1. verðlaun í flokki villandi auglýsinga: Stiklan fyrir 50 gráa skugga!

Höfundur: Gail Dines

 

Earned it skjáskot

Skjáskot úr myndbandinu við lagið Earned It með The Weeknd. Lagið er úr myndinni, en myndbandið e.k. búrleskuútfærsla á þema myndarinnar. Sjá hér.

 

Ef haldin væri samkeppni um mest villandi auglýsinguna myndi hin margumrædda stikla fyrir kvikmyndina 50 gráa skugga hirða þau verðlaun án mikillar samkeppni. Stiklan sú er stútfull af atriðum sem eiga að tákna auðæfi og vald – allt frá skrifstofu Christian Grey yfir í einkaflugvélina hans – og atriðum þar sem þau Anastasia stunda eitthvað sem líkist rosalega æsandi kynlífi með gagnkvæmu samþykki í ýmist lyftum eða svefnherbergjum.

Auðæfi og lúxuslíf og efnislegar táknmyndir þess eru afar mikilvæg stílbrigði í bæði bók og kvikmynd, því efnislegir hlutir sem gefa til kynna auðæfi virka sem eins konar hreinsilögur fyrir misnotkun Christians á Anastasiu, og um leið er sjúkleg þráhyggja hans fyrir konunni birt sem ást sem er myndgerð í öllum lúxusvarningnum sem hann gefur henni. Ég er mjög efins um að Anastasia hefði látið heillast svona af Christian ef hann drægi fram lífið á atvinnuleysisbótum í einhverju hreysi og borðaði súrmjólk í kvöldmatinn.

Ef við berum stikluna saman við bókina sjáum við fljótt að í bókinni getur kynlífið virst æsilegt, en er í raun bæði ofbeldisfullt og afmennskandi. Christian er hneigður fyrir það sem er yfirleitt kallað sadómasókismi í almennri fjölmiðlaumræðu, en það sem við sjáum til hans í bókinni bendir til þess að hann sé einfaldlega sadisti, siðfágað rándýr sem er snjall við að tæla til sín og temja ungar konur og viðkvæmar. Anastasia er 21 árs samkvæmt bókinni en hún hegðar sér og talar eins og unglingur („Holy crap!“ sem á íslensku gæti útlagst „Jeminn!“ er eftirlætissetningin hennar), meira að segja á meðan sadistinn Christian er að berja hana. Í stiklunni er hún klædd fatnaði sem er býsna áþekkur skólabúningi í kaþólskum stúlknaskóla – plíseruðu pilsi og hnepptri peysu – og það undirstrikar enn frekar hversu óþroskuð hún á að vera.

Undirgefni við fyrstu sýn?

Undirgefni við fyrstu sýn?

Í stiklunni fáum við líka að sjá sjóðheita keleríissenu í lyftu, sem virkar bæði með gagnkvæmu samþykki og bara heilmikið skemmtileg. Í bókinni er hins vegar ljóst að Anastasiu bregður þegar Christian ákveður að gerast skyndilega svona náinn henni. Og það er ekkert undarlegt, svona miðað við lýsingu hennar á atvikinu:

Before I know it, he’s got both of my hands in his viselike grip above my head, and he’s pinning me to the wall using his lips… His other hand grabs my hair and yanks down, bringing my face up, and his lips are on mine…

Þau okkar sem höfum alist upp á tímum femínisma sem gerði kröfu um sjóðheitt kynlíf sem byggði á jafningjagrundvelli og væri alltaf með samþykki beggja aðila hefðu hlaupið undan Christian Grey eins og andskotinn væri á hælunum á okkur. En ekki hún Anastasia, sem hagar sér sannarlega eins og klárinn sem leitar þangað sem hann er kvaldastur.

