Limlest

Efnisviðvörun: Hér að neðan er lýsing á grófu ofbeldi gegn barni og framkvæmd limlestingar á kynfærum, eða FGM

 

anti-FGM Úganda

Skilti gegn FGM, frá Úganda. Myndin er sótt hingað.

Dagurinn í dag, 6. febrúar, er alþjóðlegur baráttudagur gegn limlestingum á kynfærum kvenna (e. female genital mutilation, eða FMG). Frekari upplýsingar um þessa hrottalegu siðvenju, þar sem ýmist ytri eða bæði ytri og hluti af innri kynfærum stúlkna eru fjarlægð, má finna hér og hinum þremur misyfirgripsmiklu tegundum hennar er lýst á þessu myndbandi frá FGM Victims UK. Þessi aðgerð tíðkast einkum í sumum Norður-Afríkuríkjum, Jemen og Írak, en í mun minni mæli í sumum ríkjum Asíu og Mið-Austurlanda. Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, telur að í dag séu á lífi um 125 milljónir stúlkna og kvenna sem hafa þurft að þola þetta skelfilega ofbeldi.

Aðgerðin var í fyrstu oftast kölluð „umskurður“ (e. circumcision), enda það hugtak þekkt í tengslum við brottnám forhúðar á drengjum. Það er þó bæði villandi og rangt, enda er aðgerðin sem framkvæmd er á stúlkunum mun víðtækara og alvarlegra inngrip og hefur margfalt alvarlegri aukaverkanir til langs tíma og mun meiri bráða heilsufarshættu í för með sér en umskurður drengja. Mannréttindasamtök og baráttufólk gegn aðgerðinni tala því frekar um „limlestingu á kynfærum kvenna“ (e. female genital mutilation), til að undirstrika að hér sé ekki á neinn hátt um sambærilegar aðgerðir að ræða.

Ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar um aðgerðina, útbreiðslu hennar og árangurinn við að berjast gegn henni, er að finna í þessari skýrslu WHO, og verða ekki tíundaðar frekar í þessum pistli.

Aðgerðin er mishrottaleg eftir samfélögum en markmiðið er ævinlega að grunni til það sama: Að stjórna og hefta kynhegðun og kynfrelsi stúlkna og kvenna í því skyni að halda þeim „hreinum“ og „óspjölluðum“ og tryggja sem hæst brúðarverð fyrir þær. Rétt er að ítreka að þótt þessi siðvenja hafi orðið til í samfélögum þar sem íslam eru ríkjandi trúarbrögð á hún sér engan trúarlegan grundvöll og að hvergi er kveðið á um slíkt í trúarritum múslíma.

Waris Dirie

Waris Dirie, 2013. Myndin er sótt hingað.

Baráttukonan Waris Dirie fæddist inn í sómalska hirðingjafjölskyldu og er ein þeirra sem hefur barist gegn kynfæralimlestingu á alþjóðavettvangi, m.a. með því að segja sína sögu og með starfsemi samtakanna Desert Flower Foundation. Sjálfsævisaga hennar, Eyðimerkurblómið (e. Desert Flower) kom út árið 1998 og var gefin út á íslensku árið 2001. Bókin fjallar m.a. um það hvernig Waris tókst á við limlestinguna og afleiðingar hennar, andlegar sem líkamlegar. Tólf ára gömul strauk hún frá foreldrum sínum til að komast hjá hjónabandi við roskin mann, fór til Mogadishu og þaðan til London. Hún varð með tímanum þekkt fyrirsæta og seinna baráttukona gegn limlestingu á kynfærum kvenna og hefur átt mikinn þátt í að vekja athygli á þeim mannréttindabrotum og því skelfilega ofbeldi sem óhugnanlega mikill fjöldi stúlkna og kvenna er beittur ár hvert.

