

Ég hef eytt miklum tíma í að velta fyrir mér hvernig ég gæti mögulega hætt að hata líkama minn. Ég kenndi honum um auðmýkingu mína. Af hverju lét hann fólk koma svona fram við mig? Átti ég nokkurn tíma eftir að líta á sjálfa mig sem manneskju aftur?

Það er ekkert eitt svar við þessum spurningum og ekkert einfalt að vera föst milli þess að óska þess helst að enginn sjái þig nokkurn tíma aftur og þess að vera ákveðin í því að láta ekki líf þitt stjórnast af skömm.

Ég velti þessu lengi fyrir mér.

Ég fann að ég yrði að endurskrifa sögu líkama míns til að eiga möguleika á því að geta horft á nakinn líkama minn og séð þar manneskju. Ég ákvað að til þess að ná því markmiði yrði ég að endurmennska mig.

Ég setti mig í samband við ljósmyndarann Cecilie Bødker. Hún sagði mér að ljósmyndun af nöktum konum sem ekki höfðaði til karllæga augnaráðsins og gerði konurnar ekki að kynferðisviðföngum væri næstum því óvinnandi verk. Hvernig gæti hún tekið myndir af mér í engum fötum sem sýndu samt svo ekki væri um villst að ég væri manneskja og ætti skilið mannvirðingu? Við reyndum. Þessar myndir snúast ekki bara um að mér batni. Ég vil líka setja spurningamerki við og gera tilraunir með hlutverkin sem naktar konur eru nánast alltaf settar í. Við brosum sjaldan, höfum litla stjórn, erum varla á lífi. Við horfum aldrei, heldur er ævinlega horft á okkur.

Myndirnar eru tilraun að því að gera mig aftur að kynveru frekar en kynlífsviðfangi. Ég skammast mín ekki fyrir líkama minn, heldur á ég hann. Samþykki er lykillinn að öllu. Á sama hátt og nauðgun og kynlíf eiga ekkert sameiginlegt eru myndir sem deilt er annars vegar með og hins vegar án samþykkis tveir gjörólíkir hlutir.

Þessi grein birtist fyrst hér, í vefritinu HYSTERIA. Þeir sem vilja styðja útgáfu vefritsins geta smellt hér.

Brynhildur Björnsdóttir þýddi, með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

 

 

7 athugasemdir við “Samþykki

  1. Mér finnst að Emma Holten hafi allan rétt til að birta af sér fallegar nektarmyndir á netinu, ef henni sýnist svo og finnst það hjálpa sér í baráttunni við hefndarklám. En jafnframt er mér mjög til efs að aðferðin við að pósta nektarmyndir til að upphefja áhrif hefndarkláms sé endilega alltaf heppileg. Við stjórnum ekki því sem verður um myndirnar okkar og internetið gleymir engu.

    Mér finnst vera ákveðið vandamál við það að munurinn á nekt og klámi fjalli um samþykki ljósmyndaviðfangsins. Valdeflandi rök sem byggja á upplýstu samþykki hafa þann kost að færa sektarbyrði kynferðisof yfir á gerandann, en mörkin virðast liggja í einhverju subjektífu samþykki sem getur líka kallað sektarbyrði þess sem ráðist er á. Hvað með þá sem gefur samþykki sitt fyrir myndum og síðan er það traust og samþykki misnotað?

  2. Mér finnst nálgun Emmu Holten eiga rétt á sér en það er ekki þar með sagt að hún sé sú eina rétta. Það má líka spyrja sig hvort hér sé í raun verið að tala um „samþykki“ í þeim skilningi að það er ekki hægt að gefa sér að Emma hefði samþykkt neina birtingu neinna mynda nema sem viðbragð við ósamþykktri birtingunni. Hennar eigin birting er í raun hennar samþykki við sig sjálfa, eða þannig finnst mér ég skilja það.

    Ég er fullkomlega sammála því að „samþykki“ er flókið hugtak í þessu samhengi, og raunar mörgu öðru samhengi. Hitt finnst mér jafn ljóst að frásögn Emmu er lýsing á mjög persónulegri aðferð við að bregðast við hennar tilteknu aðstæðum, en ekki tillaga að lausn á því flókna vandamáli sem birting mynda í heimildarleysi og hefndarklám sannarlega er. Þar getur samþykki verið mjög óljóst hugtak og ekki endilega einu sinni gagnlegt, ekki frekar en í umræðu um klám almennt.

    Ég les grein Emmu Holten fyrst og fremst sem mjög sterka og vandaða greiningu á hvötunum að baki þess sem hún varð fyrir og áhrifamikla lýsingu á afleiðingum þess á þolandann. Ekki endilega sem hvatningu til allra kvenna að gera það sem hún gerði, þótt það hafi virkað fyrir hana.

  3. Hefndarklám er held ég stærsta breyting á samfélagsógnum við konur frá því nauðgun sem vopn í stríði var fundin upp. Ég á ofboðslega erfitt með að ná utan um allt þetta dót: chansluts, 8chan, Saurlífi o.s.frv. Mig óar við. Börn alast upp við rosalega skrítna sjálfsmynd með tilvist alls þessa. Ég hef enga sérstaka lausn og hugsa að lausnin hennar muni ekki henta flestum. Mér finnst myndirnar hennar fallegar en mig langar helst að gráta af tilhugsuninni um tilurð þeirra.

  4. Ég skil þörf Emmu Holten til að búa til nýjar myndir með hennar samþykki, og finnst það flott hjá henni og margt gott tekið fyrir í þessari grein. En það er engin lausn á þessu samfélagsvandamáli sem hræðir mig líka mjög mikið.

  5. Virkilega vel skrifuð grein og krefjandi hugleiðingar. Gott hjá Emmu að taka völdin aftur í sínar hendur. Mér finnst meira skipta að HÚN tók völdin, en minna skipta hvernig nákvæmlega hún fór að því.

    Kudos, Emma.

  6. Bakvísun: Hrelliklám: innlegg í femíníska nýyrðasmíð | *knúz*

  7. Bakvísun: Hrelliklám snýst um viðhorf samfélagsins | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.