Hvernig á að fjölga konum?

Höfundur: Ritstjórn

Strákar eru í skemmtilegri íþróttum og þeir koma alltaf í sjónvarpinu. Hann Bjarni Felixson hefur karlafótbolta ábyggilega af því að honum finnst það skemmtilegra af því að hann er sjálfur kall. Ef hann væri kona væri meira um konur í íþróttaþáttunum.

–          Jónas Rafnsson, 8 ára. Tilvitnunin er úr grein í 19. júní árið 1987

Eins og komið hefur ítarlega fram á Knúzinu það sem af er vikunni  er óumdeilt að það er alvarlegur kynjahalli hvað varðar bæði mönnun starfa við íþróttafréttamennsku og umfjöllun um íþróttaiðkun kvenna, sem er langt fyrir neðan það sem eðlilegt gæti talist miðað við virkni kvenna í íþróttum af öllu tagi.

hjördisárna

Hjördís Árnadóttir. Myndin birtist með grein og viðtali í tímaritinu 19. júní árið 1987.

Sé málið skoðað í sögulegu samhengi má benda á að árið 1987 var ein kona starfandi sem íþróttafréttamaður á RÚV. Konan heitir Hjördís Árnadóttir og í 19. júní-greininni sem vitnað er til hér að ofan lýsir hún upplifun sinni af starfinu og af kynjahallanum, bæði í vinnunni og í umfjöllun um íþróttaiðkun kvenna. Í greininni er einnig farið stuttlega yfir tölfræði um hlutfall kvenna sem iðka íþróttir og hlutfall frétta sem fjalla um þá iðkun. Á þeim tæplega 30 árum sem liðin eru síðan viðtalið var skrifað hefur það hlutfall grátlega lítið hækkað.[i]

Fyrir nokkrum dögum var sagt frá því í fjölmiðlum og á heimasíðu RÚV að stofnunin hefði mikinn hug á að fjölga konum í hópi íþróttafréttamanna (eða úr engri í væntanlega minnst eina) og í því augnamiði yrði haldið námskeið 7.-8. febrúar n.k., sem væri ætlað sérstaklega konum sem hafa áhuga á íþróttafréttamennsku. Markmið námskeiðsins væri  nokkuð sértækt, eða „að efla hlut kvenna í íþróttafréttamennsku“, eins og fram kemur í fréttinni.

Fréttin um námskeiðið vakti margs konar viðbrögð meðal jafnt karla sem kvenna. Sumum þótti þetta framfaraskref og í anda t.d. nýrra þátttökureglna fyrir spurningakeppnina Gettu betur, enda væri skilvirkasta leiðin til að fjölga konum í greininni einfaldlega sú að – ja, fjölga þeim, með hvaða ráðum sem tiltæk væru. Öðrum þótti sem þarna væri verið að gera lítið úr konum, og á vefritinu Nútímanum  spurði Atli Fannar Bjarkason:

Í staðinn fyrir að halda námskeið í íþróttafréttamennsku fyrir konur, af hverju eru konur ekki bara ráðnar á íþróttadeildina?

Knúzinu lék forvitni á að heyra meira um málið frá aðstandendum námskeiðsins og Einar Örn Jónsson á íþróttadeild RÚV var svo elskulegur að svara nokkrum spurningum frá okkur.

Í viðtali í Morgunblaðinu 2.2. s.l.  kemur fram að RÚV hafi lengi reynt að fá konur til starfa á íþróttadeildinni. Hversu oft hefur verið auglýst og hve margar hafa sótt um? Hafa forráðamenn RÚV leitað fyrir sér annars staðar og með öðrum hætti?

Hin konan sem hefur verið íþróttafréttamaður hjá RÚV. Edda Sif Pálsdóttir var ráðin í sumarafleysingar 2011 en sagt upp í niðurskurði hjá RÚV árið 2013.