Flettum upp í Eyðimerkurblóminu og gefum Waris, sem telur að hún hafi verið um það bil fimm ára þegar það sem hér er lýst gerðist, orðið. Hún veit að það líður að því að það eigi að skera hana. Hún er eftirvæntingarfull, vegna þess hve athöfnin hefur mikið samfélagslegt vægi, en um leið kvíðin, því hún veit að Aman eldri systir hennar hafði gengið í gegnum mjög erfið eftirköst af aðgerðinni nokkrum árum áður.

***

Kvöldið áður en ég var skorin sagði mamma mér að drekka ekki of mikið af vatni eða mjólk svo að ég þyrfti ekki mikið að pissa. Ég skildi ekki hvað hún átti við en vildi ekki spyrja of margra spurninga svo ég kinkaði bara kolli. Ég var taugaóstyrk en staðráðin í að ljúka þessu nú af. Þetta kvöld var dekrað sérstaklega við mig og ég fékk aukaskammt af kvöldmatnum. Þetta hafði ég líka séð gerast hjá eldri systrum mínum og hafði öfundað þær þess vegna. Rétt áður en ég fór að sofa sagði móðir mín:

„Ég vek þig í fyrramálið þegar tíminn kemur.“

Ekki veit ég hvernig hún vissi að kerlingin var komin en mamma vissi alltaf svoleiðis hluti. Hún fann það á sér þegar einhver var að koma eða þegar rétti tíminn var kominn til að gera eitthvað.

Hirðingjar í Sómalíu, 2013. Myndin er sótt hingað.

Hirðingjar í Sómalíu, 2013. Myndin er sótt hingað.

Ég lá vakandi alla nóttina, of spennt til að geta sofið, þar til mamma stóð allt í einu yfir mér. Það var enn dimmt úti, þetta var rétt fyrir dagrenningu þegar náttmyrkrið er rétt nýbyrjað að víkja fyrir grárri skímu dagsins. Hún gaf mér bendingu um að hafa hljótt og tók í hönd mína. Ég þreif litla teppið mitt og brölti hálfsofandi á eftir henni. Núna veit ég hvers vegna þetta er gert svona snemma á morgnana. Það er talið betra að skera stúlkurnar áður en allir hinir vakna svo að enginn heyri öskrin í þeim. Þennan morgun gerði ég bara eins og mér var sagt þó að ég væri ringluð og ráðvillt. Við gengum burt frá kofanum inn í runnana.

„Við bíðum hér,“ sagði mamma og við settumst á kalda jörðina. Það var smám saman að grána af degi og ég gat greint umhverfi mitt og brátt heyrði ég smellina í sandölum gömlu konunnar. Móðir mín kallaði nafn þeirrar gömlu og sagði svo:

„Ert þetta þú?“

„Já, ég er hérna,“ heyrði ég einhvern segja þótt ég gæti enn engan séð. Þá var hún allt í einu komin upp að mér án þess að ég hefði tekið eftir því að hún nálgaðist.

„Sestu hérna.“ Hún benti í átt að flötum steini. Hún hvorki heilsaði mér né spjallaði við mig. Hún sagði ekki svo mikið sem: „Hvernig líður þér?“ eða: „Það sem við gerum í dag verður mjög sársaukafullt svo að þú verður að vera dugleg stúlka.“ Nei. Morðkvendið gekk að þessu eins og hverju öðru verki.

Waris Dirie ásamt móður sinni árið 2001, þegar hún kom aftur til Sómalíu. Þetta er eina ljósmyndin sem til er af þeim saman. Myndin er sótt hingað.

Waris Dirie með móður sinni árið 2001, en þá heimsótti hún Sómalíu í fyrsta sinn frá því að hún yfirgaf fjölskyldu sína. Þetta er eina ljósmyndin sem til er af þeim saman. Myndin er sótt hingað.

