Á einhver að eiga jafnréttisbaráttuna?

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Barbershop

Frá ráðstefnunni. Myndin er sótt hingað.

Í helgarútgáfu Fréttablaðsins þann 17. janúar s.l.  spyr Hildur Sverrisdóttir  hver eigi jafnréttisbaráttuna og fer gagnrýnum orðum um þá sem höfðu sitthvað að athuga við rakarastofuráðstefnu utanríkisráðherra. Þar segir Hildur m.a.:

Það má spyrja hvort gagnrýni á formið hafi verið eina ástæða upphlaupsins. Kannski spilaði inn í að þarna stigu inn á vettvang jafnréttismála fulltrúar annarra flokka en hafa hingað til barist hvað ötulast á þeim vettvangi. Það er til að mynda vandséð hver sé í raun munurinn á alþjóðlegri karlaráðstefnu um jafnrétti og til dæmis karlahópi Femínistafélagsins sem heldur fundi karla um jafnréttismál.

Því miður held ég að fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hverjir hafi leyfi til að vera málsvarar ákveðinna málefna hafi átt sinn þátt í gagnrýninni. Það er synd ef eignarhald flokka – eða kynja – á hugmyndafræði veldur því að femínistar fagni síður jákvæðum skrefum ef einhver sem ekki er úr þeirra hugmyndafræðilega baklandi annar stígur þau. Mér finnst þvert á móti að við ættum öll að geta verið bara nokkuð stolt af því að Ísland haldi fyrstu alþjóðlegu jafnréttisráðstefnuna þar sem meirihluti þátttakenda er karlar. Því það á að vera alveg sama hvaðan gott kemur.

Undirritaður var einn af fáum sem viðraði efasemdir sínar um ráðstefnuna og aðferðafræði hennar í greininni Hrútaþing og þar sem Hildur reynir að ráða í hvað gagnrýnendum gekk til, er einboðið að reyna að svara því og fleiri spurningum.

Upphlaup er stórt orð og varla innistæða fyrir því. Fyrir utan fésbókargrín í nokkra daga viðruðu fáir skoðanir sínar á opinberum vettvangi og femínistar voru hreint ekki einróma. Sóley Tómasdóttir sagði t.d.

Konur eru búnar að halda milljón ráðstefnur um ofbeldi gegn konum og hvernig við setjum ábyrgðina yfir á gerendur sem í flestum tilfellum eru karlar. Það hefur ekkert komið út úr því – ábyrgðin er ekki enn komin á gerendurna. Leyfum þeim að prófa þetta, kannski kemur eitthvað út úr því.

Annað sjónarmið kom fram hjá Þóru Kristínu Þórsdóttur:

Í margar aldir var konum ekkert boðið á ráðstefnur, hvorki til að tala né hlusta, en svo kom rifa á dyrnar. Undanfarin ár hefur hins vegar orðið trend að halda sérstakar kallaráðstefnur, svo kallar geti nú talað um hin og þessi málin í vernduðu umhverfi.

Bæði sjónarmiðin eru skiljanleg og málefnaleg og lýsa því vel hvað aðferðafræði og form ráðstefnunnar vakti ólík viðbrögð meðal femínista.

GBS

En nú er ráðstefnan búin og tókst að sögn vel. Þrátt fyrir rakarastofuuppleggið voru konur þarna, ýmist holdi klæddar eða á skjá. Umfjöllunin var jákvæð í erlendum fjölmiðlum og þetta vakti athygli. Ráðherrann var ánægður með að tekist hefði að vekja athygli á þessu máli. Ótal ráðstefnur, fundir, samkomur, ræður og ávörp undanfarna áratugi hafa haft það sama að leiðarljósi.  Ef rakarastofan markar þáttaskil, sýnir það öðrum þræði að ekki er sama hver talar. Að líkja henni við karlahóp femínistafélagsins er tæplega sanngjarnt þar sem sá hópur sprettur upp úr hugmyndafræði og hugmyndavinnu Femínistafélags Íslands og hefur staðið fyrir ótal viðburðum eftir aldamót eins og einföld gúglleit leiðir í ljós.

Engin/n á jafnréttisbaráttuna. Talsmaður/talskona jafnréttissinna eða femínista er ekki embætti sem skipað er í. Aðeins Femínistafélag Íslands hefur talskonu og hún talar eingöngu fyrir hönd þess félags. Þetta þykir sumum gagnrýnendum jafnréttissinna miður því þeim hentar að yfirfæra skoðanir einstaklinga á heildina og fordæma skóginn ef fölnað laufblað finnst á vettvangi skoðanaskipta. Þau sem vilja jafnrétti eru í öllum flokkum og hreyfingum (vonandi). Meint „eignarhald“ þeirra sem gagnrýndu ráðstefnuna er kenning sem er úr lausu lofti gripin og einlægir femínistar og jafnréttissinnar fagna öllu sem skilar okkur áfram, þótt vel kunni að vera að form og aðferðafræði hafi í þessu tilviki vakið – skiljanlega, að mínu viti – bæði spurningar og athugasemdir.

Því það er sama hvaðan gott kemur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.