„Frábærar fyrirmyndir fyrir alla“ – spjallað um kynjahlutföll hjá Ævari vísindamanni

Höfundur: Ritstjórn og Ævar Þór Benediktsson

Mynd af vefsíðu Ævars vísindamanns, sem sýnir fimm merkiskonur úr sögu geimvísindanna. Sjá nánar hér.

Snemma beygist krókurinn og snemma mótast staðalímyndir kynjanna. Þess vegna er alveg sérstaklega mikilvægt að þeir sem framleiða efni fyrir börn hafi í huga að það sem börnin sjá er þeim veganesti út í lífið og þar á meðal þær birtingarmyndir kynjanna og kynhlutverkanna sem finna má í margs konar barnaefni.

Ævar Þór Benediktsson hefur komið að gerð margs konar barnaefnis, bæði í útvarpi og sjónvarpi, og undanfarin misseri hefur hann verið með þáttinn Ævar vísindamaður á RÚV, þar sem fjallað er um vísindi í samtíð og fortíð, rifjuð upp merkisafrek í vísindasögunni og sagt frá merkum vísindamönnum. Og það hefur ekki farið fram hjá áhugafólki um hausatalningar að Ævar sýnir og segir frá vísindakonum til jafns við vísindamenn. Knúzið ákvað að spyrja Ævar nokkurra spurninga um þetta.

Er það meðvituð og vísvitandi nálgun hjá þér að kynna konur í vísindum til jafns við karlana eða gerist það bara af sjálfu sér?

sprengju-Kata

Sprengju-Kata er fastagestur í þáttum Ævars, en hún er efnafræðingur og starfar hjá Háskóla Íslands.

Það var mjög meðvituð ákvörðun hjá mér, þegar ég ákvað að fjallað yrði um vísindamenn úr mannkynssögunni (og í fyrstu seríunni líka bókmenntasögunni) í þáttunum, að kynjahlutföllunum yrði skipt jafnt. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir stelpur að þær sjái að þær geti líka verið vísindamenn og að það að vera klár sé töff.

Hvort finnst þér mikilvægara – að sýna strákum að stelpur geti verið töff vísindamenn eða að sýna stelpum það? Eða myndirðu halda að það væri jafn mikil þörf fyrir hvort tveggja?

Það er erfitt að gera upp á milli þessara tveggja póla. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir ungar stelpur að sjá að vísindamenn séu bæði karlar og konur. Það er nauðsynlegt að eiga sér góða fyrirmynd og stelpur sem hafa áhuga á vísindum þurfa oft að leita lengra en strákarnir, enda birtast vísindamenn langoftast í bókum, bíói og sjónvarpi sem karlkyns. En það er líka sömuleiðis mikilvægt að strákar geri sér grein fyrir því að stelpur séu alveg jafn klárar, sniðugar og hugrakkar og strákar.
Þetta eru tveir mjög mikilvægir pólar og þess vegna finnst mér Sprengjugengi HÍ, og Kata sem fer fyrir því, svo mikilvægur hluti af þáttunum. Þar eru bæði strákar og stelpur, þau gera tilraunirnar saman, bæði kynin spyrja spurninga og bæði kynin geta svarað þeim. Þau eru frábærar fyrirmyndir fyrir alla.

Er hlutur kvenna í vísindasögunni kannski meiri en almenning órar fyrir?

Skjáskot úr þætti frá 27. des. 2014. Brynhildur Guðjónsdóttir í gervi ... , en þáttinn má nálgast hér.

Skjáskot úr þætti frá 27. des. 2014. Brynhildur Guðjónsdóttir er hér í gervi bandaríska stjörnufræðingsins Henrietta Swan Leavitt, en þáttinn má nálgast hér.

Já, algerlega. Oft þurftu kvenkyns vísindamann að skrifa greinar og ritgerðir undir dulnefnum, laumast til að læra á nóttunni eða beita einhverjum öðrum brögðum bara til að fá að læra – hvað þá gefa eitthvað út.
Gott dæmi um þetta er franski stærðfræðingurinn Marie-Sophie Germain, sem við fjöllum um í nýju þáttunum. Hún vildi læra en fékk það ekki vegna þess að háskólinn sem hún vildi stunda nám við var bara fyrir karla. Hún komst þó að því að einn af nemendum háskólans var fluttur frá París og hættur námi, en að skólinn væri enn að útbúa dæmablöð og verkefni fyrir hann. Marie-Sophie stalst því til þess að vinna verkefnin hans og skilaði þeim alltaf inn undir hans nafni.
Þetta komst þó allt saman upp að lokum vegna þess að skyndilega fór þessi meðalnemandi að sýna ótrúlegar framfarir í námi og koma með magnaðar kenningar. Skólastjórnendur vildu auðvitað hitta á þennan tilvonandi snilling og þá kom sannleikurinn í ljós.

Finnst þér þú þurfa að hafa meira fyrir því að leita heimilda og vinna efni um konur úr vísindasögunni en um karlana?

Já, vissulega. Í hverri seríu hjá okkur eru átta þættir og í hverjum þætti tek ég fyrir einn vísindamann úr mannkynssögunni og fjalla nánar um hann eða hana, fæ þekkta leikara til að bregða sér í hlutverk þeirra og skoða hvaða áhrif þau höfðu á heiminn eins og hann er í dag. Núna eftir tvær seríur er ég enn að fjalla um „stóru nöfnin“ þegar kemur að körlunum – í nýju seríunni erum við t.d. með Arkímedes og Darwin – en þegar kom að konunum kláruðust þessar „stærstu“ (ef svo má að orði komast) strax í fyrstu seríu.
En maður lætur það ekkert stoppa sig – maður gramsar bara, les bækur og gúglar og fyrir vikið læri ég eitthvað nýtt og spennandi sem ég get svo miðlað til krakkanna.

Þú ferð í heimsóknir í skóla og talar við krakkana sem þú hittir sem Ævar vísindamaður. Finnst þér þú finna fyrir því að þau hafi þegar mótast af staðalímyndum kynjanna og hugmyndum um tiltekin kynhlutverk?

Ég get ekki sagt að ég hafi orðið var við það.

Eru stelpur jafn spenntar fyrir því að tala við þig og strákarnir? Taka þær sér jafn mikið pláss í þeirri umræðu og strákarnir?

Stelpur eru alveg jafn spenntar fyrir því að spjalla og strákarnir, en það hefur vissulega komið fyrir að strákarnir taki örlítið meira pláss og komi þannig fleiri spurningum að. Oft kemur það fyrir að stelpurnar hugsi sig betur um hvað þær vilji spyrja á meðan strákarnir keppast við að rétta upp hönd og komast að. En þetta er samt mismunandi á milli skóla og allur gangur á.

Eru strákarnir sem þú átt samskipti við í tengslum við þættina opnir fyrir hugmyndinni um vísindakonur?

Algerlega. Framtíðin er björt.

Knúzið þakkar Ævari kærlega fyrir spjallið og bendir á að frekari upplýsingar um þættina má finna á heimasíðu Ævars, vefsvæði þáttarins hjá RÚV og á Facebook.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.