Höfundar: Elín Inga Bragadóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir
Í apríl 2014 var umræðuhópurinn Kynlegar athugasemdir stofnaður á Facebook. Hann óx hratt og meðlimir urðu rúmlega ellefu þúsund. Tilgangur hans var þessi:
Vettvangur fyrir fólk til að deila aðstæðum og/eða athugasemdum sem eru bundnar við kynferði og það hefur orðið fyrir í hversdagslífi sínu. Fyrir annað fólk að sjá hvað ójafnréttið liggur víða og grefur djúpt. Verum tillitsöm og notum ekki nöfn eða nákvæmar staðarlýsingar (nema þess þurfi), það er ekki það sem öllu máli skiptir.
Rétt fyrir áramót var honum lokað og öllum eytt nema stjórnendum. Þetta vakti nokkra athygli fjölmiðla en hvarf í öldurót dægurmálahafsins. Ritstjórn knuz.is fékk nánari skýringar í svörum við nokkrum spurningum.
Er þörf fyrir svona hóp og í hvaða mynd?
Til að byrja með þá var upplifunin af „Kynlegum athugasemdum“ frábær og raunar dýrðin ein að upplifa samkenndina og skilninginn sem ríkti innan hópsins. Það var eiginlega sama hvaða saga var sett inn á síðuna af slæmri upplifun af kynjakerfinu, það var einhver sem kommentaði: “Oh, ég hef líka lent í þessu.” Í kjölfarið fylgdi síðan yfirleitt umræðuþráður þar sem hugsað var í lausnum.
Það er svo ótrúlegur styrkur í fjöldanum, þó að í rauninni sé ömurlegt hve margir höfðu slæmar sögur að segja af upplifun á kynjakerfinu á Íslandi árið 2014. Það sama má segja um þörfina fyrir svona hóp, það er í sjálfu sér smá glatað að slík þörf sé til staðar en það hefur bara sýnt sig að í takt við nýja og breytta tíma spretta í sífellu fram ný höfuð á kynjaójafnréttisskrímslinu og við verðum að vera á tánum til þess að koma auga á þau og vera vakandi fyrir nýjum valdatengslum.
Markmið okkar var að við myndum auðga hugmyndaheim hvers annars og bæta skilnings milli fólks, í kynjafræðilegu samhengi. Eins vildum við taka fræðilegu kynjafræðiumræðuna svolítið út á við og brúa bilið á milli þeirra sem eru að grúska í femínískum fræðum og þeirra sem e.t.v. höfðu ekki kynnt sér málið mikið fram að stofnun hópsins. Það heppnaðist raunar að mörgu leyti vel. Við a.m.k. leyfum okkur að trúa að kynjafræðifræjum hafi verið sáð í huga margra, að skilningur sé að mörgu leyti meiri og að hafist hafi verið handa við brúun bilsins.
Þetta var ofboðslega fræðandi fyrir okkur og við ímyndum okkur að sama eigi við um alla sem tóku þátt í umræðum og eins þá sem fylgdust með. Það var frábært að fá betri innsýn í hugarheim fólks sem hafði sjálft verið í femínískum hugleiðingum en með allt annan reynsluheim en maður sjálfur. Við teljum að það sé í raun mikil þörf fyrir umræðuvettvang sem þennan, sem rúmar margbreytileika, veitir samfélagslegt aðhald, sem leyfir röddum undirokaðra hópa að hljóma. Sá sem tæki sambærilegt verkefni að sér þyrfti að læra af því sem vel tókst til og ekki síður af því sem mistókst og hafa ráðrúm til þess að hella sér í verkefnið af heilum hug og hafa til að bera nokkuð sterkar taugar. Verkefnið reyndist okkur mun viðameira en við héldum í upphafi.
Hvað mynduð þið gera öðruvísi ef þið stofnuðuð hópinn núna?