Nokkrum köflum síðar fáum við að sjá svo ekki verður um villst að það sem Christian lítur á sem forleik hefur nú þróast yfir í hreint ofbeldi:

Suddenly he grabs me, tipping me across his lap. With one smooth movement, he angles his body so my torso is resting on the bed beside him. He throws his right leg over both mine and plants his left forearm on the small of my back, holding me down so I cannot move… He places his hand on my naked behind, softly fondling me, stroking around and around with his flat palm. And then his hand is no longer there… and he hits me – hard.

Stiklan lætur svona rétt glitta í það ofbeldi sem Anastasia á í vændum, þegar hann segir henni „I don´t do romance,“ og vara hana við því að „I am incapable of leaving you alone.“ Orð sem smellpassa í munn hvaða eltihrellis sem er! Í bók sinni um karlmenn sem beita ofbeldi í samböndum setur Lundy Bancroft fram lista yfir persónueinkenni og hegðun sem gæti verið sniðugt að varast hjá kærastanum. Það er sjálfsagt óþarfi að taka fram að Christian gæti verið á kápumynd bókarinnar, ekki aðeins vegna sjúklegrar afbrýðisemi, stjórnsemi, tilhneigingar hans til að fylgjast með og elta makann og sadískrar kynhegðunar, heldur einnig vegna ofurnæmi hans fyrir hverju því sem hann upplifir sem gagnrýni eða andmæli gegn sér. Að heilla upp úr skónum yngri konu í mun veikari stöðu og hrífa hana hratt inn í ástarsamband er annað dæmigert hegðunarmynstur slíkra manna, sem og ofsafengnar skapsveiflurnar, sem minna á Jekyll og Hyde. Hvert þessara einkenna fyrir sig getur verið varúðarmerki en maður sem hefur þau öll kann vel að vera lífshættulegur.

Úr samningnum. Skjáskot úr 50 Shades of Grey.

Úr samningnum. Skjáskot úr 50 Shades of Grey.

Hollywood svíkur okkur þó ekki og í síðasta ramma stiklunnar sjáum við Anastasiu fá fullnægingu, með bindi fyrir augunum og bundna við rúmstólpana. Þannig lýkur sögunni af þeim hjúum einnig hamingjusamlega. Sadistinn og sú undirgefna – sem er það sem hann kallar hana í samningnum sem hann krefst þess að hún undirriti, en þar veitir hún formlegt samþykki sitt fyrir þeim margháttuðu aðferðum sem hann hyggst beita til að stjórna henni – mæna inn í sólarlagið, lukkulega gift með börn og buru í glæsihúsi.

Ef 50 gráir skuggar gerðist í alvörunni er auðvitað miklu líklegra að sögunni lyki á bráðadeildinni í 50 mismunandi litbrigðum marbletta og skráma. Það er nefnilega hörmuleg staðreynd að konur sem lenda í klónum á mönnum eins og Christian Grey ljúka þeirri sögu oftast í einhverju kvennaathvarfinu með hrjáð og sködduð börn í fanginu. Þær allra óheppnustu enda úti í kirkjugarði.

Ég get mér þess þó til að kvikmynd sem myndi ljúka á jarðarför og grátandi börnum teldist ólíkleg til að hala inn allar milljónirnar sem framleiðendur þessarar kvikmyndar gera sér vonir um.

Gleðilegan Valentínusardag!

 

Dr. Gail Dines er prófessor í félagsfræði og kvennafræði við Wheelock háskólann í Boston. Hún berst gegn klámvæðingu og útbreiðslu ofbeldiskláms, einkum á vettvangi samtakanna Stop Porn Culture, og hefur rannsakað og ritað um klám í rúma tvo áratugi. Hún var einn lykilræðumanna á ráðstefnu sem innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og lagadeild Háskóla Íslands héldu árið 2012 og hægt er að hlusta á erindi hennar á ráðstefnunni hér

Þessi grein var fyrst birt á The Huffington Post og birtist hér á Knúzinu með góðfúslegu leyfi höfundar. Halla Sverrisdóttir þýddi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.