Dúkkuheimili dagsins í dag

Höfundur: Katrín Harðardóttir

Ibsen

Henrik Ibsen, um aldamótin 1900

Þegar Ibsen skrifaði Dúkkuheimilið skapaði hann um leið nútímatragedíuna og gaf evrópsku leikhúsi nýja vídd með siðferðislegum undirtón og sálfræðilegri dýpt, með ást og dauða, hlátri og gráti, brestum og svikum og loks hreinsandi uppgjöri, allt innan veggja hins borgaralega heimilis. En það er ekki einungis á sviði leikhússins sem verk hans eru merkileg því verkið hefur ótvírætt gildi bæði á sviði mann- og kvenréttinda. Fá verk og enn færri kvenpersónur hafa valdið viðlíka áhrifum og Nóra Helmer, enda er Dúkkuheimilið á sérstakri skrá UNESCO um Minni heimsins (Memory of the World Register). Í fyrsta skipti sem verkið var sett á svið, árið 1879, vakti það hörð viðbrögð vegna þess að Nóra yfirgefur börn og buru í leit að sjálfri sér. Nóra er „Hin nýja kona“ fyrstu bylgju femínismans, hetja sem storkar karllægum gildum viktoríanska samfélagsins með því að líta á sig „fyrst og fremst sem manneskju“, en ekki fórnfúsa eiginkonu og móður.

Á þeim tæpu 150 árum sem liðið hafa síðan verkið birtist fyrst sjónum almennings hefur þessi forgangsröðun Nóru valdið ágreiningi um hvort Dúkkuheimilið sé femínískt verk eða hvort það fjalli um ákvörðunarrétt einstaklingsins, það er að segja mannréttindi. Á grundvelli síðarnefnda sjónarmiðsins var verkið sýnt á fjölum Þjóðleikhússins, rétt fyrir síðustu aldamót. Það var því ekki úr vegi að sýna aðra hlið á teningnum, ef svo má að orði komast, og það nánast alfarið í höndum kvenna. Í uppsetningu Borgarleikhússins er verkið fært í nútímabúning, með háværri tónlist og kynferðislegum skírskotunum sem örugglega hefðu skotið áhorfendum á ofanverðri 19. öld skelk í bringu, en eiga ágætlega við á sviði í dag. Umgjörðin styður vel við verkið, sandurinn á gólfinu, vegurinn inn í þokukennt dýpi ásamt grímubúningum barnanna, og hvorki vinnukona né fóstra til taks heldur æskuvinkonan sem fær hlutverk þeirra fyrrnefndu, en ekki hvað! Þýðing og staðfæring Hrafnhildar Hagalín og leikstjórn Hörpu Arnardóttur koma hvorutveggja mannréttindum og femínisma til skila, þótt túlkun Unnar Aspar Stefánsdóttur á Nóru virðist undirstrika þá krísu sem margar konur virðast etja við enn í dag. Hvert er hlutverk þeirra og réttindi í samfélaginu? Hvernig er sjálfsmynd þeirra best borgið? Eru þær leikföng karla eða er líf þeirra í þeirra eigin höndum?

Annað viðfangsefni verksins, en alls ekki óskylt og sem enn er einnig óútkljáð, er spurningin um náttúrulegt eðli konunnar. Hvort vegur þyngra, eðli eða uppeldi, menning eða kenning? Fáfræði Nóru má rekja til samfélagslegra takmarkanna á tíma og í rúmi þar sem kynjunum er stillt upp sem andstæðum pólum, móðir sem yfirgefur börn sín fyrirgerir eðli sínu. En vegna þess að þær aðstæður sem hrekja Nóru af heimili sínu skapast af utanaðkomandi ástæðum, vegna veikinda og skorts á peningum, má skella skuldinni á samfélagið. Hér liggur því sökin hjá uppeldinu. Nóra yfirgefur börn sín svo þau læri ekki af prettum hennar. Dúkkuheimilið varpar því ljósi á tvíhyggju vestrænnar menningar og undirskipun konunnar í stigveldi kynjanna og styður femínískan lestur og skilning verksins. Um leið og Nóra uppgötvar að „hið undursamlega“ gerist ekki nema fyrir tilverknað hennar sjálfrar getur hún horft í augu við sjálfa sig. Þetta er vissulega einnig hægt að segja um karla, og sjálfur vildi Ibsen ekki kalla sig femínista eða að verk sín fjölluðu um réttindi kvenna. Miklu heldur sagði hann Dúkkuheimilið [og raunar líka Heddu Gabler] fjalla um frelsi og réttindi manneskjunnar og þar af leiðandi væri hann húmanískt leikskáld. Samkvæmt skilgreiningu liggur munurinn á milli femínísma og húmanisma m.a. í því að húmanisminn varð til á undan femínismanum, hann á rætur að rekja til Ítalíu og endurreisnar 14.. aldarinnar og tók ekki til réttinda kvenna sem slíkra. Fólk sem skilgreinir sig sem femínista skilur þetta og sér enn fremur að enn vantar upp á að konur standi jafnfætis körlum í samfélaginu. Kynjaval Ibsens á burðarhlutverki Dúkkuheimilisins, svo ekki sé minnst á titilinn, er þó skýr vísbending um að hann hafi haft óvenjunæman skilning á stöðu kvenna miðað við sinn samtíma, og að sú staða varðaði ekki líffræðilegt eðli hennar heldur væri menningarlega skilyrt.

