Margaret Atwood breytir lífi þínu – hér eru tíu dæmi um það!

Höfundur: Emma Cueto

atwood

Kanadíski rithöfundurinn Margaret Atwood

Í fyrsta sinn sem ég las bók eftir Margaret Atwood var ég fjórtán ára, sem er líklega í það yngsta til að lesa Sögu þernunnar *… en skítt með það. Það var líka hann pabbi minn sem mælti með bókinni við mig (já, mér er ljóst hversu óvenjulegt það er að fyrsta „alvöru femmabókin“ skuli hafa verið lánsbók úr hillu karlmanns; ég get svo sem lítið sagt annað en að ég á frekar frábæran pabba).

Það skiptir raunar minnstu eftir hvaða leiðum Margaret Atwood smaug inn í líf mitt, því þegar hún var á annað borð komin til mín varð ég aldrei söm eftir. Síðan þetta var hef ég eytt tíu árum í að vinna mig hægt og rólega gegnum (risavaxið) höfundarverk hennar og eina ástæðan fyrir því að ég er ekki enn búin að gleypa það allt í mig er að ég kvíði því svo að klára – en reyndar þarf ég að halda tórunni alla leið til ársins 2114, ef ég ætla að lesa allt!

Hvaða Atwood-aðdáandi sem vera skal getur upplýst þig um að verk hennar breyta lífi manns. Það er ekki að ástæðulausu að manneskjan er goðsögn í lifanda lífi. Það er ekki bara vegna þess að hún kann öðrum betur að spinna heillandi frásagnarvef, með tungutaki sem er gullfallegt og meitlað, heldur einnig vegna þess að hún er afburðasnjall hugsuður sem fléttar flóknar hugmyndir og pælingar saman við sögur sínar og sem valda lesandanum heilabrotum löngu eftir að síðasta blaðsíðan hefur verið lesin. Og það besta er að hún er afar afkastamikill höfundur sem hefur sent frá sér fjölda skáldsagna, smásagnasafna, ljóðabóka og greina og meira að segja skrifað barnabækur.

Besta og veigamesta ástæðan til að elska bækur Margaret Atwood er þó sú að þegar þú lýkur bók eftir hana ertu ekki sama manneskjan og þú varst þegar lesturinn hófst. Að lesa Atwood er ævintýraferð sem breytir manni á ótal mismunandi vegu.

1. Þú MUNT verða femínisti

The Edible Woman, eða Æta konan, kom út árið 1969.

The Edible Woman, eða Æta konan, kom út árið 1969. Sjá nánar hér.

Mig grunar að hver sá sem les Margaret Atwood og verður ekki femínisti af því hljóti að vera annaðhvort óforbetranlegur kvenhatari eða óvenjulega tornæm/ur. Atwood notar afar sjaldan, jafnvel aldrei, hið alræmda f-orð (og þá er ég að tala um f-orðið sem tengist jafnréttisbaráttunni, ekki hitt f-orðið), en verk hennar eru einhver besta og ítarlegasta lýsingin á misréttinu, kúguninni, ofbeldinu (andlegu og líkamlegu) og bara því almenna ógeði sem konur fá yfir sig sem ég hef nokkru sinni lesið í skáldskaparbúningi. Þetta mun gera þig reið/an. Og valda þér ónotum. Fá þig til að hugsa. Og þegar upp er staðið verðurðu mjög líklega orðin/n femínisti.

2. Þig fer að gruna að dystópíur séu ekki jafn langt frá því að vera möguleiki og þú vildir gjarnan halda

Myndskreytingar eftir Önnu og Elenu Balbusso úr The Handmaid´s Tale (sjá meira hér).

Myndskreytingar eftir Önnu og Elenu Balbusso úr The Handmaid´s Tale (sjá nánar hér).

Atwood kann betur en flestir rithöfundar að draga upp mynd af ógnvekjandi dystópísku samfélagi (e. dystopia er andheiti við hugtakið utopia, eða fyrirmyndarríki/fullkomið samfélag. Ekkert samþykkt heiti er til á íslensku og því er yfirleitt einfaldlega talað um „dystópíu“). Hvort sem það er hið kristilega einræðisfeðraveldi í Sögu þernunnar eða algert stjórnleysi og samfélagshrun eins og lýst er í Oryx and Crake og síðari bókum þeirrar sögu, The Year of the Flood og MaddAddam, er Atwood snillingur í að lýsa dystópískri framtíð á ljóslifandi, hrollvekjandi hátt. Sumar lýsinganna virðast fjarstæðukenndar en í umhverfi sögunnar verða þær raunverulegar, svo raunverulegar að blóðið í manni frýs. Og ef maður les nógu lengi verða dystópíur Atwood manni sem annað heimili.

