„Ertu byrjaður að binda konuna þína?“

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Vel heppnuð auglýsingaherferð situr í fólki eins og hvert annað Manilow-heilkenni. IKEA-bæklingurinn er vorboðinn ljúfi og Toys’R’Us-handbókin er gleðigjafi á mörgum heimilum. Nú tröllríður (ekkert erótískt við það) umfjöllun um kvikmyndina 50 gráir skuggar fjölmiðlum hérlendis og margir sjá sér leik á borði að græða því til þess eru refirnir skornir.  Hjálpartækjaverslanir tjá mikla söluaukningu á léttum bindingarbúnaði, eins konar BDSM fyrir byrjendur og gamlir sveitamenn draga fram fagurlega fléttuð hrosshársreipi og leggja við rúmstokkinn því einboðið er að hrífast með þessari gleðibylgju sem skellur á ströndu. Að vísu dregur svolítið úr ákafanum hvað myndin þykir leiðinleg, samband aðalleikaranna álíka spennandi og kaldar pulsur í potti á útileguhlóðum og margir hafa bent á að þrátt fyrir meinta 100 milljóna eintaka sölu, sé þetta ekkert annað en ofbeldissamband klætt í gisið gervi ástarsögu. Sannir BDSM-aðdáendur harma þessa tengingu og benda á að beiting ofbeldis geti aldrei flokkast undir jafnræði einstaklinga sem er kjarninn í BDSM.  Munurinn á Christian Grey eða  Stjána gráa, eins og hann heitir á íslensku, og öðrum sem hafa þvingað fram samþykki er að Stjáni er ekki kærður fyrir athæfi sitt, eins og Guðmundur í Byrginu.

Látið ekki glepjast

Þó auglýsingaherferðin sé sefjandi og sannfærandi er enn hægt að spyrna við fótum. Það þarf ekki að stökkva á þennan vinsældavagn. Fólk hefur verið hvatt til að styrkja frekar Stígamót, Kvennaathvarfið eða Drekaslóð því þangað leiti fyrr eða síðar fórnarlömb ofbeldismanna eins og Stjána Gráa, og ekki undir formerkjum grárra skugga, heldur marbletta og annarra áverka.

Samt hlýtur maður að spyrja sig: Geta 100 milljónir kaupenda, sem flestir eru sagðir konur, haft rangt fyrir sér. Eða hvað? Við þessa samantekt var gerð óformleg könnun í nærsamfélagi skrásetjara og fannst enginn sem hafði lokið við fyrstu bókina.  Jafnvel holdlega sinnaðir bókmenntasnápar sögðu enga örvun hafa átt sér stað við lesturinn. En einhvern veginn hefur tekist að selja þessa gráu skugga í metupplagi.

Gaman og alvara

Þrátt fyrir alvöruna eru skoplegar hliðar á þessum IKEA-bæklingi í meintum amorsklæðum. Fátt jafnast á við lestur góðrar bókar nema ef vera skyldi vandaður upplestur. Þar hefur snillingurinn Gilbert Gottfried farið á kostum og aukið á unað og upplifun aðdáenda Stjána gráa og Önu.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.