Hver er munurinn á því að borga eða fá eitthvað ókeypis?

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

 

Carlton-hótelið í Lille, Frakklandi

Carlton-hótelið í Lille, Frakklandi

Einhvern tíma heyrði ég sögu af manni sem hafði óskaplegar áhyggjur af því þegar strætókerfið á Akureyri varð ókeypis, vegna þess að við það missti hann stöðu viðskiptavinar sem hefði réttmætar kröfur á hendur þjónustunnar. Það er eflaust eitthvað til í þessu hjá manninum, það er að vissu leyti skiljanlegt að það sé erfiðara að kvarta yfir seinkun eða öðrum göllum á þjónustu sem maður fær ókeypis.

Í tilraunum til skilgreininga á ofbeldinu sem vændi felur í sér má nýta þennan punkt: Manneskja hefur greitt annarri manneskju fyrir notkun á líkama hennar og hefur þar með ákveðinn kröfurétt gagnvart seljandanum. Það er einmitt þessi kröfuréttur sem vefst fyrir þeim sem kalla eftir afnámi þess að vændi sé löglegt í Frakklandi. Það á ekki að teljast eðlilegt að ein manneskja geti haft vald til þess að kaupa sér aðgang að annarri manneskju og að þar með sé vilji þeirrar manneskju minna virði en krafa kaupandans.

Carlton-málið og hvað það snýst í rauninni (vonandi) um.

Á vefsíðu tímaritsins Elle birtist frétt þann 1. febrúar, daginn áður en réttarhöldin í Carlton-málinu hófust, með yfirskriftinni Carlton-málið – hættulegir leikir? Spurningamerkið í fyrirsögninni er hlaðið merkingu, blaðakonan heldur því fram að réttarhöldin muni snúast um þetta samfélagslega mál, „afbyggingu mýtunnar um að lúxusvændisheimurinn sé svo „smart““, svo vitnað sé í orð Lorraine Questiaux, lögfræðings sem starfar fyrir Mouvement du Nid (samtök til aðstoðar vændisfólki) í París. Lorraine Questiaux segir ákæruna byggja á því að lagalega séð sé kynfrelsi ekki lengur til staðar þegar greiðsla á sér stað. „Vörnin mun byggja á margbreytileika kynlífsathafna, líkt og kynlíf sé ávallt svæði sem sé undanþegið lögum. Vissulega eru orgíur löglegar! En í þessum réttarhöldum snýst spurningin um samþykki og um vafasemi kynfrelsis, þegar greitt er fyrir það.“

Carlton-málið vekur að vonum mikla athygli, enda er Strauss-Kahn afar þekkt og áhrifamikil persóna úr bæði alþjóðlegum og frönskum stjórnmálum, en um það hefur nægilega verið fjallað í íslenskum fjölmiðlum. Fréttaumfjöllunin um málið hefur heldur betur verið misvönduð almennt og ýmislegt er dregið fram sem femínistar og samtök sem berjast fyrir afnámi vændis hafa séð ástæðu til að gagnrýna harðlega.

Í fyrsta lagi má nefna skoðanakönnun dagblaðsins Le Parisien, sem leiddi í ljós að 79 prósent Frakka telja að Dominique Strauss-Kahn hefði staðið sig betur en François Hollande í forsetaembættinu. Margir hafa furðað sig á þessari skoðanakönnun og ljóst má vera að hún kemur á engan hátt málinu við. Hvort Strauss-Kahn eigi afturkvæmt í stjórnmál á ný er einfaldlega innilega óáhugaverð og óviðeigandi spurning einmitt núna.

**VV** VÁVARI: ÞAÐ SEM HÉR FER Á EFTIR GETUR VALDIÐ ÞOLENDUM KYNFERÐISOFBELDIS VANLÍÐAN

Nafissatou Diallo

Hótelstarfsmaðurinn Nafissatou Diallo varð kvenna fyrst til að saka DSK um kynferðisbrot í New York. Hér er hún við réttarhöldin árið 2011.

Einnig hefur verið gagnrýnt hvernig talað eða skrifað er um sum af þeim atvikum sem sóknaraðilar hafa lýst. Þar fara konur sem játa að hafa þegið greiðslur fyrir að þjónusta sakborningana eða einhverja þeirra. Ein kvennana segir frá því þegar Strauss-Kahn heimtaði að fá að taka hana í rass, en hún samþykki aldrei slíkar samfarir. Þegar hún neitaði fór annar sakborningur, David Roquet, inn á baðherbergi og sótti krukku með sleipiefni fyrir Strauss-Kahn. David Roquet hélt konunni svo niðri meðan Strauss-Kahn kom vilja sínum fram við hana. Hún grét á meðan og telur að það geti ekki hafa farið framhjá gerandanum.

