Höfundur: Guðrún Harpa Bjarnadóttir
Ég hef haft óbilandi áhuga á íþróttum frá því ég man eftir mér, hef æft þær margar og lengi vel voru íþróttafréttirnar einu fréttirnar sem ég las. (Sem er reyndar ástæða þess að ég enn þann dag í dag les ég dagblöðin afturábak – íþróttafréttirnar í Mogganum voru nefnilega alltaf á öftustu blaðsíðunum!)
Áhugi minn á kynjajafnrétti nær ekki eins langt aftur og íþróttaáhuginn en síðan mér voru rétt kynjagleraugunum fyrir allmörgum árum síðan hef ég öðru hvoru látið það fara í taugarnar á mér hversu mjög hallar á konur á íþróttasíðum dagblaðanna. Einstaka sinnum hef ég birt á FB mynd af íþróttasíðum dagsins, þegar stelpur virðast hafa verið óvenju latar við íþróttaiðkun og umfjöllunin eingöngu um afrek karlanna. Þessar myndir birti ég helst þegar mér blöskraði alveg kvenmannsleysið og því gat það litið þannig út að staðan væri verri en hún raunverulega er. Þar sem ég vinn við greiningu talna í starfi sem krefst nákvæmni ákvað ég að á árinu 2015 skyldi ég taka saman og reikna út hlutfall umfjöllunar um hvort kyn fyrir sig og valdi Fréttablaðið sem viðfangsefni, einfaldlega vegna þess að það er aðgengilegt öllum á internetinu án áskriftar. Ég geri mér grein fyrir að umfjöllun Fréttablaðsins um íþróttir er mjög takmarkaður hluti af íþróttafréttum landsins og auðvitað væri betra ef greiningin næði til allrar umfjöllunar. Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – og þangað til annað kemur í ljós stend ég í þeirri trú að kynjahlutföll íþróttafrétta Fréttablaðsins séu ekki fjarri því að vera lýsandi fyrir íþróttaumfjöllun í heild sinni. Ég hvet hins vegar alla áhugasama til að velja sér fjölmiðil og greina hann með sama hætti – ég myndi svo sannarlega gera það ef ég væri ekki í fullri vinnu annarsstaðar.
En hver er svo tilgangurinn með þessu öllu saman?
Skiptir það einhverju máli að fjallað sé jafnt um bæði kyn? Mín skoðun er að það skipti miklu máli því mér finnst mikilvægt að ungar íþróttakonur hafi sýnilegar fyrirmyndir í íþróttafréttum, ekki síður en karlar. Tilgangur minn með þessari mælingu er því fyrst og fremst að benda á tölulegar staðreyndir og svo má hver og einn túlka þær og greina, velta fyrir sér ástæðum þess að hlutföllin eru eins og þau eru, og hafa á því skoðun hvort það sé yfirhöfuð mikilvægt að umfjöllunin sé sem jöfnust á milli kynja. Á því eru eflaust skiptar skoðanir og ég geri mér grein fyrir að þessi úttekt er ekki það mikilvægasta í jafnréttisbaráttunni og margt annað sem er meira aðkallandi að berjast fyrir á því sviði. En eins og áður sagði – enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – og þetta er mitt framlag til jafnréttisbaráttunnar þetta árið.