Hópurinn var án gríns stofnaður í hálfgerðu bríaríi og pirringi eftir femínískt erfiðan dag. Við hefðum e.t.v. undirbúið okkur betur ef við hefðum gert okkur grein fyrir að það yrðu ekki bara vinir okkar og áhugafólk um kynjajafnrétti sem myndi sækja um aðild að hópnum. Við hefðum t.d. sennilega verið tilbúnar með grundvallarumgengnisreglur fyrir hópinn og svo voru nokkur stillingaratriði sem við hefðum haft öðruvísi. Í rauninni fóru fyrstu dagarnir mest í að læra að vera stjórnendur í stórum facebookhóp. Til að byrja með gátu t.d. allir bætt við innleggi í grúppuna án þess að við þyrftum að samþykkja innleggið fyrst. Það varð hins vegar fljótt ljóst að slíkt fyrirkomulag myndi aldrei ganga og það voru nokkur agaleg innlegg sem náðu birtingu innan hópsins áður en við náðum að eyða þeim út. Í kjölfarið breyttum við stillingunum á þann veg að okkar samþykki varð nauðsynlegt áður en innlegg fengu birtingu. Ef við hefðum í byrjun gert okkur grein fyrir hvað þetta yrði stór hópur hefðum við alveg örugglega sótt um einhvers konar styrk til að sinna þessu af alúð, þar sem þetta var allt í einu ekki lítill költhópur heldur orðið að samfélagslegu verkefni í þágu jafnréttis. Á tímabili tók það eiginlega stóran hluta dagsins ef við ætluðum að hafa undan við að fylgjast með því sem fram fór, setja okkur almennilega inn í mál sem við þekktum ekki til og gera athugasemdir eftir því sem við átti o.s.frv. Hugsanlega hefði þurft að hafa fleira fólk innanborðs og funda reglulega, upp komu mörg siðferðileg álitamál og hefði verið gott að geta borið slíkt undir hvert annað. Að vinna í hópi hefði sennilega reynst auðveldara og þá hefðu reiðipóstarnir í innhólfinu e.t.v. ekki verið eins rætnir og persónulegir.
Ritstýring eða ritskoðun?
Góð og mikilvæg spurning. Nokkrir meðlimir vændu okkur í sífellu um að skerða málfrelsi sitt með stalínskri ritskoðun. Við teljum að fólk hefði e.t.v. átt að kynna sér aðeins grundvallaratriði varðandi málfrelsi og ritskoðun áður en það æddi út á ritvöllinn með slíkar ásakanir. Manni finnst eiginlega frekar sjálfsagt að fólk kynni sér aðeins málin áður en það blandar sér í umræður, til að umræðan fari ekki bara í rugl. Því var hins vegar ekki alltaf þannig farið innan hópsins og þá gripum við í taumana.
Við notum orðið ritstýring. Elín dvaldi hluta ársins meðal fólks sem hefur búið við aðstæður þar sem frelsisskerðing er mikil og málfrelsi er ekki fyrir að fara. Það fólk flúði landið sitt en heimamenn í landinu þeirra eru enn pyntaðir fyrir skoðanir sínar og nota því ekki facebook af ótta við stjórnvöld sem fylgjast vel með því sem þar fer fram. Fólk á þess vegna á hættu að lenda í fangelsi og verða fyrir hrottalegum pyntingum með því einu að nýta sér samskiptamiðilinn facebook til að tjá skoðanir sínar. Það var dálítið absúrd að vera þarna úti og hlusta á sögu þessa fólks og sjá á sama tíma fólk innan „Kynlegra athugasemda“ halda því fram að við ástunduðum réttrúnaðarritskoðun og aðhylltumst skerðingu á málfrelsi eftir að við höfum eytt í burtu ummælum þar sem grundvallarvirðing fyrir persónum var ekki sýnd eða hatursorðræða höfð í frammi. Sumir virtust einhvern veginn álíta okkur ríkisrekið batterí.