Þessa lýsingu, sem blaðakonan Ondine Millot birti „hráa“ eða óritskoðaða í grein í Libération, er í reynd ekki hægt að skilja öðruvísi en lýsingu á nauðgun. Hún hefur valdið fjaðrafoki og allir vita af henni, en samt halda ýmsir blaðamenn og útvarpsmenn áfram að nota veigrunarorð í staðinn fyrir orðin sem sóknaraðilar og vitni nota sjálf í skýrslutökum og fyrir dómi. Strauss-Kahn er ítrekað lýst sem „kynsvallara“ og „nautnasegg“ í staðinn fyrir að tala einfaldlega um hann sem ofbeldismann. Það er sorglegt frá að segja, að pistill sem fluttur var í Speglinum á RÚV 10. febrúar er einn af þeim verstu slíkra pistla sem undirrituð hefur hlustað á. Orðanotkunin er eitt, lagavalið annað; þarna fer smekkleysið út yfir allan þjófabálk. Hér er tengill – sem settur er inn með hálfum huga.

Dulúðin er horfin og í staðinn blasa við okkur subbulegir karlar með furðulegar hugmyndir um rétt sinn (og annarra)

Sú hugmynd sem almenningur hefur getað gert sér um munúð og leiki ríkra valdamanna á lúxushótelum með glæsipíum var tálmynd, mýta. Staðreyndir og sönnunargögn sem nú koma fram geta ekki annað en orðið til að draga huluna frá augum einhverra.

"Doddi saltpækill", hóruhúseigandi og samstarfsmaður DSK, kemur til réttarhaldsins í Lille.

„Doddi saltpækill“, hóruhúseigandi og samstarfsmaður DSK, kemur til réttarhaldsins í Lille.

Sakborningar klifa í sífellu á frelsi kvennanna og ánægjuna sem þær höfðu af þessu líferni. Upptökur af símtölum þeirra leiða hins vegar í ljós hvernig þeir tala um konurnar sín á milli, þessar margrómuðu sjálfstæðu og algerlega kynfrjálsu, konur: Dodo la saumure (Doddi saltpækill) notaði til dæmis hiklaust orðið „búpeningur“, og þær hafa verið kallaðar „skjölin“ og stöffið“. Þær eru ekki manneskjur í augum þeirra og þeir bera nákvæmlega enga virðingu fyrir þeim. Þessir karlar virðast reyndar oft illa firrtir, þegar Doddi saltpækill er spurður hvort honum þyki fínt að tala um konur sem búfénað svarar hann um hæl: „Ég var nú bara að sýna leikræna tilburði!“

Dominique Strauss-Kahn kemur til réttarhaldsins í Lille, ásamt Henri Leclerc, lögfræðingi.

Dominique Strauss-Kahn kemur til réttarhaldsins í Lille, ásamt Henri Leclerc, lögfræðingi.

Á sama tíma og málaferlin standa yfir í Lille er svo fyrrnefnt frumvarp um afnám vændis einhvers staðar siglt í strand, niðurgrafið undir öðrum málsskjölum, hjá öldungadeild franskra þingsins (Sénat). Þar hafa valdamiklir menn (af báðum kynjum) hikað lengi og látið í ljós miklar efasemdir um réttmæti þess að gera vændiskaup ólögleg. Gamlir og margreyndir lagarefir (til dæmis Robert Badinter) hafa farið stórum í að verja þennan háheilaga rétt til vændiskaupa á fundum með öldungardeildarþingmönnum. Rosen Hicher fékk þó víst að hitta þá á þriðjudag, sama dag og Dominique Strauss-Kahn mætti fyrir dóm, en hún er fyrrverandi vændiskona sem gekk 800 kílómetra í fyrra til að vekja athygli á því oft ósýnilega ofbeldi sem vændisfólk verður fyrir. 30.000 manns hafa nú skrifað undir hvatningu hennar til öldungadeildarinnar um að veita þessari lagabreytingu brautargengi.

Afnámshugmyndin hefur talsverðan meðbyr og líklegt má telja að Carlton-málið veki enn fleiri til umhugsunar um raunveruleikann á bakvið vændið. Helstu fjölmiðlar hafa, þrátt fyrir einhverja veigrunartilburði, virst frekar hliðhollir sóknaraðilum en sakborningum. Á France Culture var á mánudag fluttur heimildaþáttur um víðtækan innflutning á kínverskum konum sem neyddar eru í vændi. Það var ótrúlega erfitt að hlusta á þann þátt og vonandi er dagskrárgerð sem þessi til marks um að viðhorf almennings í Frakklandi til vændis séu að breytast, hægt en sígandi.

Ein athugasemd við “Hver er munurinn á því að borga eða fá eitthvað ókeypis?

  1. Bakvísun: Lokaræðan yfir Strauss-Kahn | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.