Hvers vegna er The Biggest Loser umdeilt sjónvarpsefni?

Höfundur: Gabríela Bryndís Ernudóttir

líkamsvirðing 2

Líklega hefur það ekki farið framhjá mörgum að sýningar á annarri seríu af The Biggest Loser Ísland eru að hefjast. Á nánast öllum strætóskýlum á höfuðborgarsvæðinu eru skilaboðin skýr: „Baráttan heldur áfram“. The Biggest Loser þættirnir hafa notið mikilla vinsælda frá upphafi og breiðst út um heiminn þannig að í dag eru staðbundnar útgáfur af þáttunum sýndar í 27 mismunandi löndum og landsvæðum í heiminum. Þeir hafa hins vegar líka sætt töluverðri gagnrýni, þannig að að þegar fyrsta íslenska þáttaröðin var auglýst með þeim orðum að þættirnir væru „vottaðir af sálfræðingum, næringarfræðingum og læknum“ gaf fjöldinn allur af félagasamtökum fagfólks hér á landi út yfirlýsingu, þar sem skýrt var tekið fram að þættirnir væru hvorki vottaðir né samþykktir af íslensku fagfólki. Fleiri gagnrýnisraddir heyrðust einnig, svo sem frá Röggu Nagla og Dóra DNA. 

Ljóst er að The Biggest Loser er umdeilt sjónvarpsefni og er þessi pistill skrifaður til að varpa ljósi á hvers vegna svo er. Áhrifamáttur þáttanna og tilgátur um að þeir ýti undir fitufordóma hafa jafnvel orðið að fræðilegu rannsóknarefni. Því er mikilvægt að fólk skilji um hvað ádeilan snýst áður en það ákveður að setjast gagnrýnislaust fyrir framan sjónvarpið. Markmiðið er ekki að gagnrýna keppendur og mikilvægt að umræðan verði ekki misskilin með þeim hætti.

Í The Biggest Loser er fylgst með hópi feitra einstaklinga keppa í þyngdartapi. Sá vinnur sem hefur misst mestan hluta af þyngd sinni í lokin. Gagnrýni á þættina hefur því einna helst beinst að þeim óhóflegu áherslum sem lagðar eru á mikið þyngdartap á stuttum tíma, sem er talsvert fjarri ráðleggingum fagfólks um hálft til eitt kíló á viku sem viðmið um heilbrigt þyngdartap. Sömuleiðis hefur gagnrýnin beinst að því að sérstök áhersla virðist lögð á að sýna feitt fólk í niðurlægjandi ljósi, svo sem að þola öskur og skammir af hendi þjálfara eða vera stillt upp hálfnöktu við vigtun fyrir framan alþjóð. Bent hefur verið á að kvenkynsþátttakendur þurfa að vera í íþróttatopp á meðan þær eru feitar en fá svo að vera í hlýrabol eftir að þær hafa grennst. Hvað er það?

Við skulum líta nánar á það í hverju gagnrýnin á þættina felst og hvað niðurstöður erlendra rannsókna á þáttunum hafa leitt í ljós.

Öfgafull megrun biggest loser 1Margar rannsóknir hafa sýnt að mikið þyngdartap á stuttum tíma, eins og er greinilega markmiðið í þáttunum, hefur yfirleitt slæmar heilsufarslegar afleiðingar í för með sér. Óháðir og hlutlausir læknar og næringarfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af mikilli fæðuskerðingu og allt að átta klukkutímum af brennsluæfingum á dag í erlendu útgáfu þáttanna. Þeir sem vinna með átraskanir eða hafa reynslu af átröskun hafa tjáð áhyggjur sínar af þeim öfgakenndu skilaboðum sem þættirnir senda um mataræði, hreyfingu og samband heilsu og holdafars. Þá hefur verið bent á þann möguleika að keppendur þáttanna gætu sumir átt við vanda að stríða sem verður ekki lagaður með öfgafullri megrun. Þátttakendur í bandarísku útgáfunni hafa líka komið opinberlega fram og tjáð sig um þau slæmu áhrif sem þátttaka þeirra hafði á heilsu þeirra. Ein þeirra sagði frá því að hún hefði þrófað með sér átröskun í þáttunum ásamt því að afhjúpa ómanneskjulega meðferð á keppendum. Einnig hefur verið sagt frá hættulegum megrunaraðferðum, svo sem svelti og ofþornun, til að auka líkur á sigri. Gengið er svo hart að fólki að fólk hefur lent á spítala þegar líkaminn er kominn í þrot. Aðeins örfáir keppendur hafa þorað að tala við fjölmiðla um neikvæða upplifun sína því þeir eiga á hættu að fá himinháar fjársektir fyrir að tjá sig án leyfis framleiðanda. líkamsvirðing 3

