Lokaræðan yfir Strauss-Kahn

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

 

Frederic Fevre, saksóknari í máli Strauss-Kahn. Myndin er sótt hingað.

Frederic Fevre, saksóknari í máli Strauss-Kahn. Myndin er sótt hingað.

Málflutningi lauk í gær í réttarhöldum yfir Dominique Strauss-Kahn og félögum hans sem ákærðir voru fyrir að reka vændishring og skipuleggja veislur með aðkeyptu „efni“ eins og vændiskonurnar voru kallaðar í smáskilaboðum milli hinna ákærðu.

Lokaræða saksóknara varðandi aðild Strauss-Kahn að málinu er af ýmsum talin varnarræða og þótt saksóknari hafi strax frá upphafi beðið um frávísun ákæru á hendur Strauss-Kahn kemur það ýmsum á óvart hve ákafur hann var í þessari varnarræðu sinni. Samkvæmt lýsingu blaðamanns Libération, Ondine Millot, sindruðu augu hans þegar hann tók ákæruliðina fyrir einn af öðrum og þvertók fyrir að hægt yrði að sakfella hann. Hann stendur fast á því að trúa Strauss-Kahn þegar hann segist ekki hafa séð um að ráða eða greiða vændiskonunum og að hann eigi engan þátt í skipulagningunni, sem var öll í umsjá valdaminni manna sem þjónuðu honum í þeim tilgangi að komast nær valdhafanum og ætluðu að tryggja sér stöðu í innsta hring verðandi forseta Frakklands. Þeir höfðu græðgi og völd að leiðarljósi, Dominique Strauss-Kahn trónaði rólegur á toppnum og naut góðs af. Hvað ásakanir um ofbeldi varðar benti saksóknari réttilega á að enginn ákæruliður varðar nauðgun eða annað ofbeldi og frásagnir af því eru því málinu gersamlega óviðkomandi.

Teikning af fyrrum vændiskonunni Jade, við réttarhöldin yfir Strauss-Kahn. Myndin er sótt hingað.

Teikning af fyrrum vændiskonunni Jade, við réttarhöldin yfir Strauss-Kahn. Myndin er sótt hingað.

Hluti ákærenda dró sig í hlé áður en þessi lokaræða var flutt, enda hefur flestum þótt nokkuð ljóst að sönnunarbyrðinni gegn DSK yrði ekki fullnægt. Flestum stendur á sama um væga dóma sem krafist er gegn öðrum sakborningum, þótt vændiskonan Jade frá Belgíu hafi tjáð á blaðamannafundi í lok réttarhaldanna að hún óttist afleiðingar dóms gegn vændissalanum Dominique Alderweireld (Dodo la saumure/Doddi saltpækill), sem ku þekktur fyrir að láta refsa fólki sem vogar sér að vera á móti honum, með ofbeldi. Jade hefur sagt skilið við vændið og er komin með fasta vinnu í Belgíu. Hún á fjölskyldu og óttast að Dodo la saumure gæti veist að sonum sínum. Hún sagðist þó ganga hnarreist frá réttarhöldunum og hugsaði með hlýju til allra þeirra sem kusu að þegja, það hlyti að vera þungur kross að bera. Hennar sigur felst í því að hafa staðið andspænis þessum mönnum og horft beint framan í þá. Þeir hafi hins vegar forðast augnaráð hennar og jafnvel þótt enginn sakborninga hafi iðrast vegna meðferðarinnar sem hún sætti af þeirra hálfu þurfi hún sjálf einskis að iðrast. Jade sagðist þakklát fyrir allan stuðninginn sem hún hefði fundið fyrir, bæði frá lögreglu og sjúkraliðum, blaðamönnum og þeim fjölda ókunnugra sem hafa hrósað henni fyrir það hugrekki að stíga fram.

Líkt og fram kom í umfjöllun á Knúzinu á mánudaginn var er ljóst að þessi réttarhöld snúast að miklu leyti um viðhorfsbreytingar í samfélaginu gagnvart vændi og afbyggingu þeirrar tálsýnar sem hingað til hefur verið ríkjandi, en er nú (vonandi) illilega löskuð.

Knúzið mun að sjálfsögðu fylgjast með dómsuppkvaðningu í Carlton-málinu, en hefur þó mun meiri áhuga á að fylgjast með því hvernig fer fyrir hinu margumrædda frumvarpi til laga um afnám vændis í Frakklandi, sem öldungadeild franska þingsins mun varla geta bælt og tafið fyrir til eilífðarnóns.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.