Hin konan sem hefur verið íþróttafréttamaður hjá RÚV. Edda Sif Pálsdóttir var ráðin í sumarafleysingar 2011 en sagt upp í niðurskurði hjá RÚV 2013.

Á síðastliðnum rúmum fjórum árum hefur tvívegis verið auglýst til umsóknar starf íþróttafréttamanns hjá okkur. Ef minnið bregst mér ekki sóttu þrjár konur um samtals í þessi tvö skipti og var Edda Sif Pálsdóttir m.a. ráðin í kjölfarið. Svo berast RÚV alltaf margar umsóknir um sumarstörf og þar hafa mjög fáar konur lýst áhuga á að vinna við íþróttir en mun fleiri karlar. Tölurnar hef ég ekki á takteinum enda fara þessar umsóknir á borð mannauðsstjóra, sem svo er búið að skipta um þá stöðu síðan.

Hverjar teljið þið vera veigamestu ástæðurnar fyrir því að konur hafa ekki sóst eftir störfum við íþróttafréttamennsku? Hafa konur í þessu starfi sætt meiri gagnrýni/ómaklegri gagnrýni en karlar?

Lesley Visser er brautryðjandi í stétt íþróttafréttakvenna og var fyrst kvenna til að lýsa leik í NFL í Bandaríkjunum.

Lesley Visser er brautryðjandi í stétt íþróttafréttakvenna og varð fyrst kvenna til að lýsa leik í NFL í Bandaríkjunum.

Þetta er ein spurninganna sem við viljum leita svara við. Miðað við viðbrögðin sem við höfum fengið við auglýsingunni okkar er enginn skortur á konum sem hafa áhuga á fjölmiðlum og íþróttum, enda ekkert sérstaklega karllægt við að hafa áhuga á því tvennu. Spurningin hlýtur að vera hvers vegna konur hafa ekki leitað í þetta starf og það einskorðast ekkert við RÚV. Það er engin kona á Íslandi starfandi sem íþróttafréttamaður í fullu starfi í dag. Ég held ekki að konur í þessu starfi hafi sætt meiri eða ómaklegri gagnrýni en karlar en vissulega er erfitt að meta það af því konur hafa verið svo fáar í starfinu. Mig grunar að yfir starfinu sé einhver mýta um að þetta séu bara karlar að orga úr sér lungun yfir beinum útsendingum en það er bara svo lítill hluti starfsins. Það er bara hluti lýsinga sem felur í sér æsing og beinar lýsingar eru ekkert sérstaklega stór hluti starfsins heldur.

Nú er hæfnispróf lagt fyrir umsækjendur um störf á fréttastofu? Mun námskeiðið verða hugsað sem undirbúningur fyrir slíkt hæfnispróf, eða hafa almennari skírskotun? Munu þátttakendur á námskeiðinu gangast undir hæfnisprófið óbreytt eða telst þátttaka jafngilda einhverjum hluta slíks prófs? 

Nei, það er ekki planið að þetta námskeið sé undirbúningur fyrir fréttamannaprófið eða jafngildi slíks. Fréttamannaprófið er aðallega þekkingarpróf en námskeiðið mun frekar felast í að opna og kynna starfið sjálft; hvað það felur í sér, vinnuumhverfið, kosti og galla o.s.frv. Við munum leggja létt íþróttapróf fyrir en þekkingu er hægt að bæta síðar, ef á hana skortir á annað borð. 

Hversu margar konur hafa þreytt hæfnispróf fyrir íþróttafréttamennsku undanfarin ár og hversu margar hafa staðist það? Er merkjanlegur munur á frammistöðu kvenna og karla á slíku prófi?

Ein kona, Edda Sif Pálsdóttir. Við höfum ekki lagt prófið fyrir nema á lokametrum umsóknarferlis og konur hafa verið fáar í ferlinu til að byrja með. Edda Sif stóðst það með miklum sóma en mun á kynjunum er ekki hægt að greina því það væri engan veginn marktækt vegna fjölda.

