Ef karlar færu á túr

Höfundur: Gloria Steinem.

businessman-holding-his-stomach-painÞað rann upp fyrir mér árin sem ég bjó á Indlandi, að hvítur hluti mannkynsins hefur varið öld eftir öld í að telja okkur trú um að hvítt hörund geri sumt fólk merkilegra en annað, jafnvel þó svo eini munurinn sé auðvitað sá, að hvítt hörund er viðkvæmara fyrir útfjólubláum geislum og verður fyrr hrukkótt en dökk húð.

Og þegar ég las Freud, fylltist ég efasemdum um „penis-öfundina“. „Móðurlífs-öfund“ væri eiginlega rökréttari í ljósi þess, hversu máttugt það er að geta fætt barn auk þss sem líffæri sem er jafn utanveltu og óvarið og tippi, gerir karla í rauninni mjög varnarlausa og óöfundsverða.

Og þegar ég heyrði konu nýlega lýsa því þegar hún byrjaði óvænt á túr í miðri ræðu, svitnaði ég af óþægindum. (Rauður blettur fór að breiða úr sér á kjólnum hennar.) Óþægindin liðu þó hjá þegar hún sagði mér frá eigin viðbrögðum. Einhver viðstaddur hvíslaði tíðindunum að henni og hún sagði við fundargestina, sem allir voru karlmenn:„og þið ættuð að vera STOLTIR af því að hafa konu á túr hér í pontunni. Þetta er líklega fyrsti jákvæði viðburðurinn í þessu félagi svo árum skiptir.“ Almennur hlátur. Léttir. Hún hafði snúið neikvæðu í jákvætt.

Hennar saga tók saman við Indland og Freud í huga mér og máttur þess að hugsa jákvætt rann upp fyrir mér. Það sem „æðri“ stétt býr yfir, er notað til að réttlæta yfirráð hans – það, sem „lægri“ hópur hins vegar hefur, er notað til að réttlæta niðurlægingu hans. Svertingjar fá láglaunastörf vegna þess að þeir voru sagðir líkamlega sterkari en hvítari menn, konum er úthlutuð láglaunastörfin vegna þess að þær eru sagðar veikbyggðari en karlar. Eða, eins og strákurinn sagði, sem spurður var hvort hann ætlaði að verða forseti: „Iss, það er nú kvennastarf.“

Sem sagt, kúgun hefur ekkert með rökhyggju að gera. Og hvað myndi nú gerast ef, allt í einu sem fyrir einhverja töfra, karlar gætu farið á túr en konur ekki? Tíðablæðingar, augljóslega, yrðu stórkostlegur karlaviðburður sem væri hægt að stæra sig af: Karlar myndu monta sig af því hversu mikið og hversu lengi. Unglingsstrákar myndu tala um það sem tímamarkandi atburð og upphaf karlmennsku sinnar. Gjafir, trúarlegar athafnir og fjölskylduboð myndu setja svip sinn á allra fyrsta daginn.

Túrtappi fyrir sanna karlmenn? Myndin er sótt hingað.

Túrtappi fyrir sanna karlmenn? Myndin er sótt hingað.

Til að koma í veg fyrir vinnutap þeirra, sem skipta samfélagið máli, myndi Alþingi setja á fót Rannsóknarstofnun tíðahringanna. Læknar myndu láta sig hjartasjúkdóma litlu skipta – hormónastarfsemi karla myndi gera þá að minni áhættuhóp – en snúa sér af miklum krafti að túrverkjum. Túrtappar og dömubindi yrðu niðurgreidd en ekki þó allar tegundir: margir karlar væru reiðubúnir til að greiða fullt verð fyrir statussymbol á borð við „Jaka-super tappa“, „Sigurvinsson sporty spot“, „Jón Baldvins blóðlausu“ eða „Aberts-extra-þykk“ – jafnvel „Kiljans kláru túrtappa“, því bókaþjóðin lætur ekki að sér hæða.