3. Þér verður ljóst að ekkert er eins og það virðist vera

Hvort sem verkið er smásaga um ofurvenjulega kontórista eða margslungin skáldsaga sem fær Booker-verðlaunin og samanstendur af sögu inni í sögu inni í sögu og þar  sem leyndarmálin eru fleiri en komið verður á tölu, er Margaret Atwood snjallari en flestir rithöfundar við að sanna fyrir lesandanum að fæst er það sem það virðist vera. Allt sem við lítum á sem eðlilegan, sjálfsagðan hlut getur hún tekið og umbreytt í eitthvað undursamlegt eða hrollvekjandi. Þetta er sérstakt stílbragð sem einfaldlega breytir sýn þinni á heiminn til frambúðar.

4. Frasinn „May Day“ mun öðlast sérstaka merkingu í þínum huga

Þernan Offred og bílstjórinn Nick bera saman bækur sínar. úr kvikmynd Volker Schlöndorff frá 1990.

Þernan Offred og bílstjórinn Nick bera saman bækur sínar. úr kvikmynd Volker Schlöndorff frá 1990.

Hver einasta Atwood-bók inniheldur setningar og myndmál sem límist á heilann og minnir þig alltaf á bókina þegar þú rekst á það upp frá því. Ég hef sérstakar mætur á frasa sem kom til mín úr Sögu þernunnar. Í hvert sinn sem ég heyri „May Day“ minnir það mig á ógnarstjórn einræðisherra og andspyrnuhreyfingar í felum. Þannig er það bara.

5. Þér verður ljóst að það eru alltaf fleiri en ein hlið á málinu

two_sidesEf einhver rithöfundur kann á því lagið að sýna okkur fleiri en eina hlið á öllum málum og kringumstæðum er það einmitt hún Margaret Atwood. Hvort sem það er hryllilegt og óskiljanlegt morð í Alias Grace, margradda frásögn frá mörgum sjónarhornum í Cat´s Eye eða óvænt endalok The Blind Assassin, nú eða þá óræð og hlédræg snilld ljóðsins Siren Song, svo ekki sé minnst á það þegar Atwood gerði sér lítið fyrir og endurskrifaði Ódysseifskviðu frá sjónarhorni Penelópu, eiginkonu Ódysseifs (í Penelópukviðu), er næsta víst að Atwood mun ævinlega krefjast þess að þú efist um trúverðugleika sögumanns eða frásagnarinnar og grafir dýpra, þar til þú sviptir hulunni af hinni hliðinni á sögunni.

6. Þú munt eiga margar andvökunætur

Myndskreyting eftir Jason Perdador, úr Oryx and Crake. "Even in Snowman's boyhood there were luminous green rabbits." Myndin er sótt hingað.

Myndskreyting eftir Jason Perdador, úr Oryx and Crake. „Even in Snowman’s boyhood there were luminous green rabbits.“ Myndin er sótt hingað.

Þótt Margaret Atwood skrifi ekki hrollvekjur hefur hún valdið mér ansi mörgum andvökum. Það er ekki bara vegna þess að dypstópíurnar hennar eru svo óhugnanlegar, eða að draugasagan í Alias Grace er reyndar talsvert meira hrollvekjandi en maður gerði ráð fyrir. Það er vegna þess að hún birtir manni svo ljóslifandi aðstæður og atburði sem eru afskaplega óþægileg og erfið, gjarnan aðstæður og atburði sem söguhetja hennar er í raun ófær um að takast á við eða ráða við, og það eitt getur gert hverjum sem er órótt.