Lítið þið svo á að námskeiðið hafi beinlínis þann tilgang að leiða til ráðningar konu á íþróttafréttadeildina? Er í bígerð að fjölga íþróttafréttamönnum og yrði viðbótarstaða á þeirri deild sérstaklega eyrnamerkt kvenkyns umsækjanda, ef slíkur umsækjandi stæðist hæfniskröfur?

Tilgangurinn er að jafna kynjahlutfallið, þó ekki á þann veg að við rekum karl til að ráða konu. Það er heldur ekki í sjónmáli að fjölga á deildinni, enda er alls óljóst hvernig starfsemi RÚV verður næstu misserin. Við verðum hins vegar alltaf að hafa fólk til að grípa í þegar afleysingar þarf. Starfsfólk fer í frí, barneignarleyfi og veikist eins og annars staðar og fámennið á deildinni gefur okkur ekki svigrúm til að láta þá sem fyrir eru bara vinna meira. Eins þurfum við alltaf að bæta við fólki þegar álagstímar eru, t.d. þegar stórmót standa yfir. Við munum því nota námskeiðið til að finna hugsanlega kandídata í afleysingar og þá jafnvel í framhaldinu fast starf, þó það sé algjörlega óljóst hvenær af slíku yrði eins og árferðið er í dag.

Er markmiðið með ráðningu kvenna á íþróttadeild að auka umfjöllun um íþróttaiðkun kvenna? Ef svo er, þarf konur til að skrifa um konur í íþróttum?  

Við teljum okkur sinna umfjöllun um íþróttaiðkun kvenna vel. Þar sem við getum haft áhrif á umfjöllunina er í íþróttum innanlands og þar hefur í mörg ár verið yfirlýst stefna að gera aldrei upp á milli kynjanna í umfjöllun. Við fjöllum jafnt um Íslands- og bikarmót karla og kvenna í þeim greinum sem við sinnum í fréttum og munum gera það áfram (það sem hefur skekkt kynjatölurnar hjá okkur er aðgengi að erlendu efni um íþróttir kvenna. Fréttaveiturnar sem RÚV er aðili að senda 90% myndefni frá íþróttum karla en við nýtum svo til allt það erlenda efni af íþróttum kvenna sem okkur berst en það er aðallega í þeim tilfellum þegar mót eru sameiginleg með báðum kynjum eins og t.d. skíði, tennis og frjálsar íþróttir).
Það er af og frá að það þurfi konur til að skrifa um konur, ekki frekar en það verði að vera karla sem skrifa um karla. Bæði kyn eru alveg jafn fær til að fjalla um bæði kyn.

Að lokum: Meðal skilyrða til þátttöku á námskeiðinu skv. auglýsingu eru atriði eins og

Gagnrýnin hugsun og forvitni nauðsynleg

Góð tölvu- og tækniþekking og hæfileiki til að tileinka sér tækninýjungar

Þekking og áhugi á þjóðfélagsmálum og heimsfréttum nauðsynleg

Jákvætt hugarfar

Almennur áhugi á starfsemi og stefnu RÚV

Eru þetta allt atriði sem hafa verið sett fram sem skilyrði í auglýsingum eða starfslýsingum fyrir starf íþróttafréttamanna hjá RÚV eða eru þau sérsniðin að námskeiðinu?

Þetta eru nú allt almenn atriði sem frétta- eða dagskrárgerðarmaður hjá RÚV þarf að kunna skil á.

 

Fleiri urðu þau orð ekki og Knúzið þakkar Einar Erni kærlega fyrir samtalið.