Kannanir myndu sýna að körlum gengur betur í íþróttum og að þeir vinna fleiri verðlaun dagana sem þeir eru á túr. Herforingjar, hægri sinnaðir stjórnmálamenn og guðfræðikandidatar myndu leggja út af erlendu heiti tíðablæðinga, MEN-struation – til að færa rök fyrir forréttindum karla í valdabaráttunni („geta konur stjórnað fyrst þær lúta ekki hringlægum lögmálum plánetunnar Mars?“), á stríðstímum („sá einn sem gefur blóð, skal taka blóð“), fyrir altarinu („hann gaf blóð sitt fyrir okkar syndir“) eða innan veggja heimilsins („mánaðarleg úthreinsun gerir karla of hreina til að sinna skítverkum“). Frjálslyndir karla og róttækir hins vegar, myndu halda því fram að vissulega séu konur jafnar, aðeins öðruvísi og að hver kona megi því aðeins slást í lið með þeim, að hún skeri sig sjálfa til blóðs einu sinni í hverjum mánuði. Alþýðuskáld myndu yrkja um „hann, sem er aðeins þriggja binda karl“ og úti á götu mætti heyra: „Nei, hvað þú ert hressilegur að sjá!“, „Já þakka þér fyrir, ég er líka á túr.“ Sjónvarpið myndi fjalla opinskátt um málið. (Kastljós: Áhrif blæðinga verkalýðsforystunnar á kjarasamningana), dagblöðin sömuleiðis: „Nauðgari sýknaður vegna túrverkja“. Líka kvikmyndir. (Pálmi Gests og Gísli Rúnar í Blóðbandinu.)

Karlmenn myndu sannfæra konur um að samfarir væru betri á þessum dögum. Lesbíur myndu óttast blóð og „það eina sem þær vantar er velblæðandi karlmaður“. Gáfumannafélög myndu vitaskuld leggja fram rökvísustu ástæðurnar fyrir forréttindum karla. Hvernig geta konur lagt stund á hávísindi sem krefjast næmi fyrir tíma og rúmi eða skilið rök tilverunnar þegar þær hafa ekki þennan meðfædda náttúrulega hæfileika til að mæla gang himintunglanna? Þær, sem heyra ekki hljómfall alheimsins með líkama sínum. Hvernig geta þær numið heimspeki og trúarbrögð, sem ekki búa yfir mánaðarlegri táknmynd dauða og upprisu? Tíðahvörfin yrðu tilefni hátíðarhalda, tákn þess að karlar hafi nú safnað nægilegum hringlægum visidómi til að geta látið staðar numið. Frjálslyndir karlar á öllum sviðum myndu reyna að sýna umburðarlyndi: er þeim ekki næg refsing að mega ekki mæla takt tilverunnar?

Og –  hvernig myndu konurnar bregðast við? Það er auðvelt að ímynda sér allar hægri konurnar kinka brosandi kolli til samþykkis karlarökunum. Ráðstefna kvennasamtaka stjórnmálaflokkanna myndi álykta um nauðsyn sjálf-særinga kvenna til blóðs. Nýtt líf myndi birta greinar um kynlosta blæðandi karla og gefa ráð um hvernig samræma má líf eiginkvenna og tíðahringi karla þeirra. Kvennaframboðið myndi boða frelsun kvenna undan „blóð-óttanum“, Kvennalistinn myndi segja kúgun hinna óblæðandi setja tóninn fyrir kúgun allra kúgaðra („Blóðsugurnar voru hinar fyrstu frelsishetjur“).

Gallerí Langbrók myndi hefja blóðlaust myndmál til vegs og virðingar og Alþýðubandalagskonur myndu halda því fram að þegar væri búið að ryðja kapitalisma og heimsvaldastefnunni úr vegi, færu konur líka á túr. („Ef konur fara ekki á túr í Rússlandi, er það vegna þess að sannur sósialismi þrífst ekki í hringavitleysu kapitalismans“). Í stuttu máli sagt: við myndum uppgötva það sem þó liggur í augum uppi, að rökin liggja á tungu rökfræðingsins.

(Til dæmis og hugmynd handa rökfræðingum að velta vöngum yfir: Fyrst konur ku vera síður skynsamar og meira tilfinningalegar í byrjun tíðahringsins, þegar kvenhormónarnir eru óvirkastir, hvers vegna er ekki rökvíst að halda því fram að einmitt á þeim dögum hagi konur sér líkast því sem karlar haga sér allan mánuðinn?) Sannleikurinn er sá, að ef karlar gætu farið á túr, væru rökin samt þeirra megin. Ef við látum það eftir þeim.

Gloria Steinem

Gloria Steinem. Myndin er sótt hingað.

Þessi kafli er úr bók Gloriu Steinem, Outrageous Acts and Everyday Rebellions, sem er samansafn greina þeirrar bandarísku fjölmiðla- og blaðakonu, hver annarri skemmtilegri og fróðlegri.

Þessi grein nefnist á frummálinu If Men Could Menstruate, en þýðinguna, og ofurlitla staðfæringu, gerði Magdalena Schram og birtist hún fyrst árið 1985 í Veru, 4. árg., 1. tbl. bls. 13.  Leyfi fyrir birtingu gaf Hörður Erlingsson.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.