„Þórunn hvergi fyrirfannst“

Höfundar: Ritstjórn og Skálmöld

„Hvar voru allar íslenskar konur, einhverjar hafa verið hér?“ var sungið á Áfram stelpur 1975 og margir hafa tekið upp þann þráð og velt fyrir sér hvar kvenhetjurnar á Söguöld hafi eiginlega dagað uppi því fáar rötuðu þær í ritað mál.  Einn af þeim sem hefur velt þessu fyrir sér er Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textaskáld hljómsveitarinnar Skálmöld sem sækir innblástur í Íslendingasögurnar og Snorra-Eddu en tekur sér þó skáldaleyfi og býr til nýjar sögur út frá þekktum minnum. Fyrsta platan, Baldur, fjallar um dæmigerða íslendingasagnahetju sem hefnir fjölskyldu sinnar og á þeirri næstu, Börn Loka, er sagt frá samskiptum söguhetjunnar við téð afkvæmi. Á þriðju skífu sveitarinnar, Með vættum, sem kom út í haust er kvenhetjan Þórunn Auðna í aðalhlutverki og berst með landvættunum við skrímsli er herja á strendur lands. Knúz  spjallaði við Snæbjörn um þungarokk, kvenhetjur og femínisma.  

Blésu hana bitrum móð,
barði frá sér Íslands fljóð.
Þegnar sváfu.
Þessa gáfu
Þórunn fann er leit hún blóð.

Fyrsta stríð af fjórum vannst,
fréttist víða, sagan spannst.
Þó í ljóðum
þessum góðum
Þórunn hvergi fyrirfannst.
(Úr texta lagsins Með fuglum, af plötunni Með vættum)

Á fyrri skífum sveitarinnar Baldur og Börn Loka eru karlhetjur í aðalhlutverkum. Af hverju er kvenhetja á Með vættum?

Það einhvern veginn hentaði efninu. Hetjan á Börnum Loka, Hilmar, átti raunar upphaflega að vera kvenpersóna en svo varð það eitthvað undarlegt og þvingað. Um leið og þessi hugmynd kom upp, konsepthugmyndin fyrir Með vættum, fannst mér það hins vegar alveg sjálfsagt frá upphafi og allt kom eiginlega af sjálfu sér. Ég veit það ekki, sumar sögur eru um konur og aðrar um karla. Mínar sögur eru sitt á hvað og ég geri það sem þjónar efninu í það og það skiptið.

Í textunum er ítrekað tekið fram að Þórunn og dáðir hennar séu öllum gleymdar. Af hverju? Telur þú að hlutur kvenna í hetjusögunum okkar sé minni en efni standa til?

Þórunn AuðnaFyrir mér er Þórunn söguhetja sem gæti hafa verið til enda þótt við höfum aldrei heyrt af henni fyrr en nú. Mér finnst gaman að velta því fyrir mér hversu miklu gleymdir einstaklingar hafa áorkað gegnum tíðina, sem sagt ekki bara þeir sem náðu hylli og ódauðleika heldur líka þeir sem enginn man. Það er eitthvað heillandi við þá staðreynd að við skuldum einhverjum allt okkar, tilveru og veruleikann allan, án þess við höfum hugmynd um það. Þarna skiptir engu máli hvort þessi persóna er karl-, kven- eða annars kyns.

Varðandi fornsögurnar eru konur í grunsamlega miklum minnihluta, svo miklum að það getur ekki verið eðlilegt. Stundum virðist manni sem engin kona hafi náð fullorðinsárum á þessum tímum, svo sjaldgæfar eru þær. Ég er hins vegar ekkert endilega viss um að þær hafi staðið fremst í öllum orrustum með blóðug sverðin, því sennilega var tíðarandinn ekki þannig. Brenglunin er hins vegar sú að skrásetjarar hafi ekki fundið hjá sér að fjalla um það sem konur voru að gera á þessum tímum. Sem svo aftur segir okkur að konur hafi ekki þótt þess verðar að um þær væri fjallað og þannig hafi þær ekki verið metnar að jöfnu við karla. Þetta er allt saman ofboðslega óeðlilegt.

Þungarokkssenan hefur af sumum verið talin mjög karllæg og jafnvel kvenfjandsamleg. Hvernig uplifir þú hana? Finnst þér eitthvað hafa breyst síðustu ár?

Varðandi fjandsamlegheitin gæti ég ekki verið meira ósammála. Ég get sagt með sanni að ég hef aldrei umgengist hóp fólks sem er opnara fyrir öllu og öllum en þungarokkssenan. Sennilega hefur það með afstöðu almennings gagnvart okkur gegnum tíðina að gera, við erum oft og tíðum álitin undarleg, sérvitur og jafnvel utanveltu. Þannig verðum við að standa saman, við bjóðum fólk velkomið sem vill taka þátt og þarna skiptir engu hvort um ræðir karla eða konur. Þetta hefur þó þróast heilmikið síðustu ár. Þungarokkið, eða í það minnsta ákveðnir angar þess, urðu til sem uppreisn við normið og samfélagið, sem í einstaka tilfellum þróaðist út í hatur. Það er sem betur fer á algeru undanhaldi og í dag eru þessi viðhorf úrelt og þykja fáránleg, þótt alltaf sé svartur sauður í hverju fé.

