Tess Holliday stækkar rammann

Höfundur: Sigríður Pétursdóttir

Tess Holliday

Tess Holliday

Hversu oft hafið þið ekki hrist hausinn yfir fréttum af fyrirsætum í svokallaðri yfirstærð? Já, ég hélt það! Með fréttunum birtast svo myndir af ósköp venjulegum konum sem klæðast flíkum í þeim númerum sem flestar konur nota samkvæmt ótal rannsóknum, eða 14 -16. Lengi var því haldið fram af þeim sem hanna og selja föt að þau væru klæðilegust á konum sem eru háar og tággrannar en þrýstingur frá neytendum á samfélagsmiðlum virðist hægt og bítandi vera að breyta viðhorfinu.

Skjáskot af instagramsíðunni #EffYourBeautyStandards

Skjáskot af instagramsíðunni #EffYourBeautyStandards

Gínur af öllum stærðum og gerðum hafa verið notaðar í stórverslanakeðjunni Debenhams frá árinu 2013 og það uppátæki vakti bæði jákvæða og neikvæða umræðu – jafnréttisráðherrann Jo Swinson var viðstödd þegar gínurnar voru teknar í notkun, enda hafði hún lengi kallað eftir því að stórverslanir endurspegluðu raunsæislegri líkamsvöxt, en landlæknir Bretlands, Dame Sally Davies, lýsti því hins vegar yfir að gínurnar „gerðu það að eðlilegum hlut að vera of feit(ur)“. Og í síðustu viku var brotið blað í sögu fyrirsætubransans þegar fyrirsætan Tess Holliday skrifaði undir samning við hina bresku MiLK Model Management og varð með því fyrsta fyrirsætan í fatastærðinni 22-24 til að fá samning hjá einni af þekktustu umboðsskrifstofunum.

Tess Holliday, eða Tess Munster eins og hún heitir reyndar, er frá Missisippi í Bandaríkjunum. Hún er 29 ára og aðeins 1.60 cm á hæð. Tess hefur barist ötullega fyrir því undanfarin ár að konur sættist við spegilmynd sína, sama hvort þær eru stórar, litlar, bústnar eða horaðar, gamlar eða ungar. Herferðin hennar #EffYourBeautyStandards hefur verið vinsæl á samfélagsmiðlum og hjálpað mörgum til að víkka út rammann og búa til sína eigin „fegurðarstaðla“.

Frá því hún var stelpa hefur hún haft áhuga á tísku og hana langaði alltaf að verða módel. Þegar Tess var táningur var henni strítt á að lítil og feit stelpa væri með svo fráleita framtíðardrauma. Hún lét þó ekki deigan síga og hefur nú atvinnu af því því að sýna föt. Tess segir að tilkoma samfélagsmiðla hafi breytt öllu, án þeirra hefði aldrei komið í ljós að konur vilja sjá konur af öllum stærðum og gerðum í tískublöðum og auglýsingum. Þær hafi engan áhuga á að lenda í því aftur og aftur að gallabuxur, sem líta vel út á konu með allt annað vaxtarlag, séu alger hryggðarmynd á þeim sjálfum.

Frá kynningarsíðu Tess Holliday hjá MiLK Management. Myndin er héðan.

Frá kynningarsíðu Tess Holliday hjá MiLK Management. Myndin er héðan.

Við þá sem gagnrýna hana fyrir að vera ekki góð fyrirmynd segir Tess að hún hreyfi sig mikið, sé með einkaþjálfara, stundi líkamsrækt að minnsta kosti fjóra daga í viku, syndi og gangi á fjöll. Anna Shillinglaw, sem réði hana til MiLK, segir að vissulega heyri þau neikvæðar raddir um ráðninguna líka en hún láti það sem vind um eyru þjóta. Fólk sé mismunandi vaxið og jákvæð ummæli um ráðningu Tess séu miklu fleiri. Auðvitað ættu auglýsingar að spegla fjölbreytileika og þannig höfða til sem flestra. Eins og það virðist sjálfsagt er veruleikinn allur annar. Vonandi eru vinsældir Tess Holliday til marks um breytingar.

Frekari upplýsingar má finna hér: http://tessmunster.com/effyourbeautystandards.html http://instagram.com/tessholliday/?utm_source=partner&utm_medium=embed&utm_campaign=photo http://milkmanagement.co.uk/details.aspx?nav=2&modelid=802616&subid=12271&mainsubid=802616&a=79

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.