Karlar sem lesa ekki bækur eftir konur

Höfundur: Kristín María Kristinsdóttir
karl að lesa
>Mín tilfinning hefur lengi verið sú að karlar hafi minni áhuga á bókum eftir konur en karla. Ég hef lengi unnið í bókabúð og byggi þessa tilfinningu að miklu leyti á samskiptum mínum við viðskiptavini sem leitað hafa til mín eftir meðmælum. Það þykja þó ekki góð vinnubrögð að byggja mál sitt eingöngu á tilfinningum og því fór ég á stúfana í leit að vísindalegum rannsóknum sem gætu skorið úr um hvort þessi tilfinningin sé á rökum reist.

Rannsóknir á lestrarvenjum fullorðinna eru af skornum skammti og rannsóknir þar sem lestrarvenjur eru skoðaðar út frá kyni lesanda og kyni höfundar eru enn færri. Ég fann enga íslenska rannsókn og aðeins eina nýlega bandaríska sem þó er varla marktæk þar sem úrtakið var einungis 29 konur og 29 karlar. Niðurstaða rannsóknarinnar staðfesti samt sem áður það sem margir hafa haldið fram, að karlar lesi frekar bækur eftir kynbræður sína. Rannsóknin sýnir enn fremur að karlmenn sækja sérstaklega í bækur þar sem aðalsögupersónan er karlkyns: 24 karlmenn sögðust velja bækur með karlkyns aðalpersónu, 5 þeirra sögðu kyn aðalpersónu engu skipta en enginn þeirra sagðist kjósa bækur með kvenkyns aðalpersónu. Til samanburðar svöruðu 19 konur að kyn persónunnar skipti engu máli en 6 konur sögðust kjósa karlkyns aðalpersónu og 4 konur tóku kvenkyns persónu fram yfir karlkyns. Þessi könnun sýnir að bæði kyn rithöfundarins og kyn aðalpersónu bókarinnar skiptir karlkyns lesendur mun meira máli en kvenkyns lesendur.

Það er því ljóst að áhyggjur mínar af kynjuðum lestri eru ekki tilefnislausar. Þó vissulega séu til karlar sem lesi kvenhöfunda og leggi sig jafnvel sérstaklega eftir því að lesa verk eftir konur virðist vera fullkomlega ásættanlegt fyrir karlmenn að lesa bara bækur sem „höfða til þeirra“. Það er í raun hægur leikur að finna karla sem af einhverjum ástæðum segjast ekki lesa bækur eftir konur og um konur. Þeir sem hafa áhuga á bókmenntum og þykir gaman að ræða um þær hafa eflaust einhverntímann á lífsleiðinni heyrt einhvern, kannski ættingja, vin eða jafnvel þjóðþekktan einstakling, lýsa því yfir að hann lesi aldrei bækur eftir konur. Sé viðkomandi inntur eftir ástæðu þess er svarið oftar en ekki að hann tengi einfaldlega ekki við sögumanninn eða aðalpersónuna. Svo virðist sem þessir menn telji að einhver dulúðlegur kvenleiki hjúpi skáldskap kvenna – að þar finnist annarleg sjónarhorn og hættuleg fen þaðan sem karlmaður á ekki afturkvæmt hætti hann sér í könnunarleiðangur.

Hvað lesa íslenskir karlmenn?

Í fyrra fór af stað keðjuleikur á Facebook þar sem fólk var hvatt til að birta lista yfir tíu bókmenntaverk sem haft hafa áhrif á líf þeirra. Heimspekingurinn Eyja M. Brynjarsdóttir birti grein á bókmenntablogginu Druslubækur og doðrantar þar sem hún fjallaði um kynjaslagsíðuna sem hún hafði orðið vör við í þessu persónulega gæðamati vina sinna. Hún gerði óformlega könnun þar sem hún skoðaði val fjörutíu vina, tuttugu af hvoru kyni, út frá kyni höfunda verkanna. Í ljós kom að kvenkyns vinir hennar nefndu verk eftir konur í 42,4% tilfella og verk eftir karla í 57,6% tilfella en karlkyns vinirnir nefndu einungis verk eftir konur í 9,9% tilfella og verk eftir karla í 90,1% tilfella. Margir urðu sárir og töldu Eyju ekki hafa gætt sanngirni, að ástæðurnar væru margbreytilegar og að ekki væri hægt að væna þessa karla um kvenfyrirlitningu eða að sniðganga meðvitað bækur eftir konur. Eyja svaraði gagnrýninni í annarri grein sem birtist níu dögum síðar: „Það að listi sé settur saman „án þess að hugsa“ sýnir ekki fram á að hann sé fordómalaus – þvert á móti. […] Og einmitt þeir fordómar og gildismat sem er til umræðu hér birtast í hugsunarleysi, áhugaleysi, gleymsku og skeytingarleysi; í því að bókmenntaverk eftir konur eru vanmetin og gleymast,“ skrifaði Eyja 21. desember 2013.