Áður en ég hóf mælingar var það tilfinning mín að umfjöllun um íþróttakonur væri einhvers staðar á bilinu 20-30% á móti 70-80% umfjöllun um íþróttamenn af karlkyni. Það er skemmst frá því að segja að strax í fyrstu vikusamantekt var sú tilfinning slegin rækilega niður eins og eftirfarandi tölur janúarmánaðar bera með sér:
Frí er fréttaefni
Ein af mínum uppáhalds er athugasemdin sem ég fékk í byrjun árs um að stelpurnar hefðu bara allar verið í fríi frá keppni þessa fyrstu helgi ársins og því væri ekki óeðlilegt að umfjöllun um íþróttir helgarinnar væru eingöngu um karlmenn. Þeirri athugasemd svaraði Fréttablaðið eiginlega sjálft næsta dag þegar löng grein birtist um íþróttamann sem gerði ráð fyrir að vera í fríi fram á sumar. Sú grein fyllti 22,5% af íþróttafréttum þess dags og 4% af íþróttafréttum vikunnar. Sem er meira en öll umfjöllun um íþróttir kvenna þá vikuna. Frí eru semsagt stundum fréttaefni – svo lengi sem karlmaður á í hlut. Þó að ætlunin hafi fyrst og fremst verið að setja fram tölulegar staðreyndir stenst ég ekki mátið að minnast á nokkra af hápunktum janúarmánaðar þegar athugasemdir og umræður eru annars vegar.
Nokkrum sinnum hefur sú athugasemd komið fram að „þessi kona geti bara sótt um starf á Mogganum og farið sjálf að skrifa um kvennaíþróttir“. Athugasemd af þessu tagi hefur komið fram í ýmsum myndum og við ýmis tækifæri, m.a. í tengslum við frétt af íþróttafréttamannaskóla RÚV fyrir konur. Af hverju þarf að setja ábyrgðina á lítilli umfjöllun um kvennaíþróttir á konur? Þarf kona alltaf að gera allt sjálf? Gefum okkur það að ástæða þess að konur eru ekki starfandi íþróttafréttamenn sé áhugaleysi þeirra en hafi t.d. alls ekkert með það að gera hverjir ráða í slík störf og að þeir velji karla frekar en konur. Í fullkomnum heimi eiga allir að fá að velja sér starf eftir eigin áhuga og það að stelpur langi ekki að vera íþróttafréttamenn á ekki að þýða að ekki sé sagt frá úrslitum kvennaleikja.
Auðvitað er gott og blessað að fara í átak til að fjölga kvenkyns íþróttafréttamönnum en einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að breyta þessum hlutföllum er að starfandi íþróttafréttamenn segi líka frá því sem konur gera. Það þarf enga viðbótarþekkingu eða öðruvísi kynfæri til að segja fréttir af úrslitum og markaskorurum í kvennaleikjum – karlar geta gert það alveg jafn vel og konur.
Kynjablindan
Útnefninguna sem kynjablindasti íþróttafréttamaðurinn fær hugsanlega blaðamaðurinn sem rétt fyrir jól skrifaði langa umfjöllum um eingetna körfuboltamanninn sem var með bestu nýtingu karladeildarinnar í þriggja stiga skotum. Eitt af því sem nefnt var í þeirri umfjöllun var að körfuboltamaðurinn er sonur fyrrverandi landsliðsmanns í karlalandsliði Íslands og hann ætti því ekki langt að sækja hæfileikana. Ekki var hins vegar einu orði minnst á að drengurinn ætti einnig móður, sem svo skemmtilega vill til að spilaði á sínum tíma í kvennalandsliði Íslands. Ef blaðamaðurinn hefði svo bara nennt að kíkja á tölfræði kvennadeildarinnar í körfubolta hefði hann séð að sá leikmaður kvennadeildarinnar sem var á sama tíma með bestu nýtingu í þriggja stiga skotum er systir eingetna körfuboltamannsins – og þar var hann kominn með frábært efni í flotta umfjöllun. Það má segja honum til hróss að nokkrum dögum seinna skrifaði hann einmitt langa grein um þau systkinin – og þar áttu þau bæði móður og föður. Sumir hefðu haldið að þessi seinheppni myndi duga til að stilla kynjagleraugunum upp á nef blaðamannsins en því miður virðist hann vera sjóndapur með eindæmum því hann lauk janúarmánuði með því að skrifa langa umfjöllun um handboltakonuna sem tókst að skora 16 mörk í einum og sama leiknum – þrátt fyrir að vera þriggja barna móðir sem ætti auðvitað að eiga alveg nóg með að reka heimili. Um þá grein er fullskrifað á internetinu og því óþarfi að hafa fleiri orð um hana hér.