Þótt margir virðist hafa gleypt gagnrýnislaust við áherslum The Biggest Loser í áranna rás þá virtist fólk vakna til vitundar þegar vinningshafi einnar þáttaraðarinnar þótti líta út fyrir að vera hættulega grannur. Internetið logaði og allt í einu fór fólk að efast um heilsusamlegt gildi þáttanna. Ég spyr sjálfa mig hvers vegna þetta komi fólki svona svakalega mikið á óvart. Umræddur keppandi braut engar reglur og gerði bara nákvæmlega það sem ætlast var til af henni. Það hlaut að vera einungis tímaspursmál að einhver keppandi myndi komast í undirþyngd. Einnig finnst mér það lýsandi fyrir mótsögnina í samfélagi okkar að fólk sé tilbúið að horfa á skemmtiþátt þar sem fólk er niðurlægt og líkömum þeirra er misþyrmt, en um leið og einhver lítur út fyrir að hafa mögulega veikst af átröskun, þá allt í einu eru þessar áherslur ekki í lagi. Þessar sömu áherslur hafa ríkt í þáttunum í meira en áratug og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þátturinn er tengdur við þróun átröskunar án þess að það hafi haft teljandi áhrif á áhorfið. En þetta var í fyrsta skipti sem þessi áhrif urðu áberandi sýnileg og þá loks kviknar á perunni.

Niðrandi framkoma

jillian2

Rannsókn á viðhorfum feitra gagnvart The Biggest Loser sýndi að meirihluti aðspurðra hafði neikvætt álit á þættinum. Meðal þess sem fólki fannst vafasamt var að þátturinn notar þyngd fólks í skemmtanatilgangi og að fólki sé stillt upp eins og viðundrum í sirkusi („a side show at some kind of circus“). Fólki fannst þátturinn móðgandi og niðurlægjandi. Meira að segja nafnið á þættinum mætti skilja þannig að þátttakendur séu aumingjar. Margir höfðu áhyggjur af þeirri opinberu niðurlægingu sem felst í því að vera vigtaður á undirfötunum fyrir framan alþjóð og töldu það geta haft langvarandi tilfinningaleg áhrif á keppendur.

Ófagleg og niðurlægjandi framkoma þjálfaranna hefur einnig farið fyrir brjóstið á mörgum og dæmi hver fyrir sig:

Í dag birtist svo umfjöllun á New York Post um frásagnir keppenda af algjörri einangrun, heilaþvotti, svelti, næringar- og orkusnauðu mataræði, fáránlegu magni af æfingum þrátt fyrir alvarleg meiðsli, niðurbrjótandi setningum sem jaðra við andlegt ofbeldi, áreitni og einelti. Meira að segja var sagt frá grun um að tölva keppanda hefði verið hleruð af þáttastjórnendum. Engan skal undra að sumir keppendur hafi veikst við þessar aðstæður.

Fitufordómar

Áhyggjur fagfólks um þessa þætti beinast þó ekki eingöngu að velferð keppenda og þeim bjöguðu skilaboðum sem send eru út í samfélagið um heilbrigt líferni. Rannsóknir sýna að fitufordómar aukast þegar fólk horfir á sjónvarpsefni sem sýnir neikvæðar staðalímyndir af feitu fólki. Í þáttunum er ítrekað ýtt undir þá hugmynd að feitt fólk stundi reglulegt ofát, borði bara óhollt, séu algjör sófadýr og að lausn allra þeirra vandamála sé að grennast hratt. Ein rannsókn sýndi að fólk sem horfir á aðeins einn þátt af The Biggest Loser finnur fyrir auknu neikvæðu viðhorfi gagnvart feitu fólki og aukinni trú á að þyngd sé fullkomlega undir stjórn einstaklingsins eftir áhorfið. Rannsóknir sýna líka að því meira sem fólk trúir því að þyngd fólks sé alfarið hægt að stjórna með eigin hegðun, svo sem með mataræði og hreyfingu, því meiri fitufordóma sýnir það. Að líta svo á að feitt fólk geti sjálfu sér um kennt um holdafar sitt réttlætir fordóma og misrétti í þeirra garð.