Við fengum líka fjöldan allan af einkapóstum um hvort okkur fyndist í lagi að eyða út skoðunum sem væru ekki réttar skv. okkar eigin höfði. Við reyndum fyrst að vera umburðarlyndar gagnvart öllum skoðunum en varð fljótt ljóst að það er einfaldlega engin skynsemi fólgin í því að samþykkja sumar skoðanir sem hafðar eru í frammi. Sem betur fer var fólk sem rétti af hugsanavillur og rökstuddi jafnréttissinnaðar skoðanir sínar góðum rökum þegar umræðan var farin út um þúfur. Oft hlýddu einstaklingar hins vegar einfaldlega engum rökum og skemmdu allar umræður og þá þótti okkur þeir ekki eiga neitt erindi í umræðuna og vísuðum þeim úr hópnum.
Lágmarkskrafan
Við litum svo á að ef fólk væri ófært um að hlusta á skoðanir annarra og kynna sér málin, þó ekki væri nema algjör grunnatriði, þá ætti það ekkert erindi í umræðuna. Eins fólk sem virtist fyrirmunað að setja sig í spor annarra sem sögðu frá slæmum upplifunum sínum af kynjakerfinu. Einn vinur okkar sagði okkur frá samtali sem hann varð vitni að inní klefa þegar hann var í ræktinni: „Þær eru samt ekki femínistar, þetta er bara eitthvað svona tuð.“ Kannski finnst þér þetta bara tuð ef þú hefur aldrei reynt að setja þig í spor annarra og aldrei raunverulega orðið sjálfur fyrir barðinu á kynjakerfinu. Það kom oftar en einu sinni fyrir að eitthvað særandi bull var sagt án þess að sá sem það ritaði virtist einu sinni pæla í afleiðingum orða sinna. Eða við ímyndum okkur allavega að fólk pæli ekki í afleiðingunum, annars líður manni örugglega hræðilega. Nema náttúrulega maður sé alveg gjörsamlega ófær um að setja sig í spor annarra en við erum samt öll manneskjur og við trúum því að við séum öll fær um það. Þetta er kannski að einhverju leyti hugsunarleysi, ásamt óöryggi og vanlíðan, við höfum jú öll þjáðst. Það er bara partur af því að vera manneskja.
Alltaf þegar kynjajafnrétti ber á góma svarar einhver því að það sé bara verið að væla yfir engu. Við settum þess vegna eina reglu innan hópsins þess efnis að það væri bannað að afgreiða umræður sem væl – það væri einmitt tilgangur hópsins að ræða akkúrat þau mál sem eru yfirleitt þögguð með þeim hætti að það sé bara verið að væla yfir engu. Það var rosa afhjúpandi hvað fólk reyndi að tala í kringum regluna og hélt að það gæti þaggað umræðuna með því að sniðganga orðið “væl” en beita sömu þöggunaraðferð með öðru orðalagi. Það var partur af ritstýringunni okkar að bregðast við öllum slíkum ummælum, svo við tölum nú ekki um þann fjölda fólks sem braut regluna beint. Oft leyfðum við hins vegar glötuðum ummælum að standa ef einhver skarst í leikinn og svaraði með góðum rökum og raunar „skólaði“ þann upp úr skónum sem hafði í frammi meiðandi ummæli (hatursorðræðu). Við töldum að það hefði svo ótrúlega ríkt fræðslugildi fyrir þá sem lásu að sjá andsvörin, sem oft voru alveg brilljant, að það væri betra að leyfa öllu að standa óhreyfðu heldur en að fjarlægja efnið.
Hvað finnst ykkur um umræðuhefðina á netinu eins og hún blasir við ykkur?
Við erum flest að reyna að fóta okkur í þessum netheimi. Umræðan verður oft hatursfull þegar femínismi er til umræðu, og raunar bara oft á netinu yfir höfuð. Í upphafi var þetta í lagi, eins og við sögðum en síðan kemur fólk með þöggunartilburði sem vill ekki að verið sé að ræða þessa hluti, það hentar því ekki. Það gerist eiginlega alltaf það sama. Einhver hefur umræðu, t.d. um ofbeldi gagnvart konum, þá kemur einhver og spyr hvort það eigi nú alveg að gleyma körlunum og minnir á að þeir verði líka fyrir ofbeldi. Þá er bent á að það sé alveg hárrétt og síðan er reynt að halda áfram með umræðuna en hún er skemmd afþví að fólk hópast saman um að afvegaleiða hana með því að femínistar hugsi alltaf bara um konur. Eitthvað af svipuðum toga, þetta er svolítið þrástef.