Ég hef fengið ótal athugasemdir frá fólki sem þakkar mér fyrir að hafa rétt þeim kynjagleraugun. Þau séu farin að lesa íþróttafréttirnar með allt öðru viðhorfi og jafnvel farin að lesa dagblöðin í heild sinni með kynjagleraugun á nefinu og þá er tilgangi mínum náð. Reyndar er vinkona mín ein sem aldrei hefur lesið íþróttafréttir farin að rífa blaðið af manninum sínum á morgnana til að tékka á kynjahlutfalli dagsins. Fyrirgefðu, Kristján – það var ekki meiningin!
Sæl og takk fyrir flotta grein og umhugsunarverðar pælingar. Vildi bara benda á að nöfn dálkanna í vikulega yfirlitinu eru á röngum stað, sem gerir úrlesturinn svolítið ruglingslegan fyrir lesendur. Vona að Knuz vefstjórinn geti bætt úr þessu. Annars takk og meira svona!
Lagfæring hefur farið fram. Takk fyrir ábendinguna 😉
Takk fyrir að taka þetta saman. Það er dapurlegt að hlutfallið sé svona ótrúlega lágt.
Takk fyrir góða grein Guðrún. Þessi samantekt um vægast sagt slaka umfjöllun um íþróttir kvenna og íþróttakonur er sannarlega þörf ábending til allra íþróttafréttamanna á íslenskum fjölmiðlum!
Veit ekki betur en að myndin af Guðjóni Val sé mynd sem ég tók á HM í Qatar….
….síðast þegar ég vissi að þá er ég kona en fékk samt þetta frábæra tækifæri að vera þarna úti….svo heimurinn er nú ekki alveg vonlaus…..
Einnig að þá vorum við tvær fjölmiðlakonur þarna úti og þið sem horfðuð á útsendingar RÚV að þá tók María Björk upp flest af því efni….og stóð sig frábærlega.
Er ekki komið nóg af því að skrifa alltaf um þetta neikvæða?
Það nennir enginn að hlusta á endalaust röfl og vitleysu og fagna því frekar þegar við náum árangri og gaspra dálítið um það og hvetja ungu stúlkurnar okkar með þeim boðskap og hvetja okkur áfram?
Fjölmiðlaheimurinn er mjög erfiður, ósanngjarn og að vera kona sem nær árangri í fjöðmiðlaheiminum hérna heima boðar bara neikvætt umtal, skítkast og þekki ég það vel af eigin raun.
Ég myndi frekar vilja heyra meira jákvætt um okkar frábæra íþróttafólk og hlýtur það að vera meira hvetjandi heldur en enn ein greinin um hvað allt er glatað (sem það er) og prófa aðrar aðferðir til að virkja fjölmiðlafólk til að fjalla meira um kvenfólkið okkar.
Einnig skipta lesendatölur miklu máli og hef ég oft séð þær tölur.
Það er gríðarlegur munur á þessum tölum og tikka auglýsingapeningarnir þar inn.
Einnig þekki ég margar af okkar afrekskonum og lesa þær (ekki allar…en margar) ekki sjálfar oft helminginn af því sem er skrifað og skiptir það gríðarlega miklu máli…ef það á að vera breyting þarna á að þá þarf að kenna stúlkum að fara inn á þessa miðla, klikka á fréttirnar og lesa og hafa skoðun á því sem fer fram.
Þar held ég að helstu breytingarnar þurfi að byrja….í yngri flokkum og heima þar sem það er otað að þeim að lesa og hafa áhuga á umfjöllunum um íslenskar íþróttakonur.
Bakvísun: Hvernig á að fjölga konum? | *knúz*
Bakvísun: Fyrsta stórmótið? | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Kynlegur íþróttaannáll 2015 | Knúz - femínískt vefrit