Mamma tók upp rótarbút af gömlu tré og kom mér fyrir á steininum. Hún settist fyrir aftan mig og lét mig leggja höfuðið í kjöltu sér þannig að fætur hennar voru hvor sínum megin við líkama minn. Ég lagði handleggina yfir læri hennar. Móðir mín setti rótarbútinn milli tannana á mér.

„Bíttu í þetta,“ sagði hún. Skyndilega skaut minningunni um andlit Aman, afmyndað af kvölum, upp í huga mér og ég varð steinrunnin af ótta. „Verður þetta sárt?“ muldraði ég með rótarbútinn uppi í mér. Mamma beygði sig yfir mig og hvíslaði: „Þú veist að ég get ekki haldið þér fastri. Ég er bara ein hérna með þér. Reyndu þess vegna að standa þig vel, elskan. Vertu dugleg fyrir mömmu og þá verður þetta fljótt búið.“

Ég gægðist á milli fóta mér og sá að kerlingin var að gera sig klára. Hún var að sjá eins og hver önnur sómölsk kona – hún bar ljósleitan bómullarkjól og hafði vafið skærlitum klút um höfuðið – nema hvað hún brosti aldrei. Augnatillit hennar var dautt og tilfinningalaust þegar leit stranglega á mig en fór svo að gramsa í lúnu strigatöskunni sinni. Ég hafði ekki af henni augun því að ég vildi sjá með hverju hún ætlaði að skera mig. Ég átti von á að sjá stóran hníf en þess í stað dró hún lítinn bómullarpoka upp úr töskunni. Hún þreifaði inn í pokann með löngum fingrunum og gróf þaðan upp brotið rakvélarblað. Hún grannskoðaði það milli fingranna. Sólin var nýkomin upp, það var orðið nógu bjart til að greina liti þó ég sæi ekki vel frá mér. Ég sá þess vegna greinilega storknað blóðið á skörðóttri egginni. Hún hrækti á rakvélarblaðið og nuddaði því upp við kjólinn sinn. Á meðan hún var að hreinsa það varð allt svart því að móðir mín batt klút fyrir augu mér svo að ég sæi ekkert.

Það næsta sem ég fann var að það var verið að skera kynfæri mín, hold mitt, af mér. Ég heyrði hljóðið í bitlausu blaðinu þegar kerlingin sargaði fram og aftur gegnum húðina á mér. Þegar ég rifja þetta upp á ég hreinlega erfitt með að trúa því að þetta hafi í alvörunni komið fyrir mig. Mér finnst ég vera að tala um einhverja aðra manneskju. Ég get ekki með nokkru móti lýst því hvernig upplifun þetta var. Þetta er eins og það sé verið að skera í gegnum holdið á lærunum á þér eða sneiða af þér handleggina, nema hvað að líkamshlutinn sem þarna var skorið í er tilfinninganæmasti hluti líkamans. Samt hreyfði ég hvorki legg né lið því að ég mundi hvernig hafði farið fyrir Aman og vissi að mér var engrar undankomu auðið. Og ég vildi gera mömmu stolta af mér. Ég lá bara þarna eins og steinrunnin og sagði við sjálfa mig að því minna sem ég hreyfði mig, þeim mun fyrr yrði þetta kvalræði á enda. Því miður fóru fætur mínir að skjálfa án þess að ég gæti nokkuð við því gert og ég bað í hljóði: Góði Guð, láttu þessu ljúka fljótt. Bænir mínar voru heyrðar því að það leið yfir mig.