Hvers vegna svona fáar konur spila þungarokk er umhugsunarefni, en er svo sem ekkert bundið við metalinn. Rafmögnuð tónlist hefur frá upphafi verið strákasport og verið flutt af karlmönnum í langflestum tilfellum. Ég veit ekki alveg hvers vegna þetta er, því mín reynsla segir að allir séu jafnvelkomnir að vera með svo lengi sem viðkomandi er ekki fáviti. Mig grunar þó að þetta sé kúltur sem hafi farið svona af stað vegna þáverandi tíðaranda og okkur hafi ekki enn tekist að snúa við. Langfrægasti tónlistarmaður sem við eigum (og sennilega frægasti Íslendingur fyrr og síðar) er samt kona. Þetta hefur sem sagt ekkert með hæfileika að gera, ekki að það komi á óvart. Vonandi heldur núverandi tíðarandi engum frá því að kaupa sér rafmagnsgítar. Það væri stór ósigur.

Á útgáfutónleikunum um helgina nefndi kynnirinn, Sævar Sigurgeirsson, tölvu- og hlutverkaspil meðal áhrifavalda og hugmyndauppsprettu textasmíða og söguheimssköpunnar Skálmaldar. Annar vettvangur þar sem staðalmyndir kynjanna og kvenfyrirlitning hefur átt upp á pallborðið. Er persóna Þórunnar Auðnu innlegg þangað ekki síður en í þungarokkssenuna?

Tjah. Neinei. Í það minnsta er það ekki yfirlýst markmið. Ég er ekkert í heilögu stríði til þess að rétta hlut konunnar af í þeim kreðsum sem ég hef áhuga á. Mér finnst hins vegar algerlega jafn sjálfsagt að mínar sögupersónur séu kvenkyns og að þær séu karlkyns. Mér finnst ég gera mest gagn í baráttu gegn misrétti með því að sniðganga sjónarmiðið alveg og fjalla um alla jafnt. Mér finnst „hún gat þetta nú bara samt, þótt hún væri kona“-sjónarmiðið alveg óskaplega niðurlægjandi enda þótt það sé oftast vel meint. Þórunn Auðna er einn öflugasti karakter sem ég hef skapað og þá skiptir engu hvort hún er karl eða kona. Við þurfum ekkert að klípa hana í kinnina og segja henni að hún sé alveg jafn dugleg og strákarnir. Það er minnkandi og allt annað en jafnrétti.

Barátta fyrri plötuhetja, Baldurs og Hilmars á Börnum Loka, er persónuleg, Baldur vill hefna fjölskyldu sinnar og Hilmar reynir að bjarga systur sinni. Þeir hljóta báðir harmræn hetjuörlög og endasleppa ævi. Barátta kvenhetjunnar Þórunnar tekur hinsvegar alla ævi, sem lýkur með lokaorustu í hárri elli og við fáum lítið að vita um hennar persónulegu hagi enda koma þeir sögunni lítið við. Einhverjar pælingar tengdar þessu?

skalmold_ls_2Í raun ekki. Eins og ég sagði áðan þá var Hilmar lengi vel kvenpersóna en ég kynskipti honum á síðustu metrunum. Þá var systirin bróðir en að öðru leyti var allt eins. Mér fannst eitthvað heillandi við að Þórunn væri þessi einfari sem enginn þekkti og enn sterkara að hún væri kvenkyns. Ég veit ekkert alveg af hverju, þetta er oft mjög huglægt hjá mér. Jú, sennilega hefur mér þótt hún svolítið meira sérstök þar sem kvenhetjur eru færri í sögunum, en það hafði ekkert úrslitavald. Varðandi þá félaga, Baldur og Hilmar, er þetta reyndar ekki alveg svona einfalt, og spurningin er ekki allskostar rétt. Baldur deyr vissulega mjög klénum hetjudauða, en Hilmar endar nú eiginlega sem skúrkur frekar en hitt. Græðgin verður honum að falli og hann missir allt sitt í sorg og niðurlægingu.

Að lokum, ertu femínisti?

Ó, þetta er brothætt spurning, þá sérstaklega vegna þess hversu hugtakið er orðið þvælt, það hafa svo margir reynt að gera það að sínu og þvinga það að eigin hugmyndafræði. Ef ég er femínisti er ég jafn mikill maskúlinisti. Ég er jafnréttissinni fram í fingurgóma og skil ekki með nokkru móti að fólki sé mismunað. Eina fólkið sem á ekki að fá jafna meðferð og við hin eru fávitarnir. Þetta er auðvitað mjög huglægur stimpill, fávitastimpillinn, en samt ágætis útgangspunktur. Að þessu sögðu finnst mér heldur ekki að neinn eigi að þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Mér finnst ekkert brjálæðislega mikilvægt að fleiri stelpur kaupi sér rafmagnsgítar, en mér finnst aftur á móti lífsnauðsynlegt að þær hafi óskilorðsbundinn rétt til þess að kaupa hann, kjósi þær svo (hér er rafmagnsgítarinn auðvitað holdgervingur fyrir allt í þessum heimi). Karlar og konur eru ekki eins, já og karlar og karlar/konur og konur auðvitað ekki heldur. Allir skulu hafa jafnan rétt og allir ættu að fá sömu umbun fyrir unnin verk, en líka frelsi til að velja. Sem sagt, konur eiga að geta saumað út án þess að skammast sín fyrir það og sex strákar eiga að geta verið saman í stelpulausri Skálmöld án þess að það þyki óeðlilegt. Sumir myndu ekki flokka þetta sjónarmið mitt sem femínisma.

Knúzið þakkar Skálmöld kærlega fyrir spjalllið og bendir á að frekari upplýsingar um hljómsveitina og verk hennar má finna hér.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.