Höfundur: Erla Guðrún Gísladóttir

Fréttablaðið 13.1.2015:
Karlar: 80,9% – Konur: 19,1%
Myndin er sótt hingað.
Óformleg könnun á íþróttasíðum Fréttablaðsins í janúar 2015 leiðir í ljós að umfjöllun um íþróttakonur er í lágmarki. Því miður er niðurstaðan í fullu samræmi við fyrri rannsóknir og kannanir. Árið 1996 var umfjöllun um konur í íþróttum á síðum Morgunblaðsins 10,9%[1]. Veturinn 1999-2000 gerði Hilmar Thor Bjarnason könnun á hlutfalli kvenna í íþróttaumfjöllun í dagblöðum og kom í ljós að 7,1% íþróttaumfjöllunar var um konur. Árið 2006 voru kynntar niðurstöður úr viðamikilli rannsókn um íþróttafréttir í Evrópu sem Ísland var aðili að. Helstu niðurstöður voru að 13% íþróttaumfjöllunar í Evrópu var um konur. Hlutfallið var hærra á Íslandi en það var 18%. Ári seinna birti Anna Guðrún Steindórsdóttir könnun sína á íþróttaumfjöllun hjá Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, og voru 9,7% íþróttaumfjöllunar um konur.[2]
Fimleikastofa eða handboltastofa?
Það er ljóst að íþróttafréttir á Íslandi endurspegla hvorki fjölda kvenkyns iðkenda né eru afrekum þeirra gerð sömu skil og afrekum karla. Því er stundum fleygt fram að fæð kvenna í íþróttafréttum sé annars vegar vegna áhugaleysis almennings á íþróttakonum og hins vegar vegna þess að íþróttakonur séu færri og vinni færri afrek. Fleiri ástæður hafa þó verið nefndar, líkt og að ekki sé til myndefni og að íþróttafréttamenn viti hreinlega ekki af því þegar íþróttakonur keppa. Upp á síðkastið hefur svo í auknum mæli verið rætt um að kyn íþróttafréttamanna hafi þarna einnig áhrif.
Gegnumgangandi í umræðum um íþróttaumfjöllun kvenna er einskonar máttleysi gagnvart viðfangsefninu. Að ekki sé ljóst hví svo miklu færri fréttir af íþróttakonum rati í fjölmiðlana og enn síður hvernig eigi að bæta úr skekkjunni. Ef það er raunverulegur vilji fyrir hendi hjá stjórnendum íþróttafrétta og íþróttafréttamanna að breyta þessu þá er fyrsta skref að horfast í augu við eigin fordóma og staðalímyndir. Allflest höfum við heyrt á skotspónum að konur spili leiðinlegan bolta, hlaupi ekki nógu hratt, stökkvi ekki nógu hátt, séu ekki nógu góðar og svo framvegis.. Kynjahlutfalli íþróttafrétta verður seint breytt ef ekki er tekist á við þessa fordóma opinskátt.

Elizabeth Greenwood-Hughes segir hér fréttir af veigamesta krikketleik vertíðarinnar fyrir BBC í desember 2013 í þessu skjáskoti, sem er fengið héðan.
Íþróttafréttir verða ekki til í tómarúmi. Þær taka mið af samfélaginu og þeim gildum sem þar ríkja. Staða kvenna hefur aldrei batnað bara af sjálfu sér. Konur hafa þurft að berjast fyrir því sem þær fá og því miður hefur alltaf verið nóg af fólki sem telur að konur eigi ekki sama rétt og karlar. Að það séu veigamikil rök fyrir að konur fái ekki sitt til jafns við karla. Það er misjafnt eftir áratugum hvaða rök eru tínd til[3]. Það að íþróttakonur eiga erfitt með að sleppa í gegnum nálarauga hins almenna fréttamats er bein afleiðing þess að samfélagið setur konur skör lægra en karlar. Verk þeirra og afrek eru meira metin en kvenna.
Í sjálfu sér skiptir ekki máli hver skýringin er á fæð kvenna í íþróttafréttum. Lög um almannasjónvarp eru mjög skýr. Það er óheimilt að hafa ójafnt kynjahlutfall í lengri tíma. Íþróttadeildin er ekki undanskilin þessum lögum.
Hvernig á að afnema karlakvóta?
Þrátt fyrir að það sé í sjálfu sér tiltölulega auðvelt að afnema karlakvóta geta fyrstu skrefin verið erfið. Hér eru nokkrar tillögur til að hjálpa íþróttadeildum af stað.
1. Búa til excel-skjal eða hengja upp blað á áberandi stað á skrifstofunni. Nöfn fréttamanna skrifuð á hægri hlið, fyrir ofan er skrifað kvk og kk. Í lok hverrar viku eða dags fara fréttamenn yfir hlutfallið hjá sér. Hversu margar kallafréttir, hversu margar kvennafréttir og færa inn. Þá er hægt að sjá með skýrum hætti, hvert hlutfallið er og hverjir þurfa að vinna heimavinnu og kynna sér íþróttir kvenna. (Mig grunar að iðkendur annarra greina en bolta myndu vilja sjá svipaðar aðgerðir).
2. Á heimasíðu ÍSÍ er hægt að finna gríðargóðar upplýsingar um það sem er á döfinni í íþróttaheiminum. Það væri einnig hægt að senda út bréf á helstu íþróttafélög og biðja þau um að leggja ykkur lið um ábendingar um íþróttakonur.
3. Það mætti halda á fréttatilkynningu RÚV að píka sé nauðsynlegt til að skrifa fréttir um íþróttakonur. Þetta er algengur misskilningur að karlar eigi erfiðar með að fjalla um konur en karla og til þess að hægt sé að jafna kynjahlutfallið þá sé nauðsynlegt að fá konu til að skrifa um konur. Píka er algerlega ónauðsynleg fyrir íþróttafréttaskrif um konur. Það er engu að síður mjög ánægjulegt að íþróttadeildina ætli sér að fjölga konum innan sinna raða.
4. Ef þessar aðgerðir bera ekki árangur þá er hugsanlegt að starfsfólkið ráði ekki við verkefnið. Þá er annað hvort hægt að endurmennta starfsfólkið eða ráða inn fólk sem getur fjallað um bæðið kynin.
[1]samkvæmt könnun Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands
[2] Allar ábendingar um rannsóknir á tíðni kvenna í íþróttafréttum eru vel þegnar.
[3] Eitt sinn voru rökin að það myndi trufla störf konunnar inn á heimilum, aðra stundin var borið við meintu getuleysi kvenna og nú heyrum við að ástæðan fyrir skorti á íþróttafréttum sé að konur treysti sér ekki í starfið.
Bakvísun: Hvernig á að fjölga konum? | *knúz*