dukkuheimili_0

Úr uppsetningu Borgarleikhússins, Nóra og Þorvaldur.

En leikritið fjallar öðrum þræði um annarskonar skilyrðingu sem einnig tengist þeim höftum sem óskráðar reglur samfélagsins setja okkur. Þorvaldur reynir að stjórna Nóru svo hún falli betur að hugmyndinni um hið kvenlega. Nóra hefur sín ráð og því lifa þau flækt í vef lyga og svika. Þennan lygavef kalla aðstandendur verkins lífslygina. Samband Nóru og Þorvaldar er byggt á sandi og er statt í þröngum ranghölum úr sér genginna hugmynda um karl og konu. Þegar upp kemst um lygarnar bregst Þorvaldur væntingum Nóru, „Hið undursamlega“ verður ekki að raunveruleika því hann er ekki tilbúinn til þess að hunsa orð götunnar og fórna sínu góða mannorði. Umbreyting Nóru í lok verksins, frá hinni erótísku, ljúfu og undirgefnu veru til hinnar ákveðnu, sjálfstæðu, rykfrakkaklæddu konu, er hægt að skoða í ljósi þess sem Toril Moi segir um það kvenlega sem menningu (nurture) og kvenkynið sem náttúru (nature), og það kvenlega sem menningarlega smíð að hætti Judith Butler. Í lokin hefur Nóra hrist af sér hömlur feðraveldisins og getur mótað eigin sjálfsmynd sem byggir á hennar eigin upplifunum.

Vegna þess að tími verksins er annar en í árdaga þess mætti segja að forsendur fyrir fáfræði kvenna hafi breyst. Engu að síður er verkið í þessari uppsetningu ádeila á nútímamanneskjuna sem þekkir ekki sín réttindi, hvort sem um ræðir konu eða karl. Enn er hægt að tengja við það því það sama gildir um fáfræði og á þarsíðustu öld, hún er beinlínis hættuleg. Á sama tíma er tvíhyggjunni sem gegnsýrir verkið storkað, Dúkkuheimilið býður upp á margskonar skilning, og mætti því að sönnu kalla það síð-femínískt verk. Enn er deilt um hlutverk konunnar og enn er spurt að því hvort þær þær séu annað hvort menn eða konur?

Geta þær ekki bara verið hvort tveggja?

 

—-

Myndir fengnar héðan: http://www.biography.com/people/henrik-ibsen-37014, http://www.borgarleikhusid.is Heimildir: http://www.unesco.org/new/en/communication-and-information/flagship-project-activities/memory-of-the-world/register/full-list-of-registered-heritage/registered-heritage-page-4/henrik-ibsen-a-dolls-house http://www.finchpark.com/arts/dolls-house.pdf http://wiebuschresume.weebly.com/uploads/5/4/6/3/5463054/interview_adh.pdf http://www.nikk.no/wp-content/uploads/NIKKmag20053.pdf http://humanism.ws/the-editor/a-history-of-humanism-robert-grudin/ http://www.torilmoi.com/wp-content/uploads/2009/09/Feminist_Female_Feminine-ocr.pdf

Ein athugasemd við “Dúkkuheimili dagsins í dag

  1. Bakvísun: Dans konunnar | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.