Síðan verður umræða oft mjög erfið afþví að fólk byggir lífsskoðun sína á gjörólíkri hugmyndafræði sem það á erfitt með að hverfa frá. Það er annars vegar hópur sem trúir á algjört frelsi og sjálfræði einstaklingsins og lítur svo á að allt sé undir honum sjálfum komið, óháð öllum ytri aðstæðum og áhrifaþáttum – nánast í tómarúmi þar sem við lifum í fullkominni einangrun frá öðrum einstaklingum. Hins vegar er hópurinn sem trúir því að ekki sé hægt að skilja samfélagið frá einstaklingnum og áhrif gagnverkunar milli einstaklinga – þróun einstaklingsins í samfélagi við aðra. Umræðan fer oft í hnút vegna þess að fólk er ekki að tala út frá sömu forsendum, grundvallarlífsskoðanir eru svo ólíkar að það gengur hvorki né rekur í samræðunni. Femínísk umræða verður sennilega sérstaklega erfið í þessu samhengi, fyrir utan peningaþáttinn, s.s. launamun kynjanna sem allir eru sammála um að sé vandamál. Það er svolítið erfitt að eiga í samræðu við hópinn sem nær einungis utan um peningamismuninn og þar spilar inní ólíkur reynsluheimur. Það er rosa auðvelt að ætla að útiloka menningarlega þáttinn ef maður hefur aldrei upplifað að vera áreittur ítrekað á leiðinni heim að nóttu til, o.s.frv. Reynsluheimurinn er allur annar.
Væntingar
Það eru mjög ólíkar væntingar sem fólk virðist hafa þegar það kemur inn í umræðuna. Sumir koma með opnum huga og eru tilbúnir að læra af öðru fólki, leggja til umræðunnar og ýmist styrkjast í skoðun sinni eða hverfa að ígrunduðu máli frá fyrri hugmyndum eftir að hafa hlýtt á góð mótrök. Svo eru aðrir sem koma inn í umræðuna og verja sína skoðun með kjafti og klóm án þess að virðast taka eftir öðrum í umræðunni, a.m.k. ekki leggja við hlustir þegar aðrar raddir heyrast. Svolítið morfísheilkenni þar sem allt snýst um að vinna kappræðuna. Við trúum því ekki að heimurinn auðgist með bættri kappræðulist heldur með bættri umræðuhefð þar sem umræður leiða til aukinnar þekkingar og skilnings á veruleikanum og þannig auðugri hugmyndaheimi. Þetta þarf ekkert að vera neitt rosalega flókið, oft er bara gott að spyrja sig áður en maður blandar sé í umræðu á netinu: “Hvað vil ég fá út úr umræðunni og hvers vegna ákveð ég að taka þátt í henni?” Kannski líka: “Hvers vegna er þetta til umræðu?”
Tveir heimar
Margir virðast halda að internetið sé „stafrænt no man’s land” þar sem allt aðrar reglur gilda en í raunheimi. Ef við tökum sem dæmi að við þurftum ítrekað að vísa fólki út úr grúppunni sem hagaði sér ekki, þá má velta fyrir sér hvort hið sama myndi gerast ef allir sem tóku þátt í hverjum umræðuþræði myndu hittast á kaffihúsi. Þ.e., myndi fólk segja sömu hluti og meinar það yfir höfuð allt það sem það segir á netinu? Við gerum okkur í hugarlund að við myndum ekki þurfa að vísa fólki á dyr fyrir að geta ekki hagað sér eins og sýnt fólki grundvallarvirðingu ef við sætum öll saman yfir kaffibolla, a.m.k. ekki eins mörgum og raunin var með „Kynlegar athugasemdir.“
Ítarefni:
Bestu kynlegu athugasemdirnar.
Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit