Höfundur: Ritstjórn
Frést hefur að seta Þóru Arnórsdóttur í stól stjórnanda HM-stofunnar hafi vakið óskilgreint óþol hjá einhverjum sjónvarpsáhorfendum. Þetta litla skjáskot úr þrashópnum Fjölmiðlanördar, sem heldur til á fésbókinni, gæti endurspeglað þá upplifun nokkuð vel.
Spyrjandi sér ljóshærða konu stjórna þætti um handbolta og álítur í fyrstu að það sé Brynja Þorgeirsdóttir. Aðrar sem koma til greina eru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir. Hann er leiðréttur (og leiðréttir í kjölfarið stöðufærslu sína) og fær síðan þessa spurningu: „Og heldurðu að þú hefðir spurt þessarar spurningar ef Þóra/Brynja væri random karlmaður en ekki kona?“ Hann svarar: „Já það hefði ég gert. Hvað er málið orðið með þessa grúbbu? Er ekki lengur hægt að hafa málefnalegar umræður án þess að ákveðnir aðilar hér séu með skítkast?“
Hér má reyndar velta fyrir sér hvort spurningin sé málefnaleg en látum það liggja milli hluta.
Síðan kemur þessi hrútur með sína skýringu nokkru neðar í umræðuþræðinum: „Það hefur verið mikið hjartans mál fyrir háværa íslenska feminista að hafa kynjakvóta í settinu á svona íþróttaviðburðum á RÚV. Ætli hún sé ekki þarna svo að það sé hægt að hafa karlkyns viðmælendur í settinu með reynslu af því að spila á svona stórmótum án þess að allt verði vitlaust?“
Svo skemmtilega vill til að þessi síða á vefsvæðinu http://www.handbolti.org er það sem kemur efst upp í leitarniðurstöðum þegar notuð eru leitarorðin „Þóra Arnórsdóttir“ og „handbolti“ saman í leitarglugga. Þar segir: „Þóra hefur mikinn áhuga á handknattleik og lék á sínum tíma með Val og varð m.a. Reykjavíkurmeistari með 2. flokk félagsins árið 1993.“ Til órækrar sönnunar fyrir þá allra vantrúuðustu er þarna einnig mynd af henni ásamt liðinu.
Allt þetta hefði fyrirspyrjandi fengið að vita með óverulegri fyrirhöfn. En til þess hefði hann auðvitað þurft að muna nafnið á ljóshærðu konunni sem stjórnaði HM-stofunni.
Ég hef ekki áður nennt að horfa á HM stofutil enda – Þóru er margt til lista lagt.
Er eitthvað að því að forvitnast sé um bakgrunn fólks sem stýrir þáttum í sjónvarpi? Þarf það endilega að hafa eitthvað með kyn fólks að gera?
Manstu eftir svipaðri spurningu og umræðum þegar Björn Bragi sá um svipaðan þátt? Þegar karl er við stjórnvölinn almennt séð?
Ég man ekki eftir slíkri umræðu á opinberum vettvangi, en það útilokar ekki að hún hafi átt sér stað. Það var hins vegar samdóma álit mitt og minna félaga, sem horfði á leiki með mér, að Björn Bragi hafi ekki staðið sig vel. Jafnframt furðuðum við okkur á því að hann hefði fengið starfið, enda ekki þekktur fyrir íþróttaiðkun.
„Manstu eftir svipaðri spurningu og umræðum þegar Björn Bragi sá um svipaðan þátt? Þegar karl er við stjórnvölinn almennt séð?“
Kannski endurspeglast „for“dómar samfélagsins gagnvart kynjakvótum í þessari pælingu fésbókarskrifarans, þ.e. að karl sem skrifar um íþróttir sé þarna líklegast vegna þess að hann sé hæfur, en kona sem er þarna, er líklegast vegna þess að hún er kona, til þess að fylla upp í einhvern kvóta, alveg óháð því hvort að hún viti eitthvað um íþróttina eða ekki, þ.e. sé þarna á forsendum kynfæris síns en ekki þekkingar. Sem er einmitt af hverju mörgum konum þykir lítið úr sér gert með kynjakvótum, þ.e. enginn veit hvort að þær séu þarna af eigin verðleikum eða vegna kvótans.