___

 

[i] Í greininni  í 19. júní frá 1987 segir:

„Konur eru rúmlega 30% af íþróttaiðkendum innan íþróttasambands íslands en umfjöllun fjölmiðla um íþróttir kvenna er margfalt minni. í könnun sem Jafnréttisráð lét framkvæma árið 1985 kom fram að aðeins í 3,9% af íþróttatexta þeirra fjögurra blaða sem könnunin náði til var fjallað um konur. Hlutfallslega var mest fjallað um íþróttir kvenna í DV og Þjóðviljanum, á báðum blöðunum var 4,9% af íþróttaefninu tileinkað konum. Morgunblaðið eyddi aðeins 3,2% af texta í íþróttir kvenna en minnst var hlutfallið í NT sáluga, aðeins 2,7% af íþróttagreinum var um konur.“

(„Ef Bjarni Fel væri kona“. e. Vilborgu Davíðsdóttur, í 19. júní, bls. 18-19, 1. tbl. 27. árgangur, 1987)

Í nýlegri grein á vefritinu knuz.is segir:

„Veturinn 1999-2000 gerði Hilmar Thor Bjarnason könnun á hlutfalli kvenna í íþróttaumfjöllun í dagblöðum og kom í ljós að 7,1% íþróttaumfjöllunar var um konur. Árið 2006 voru kynntar niðurstöður úr viðamikilli rannsókn um íþróttafréttir í Evrópu sem Ísland var aðili að. Helstu niðurstöður voru að 13% íþróttaumfjöllunar í Evrópu var um konur. Hlutfallið var hærra á  Íslandi en það var 18%. Ári seinna birti Anna Guðrún Steindórsdóttir könnun sína á íþróttaumfjöllun hjá Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, og voru 9,7% íþróttaumfjöllunar um konur.“

(„Þarf píku til að skrifa íþróttafréttir um konur?“, e. Erlu Guðrúnu Gísladóttur, birt á vefritinu knuz.is, 3.2. 2014)

Og vandinn er greinilega ekki bundinn við Ísland, því samkvæmt grein á vefsíðunni Videnskab.dk árið 2012 leiddi stór alþjóðleg rannsókn, International Sports Press Survey 2011, í ljós ýmsar brotalamir í bæði kynjahlutfalli og gæðum íþróttaumfjöllunar í 22 þjóðlöndum, m.a. að 9 af hverjum 10 greinum eru skrifaðar af körlum og að 85% allra greina um íþróttir eru um karla. Greinina má lesa hér, og í henni er tengill á téða rannsóknarskýrslu.

Viðbót: Klara Bjartmarz benti á að Kristrún Heimisdóttir hefði fyrst kvenna verið ráðin beint á íþróttadeild RÚV. Það var árið 1991. Nánar um það í þessu viðtali.

Ein athugasemd við “Hvernig á að fjölga konum?

  1. „Við teljum okkur sinna umfjöllun um íþróttaiðkun kvenna vel“ Ég get ekki orða bundist. Þið eruð ekki að sinna íþróttaumfjöllun kvenna VEL. Það rétta er að þið sinnið kvennaíþróttum BETUR heldur en aðrar stöðvar. Það breytir því ekki að 20% umfjöllun um konur er engan veginn ásættanlegt. Það er heldur ekki rétt að íslensk íþróttaumfjöllun sé jöfn, hún er jafn ömurlega ójöfn eins og erlenda umfjöllunin.

    Ég legg líka til að þið komið með önnur rök en skort á myndefni. Íþróttadeildin hafði fjármagn til að fylgja eftir golfgutta á móti í Greensville í Norður-Karólínu. Hvers vegna eru fréttaritar erlendis ekki líka nýttir í að fjalla um ísl. íþróttakonur á erl. grund. Það er líka hægt að minnka kröfurnar á gæðunum á myndefni. léleg gæði er skárra en engin mynd.

    Mér þykir mjög leitt að íþróttadeildin sé ekki tilbúin til að horfast í augun við eigin kynjaslagsíðu á þættinum sínum. Ég hefði haldið að það væri fréttamönnum kappsmál að laga þessa skekkju.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.