7. Þú ferð að skilja hvað það er mikilvægt að segja sögur kvenna

Ég gæti skrifað langa ritgerð um það hvernig Margaret Atwood skrifar um konur, um það vægi og þá eftirtekt sem hún veitir sögum kvenna og reynslu þeirra. Ég gæti reyndar skrifað enn lengri ritgerð um það hvernig „sögulegi eftirmálinn“ aftast í The Handmaid´s Tale felur í sér mjög skýra afstöðu til þess hvernig sagnfræðingar og fræðimenn hafa hunsað og þaggað niður sögur kvenna.  Ef ekki hefði verið fyrir Atwood veit ég ekki hvenær mér hefði orðið það ljóst að konur hafa sögur að segja og að sögur þeirra skipta máli, sama hversu mjög umheimurinn allur leggur sig fram um að smætta þær og gera lítið úr þeim.

8. Þér lærist að það á aldrei að treysta neinni sem heitir Zenia

Stikla úr sjónvarpsmyndinni Robber Bride, sem gerð var eftir skáldsögu Atwood árið 2007. Mary-Louise Parker var tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir hlutverk Zeniu.

Allt í lagi, þetta er grín, en alveg grínlaust er sögupersónan Zenia í The Robber Bride einn af eftirlætis skúrkunum mínum í bókmenntasögunni, vegna þess að hún er þannig gerð að maður áttar sig aldrei alveg á henni. Og vegna þess að hún er frábært dæmi um færni Atwood til að skapa kvenkyns skúrka sem storka öllum hefðbundnu „trópunum“ (e. trope = birtingarmynd eða myndmál sem er staðlað eða bundið í hefð) sem við sjáum alls staðar annars staðar – eða, eins og í þessu tilviki, notar allar trópurnar samtímis, sér í hag. Atwood kennir okkur að konur geta verið óféti og skúrkar, rétt eins og karlar, og á jafn einstaklingsbundinn og margvíslegan hátt og karlarnir. Og – að það er vissara að treysta aldrei neinum sem heitir Zenia.

9. Þú kemst smám saman á þá skoðun að formgerðir og bókmenntagreinar séu í raun ímyndun

Margaret Atwood einskorðar sig ekki við eina skáldskapargrein heldur vinnur innan og þvert yfir mörg og mismunandi frásagnarform – hún skrifar vísindaskáldsögur, skáldsögur, leikur sér að morðsöguforminu og nýtir sér stílbrigði hrollvekjunnar. Hún endursegir sígildar goðsögur. Hún skrifar smásögur, skáldsögur, ritgerðir, ljóð og barnabækur. Í The Blind Assassin skrifar hún vísindaskáldsögu sem er inni í venjulegri skáldsögu sem er sem slík hluti af einn einni skáldsögu. Ef þú lest nógu margar bókanna hennar rennur einn daginn upp fyrir þér að mörkin á milli bókmenntagreina eru í raun lítið annað en ímynduð landamæri.

10. Þú gerir þér ljóst að femínismi er flókinn

beyoncé feminist Var ég búin að nefna að Margaret Atwood er femínískur höfundur? Það er hún nefnilega, en verk hennar eru líka frábær leið til að kynnast femínisma, því hún gerir manni fyllilega ljóst hversu flókinn femínismi er og hvað kúgun kvenna er margbrotin og margháttuð. Enginn getur lesið skáldsögu eftir Margaret Atwood og hugsað með sér, að lestri loknum, að nú þurfum við bara smá „Girl Power“ til að redda þessu öllu. Þess í stað hugsar þú: Rosalega er þetta margslungið og samofið öllu í samfélaginu og djöfull er þetta allt bara ógeðslega erfitt!

Lífið er ekki einfalt, kúgun er ekki einfalt fyrirbæri og femínismi er hreint ekki einföld hugmyndafræði. Það er lexía sem lærist rækilega af því að lesa bækur Margaret Atwood – og gleymist aldrei upp frá því.

Þessi pistill birtist fyrst hér þann 29. desember 2014 og birtist hér með góðfúslegu leyfi. Halla Sverrisdóttir þýddi.

* Tvö verka Margaret Atwood hafa komið út á íslensku. Annað er skáldsagan The Handmaid´s Tale, eða Saga þernunnar  (Áslaug Ragnars þýddi), hitt er skáldsagan The Penelopeiad, eða Penelópukviða. Sigrún Á. Eiríksdóttir þýddi.

Á opinberri heimasíðu Atwood, http://margaretatwood.ca, er að finna upplýsingar um verk Atwood og höfundarvirkni hennar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.