Áhrif og viðbrögð í samfélaginu

Miðað við vinsældir þáttanna bæði hérlendis og erlendis má búast við því að þeir hafi umtalsverð áhrif í samfélaginu. Heyrst hefur til dæmis að íslenskir vinnustaðir hafi notað þættina sem fyrirmynd að megrunarkeppnum innan fyrirtækja, þar sem vegleg verðlaun eru veitt fyrir mesta þyngdartapið. Verður að teljast líklegt að slíkar áherslur geti stuðlað að óheilbrigðu andrúmslofti, megrunarþrýstingi og jafnvel ýtt undir fitufordóma á vinnustað. Nú þegar liggja fyrir rannsóknir sem sýna að konum er mismunað eftir holdafari í íslensku atvinnulífi svo það er varla á það bætandi.

Fljótlega eftir að birtingar hófust á síðustu þáttaröð af The Biggest Loser á Íslandi birtist frásögn stúlku á Facebook um atburð sem hún hafði orðið vitni að í matvöruverslun. Kona í búðinni sýndi nokkuð brjálæðislega hegðun vegna þess að henni fannst önnur feit kona ekki sinna heilsufarslegum skyldum sínum gagnvart samfélaginu nógu vel, skammaði hana fyrir að vera með óhollan mat í innkaupakörfunni sinni, skipti kexpakka í körfunni út fyrir salat, og endaði á því að segja henni að fara heim og horfa á The Biggest Loser. Mikilvægt er að fólk skilji að fitufordómar eru ekki bara spurning um dónaskap eða særandi atburði sem síðan gleymast. Það að lifa við fordóma hefur alvarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks, félagslega stöðu og öll lífsgæði. Fitufordómar skerða atvinnumöguleika, stuðla að launamisrétti, hafa neikvæð áhrif á heilsutengd lífsgæði, draga úr áhuga á hreyfingu og auka líkur á átvandamálum, lágu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, þunglyndi og sjálfsvígshugsunum (sjá heimild hér).

Ekki ætti að gera lítið úr alvarleika þess að þættir sem fá jafn mikið áhorf og The Biggest Loser skuli reynast ýta undir fitufordóma samkvæmt rannsóknum og sérstaklega ætti það að vera varhugavert í litlu samfélagi eins og okkar. Hvort þættirnir séu komnir til að vera hér á landi og hvort þeir eigi eftir að auka fordóma og holdafarsmisrétti hérlendis á eftir að koma í ljós. Ég legg engu að síður áherslu á mikilvægi þess að siðferðislega þenkjandi almenningur kynni sér þá gagnrýni sem komið hefur fram á þessa þætti úr margvíslegum áttum og velti alvarlega fyrir sér hvort þeir vilji leggja þessum skilaboðum lið með því að halda uppi áhorfi á þættina. Sjónvarpsefni hefur áhrif á áhorfendur, bæði börn og fullorðna, og ef um vinsælt sjónvarpsefni er að ræða ná áhrifin langt út fyrir áhorfendahópinn. Biggest Loser-vinnustaðakeppnir eru aðeins eitt dæmi um hvernig þessir þættir geta orðið að risavöxnum samfélagslegum áhrifavaldi. Þegar um er síðan að ræða efni sem þykir ýta undir samfélagslegt misrétti og óheilbrigða þráhyggju samfélagsins varðandi megrun og holdafar er full ástæða til að staldra við.

Höfundur er sálfræðingur. Þessi grein birtist fyrst á bloggsíðu Líkamsvirðingar þann 18.1. 2015 og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi. Allt myndefni er sótt á upphaflegan birtingarstað.

Ein athugasemd við “Hvers vegna er The Biggest Loser umdeilt sjónvarpsefni?

  1. Frábær grein sem á í alla staði vel rétt á sér. Þær aðstæður sem verið er að lýsa hér eru mjög líklega komnar fram á Íslandi vegna þáttanna hér. Vildi sjá svona grein og fleiri „haldið á lofti“ og kynntar fyrir almenningi. Allt það sem kemur fram í greininn er satt og rétt og sjálfsagt að benda á hvaða afleiðingar svona þættir geta haft fyrir t.d. þáatttakendur. Þekki þetta vel þar sem sonur minn hefur tekið þátt í Biggest Loser.Vonast til að sjá meira af svona góðum greinum. Kveðjur og takk fyrir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.