Þegar ég rankaði við mér hélt ég fyrst að nú væri þessu lokið en það versta var rétt að byrja. Augnbindið hafði dottið af mér og ég sá að Morðkvendið hafði safnað saman við hlið sér hrúgu af þyrnum akasíutrésins. Þyrnana notaði hún til að bora göt í gegnum húð mína og þræddi svo sterkt bómullargarn í gegnum götin til að sauma mig saman. Ég var algerlega tilfinningalaus í fótleggjunum en sársaukinn á milli fótanna var svo nístandi að ég hélt að ég hlyti að deyja. Ég fann hvernig ég tókst á loft og sveif upp frá jörðinni en skildi sársaukann eftir niðri, ég sveimaði yfir konunum tveimur og horfði úr mikilli hæð á gömlu kerlinguna sauma líkama minn saman á meðan vesalings móðir mín hélt mér í örmum sínum. Á þessu augnabliki fann ég til friðsældar, ég var hvorki hrædd né kvíðin lengur.

Ég man ekki hvað gerðist eftir þetta því þegar ég opnaði augun næst var kerlingin á bak og burt. Þær höfðu fært mig til og ég lá á jörðinni nálægt steininum. Fæturnir höfðu verið reyrðir saman með tuskuræmum, frá ökklum upp að mjöðmum, þannig að ég gat ekki hreyft mig. Ég svipaðist um eftir móður minni en hún var líka á bak og burt svo ég lá þarna ein og velti því fyrir mér hvað myndi gerast næst. Mér varð litið á steininn og sá að hann var þakinn blóði, líkt og dýri hefði verið slátrað á honum. Ofan á steininum lágu tægjur af holdi mínu, af kynfærum mínum, sem skrælnuðu í sólinni án þess að nokkur hirti um það.

***

Næstu tvær vikurnar heldur Waris til í kofa úti í eyðimörkinni, á meðan það allra versta gengur yfir. Móðir hennar og systir hjúkra henni eftir bestu getu. Eins og nánast óhjákvæmilega gerist við þessar aðstæður fær hún sýkingu í kynfærin, mikla hitasótt og hroðalegan sársauka við þvaglát. Fótleggir hennar eru reyrðir saman til að sárið opnist síður. Aðgerðin sem gerð var á Waris er alvarlegasta gerðin af kynfæralimlestingu, eða það sem á ensku kallast infibulation, sem mætti kalla „kynfæralokun“, en þá er snípurinn fjarlægður, sem og bæði innri barmarnir og innri hluti ytri barma, og ytri barmarnir síðan saumaðir saman. Waris lýsir því hér hvernig kynfæri hennar litu út.

***

Þegar böndin sem reyrðu fætur mína saman voru fjarlægð gat ég í fyrsta sinn skoðað sjálfa mig á milli fótanna. Þar sá ég húðpjötlu sem var alveg slétt að frátöldu öri sem lá eins og rennilás niður hana miðja. Þessi rennilás var alveg harðlokaður. Kynfæri mín voru innsigluð, eins og múrveggur sem enginn karlmaður mátti brjóta fyrr en kæmi að brúðkaupsnóttinni minni, en þá myndi eiginmaður minn annaðhvort rista mig upp með hnífi eða rjúfa innsiglið með því að þröngva sér inn í mig með valdi.

Ég leið miklar kvalir eftir aðgerðina en samt gat ég talist heppin. Það hefði getað farið miklu verr fyrir mér og margar stúlkur hljóta mun verri örlög en ég. Á ferðum okkar yfir Sómalíu hittum við margar fjölskyldur og ég lék stundum við dæturnar. Næst þegar við hittum einhverja þessara fjölskyldna voru sumar stúlknanna horfnar. Enginn vildi segja sannleikann um það hvað hafði komið fyrir þær og reyndar vildi enginn tala um þær yfirleitt. Þær höfðu dáið eftir þessar pyntingar – blætt út, fengið lost, sýkingar eða stífkrampa. Þetta kemur ekki á óvart þegar haft er í huga hvernig aðgerðin fer fram. Það sem kemur á óvart er að einhverjar okkar skuli lifa þetta af.

***

Waris Dirie, Eyðimerkurblómið (Desert Flower), bls. 50-56. Útgefandi: JPV, 2001. Halla Sverrisdóttir þýddi. Birt með góðfúslegu leyfi útgefanda.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.