Það er ekki ljóst hvort þessi karlmaður veit að Harry Potter-serían er eftir konu. Myndin er sótt hingað.

Skyldi þessi Harry Potter-aðdáandi vita að J.K. Rowling er kona? Myndin er sótt hingað.

Fjölbreyttari raddir þurfa að heyrast

Mín kenning er sú að ástæðuna fyrir því að karlar lesa síður bækur eftir konur sé að finna í hinni ríku kröfu sem gerð er til kvenna um að þær tali fyrir allar konur heimsins, eða að minnsta kosti konur landsins eða menningarheimsins sem þær tilheyra. Litið er á reynsluheim kvenna sem sértækan en reynsluheim karla sem víðtækan og því höfði bækur karlkyns rithöfunda til bæði karla og kvenna en bækur kvenkyns rithöfunda frekar til annara kvenna. Karlar eru normið og þess vegna er gert ráð fyrir að sögur þeirra grundvallist ekki á kyni þeirra. Konur eru hinsvegar frávikið. Gerð er krafa um að reynsluheimur einnar konu endurspegli reynsluheim allra kvenna. Karlar hafa hinsvegar frelsi til þess að vera allskonar og einstakir og tala aðeins fyrir sjálfa sig, út frá sínu sjónarhorni. Það virðist í rauninni fátt hafa breyst síðan Descartes aðskildi hug og líkama með tvíhyggju sinni og lagði þar með grunninn að móthverfunni karl/hugur og kona/líkami.

Þeir sem eru með fordóma gagnvart bókum skrifuðum af konum sjá ekki ótal verk eftir allskonar manneskjur heldur einsleita sögu sem byggir á reynsluheimi sem einskorðast við þá reynslu að vera með kvenlíkama og að hafa einhvern tíma þurft að líða fyrir að hafa fæðst kvenkyns. Það sorglega við þetta allt saman er að þessar úreltu hugmyndir tvíhyggjunnar, sem fæla marga karllesendur frá verkum kvenna, mætti uppræta ef fleiri hættu sér út fyrir þægindarammann og læsu fjölbreyttari verk þar sem nýjar raddir heyrast.

Rannsóknin: Summers, Kate. 2013. „Adult Reading Habits and Preferences in Relation to Gender Differences“. Reference & User Services Quarterly 52:3, 243-49.

Greinin birtist fyrst á Sirkústjaldinu og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi.

Ein athugasemd við “Karlar sem lesa ekki bækur eftir konur

  1. Takk fyrir pisitilinn Kristín María. Þessar niðurstöður ríma alveg við það sem kemur fram í þessari grein um kynjahlutföll varðandi lestur bóka í Frakklandi: http://knuz.is/2011/10/17/eru-konur-ekki-bara-fra-natturunnar-hendi-sidur-hneigdar-til-thess-ad-taka-ser-penna-i-hond/

    Eins og í tungumálinu virðast karlabækur vera í hlutleysishlutverki og því ekki þörf á að skilgreina þær nánar sem karlabækur – eins og í kvikmyndum eiga þær að geta höfðað til allra. Það sama gildir ekki um bækur eftir konur – þær eru stimplaðar fyrirfram. Nærtækt dæmi um kynusla sem styður þessar hugmyndir er útgáfa bókarinnar Kötu eftir Stefán Braga. Bókin, sem allir hafa skoðun á, fjallar um málefni sem margar konur hafa skrifað um gegnum tíðina án þess að ná þeim vinsældum sem Kata hefur náð. Gæti ein skýringin verið sú að karlmaður skrifar söguna? Það væri fróðlegt rannsóknarefni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.